Bonanza og Rawhide

Eins og flestir drengir af minni kynslóð, og sennilega fleiri kynslóðum, hafði ég í æsku einstaklega gaman af því að horfa á vestra. Ólíkt mörgum óx ég svo aldrei upp úr því og hef enn mikið dálæti á þessari tegund mynda. Verst er þó að afskaplega lítið er framleitt af vestrum nú orðið og gæðavestra sem framleiddir hafa verið undanfarna áratugi má telja á fingrum annarrar handar. Ég á reyndar enn eftir að sjá True Grit.

Ég man að sem sjö til átta ára gamall pjakkur og bjó í Álfheimunum fór ég oft heim til Ásgeirs vinar míns, hann var eini maðurinn sem ég þekkti þá sem átti vídeótæki, og við horfðum á vestra. Í sérstöku uppáhaldi var vestri með hörkutólinu krúnurakað Yul Brynner. Ekki man ég hvað myndin heitir en eitt atriði er mér þó alltaf minnisstætt, þegar hetjan sat ofan í gili og skaut einhvern óvina sinna í gegnum stígvélið sitt. Þegar við Ásgeir vorum ekki að horfa á vestra eða í fótbolta gerðist það ekki ósjaldan að við færum í kábojaleik, eins og það hét þá.  

Villta vestrið hefur alltaf heillað mig, ég get samt ekki nákvæmlega sagt hvað það er sem er svo heillandi, og þegar ég var strákur voru þær ófáar ferðirnar á bókasafnið til þess að fá lánaðar bækur eftir Karl May eða um indíánan Arnarauga, sem ég átti reyndar eitthvað af bókum um líka. Oft fór ég sömuleiðis í fornbókabúðir niðri í miðbæ í leit að slíkum bókum.

Sérstakt dálæti hafði ég þó á Bonanza-bókunum, um þá bræður Adam, Hoss og Litla Jóa Cartwright á Ponderosa. Þær las ég mikið og ég man að ég öfundaði mikið fullorðna fólkið sem hafði séð Bonanza-þættina í Kanasjónvarpinu. Á þessum tíma var ekki hægt að kaupa heilu sjónvarpsþáttaraðirnar úti í búð en nú er öldin önnur og fyrir nokkrum vikum rakst ég einmitt á „box“ með Bonanza-þáttum úti í búð. 

Þetta var þó ekki eiginlegt box eins og oft má sjá heldur var í hulstrinu að finna tvo diska með samanlagt átta þáttum úr þessari frábæru þáttaröð. Eins og nærri má geta greip ég eitt eintak, og ekki skemmdi fyrir að herlegheitin kostuðu ekki nema 59 sænskar krónur. Konu minni til mikillar armæðu hef ég verið að horfa á þetta þegar komið er upp í rúm á kvöldin og skemmt mér vel, þótt yfirleitt takist mér nú að sofna áður en þættirnir eru á enda. Nú er ég búinn að horfa á þá alla og þá er bara að vona að fleiri þættir verði fáanlegir en af nógu er að taka enda var Bonanza sýnt í einhver 15 ár.

Bonanza eru reyndar ekki einu vestraþættirnir sem ég hef komist yfir á síðustu misserum, í sænskum stórmörkuðum má oft finna algjörar perlur á hlægilegu verði. Þannig eignaðist ég í haust alla þætti af Rawhide sem framleiddir voru. 

Margir tengja nafnið Rawhide eflaust við frábæran flutning Blues Brothers á frábæru titillagi þáttana en þetta eru þættir sem ég mæli hiklaust með við alla vestraaðdáendur. Það var í þessum þáttum sem tiltölulega ungur Clint Eastwood sló í gegn en stjarna þáttanna er engu að síður Eric nokkur Fleming sem lék Gil Favor, foringja kúrekanna. Fleming þessi, sem ber höfuð og herðar yfir aðra leikara í þáttunum, lést allt of ungur í kanóslysi við upptökur á ævintýramynd í Perú, árið 1966. HLutverkið átti að verða hans síðasta en hann mun hafa hugsað sér að gerast kennari.


Í góðum félagsskap

1. Ja, þessi Emil eftir Astrid Lindgren

2. Vísnabókin eftir ýmsa höfunda með myndum eftir Halldór Pétursson

3. Sjandri og úfurinn eftir Guðmund Sverri Þór

4. Víst kann Lotta að hjóla eftir Astrid Lindgren

5. Við lesum A - vinnubók eftir ýmsa höfunda

Svona leit metsölulisti barnabóka út á vefsíðu Eymundsson þegar ég leit þar inn í dag. Ég viðurkenni það fúslega að ég er svo hégómagjarn (í leit að betra orði) að ákvað að athuga hvort bókin mín væri komin inn á metsölulista aðeins viku eftir að hún kom út. Ég viðurkenni það líka að ég hef kíkt á gegnir.is og athugað hvort einhver hafi tekið bókina að láni á bókasöfnum.

Hégómi er reyndar kannski ekki ástæðan fyrir því að ég tékka á þessu enda reikna ég með að flestir rithöfundar fylgist með því hvernig fyrstu bókinni þeirra er tekið. Ég held að þetta sé fullkomlega eðlileg hegðun, mannlegt eðli. Ef ekki, þá er þetta bara hégómi ... mér alveg sama.

Hvað sem því líður þá er ég afar sáttur við að vera á þessum lista strax eftir eina viku. Félagsskapurinn er heldur ekki dónalegur, ég get alveg sagt það án þess að ýkja að á dauða mínum átti ég von frekar en að enda nokkurn tíma á bóksölulista með sjálfri Astrid Lindgren, hvað þá að bók eftir mig væri meira seld en bók eftir Astrid. Þó ekki væri nema einu sinni.

Nú má vel vera að bóksala sé með minnsta móti þessar vikurnar og að bókin mín hafi komist á listann einfaldlega vegna þess að nokkur bókasöfn keyptu hana en það verður þá bara að hafa það. Ég er alla vega sáttur við viðtökurnar sem bókin hefur fengið og það er mér hvatning til þess að skrifa aðra bók, sem ég er reyndar byrjaður á.


Sjandri kominn út og í búðirnar

Í dag er stór dagur, að minnsta kosti í mínum heimi. Frumraun mín sem rithöfundur, Sjandri og úfurinn, kemur nefnilega út hjá Urði bókafélagi í dag og búið er að dreifa bókinni í bókabúðir.

Fyrir um hálfu ári síðan var ég búinn að gefa upp alla von um að finna teiknara til að myndskreyta þessa litlu barnabók sem ég skrifaði árið 2007. Haustið 2009 var ég meira að segja búinn að týna handritinu en sem betur fer átti fyrsti teiknarinn sem ég hafði rætt við það um myndskreytingar það enn í sínum fórum.

Þegar ég hafði fengið handritið hjá þeim góða dreng hafði ég upp á öðrum teiknara, sem ég þekki reyndar ekki neitt, en sá hafði aldrei tíma til þess að byrja verkið og í haust var ég orðinn úrkula vonar um að finna einhvern sem gæti myndskreytt bókina fyrir mig. Ég var í raun búinn að ákveða að láta handritið endanlega ofan í skúffu og setja þetta bara í reynslubankann, eins og það heitir, en það var svo í byrjun nóvember (nánar tiltekið 5. nóvember skv. pósthólfinu mínu) sem mér datt í hug að hafa samband við Andrés Andrésson, góðan vinnufélaga af Mogganum.

Honum leist vel á að myndskreyta bókina en ég ákvað að hrósa ekki happi fyrr en ég væri kominn með myndir og viti menn, á innan við mánuði var Andrés búinn að ljúka verkinu (hann sendi mér myndirnar 2. desember). Myndirnar eru frábærar, eins og Andrésar er von og vísa, og hann á ekki minni hlut í þessari bók en ég.

Nú eru um fjögur ár síðan ég lauk við að skrifa bókina og loksins er hún komin út. Vonandi veitir hún fleirum en mér og Andrési ánægju!


Markaðurinn þarf hjálp

Endahnúturinn er dálkur á baksíðu Viðskiptablaðsins þar sem blaðamenn blaðsins fá tækifæri til þess að tjá skoðun sína á máta sem ekki er við hæfi í fréttaskrifum eða fréttaskýringum. Hinn 17. febrúar sl. skrifaði ég þennan dálk og hjó þar í sama knérunn og í pistli með er ég skrifaði í Viðskiptablaðið 3. febrúar, þ.e. ég fjalla um matvælaverð sem er mér mikið hjartans mál.

Markaðurinn þarf hjálp

Í fyrrakvöld birtist á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, frétt þess efnis að Alþjóðabankinn telji matvælaverð á heimsmarkaði vera orðið hættulega hátt og að vegna hækkandi matvælaverðs hafi 44 milljónir manna bæst í hóp þeirra sem lifa undir skilgreindum fátæktarmörkum. Fyrr sama dag birtist önnur frétt á vefnum þess efnis að verðbólga í Kína færi hækkandi og að öðru fremur væri hækkandi matvælaverði um að kenna. Þetta þyki mikið áhyggjuefni þar sem helmingur tekna fátækra fjölskyldna í Kína fari í matarkostnað.
Mér þykir það að sama skapi mikið áhyggjuefni að margir (erlendir) stjórnmálamenn bregðist við hugmyndum um að yfirvöld verði að grípa inn í til þess að tryggja að matarforði heimsins dreifist sem jafnast til allra með klisjum þess efnis að markaðurinn verði að leysa vandann sjálfur. Hversu margir eiga að svelta í hel á meðan markaðurinn er að finna lausnina og enn áleitnari spurning er: Hvernig á markaðurinn að bregðast við þessu?
Markaðurinn er ekki fljótari að búa til matinn en sem nemur þeim tíma er tekur að rækta hrávörurnar. Markaðslögmálið segir okkur enn fremur að sá sem borgar mest fær það sem keppst er um og það á jafn mikið við nú sem áður. Á meðan íbúar iðnríkjanna eiga flestir nóg að bíta og brenna, að margra mati jafnvel of mikið, gera íbúar þriðja heimsins uppreisnir á færibandi. Egyptaland, Túnis, Jemen, Jórdanía. Svo má lengi telja og ljóst er að hátt matvælaverð á töluverðan þátt í því að fólk gerir uppreisn. Það má lengi halda söddum manni sáttum en þegar fólk er farið að svengja rís það upp á afturlappirnar. Sá sem er tilbúinn að borga mest fyrir matinn fær hann og þeir sem nú þegar geta ekki keypt sér mat eru ekki líklegir til þess að geta borgað enn hærra verð fyrir hann.
Þetta merkilega fyrirbæri sem við köllum markað er yfirleitt góðra gjalda vert þegar kemur að því að skipta gæðum á milli en stundum þarf hann hjálp og þá megum við ekki gleyma okkur í hugmyndafræðilegu þrasi. Nú er slík stund runnin upp.


Sjandri litli kominn í hús

DSC 0315

 Þegar ég kom heim í dag beið mín lítill pakki í póstkassanum. Ég get svo sem ekki sagt að það hafi komið mér á óvart enda átti ég von á honum og ég vissi hvað var í honum. Engu að síður var það mjög spennandi tilfinning að halda á pakkanum og þótt ég væri að verða of seinn í klippingu varð ég að rífa hann upp.

Í pakkanum voru nefnilega þrjú fyrstu eintökin af barnabókinni minni, Sjandri og úfurinn. Bókin fer í dreifingu eftir rúma viku en ég fékk sem sagt fyrstu eintökin send úr prentsmiðjunni í dag.

Það er svolítið merkileg tilfinning að halda á bók sem maður hefur skrifað sjálfur og ég geri ráð fyrir að það sé enn undarlegri tilfinning í fyrsta skipti. Þetta er manns eigið sköpunarverk og það er orðið að einhverju áþreifanlegu. 

Nú er bara að vona að bókinni verði vel tekið.


Skeiðað fram á ritvöllinn

Eins og margir vita hef ég mikið dálæti á skrifum, ég hef m.a.s. verið kallaður skriffíkill af einum góðum vini og fyrrum vinnufélaga á Mogganum. Þetta dálæti var ein ástæða þess að ég ákvað að hella mér út í blaðamennskuna á nýjan leik en mig hefur líka lengi langað til þess að gera meira á þessu sviði og jafnvel geta kynnt mig sem rithöfund þegar fram líða stundir.

Nú er fyrsta skrefið í þessa átt tekið en á næstu vikum kemur út hjá Urði bókafélagi barnabók eftir mig. Sú heitir Sjandri og úfurinn og fjallar um lítinn strák sem langar til þess að fræðast um skrítinn hlut sem er að finna í munninum á honum, úfinn svokallaða. 

Þótt bókin sé að koma út fyrst núna er hún reyndar ekki alveg ný því ég skrifaði hana snemma árs 2007. Mér leiddist eitthvað í vinnunni þann daginn og þar sem sonur minn hafði verið að spyrja mig um tilgang úfsins, sem er totan sem hangir niður úr efri gómnum í okkur öllum, og ég var ekki alveg með svarið á reiðum höndum ákvað ég að lesa mér til um það á þessu merkilega fyrirbæri sem við köllum internet. Þegar ég var búinn að finna út úr þessu datt mér í hug að það gæti verið gaman að skrifa fróðleikssögu fyrir börn um úfinn og lesa hana fyrir pjakkinn. Ég byrjaði því strax að skrifa og kláraði söguna svo sama kvöld þegar sá stutti var farinn að sofa.

Ástæða þess að bókin hefur ekki komið út enn er sú að ég hafði ekki fundið teiknara og því var handritið komið ofan í skúffu. Nú skömmu fyrir jól lá ég heima í tveggja vikna veikindarfríi og ákvað að senda Andrési Andréssyni, sem var teiknari á Mogganum á sínum tíma, póst og spyrja hvort hann hefði áhuga á að myndskreyta. Hann hafði áhuga og ég sendi honum handritið og ekki liðu nema tvær vikur uns hann var búinn að senda þessar líka frábæru teikningar. Þar sem foreldrar mínir eru búin að stofna bókaforlag lá svo beinast við að spyrja þau hvort þau vildu gefa bókina út og það reyndist auðsótt mál þannig að nú er ég orðinn barnabókahöfundur. Ég fékk svo snillinginn hana Helgu Rún Gylfadóttur, frænku mína, til þess að hanna kápu.

Sjandri og úfurinn, þessi frumraun mín sem rithöfundur, kemur sem sagt út um miðjan mánuðinn en ég á von á að fá nokkur eintök í pósti á næstu dögum og það verður spennandi að sjá útkomuna og sömuleiðis hvort bókin fái góðar viðtökur. Ég hef beðið nokkra að lesa hana yfir fyrir mig, bæði börn og fullorðna, og eingöngu fengið góð viðbrögð. Ég er með hugmynd að annarri bók um Sjandra og mun væntanlega setja hana á blað á næstunni en hvort hún verður gefin út ræðst svo væntanlega af því hvaða viðtökur fyrsta bókin fær. Áhugasömum bendi ég á að panta bókina beint hjá forlaginu, þá er nefnilega auðveldara að fá hana áritaða.

Ég mun setja inn mynd af bókinni þegar hún dettur í póstkassann.


Hvað heitir lobbyisti á íslensku?

Sem blaðamaður sem fjallar um efnahagsmál lendi ég oft í vandræðum með erlend hugtök, hugtök sem oft eru hin sömu í mörgum tungumálum en ekki þykir við hæfi að birta í íslenskum fjölmiðlum. Eitt þessara hugtaka er infrastructure. Í daglegu máli held ég að flestir tali orðið um infrastrúktúr í íslensku en það orð þykir ekki par fínt og er yfirleitt litið hornauga af prófarkalesurum fjölmiðla. Þess í stað ber að tala um innviði samfélagsins og eins og nærri má geta getur það reynst heldur óþjált og á stundum varla við þannig að oft hef ég þurft að skrifa mig einhvern veginn framhjá þessu.

Nú er ég að lesa á sænsku bókina Lobbyisten eftir Thomas Bodström, fyrrum fóboltamann og dómsmálaráðherra Svíþjóðar sem margir vilja sjá sem framtíðarleiðtoga sænskra jafnaðarmanna. Um leið og ég byrjaði að lesa bókina fór ég að velta fyrir mér þessu orði lobbyist, enda er þetta einmitt eitt þeirra orða sem blaðamenn lenda iðulega í vandræðum með.

Mér vitanlega er ekki til neitt íslenskt orð yfir lobbyista en þegar hópar koma sér saman um að vinna málum brautargengi kallast þeir á ensku lobby groups. Þetta hefur á íslensku verið þýtt sem þrýstihópar, sem mér finnst mjög gott orð; það lýsir fyrirbærinu mjög vel og engum dylst hvað átt er við. Ég legg því til að sama prinsipp (annað erfitt orð) verði notað þegar talað er um einstaklinga og að lobbyisti verði einfaldlega kallaður þrýstir og að í fleirtölu verði talað um þrýsta (þeir eru þrýstar). 


Vinsælasti íþróttamaður Svía

Þeir sem fylgjast með sænsku íþróttalífi í gegnum íslenska fjölmiðla telja sennilega flestir að vinsælasti íþróttamaður Svíþjóðar sé knattspyrnusnillingurinn Zlatan Ibrahimovic. Lái þeim hver sem vill, Zlatan er sá sænski íþróttamaður sem langoftast er nefndur í íslenskum fjölmiðlum enda einn allra besti knattspyrnumaður heims.

Ekkert gæti þó verið fjær sanni. Þótt fótbolti sé e.t.v. sú íþrótt sem flestir Svíar stunda er þjóðin nánast heltekin af íshokkí; alla vega eins heltekin og heil þjóð getur orðið af íþróttum, svona svipað og Íslendingar af handbolta og nú stendur þjóðin á öndinni yfir því að Peter nokkur Forsberg mun í nótt spila á ný eftir langt hlé. Forsberg þessi var fyrir nokkrum árum tvímælalaust einn besti hokkíspilari heims, ef ekki sá besti, en hefur ekkert getað spilað af viti undanfarin ár vegna fótmeiðsla. 

Foppa, eins og Svíar kalla hann, er jafnframt langvinsælasti íþróttamaður Svía síðan Ingmar Stenmark var upp á sitt besta. Enginn kemst með tærnar þar sem þeir tveir hafa haft hælana, hvorki Zlatan, Henrik Larsson, skíðagöngukappinn Gunde Svan, sunddrottningin Terese Alshammar eða skíðaskotfimidrottningin Magdalena Forsberg, þegar vinsældir á meðal sænsku þjóðarinnar eru annars vegar. Ekki einu sinni Tomas Brolin þegar hann var upp á sitt besta eða tennisgoðsögnin Björn Borg geta talist jafningjar þeirra Stenmark og Foppa á því sviði.

Öðru fremur var það þetta víti sem tryggði Foppa eilífan sess í hjörtum sænskra íþróttaáhugamanna og tryggði Svíum sömuleiðis gullverðlaun í íshokkí á Ólympíuleikunum í Lillehammer. Það munu hafa verið fyrsta Ólympíugull Svía í íshokkí og ekki skemmdi fyrir að þeir unnu Kanadamenn í úrslitaleiknum en það hefur lengi andað köldu á milli Svía og Kanadamanna þegar landsliðin mætast. Vítið þykir enn þann dag í dag einkar flott meðal þeirra sem vit hafa á hokkí og til marks um ótrúlega hæfileika og andlegan styrk.

Þarna var Foppa, sem er fæddur 1973, ekki nema 21 árs gamall og var hann þá þegar álitinn bestur þeirra hokkíspilara sem léku utan NHL og það þarf ekki að koma á óvart að hann flutti loks yfir til N-Ameríku fyrir tímabilið 1994-1995.

Svíar hafa átt marga frábæra hokkíspilara og ég man þegar ég bjó í Svíaríki sem unglingur, undir lok 9. áratugarins og í upphafi þess 10. voru stóru nöfnin Kenta Nilsson og Börje Salming, sem þá var að ljúka farsælum ferli í N-Ameríku. Varla leið sá dagur að ekki væri minnst á þessa tvo í sænskum íþróttafréttum en þeir mega sín þó lítils í samanburði við Peter Forsberg, sem má segja að sé á svipuðum stalli hjá sænsku þjóðinni og Ólafur Stefánsson hjá okkur Íslendingum. Eigi landsliðinu að ganga vel á mótum er þátttaka hans frumforsenda.

Ferli Foppa virtist vera lokið vegna þrálátra meiðsla í fæti en nú bendir allt til þess að hann sé að verða leikfær á ný. Það er til marks um þá virðingu sem fyrir honum er borin að hann þurfti ekki annað en að mæta á svæðið hjá Colorado Avalanche og æfa nokkrum sinnum með liðinu áður en honum var boðinn samningur. Fyrir vikið eru Svíar himinlifandi.


Breyskleiki markaðarins

Eins og ég greindi frá nýlega hér á blogginu er ég farinn að starfa sem blaðamaður á ný, fyrir Viðskiptablaðið. Í fyrsta tölublaðinu eftir að ég varð formlega starfsmaður, sem kom út síðasta fimmtudag, birtist eftir mig pistill þar sem ég fjalla um matvælaverð í samhengi uppreisnanna í Túnis og Egyptalandi. Heimsmarkaðsverð á matvælum hefur lengi verið mitt aðaláhugamál innan hagfræðinnar og það voru einmitt hugmyndir mínar um þessi mál, að finna þyrfti leiðir til þess að skilja á milli raunverulegrar eftirspurnar og spekúlatífrar eftirspurnar eða eftirspurnar spákaupmanna, sem ég kynnti fyrir leiðbeinanda mínum við SLU þegar ég fór í viðtal þar í júní 2008. 

Sá tók vel í hugmyndirnar og bauð mér stöðuna en síðan hefur af einhverjum ástæðum ekki verið minnst meira á þetta. Hvað um það, hér er pistillinn:

 

Breyskleiki markaðarins

Undanfarna daga og vikur hafa borist fréttir af mótmælum og uppreisnum í Túnis og Egyptalandi og jafnvel víðar. Þetta eru að margra mati góðar fréttir þar sem lýðræði hefur ekki beinlínis verið í hávegum haft í þessum löndum. Enn er þó sennilega of snemmt að hrósa happi þar sem erfitt er að spá fyrir um hver eða hverjir ná völdum í þessum löndum og hvort stjórn þeirra verður á nokkurn hátt betri eða verri en fyrirrennaranna. 
Það er engin tilviljun að mótmælin og uppreisnirnar  beri upp á sama tíma og heimsmarkaðsverð á matvöru fer ört hækkandi. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem matarverð hækkar ört og vafalaust ekki í hið síðasta. Ekki eru liðin þrjú ár síðan við heyrðum fréttir af miklum hækkunum á matvælaverði og ólgu víða heim einmitt vegna þessa og skal engan undra að hækkanir á matvælaverði valdi ólgu. Flestum ætti að vera kunnugt hverstu óþægileg tilfinning það er að vera svangur en fæstir þeir sem þetta lesa geta þó gert sér í hugarlund hvernig það er að svelta heilu hungri.

Öruggur fjárfestingarkostur

Spurningin er hvað veldur þessum miklu og öru hækkunum heimsmarkaðsverðs á matvælum. Hagfræðin kennir okkur að verð á markaði ákvarðist af samspili framboðs og eftirspurnar á vöru eða þjónustu og vissulega má skýra hluta hækkananna með því að eftirspurn hafi aukist í Asíu og að uppskerubrestur hafi orðið en spurningin er hvort það sé öll skýringin. Vorið 2008 var sú alls ekki raunin. Þá skýrðist verðhækkunin á heimsmarkaði öðru fremur af því að spákaupmenn og aðrir fjárfestar, í leit að ávöxtun sem ekki bauðst á verðbréfamörkuðum, flykktust inn á hrávörumarkaðina. Þannig má segja að ímynduð eftirspurn eftir matvöru hafi aukist gríðarlega sem þrýsti verðinu upp; eftirspurnin var ímynduð í þeim skilningi að fjárfestarnir hugðust aldrei eiga sjálfa matvöruna, þeir áttu viðskipti með afleiður og matvælaframleiðsla jókst aldrei í samræmi við hina auknu "eftirspurn".  Efnahagshorfur í heiminum eru óvissar og þá leita fjárfestar í fjárfestingarkosti sem teljast öruggir. Fólk verður að borða og því geta fjárfestar reitt sig á að eftirspurn eftir matvælum dregst sjaldan saman.
Í mínum huga er þetta stórt vandamál; almenningur í ríkjum heims á ekki til hnífs og skeiðar vegna þess að spákaupmenn eru í leit að öruggum fjárfestingum. Þetta vandamál þarf að leysa og þá á ég alls ekki við að það eigi að banna spákaupmönnum að fjárfesta í hrávöru. Einhvern veginn þarf að finna leið til þess að skilja á milli raunverulegrar eftirspurnar og eftirspurnar spákaupmanna eftir matvælum. Málsmetandi stjórnmálamenn og fræðimenn hafa látið hafa eftir sér að þetta vandamál þurfi markaðurinn að leysa en að mínu mati er breyskleiki markaðarins einmitt vandamálið hér. Eflaust getur markaðurinn fundið lausnina en slíkt tæki langan tíma og spurningin er hversu margir þurfi að svelta í hel á meðan. Við erum þegar allt kemur til alls að tala um afkomu og líf fólks.
Tilhugsunin um matarskort og hungur er einn þeirra þátta sem reka fátæka íbúa Túnis og Egyptaland til þess að rísa upp á afturlappirnar. Fátt drífur mannskepnuna jafnharkalega áfram og einmitt hungur og ef ekki tekst að stemma stigu við innistæðulausum hækkunum á matvælaverði megum við búast við að heyra frekari fréttir af mótmælum og uppreisnum víðar um heim.


Aftur í blaðamennskuna

Eins og einhverjir þeirra fáu sem hingað villast inn vita þegar er ég nú tekinn til við blaðamennskuna á nýjan leik. Nánar tiltekið er ég orðinn blaðamaður á Viðskiptablaðinu þannig að ég held mig við leistinn minn og mun fjalla áfram um viðskipti og efnahagsmál. Ég er þó ekki hættur í náminu en hef tekið mér leyfi frá starfi mínu við SLU og vinn samhliða starfinu á Viðskiptablaðinu að mjög áhugaverðu verkefni sem ég tók að mér í haust og vil klár, fyrst um sinn í hálfu starfi og svo kemur í ljós hversu hátt starfshlutfallið verður.

Þetta verkefni, sem er á vegum Evrópusambandsins og fjallar um þáttamarkaði og landbúnað, mun skila tveimur vísindagreinum sem verða uppistaðan í licenciat-ritgerð sem ég lýk við í haust. Licenciat-gráða er u.þ.b. hálf doktorsgráða, ég veit satt að segja ekki hvort upp á hana er boðið víðar en í Svíaríki, og að henni lokinni mun ég taka ákvörðun um hvort ég vil ljúka við doktorsgráðuna eða láta þar við sitja.

Ég get alveg viðurkennt að ég er orðinn hundleiður á náminu og þurfti því ekki að hugsa mig lengi um þegar Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, bauð mér starfið enda hafði það komið til tals þegar ég hitti hann á Núðluhúsinu í desember. Forsenda þess að ég vinni þar er þó að ég geti unnið frá Svíþjóð þar sem við höfum engan hug á að flytja til Íslands á næstunni.

Mikið er gaman að vera kominn aftur í blaðamennskuna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband