Umdeild úlfaveiði á fölskum forsendum

Um liðna mátti víða sjá fjölda manns flykkjast gráa fyrir járnum út í sænsku skógana og mátti allt eins ætla að stríð væri að hefjast. Svo var þó ekki heldur voru hér á ferðinni veiðimenn í leit að úlfum. Um helgina hófst nefnilega úlfaveiðitímabilið en þetta er annað árið í röð sem sænskir veiðimenn fá að skjóta úlfa eftir að slík veiði hefur verið bönnuð um töluvert skeið þar sem úlfastofninn var kominn í útrýmingarhættu í Svíþjóð.

Þeir eru reyndar ekki fáir Svíarnir sem ekki myndu gráta það þótt úlfurinn hyrfi alveg og eins og nærri má geta eru veiðimenn (með sjálfan kónginn í broddi fylkingar) og bændur sennilega þar í töluverðum meirihluta. Veiðimennirnir þar sem þeir eiga í samkeppni við úlfa um bráðina (auk þess sem þeir vilja einfaldlega veiða meira) og bændurnir sem margir hafa misst gripi til úlfanna. Að sama skapi eru þeir til sem finna úlfaveiðinni allt til foráttu og mótmæla henni harkalega.

Persónulega er ég einhvers staðar mitt á milli, ég missi ekki svefn á nóttunni yfir örlögum þessara úlfagreyum sem verið er að skjóta en mér finnst þessi veiði þó algjör óþarfi og eftirfarandi ergir mig og er til þess að ég hallast frekar í átt að því að vera mótfallinn veiðunum.

Yfirskin úlfaveiðinnar hefur öðrum þræði verið að nauðsynlegt sé að grisja stofninn þar sem innræktun sé til staðar. Því þurfi að fella um 10% stofnsins árlega til þess að koma í veg fyrir að innræktunin aukist hlutfallslega. Gott og vel, en hvernig í ósköpunum eiga veiðimennirnar þá að sjá að úlfarnir sem þeir hyggist fella séu með erfðagalla? Eiga þeir eingöngu að fella dýr með fimm lappir, þrjú augu og tvær rófur? Það segir sig sjálft að erfitt er að greina hvort dýr sem þú sérð í fjarska þjáist af einhverjum erfðagöllum (ef erfðagallarnir valda á annað borð einhverjum þjáningum) enda kom það á daginn þegar þeir 27 úlfar sem felldir voru í fyrra voru krufnir að ekki einn einasti þeirra var haldinn erfðagalla.

Það segir okkur að sé réttlæting veiðanna á rökum reist hefur hlutfall innræktaðra dýra aukist enn meira og þá má með sanni segja að rifillinn hafi sprungið í höndum þeirra stjórnmálamanna sem ákváðu að heimila veiðina og mætti ætla að þeir myndu endurskoða ákvörðun sína.

Það hefur þó síður en svo gerst og eins og áður segir tel ég þó aðallega að hér sé um yfirskin að ræða. Hlutina á að kalla sínum réttu nöfnum. Úlfaveiðin hefur ekki með innræktun að gera heldur hefur öflugur og áhrifamikill þrýstihópur veiðimanna hefur fengið sínu framgengt en stjórnvöld þora ekki að viðurkenna það.

Roluháttar þeirra vegna þurfum við hin að horfa upp á sæmilega ógeðfelldar myndir af skotnum úlfum í fjölmiðlum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband