Í góðum félagsskap

1. Ja, þessi Emil eftir Astrid Lindgren

2. Vísnabókin eftir ýmsa höfunda með myndum eftir Halldór Pétursson

3. Sjandri og úfurinn eftir Guðmund Sverri Þór

4. Víst kann Lotta að hjóla eftir Astrid Lindgren

5. Við lesum A - vinnubók eftir ýmsa höfunda

Svona leit metsölulisti barnabóka út á vefsíðu Eymundsson þegar ég leit þar inn í dag. Ég viðurkenni það fúslega að ég er svo hégómagjarn (í leit að betra orði) að ákvað að athuga hvort bókin mín væri komin inn á metsölulista aðeins viku eftir að hún kom út. Ég viðurkenni það líka að ég hef kíkt á gegnir.is og athugað hvort einhver hafi tekið bókina að láni á bókasöfnum.

Hégómi er reyndar kannski ekki ástæðan fyrir því að ég tékka á þessu enda reikna ég með að flestir rithöfundar fylgist með því hvernig fyrstu bókinni þeirra er tekið. Ég held að þetta sé fullkomlega eðlileg hegðun, mannlegt eðli. Ef ekki, þá er þetta bara hégómi ... mér alveg sama.

Hvað sem því líður þá er ég afar sáttur við að vera á þessum lista strax eftir eina viku. Félagsskapurinn er heldur ekki dónalegur, ég get alveg sagt það án þess að ýkja að á dauða mínum átti ég von frekar en að enda nokkurn tíma á bóksölulista með sjálfri Astrid Lindgren, hvað þá að bók eftir mig væri meira seld en bók eftir Astrid. Þó ekki væri nema einu sinni.

Nú má vel vera að bóksala sé með minnsta móti þessar vikurnar og að bókin mín hafi komist á listann einfaldlega vegna þess að nokkur bókasöfn keyptu hana en það verður þá bara að hafa það. Ég er alla vega sáttur við viðtökurnar sem bókin hefur fengið og það er mér hvatning til þess að skrifa aðra bók, sem ég er reyndar byrjaður á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband