Íslendingarnir yfirburðamenn

Við feðgarnir brugðum okkur að vanda á körfuboltaleik í kvöld. Þetta var annar leikurinn sem við sáum á þessu tímabili en fyrir viku síðan sáum við Uppsala Basket vinna Norrköping, sem undanfarin ár hefur verið í hópi bestu liða hér í Svíaríki. Uppsala hefur byrjað tímabilið óvenjulega vel og var fyrir leikinn við Sundsvall í kvöld eitt í efsta sæti þannig að við bjuggumst við jöfnum og spennandi leik, en annað kom á daginn.

Það var einfaldlega klassamunur á liðunum og Sundsvall var betra á öllum sviðum. Yfirleitt hafa þeir leikir þessara liða sem við höfum séð einkennst af því að Sundsvall er mun betra framan af en síðan hefur Bo Eriksson, þjálfari Uppsala, kynt rækilega upp í sínum mönnum og Uppsala hefur hleypt leikjunum upp í vitleysu með grófum brotum. Þetta hefur fipað Sundsvall sem þá hefur misst dampinn og leikurinn jafnast út.

Eins og nærri má geta reyndi Bosse bössa eins og hann er kallaður þetta í kvöld líka en að þessu sinni lenti hann á íslensku blágrýti. Þeir Jakob, Hlynur og Pavel voru einfaldlega yfirburðamenn á vellinum og létu aukna hörku ekki slá sig út af laginu. Jakob er potturinn og pannan í öllum sóknarleik Sundsvall. Hann er snöggur, glöggur og dritar niður þriggja stiga skotunum. Miðað við leiki undanfarinna ára hefur Jakob bætt sig mikið því það sem ég hef séð af Sundsvall hefur Jakob yfirleitt haldið sig til hlés á útivelli en verið frábær á heimavelli. Hlynur stjórnar vörninni eins og herforingi; nautsterkjur og útsjónarsamur og rífur niður fráköstin. Pavel hefur síðan fært liðinu nýja vídd og nú er byrjunarlið Sundsvall, sem mér virðist vera langbesta liðið í sænsku deildinni um þessar mundir, skipað þremur Íslendingum og tveimur Könum sem þótt vissulega séu þeir gagnlegir til síns brúks eru eiginlega meira í stoðhlutverki. 

Næst förum við feðgarnir sennilega á leik Uppsala og ecoÖrebro sem verður 18. nóvember.


mbl.is Jakob Örn stigahæstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband