Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Aðgát skal höfð ...

... í nærveru sálar.

Sjaldan hefur þetta spakmæli átt betur við en nú í vikunni þegar ung kona slasaðist alvarlega er lest sem hún var í ók á litla blokk í úthverfi Stokkhólms. Lestin hafði keyrt á fullu stími á enda sporsins og þar í gegn og inn í húsið sem stóð við enda lestarteinanna. Atvikið átti sér stað um miðja nótt og engin vitni urðu að því.

Ég heyrði af atvikinu í útvarpi þar sem ég sat í lestinni á leið í vinnuna og þar var ekki talað um annað en að konan, sem mun vera 22 ára og hafa starfað við hreingerninagar hjá Arriva (fyrirtækinu sem á lestina), hafi stolið lestinni. Ekki var vitað hvað fyrir henni vakti en því var slegið föstu að lestinni hefði verið stolið og leitt að því líkum að hún hefði ætlað að fyrirfara sér. Talsmaður Arriva fullyrti í viðtölum við alla sem vildu heyra að stúlkan hefði rænt lestinni og hið sama á við um talskonu SL, almenningssamgöngufyrirtækis Stokkhólms sem Arriva starfar fyrir. Fjölmiðlar gripu ummælin á lofti og fóru mikinn í umfjöllun um konuna ungu; allt vakti þetta athygli erlendra fjölmiðla og meðal annars fjallaði Moggi um málið á netinu:

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/01/15/hreingerningakona_stal_lest_og_ok_a_hus/

Til að bæta gráu ofan á svart ku konan vera af erlendu bergi brotin og ég hef heyrt allnokkra hafa orð á því að ekki hafi verið að undra að innflytjandi hafi stolið lestinni. Þess má geta að undiralda útlendingahaturs hefur verið að byggjast upp hér í Svíaríki undanfarin ár.

Konan er sem áður segir alvarlega slösuð og henni hefur verið haldið sofandi en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort hún er vöknuð nú fimm dögum eftir að slysið varð.

Slysið já, því nú er komið í ljós að þetta var slys. Konan var að þrífa lestina og felldi fram sæti lestarstjórans sem lenti á spaka þeim sem stýrir hraða lestarinnar (svipað og stýripinni á gömlu Sinclair-tölvunum ef mér skjátlast ekki). Alla jafna hefði þetta ekki átt að skipta neinu máli en í þetta skipti hafði lestarstjóri sá er gekk frá lestinni kvöldið áður greinilega gleymt að drepa á henni og skilið lyklana eftir í svissinum. Þannig var lestin í gangi og um leið og stóll lestarstjórans rakst á gírinn fór lestin á fulla ferð og hreingerningakonan gat enga björg sér veitt. Þetta var sem sé slys og ef eitthvað er brot á reglum um vinnuumhverfi, nokkuð sem mér skilst að sænska vinnueftirlitið sé nú að skoða.

Eins og áður segir hefur konan, sem nú liggur alvarlega slösuð á spítala, verið ásökuð um alvarlegan glæp. Hún hefur ekki getað varið sig. Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um málið en hvað ég hef séð hefur enginn greint frá nýrri vitneskju um að um slys hafi verið að ræða. Hvað umheiminn varðar er konan því enn glæpamaður og þetta er bara enn eitt dæmið um að ekki sé hægt að treysta innflytjendum af vissum kynþætti - ef marka má umfjöllun fjölmiðla er þessi kona influtt frá annarri heimsálfu.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þetta spakmæli hef ég alltaf reynt að hafa að leiðarljósi í starfi mínu sem blaðamaður og sjaldan hefur það átt jafnvel við og nú, finnst mér. Vitaskuld er þáttur talsmanna samgöngufyrirtækjanna stærstur en fjölmiðlar gleyptu við skýringum þeirra gagnrýnislaust. Umfjöllunin bitnar ekki eingöngu á konunni ungu heldur á fjölskyldu hennar og samstarfsfólki. Þetta er skýrt dæmi um hvernig fjölmiðlar fóru offari í umfjöllun þegar betra hefði verið að bíða eftir niðurstöðum rannsóknar lögreglunnar og jafnvel setja einhver spurningamerki við málflutning talsmanna fyrirtækjanna.

Undarleg fyrirsögn á vef DV

Ég les ekki mörg blogg en eitt þeirra sem ég kíki reglulega, ekki alltaf þó, á er blogg Eiðs Guðnasonar, fyrrum fréttamanns, ráðherra og sendiherra, sem hann hefur tileinkað umfjöllun um málfar og miðla. Ég hef gaman að blogginu hans enda áhugamaður um bæði vandað málfar og fjölmiðlun. Nú hyggst ég feta í fótspor Eiðs og er ástæðan fyrirsögn ein sem birtist með frétt á vef DV í gærkvöldi.

Allir þeir sem starfað hafa að blaðamennsku vita að fyrirsagnasmíð getur verið hið vandasamasta verk. Fyrirsögnin er það fyrsta sem lesandinn sér en þarf auk þess að vera stutt þannig að æskilegt er að hún sé hnitmiðuð. Sömuleiðis þarf hún að vera innihaldsrík og gefa góða vísbendingu um innihaldið. Ekki skemmir fyrir ef hægt er að stuðla fyrirsögnina eða setja inn rím enda grípur hún þá lesandann fyrr. Mikilvægast af öllu er þó að fyrirsögnin sé nokkurn veginn málfræðilega rétt og skiljanleg.

Nóg um það, í gærkvöldi birti DV á vef sínum frétt þess efnis að vonir standi til að mannskepnunni hafi tekist að útrýma sjúkdómi sem nefnist Gíneuormur og kemur af völdum sníkjudýrs með sama nafni. Þetta er hið besta mál og mun það vera í annað skipti í sögunni sem okkur tekst að útrýma sjúkdómi. Hinn fyrri var bólusótt sem m.a. lék Íslendinga afar grátt fyrr á öldum, sem dæmi má nefna að talið er að Stórabóla hafi drepið allt að þriðjung Íslendinga á árunum 1707-1709, en bólusóttinni var komið endanlega fyrir kattarnef árið 1979.

Yfir þessari frétt birtist upphaflega fyrirsögnin „Annar sjúkdómurinn til að verða útrýmdur.“ Þessi fyrirsögn er svo sem alveg skiljanleg en málfræðilega er hún eins og fimm ára barn hafi skrifað hana. Bent var á það í Fésbókarathugasemdum við fréttina að fyrirsögnin væri engan veginn í samræmi við málfræðireglur og henni síðan breytt. Nú er yfir fréttinni fyrirsögnin „Öðrum sjúkdóminum til að vera útrýmt.“ Enn er fyrirsögnin svo sem skiljanleg, þeim sem vill skilja, en ekki er hún réttari en sú fyrri. Ef eitthvað er þá er hún jafnvel enn vitlausari og það er ekki boðlegt miðli sem vill njóta virðingar að birta svona. 

Fyrirsagnasmíð getur sem áður segir verið vandasamt verk og reyndustu blaðamenn geta lent í basli með að finna fréttum sínum góðar fyrirsagnir. Ekki skánar það þegar maður nálgast skilafrest eða við þá stöðugu pressu sem fylgir því að skrifa á vefinn. Víða úti í heimi er það alfarið á könnu ritstjóra að semja fyrirsagnir en í þeim tilvikum sem ég hef kynnst er það þó blaðamannsins. Hvort heldur sem er er það ritstjóra, eða fréttastjóra, að sjá til þess að efni sem birtist á vegum miðilsins sé birtingarhæft.

Til þess að taka upp handskann fyrir blaðamann DV vil ég benda á að í Fésbókarathugasemdum við fréttina var blaðamaður gagnrýndur fyrir kunnáttuskort í prósentureikningi auk þess sem talað var um að orðalag fréttarinnar væri fáránlegt þar sem sníkjudýrinu hefði ekki verið útrýmt og nú tilvik Gíneuorms ættu eftir að koma. Besserwisseraháttur af þessu tagi er ansi algengur á meðal þeirra sem lesa netmiðla og oft hef ég heyrt grín gert að þýðingum. Vel má vera að staðreyndir skolist oft til í þýðingum frétta yfir á íslenska (og sænska) miðla en þegar maður hefur fyrir því að finna þá frétt sem íslenska fréttin hefur verið unnin upp úr sér maður að það vill oft brenna við að þar er sama staðreyndavilla og því ekki hægt að kenna lélegri tungumálakunnáttu um. 

Þess vegna hafði ég fyrir því að smella á tengil sem birtist með ofannefndri frétt DV en hann var á vef hins virta vísindatímarits Scientific American. Þar kemur einmitt fram nákvæmlega sú prósentutala sem DV nefndi í frétt sinni auk þess sem Scientific American segir að sníkjudýrinu verði brátt útrýmt. Þar að auki er það í báðum tilvikum haft eftir viðmælendum hins bandaríska tímarits þannig að það er bæði rangt og ómaklegt að skrifa þessar villur (ef um villu er að ræða í síðarnefnda tilvikinu) á blaðamann DV.

Ambagan í fyrirsögninni er hins vegar alfarið á hans ábyrgð.


Ritstuldur um Regin

Sennilega hafa flestir blaðamenn, og aðrir sem vinna við textasmíð, lent í því að einhver hefur fengið texta að láni frá þeim. Allir geta lent í því að taka texta að láni án þess að geta heimildar; blaðamenn, námsmenn, meira að segja virtir fræðimenn og prófessorar en yfirleitt eru það stutt textabrot og ég vil trúa því að í langflestum tilvikum sé um gáleysi að ræða og menn gleymi því einfaldlega að geta heimilda.

Það hefur komið fyrir að vitnað er í fréttir sem ég hef skrifað eða fréttaskýringar en þá er heimilda yfirleitt getið jafnvel þó ég hafi stundum rekist á kunnugleg textabrot sem ekki eru innan gæsalappa eins og vera ber. Yfirleitt hef ég þó ekki séð ástæðu til þess að gera úr því mál enda hefur mér yfirleitt þótt um smámál að ræða og nánast undantekningarlaust hefur heimildar þó verið getið í þeim texta sem um ræðir.

Fjölmiðlar vitna hver í aðra, taka smá stykki úr texta annarra innan gæsalappa en í asanum ferst það stundum fyrir að setja inn gæsalappirnar eða að geta heimildar. Stundum gerist þetta bara og lítið við því að gera. Verra er þegar um kerfisbundinn eða grófan ritstuld, þar sem heilu fréttirnar eru teknar og endurbirtar, er ræða. Þá verður auðvitað að bregðast við eins og Agnes Bragadóttir gerði þegar hún ritaði eitt sinn harðorðan pistil um slíkt mál þegar fréttastofa RÚV hafði ítrekað sagt fréttir í morgunfréttatímum sínum sem þó höfðu birst á síðum Morgunblaðsins fyrr um morguninn.

Ég lenti í slíkum ritstuldi í gær. Á þriðjudaginn skrifaði ég frétt fyrir vef Fastighetsnytt um skráningu Regins á íslenskan hlutabréfamarkað Þar sem um fyrsta fasteignafélagið í Kauphöllinni er að ræða þótti okkur þetta skemmtilegt efni enda sá markaður sem Fastighetsnytt fjallar um. Eins og þeir sem nenna að elta tengilinn sjá ræddi ég m.a. við Magnús Harðarson, aðstoðarforstjóra Kauphallarinnar, og vitnaði tvisvar í hann í fréttinni. Engin stórfrétt svo sem en ég var þess nokkuð viss að hún vekti áhuga sænskra lesenda enda þykir Svíum mörgum hverjum Ísland og allt sem því við kemur krúttlegt.

Fréttin var birt á vef okkar á miðvikudaginn sem aðalfrétt dagsins og vitnaði mbl.is meðal annars í hana. Í gærmorgun var hún svo efsta frétt í daglegu fréttabréfi Fastighetsnytt sem sent er út klukkan sjö á morgnanna. Þetta þýðir að fréttin hefur komið fyrir augu flestra í sænska fasteignageiranum og þar með talið keppinauta okkar í blaðamannastétt.

Í morgun benti vefritstjórinn okkar mér svo á frétt á sænskri útgáfu danska vefjarins World in Property um skráningu Regins. „Þessi frétt er ansi lík þinni,“ sagði hann og svo litum við aðeins nánar á fréttina og sáum að hún var ekki bara lík, hún var nær alveg eins. Eini munurinn var sá að tilvitnarnir í Magnús voru ekki lengur tilvitnanir heldur voru þær látnar líta út fyrir að vera texti blaðamannsins. Þá var frétt World in Property aðeins styttri en mín en að öðru leyti voru þær eins.

Heimildin sem vísað var til var síðan fréttatilkynning frá Regin. Þegar ég hafði leitað af mér allan grun hafði ég svo samband við félagið og fékk þar þær upplýsingar að þaðan hefðu ekki verið sendar neinar tilkynningar á þeim nótum sem ég skrifaði. Ennfremur var mér sagt að fréttin mín hefði vakið athygli víða á Norðurlöndum þaðan sem fólk hafði haft samband við Regin vegna hennar. Gaman því.

Hvað um það, svona grófum ritstuldi hef ég ekki lent í áður og ég geri fastlega ráð fyrir að framkvæmdastjóri Fastighetsnytt, sem er ábyrgðarmaður fyrir miðlunum okkar, muni grípa til aðgerða málsins vegna enda ekki hægt að láta svona líðast. Það heyrir sögunni til að World in Property hefur verið að reyna að hasla sér völl á sænskum markaði og hefur þar af leiðandi sænska útgáfu af vefsíðu sinni og fréttabréfi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband