Færsluflokkur: Menning og listir

Hugleiðingar um Eurovision

Ég hef alltaf litið á Eurovision-daginn sem hátíðisdag. Framan af var það öðru fremur vegna þess að ég hef gaman af Eurovision en eftir því sem árin hafa liðið hefur það bæst við að ég er mikill Evrópusinni og mér finnst Evrópusamstarfið á vissan hátt kristallast í þessari keppni. Þarna koma saman listamenn frá öllum hornum álfunnar og takast á í vinsamlegri söngkeppni. Ég fullyrði að enginn annar samevrópskur viðburður er betra dæmi um vel heppnaða samvinnu en Eurovision (EM í fótbolta þar með talið). 

Sumar þjóðir leggja meira upp úr þessu en aðrar, ég tel mér til dæmis óhætt að fullyrða að sænska Eurovision-samfélagið hafi verið komið í hálfgerða tilvistarkreppu yfir að hafa ekki unnið síðan 1999 og hér í Svíaríki er talað um þessa keppni sem EM í tónlist. Þá hafa mörg nýríki A-Evrópu lagt mikið upp úr sigri í keppninni. Íslendingar leggja líka jafnan mikið upp úr keppninni, sem m.a. sést á því við erum alltaf að fara að vinna og nær hver einasta sála sem hefur Facebook-reikning hefur þörf á að tjá sig um Eurovision.

Ég verð að viðurkenna að þó ég búi í Svíþjóð og sé almennt mjög hrifinn af sænskri menningu þá var ég ekkert voðalega sáttur við sigur Svía. Loreen (það er ekki sagt Lorín heldur Loren) var vissulega glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar en mér fannst lagið einfaldlega ekki það besta, hvorki í sænsku undankeppninni né í úrslitakeppninni í gær. Nú bætir það vissulega úr skák að höfundur lagsins, Thomas G:son, er frá mínum gamla heimabæ Skövde en lagið var bara samt ekkert spes. Ég tek það fram að ég er ekki vel að mér í flokkun nútímadanstónlistar en fyrir mér var þetta dæmigert Europop-danslag sem fær líffærin í manni til þess að hristast ósjálfviljug (ég er ekki að tala um útlimina heldur innri líffærin) og gæti kvarnað úr beinunum á manni ef maður stendur of nálægt hátalara á dansgólfi.

Persónulega var ég mun hrifnari af rússneska laginu sem og þeim frá Moldóvu og Serbíu og að sjálfsögðu má ekki gleyma því íslenska sem mér fannst prýðisgott. Þá var mjög gaman af því að sjá Engelbert gamla Humperdinck á sviði en honum hefði að ósekju mátt ganga betur.

Því fer þó fjarri að ég ætli að fara að segja að vitlaust lag hafi unnið. Það er einfaldlega ekki hægt að segja svoleiðis. Tónlistarsmekkur er huglægur og þar af leiðandi eins misjafn og við erum mörg. Það er ekki til neitt sem heitir góð eða vond músík, þetta er allt saman huglægt. Tónlistarsmekkur er í raun bara skoðun og að er ekkert til sem heitir rétt eða röng skoðun. Ég var ekki hrifinn af „Euphoria“ en það voru hins vegar greinilega fleiri sem voru hrifnir af því og þar með vann lagið. Það er mikið talað um að rétt lag hafi unnið að þessu sinni en staðreyndin er sú að rétt lag vinnur alltaf, jafnvel þótt lagið falli ekki öllum í geð.

Eitt af því skemmtilega við Eurovision er að þar fáum við innsýn í menningu annarra þjóða, innsýn sem sum okkar leitast ekki við að fá öðruvísi. Íslenska lagið var t.d. með séríslenskum blæ sem mér fannst mjög skemmtilegt og hið sama má segja um rússneska lagið og það albanska auk margra annarra en þetta eru þau dæmi sem koma fyrst upp í hugann. Því miður var ekkert þjóðlegt sænskt við sænska lagið en þannig er það bara.

Það sem hins vegar fer afar mikið í taugarnar á mér við Eurovision eru upphrópanir, sérfræðinga í sjónvarpi og annarra, um hvað hitt og þetta sé asnalegt. Þannig las ég ansi margar athugasemdir á Facebook í gær um hvað rússneska lagið hefði verið asnalegt (og að það hefði eyðilagt Eurovision babúskurnar hefðu unnið) sem og írsku tvíburarnir sem einhver gekk meira að segja svo langt að kalla ofvirka hálfvita (og annar hefur líkt þeim við erfðabreytta silunga). Oft eru það jafnvel vel menntaðir einstaklingar sem tala svona. Þetta er mínum huga til marks um þröngsýni. Eins og ég segi hér að framan gefur þessi keppni okkur einstaka innsýn í aðra menningarheima og er til marks um hversu fjölbreytt menningarsvæði Evrópa er í raun. Þarna eru listamenn að koma sínum sköpunarverkum á framfæri og það er bara ekkert asnalegt við það. Það er ekkert asnalegt þótt hollenskur þátttakandi sé með lírukassa á sviðinu, það er einfaldlega hluti af þeirra menningu. Okkur geta þótt atriðin léleg eða leiðinleg en það þýðir ekki að þau séu asnaleg. Virðing og umburðarlyndi eru góðir eiginleikar og við eigum að sýna menningu annarra virðingu og umburðarlyndi.

Ég lýk þessu með smá hugleiðingu um þá umræðu sem myndast hefur um mannréttindabrot í Azerbaijan og hvort íslenski hópurinn hefði átt að tjá sig eitthvað um þau. Nú vitum við ekki nákvæmlega hvað Greta Salóme lét eftir sér hafa og hvernig það var klippt til en mín skoðun er sú að ekki eigi að blanda pólitík og Eurovision saman. Ástæðan fyrir því að þessi keppni hefur enst í öll þessi 56 ár er einfaldlega sú að Eurovision er ekki pólitísk keppni. Þarna koma lönd saman og keppa í vinsemd og sýna hvort öðru umburðarlyndi. Fengi Eurovision að verða pólitísk keppni myndi hún sennilega deyja drottni sínum á nokkrum árum. Það er mín skoðun.

Grattis Sverige!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband