Skeiðað fram á ritvöllinn

Eins og margir vita hef ég mikið dálæti á skrifum, ég hef m.a.s. verið kallaður skriffíkill af einum góðum vini og fyrrum vinnufélaga á Mogganum. Þetta dálæti var ein ástæða þess að ég ákvað að hella mér út í blaðamennskuna á nýjan leik en mig hefur líka lengi langað til þess að gera meira á þessu sviði og jafnvel geta kynnt mig sem rithöfund þegar fram líða stundir.

Nú er fyrsta skrefið í þessa átt tekið en á næstu vikum kemur út hjá Urði bókafélagi barnabók eftir mig. Sú heitir Sjandri og úfurinn og fjallar um lítinn strák sem langar til þess að fræðast um skrítinn hlut sem er að finna í munninum á honum, úfinn svokallaða. 

Þótt bókin sé að koma út fyrst núna er hún reyndar ekki alveg ný því ég skrifaði hana snemma árs 2007. Mér leiddist eitthvað í vinnunni þann daginn og þar sem sonur minn hafði verið að spyrja mig um tilgang úfsins, sem er totan sem hangir niður úr efri gómnum í okkur öllum, og ég var ekki alveg með svarið á reiðum höndum ákvað ég að lesa mér til um það á þessu merkilega fyrirbæri sem við köllum internet. Þegar ég var búinn að finna út úr þessu datt mér í hug að það gæti verið gaman að skrifa fróðleikssögu fyrir börn um úfinn og lesa hana fyrir pjakkinn. Ég byrjaði því strax að skrifa og kláraði söguna svo sama kvöld þegar sá stutti var farinn að sofa.

Ástæða þess að bókin hefur ekki komið út enn er sú að ég hafði ekki fundið teiknara og því var handritið komið ofan í skúffu. Nú skömmu fyrir jól lá ég heima í tveggja vikna veikindarfríi og ákvað að senda Andrési Andréssyni, sem var teiknari á Mogganum á sínum tíma, póst og spyrja hvort hann hefði áhuga á að myndskreyta. Hann hafði áhuga og ég sendi honum handritið og ekki liðu nema tvær vikur uns hann var búinn að senda þessar líka frábæru teikningar. Þar sem foreldrar mínir eru búin að stofna bókaforlag lá svo beinast við að spyrja þau hvort þau vildu gefa bókina út og það reyndist auðsótt mál þannig að nú er ég orðinn barnabókahöfundur. Ég fékk svo snillinginn hana Helgu Rún Gylfadóttur, frænku mína, til þess að hanna kápu.

Sjandri og úfurinn, þessi frumraun mín sem rithöfundur, kemur sem sagt út um miðjan mánuðinn en ég á von á að fá nokkur eintök í pósti á næstu dögum og það verður spennandi að sjá útkomuna og sömuleiðis hvort bókin fái góðar viðtökur. Ég hef beðið nokkra að lesa hana yfir fyrir mig, bæði börn og fullorðna, og eingöngu fengið góð viðbrögð. Ég er með hugmynd að annarri bók um Sjandra og mun væntanlega setja hana á blað á næstunni en hvort hún verður gefin út ræðst svo væntanlega af því hvaða viðtökur fyrsta bókin fær. Áhugasömum bendi ég á að panta bókina beint hjá forlaginu, þá er nefnilega auðveldara að fá hana áritaða.

Ég mun setja inn mynd af bókinni þegar hún dettur í póstkassann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til lukku með áfangann drengur! Þetta eru merkileg tímamót og spurning hvort nú verður aftur snúið!

Jóhann Viðar (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 10:16

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Takk fyrir það meistari. Vonandi verður ekki aftur snúið.

Guðmundur Sverrir Þór, 7.3.2011 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband