Viðburðaríkt ár að baki

Í gær var merkilegur dagur. Þá var ég búinn að vera 35 ára gamall í 365 daga og af því má skilja að ég varð 36 ára í dag. Nýtt ár er framundan, vonandi fullt af nýjum tækifærum og verkefnum. Í þessari bloggfærslu vil ég þó horfa aðeins í baksýnisspegilinn því eftir á að hyggja held ég að 36. aldursár mitt, það sem lauk í gær, hafi verið eitt það viðburðaríkasta á ævi minni.

Á þessu ári eignaðist ég fjölda nýrra vina, og endurnýjaði auk þess vináttuna við gamla vini með aðstoð hins stórmerklega fyrirbæris Facebook. Sérstaklega er gaman að segja frá því að ég hef endurnýjað kynnin við mann sem fyrir 30 árum bjó í næstu blokk við mig í Álfheimunum. Við lékum okkur mikið saman og vorum góðir vinir. Síðan flutti hann í Mosfellssveit, eins og það hét þá, og ég heyrði aldrei meira frá honum. Ekki fyrr en í desember sl. þegar hann sendi mér póst á FB vegna handboltaleiks. Hann vissi þó ekki hver ég var og það var ekki fyrr en ég spurði hvort þetta væri minn gamli leikfélagi. Það stóð heima og þá kom á daginn að vinurinn býr hér skammt fyrir suðaustan Uppsali. Gaman að því og skemmtilegt hvernig Facebook getur fært fólk saman á ný.

Ég hef einnig ferðast mikið á árinu. Við nýttum okkur það í fyrrasumar að Svíþjóð tengist meginlandi Evrópu og ókum niður til Þýskalands ásamt foreldrum mínum. Þar leigðum við sumarbústað í Eifel-fjallgarðinum í námunda við ánna Mósel í eina viku en gáfum okkur nærri viku til að komast þangað og heimsóttum skemmtilegar borgir á leiðinni. Sömuleiðis ókum við um Móseldalinn og standa heimóknirnar í Trier, sem ég hef reyndar komið til nokkrum sinnum áður en þó ekki síðan ég var barn, og Cochem þar upp úr. Sömuleiðis ókum við til Lúxemborgar, þar sem ég hitti Helga Mar kollega minn af Mogganum, og aðeins inn í Frakkland. Á leiðinni heim fórum við svo í gegnum Belgíu og Holland áður en við komum aftur inn í Þýskaland og gistum í þrjár nætur áður en haldið var yfir til Danmerkur og þaðan til Svíþjóðar. Ég fylgdist því að mestu með HM i fótbolta í Þýskalandi en var í Hollandi þegar Hollendingar slógu Brasilíumenn út úr keppninni og svo í Þýskalandi daginn eftir þegar Þjóðverjar slógu Argentínu út. Í þessari ferð heimsóttum við samtals sex lönd, þar af tvö sem ég hef aldrei komið til áður.

Í haust fór ég síðan aftur til Belgíu og sótti þar fund vegna ESB-verkefnis sem ég er að vinna að. Skömmu fyrir jól brugðum við okkur í helgarferð til Íslands, sem reyndar lengdist aðeins vegna veikinda og er það fyrsta Íslandsferð mín síðan ég flutti af landi brott í ágúst 2008. Í upphafi febrúar fórum við hjónin svo ásamt góðum vinum, þeim Bobba og Laugu sem hér búa í Uppsölum, til Búdapestar. Upphaflega stóð til að sonurinn kæmi með en honum tókst að ná sér í streptókokka-sýkingu og RS-vírus samtímis aðeins viku áður en lagt var í hann. Til allrar hamingju voru foreldrar mínir stödd í Kaupmannahöfn þegar þetta var þannig að mamma brá sér yfir og passaði ættarlaukinn fyrir okkur á meðan við hjónin slökuðum á í heimalandi gúllasins. Ég hef lengi verið að plana að skrifa um þessa Búdapestarferð, hef mikið um hana að segja, og vonast til að gera það á næstunni. 

Í september tók ég mig svo til og tók þátt í fótboltamóti í fyrsta skipti síðan ég og nokkrir félagar tókum þátt í 4. deildinni í innanhúsknattspyrnu heima á Íslandi á öndverðum 10. áratugnum. Sú ferð reyndist þó ekki til fjár og satt að segja hafði mig ekki grunað að ég myndi nokkurn tíma „æfa“ fótbolta aftur. Maður á samt aldrei að segja aldrei og í haust fór ég ásamt níu félögum í knattspyrnufélaginu 20 mínútum (þar af var einn frá Ghana og einn Svíi) til Lundar og tók þátt í Klakamótinu, knattspyrnumóti íslenskra karlmanna á Norðurlöndunum. Þetta reyndist hin skemmtilegasta ferð og ég hef sennilega ekki verið í betra líkamlegu ásigkomulagi í áratugi. Auðvitað er stefnt að þátttöku í Klakamótinu 2011 sem fram fer í Sönderborg í Danmörku í september og ég hef sett markið á að byggja mig enn betur upp fyrir það mót.

Ekki má svo gleyma því að bókin mín um hann Sjandra litla kom út á þessu ári sem liðið er síðan ég varð 35 ára og ég er búinn að skrifa handrit að annarri bók. Þá er ég kominn aftur í blaðamennskuna og alvöru hagfræði, en ekki bara fræðilega og hef alltaf jafn gaman að. Ég er líka með fleiri verkefni á prjónunum sem vonandi verða að veruleika og þá mun ég greina nánar frá þegar þar að kemur. Ennfremur hef ég í fyrsta skipti á ævinni staðið fyrir framan töflu og kennt í kennslustofu, alveg ný reynsla og mjög skemmtileg.

Viðburðaríkt ár, sem sagt, en ekki er þó allt jafn jákvætt. Kona móðurbróður míns, sem alltaf var mér mjög góð, kvaddi þetta jarðlíf eftir mjög löng og erfið veikindi. Ég gat því miður ekki kvatt hana og ekki fylgt henni til grafar og það þótti mér erfitt. Því miður var sambandið við hana stopult síðustu árin og er það ein af ástæðum þess að ég hef einsett mér að bæta samband mitt við frændur mína og frænkur með hjálp FB. Þá hef ég átt í stökustu vandræðum með nýrnasteina. Ég þurfti að taka mér tveggja vikna veikindaleyfi í lok nóvember og byrjun desember og hef farið þrisvar sinnum í nýrnasteinabrjótinn á árinu en án árangurs. Steinninn sem um ræðir er enn að valda mér vandræðum og eyðilagði hann m.a. fyrir mér heilt skáktímabil. Ég hafði sett mér metnaðarfullt markmið fyrir tímabilið og byrjaði mjög vel í haust, ég held ég geti fullyrt að ég hafi aldrei teflt betur en í skákmóti sem ég tók þátt í í lok september og var kominn hálfa leið að markmiðinu. Síðan fór steinninn að valda vandræðum og þegar ég sit við taflborðið fæ ég alltaf nístandi verk í nýrað sem gerir að ég get alls ekki einbeitt mér. Fyrir vikið hef ég tapað um 15 skákstigum miðað við sama tíma í fyrra en stefndi á að ná mér í 100 stig og fara yfir 2100. 

Burtséð frá þessu hefur þetta þó verið hið fínasta ár og viðburðaríkt eins og áður segir. Nú er bara að vona að mér takist að ná markmiðum mínum fyrir næsta ár.

Að lokum, við fengum góða gesti í mat á afmælisdaginn. Þau komu færandi hendi með íslenskan lambahrygg sem ég matreiddi að hætti hússins og heppnaðist að ég held mjög vel. Ég hef fengið fjöldann allan af afmæliskveðjum á Facebook og annan hátt og í dag er búið að vera frábært veður. Rúmlega 20 stiga hiti og glampandi sól. Þetta er í stuttu máli sagt búinn að vera mjög góður afmælisdagur.

Kærar þakkir fyrir mig. Góðar stundir.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband