Undantekningin sem sannar regluna?

Að undanförnu hef ég fylgst sæmilega vel með bloggdeilu þeirra Stefáns Snævarr, prófessors í heimspeki í Lillehammer, og Birgis Þórs Runólfssonar, sem er dósent í hagfræði við HÍ. Þar deila þeir vegna bloggfærslu sem Birgir Þór sendi frá sér nýlega þar sem hann fjallar um tengsl atvinnufrelsis og hagsældar. Stefán er ekki sá eini sem deilt hefur á Birgi vegna þessa, það hefur Jón Steinsson hagfræðingur einnig gert og sömuleiðis Stefán Ólafsson, prófessor, ef mér skjátlast ekki.

Ástæða þess að ég hef fylgst með þessari ritdeilu er að ég les blogg Stefáns allreglulega. Ég kannast lítillega við Stefán og tel hann rökvissan og skemmtilegan penna og blogg hans er eitt afar fárra sem ég les reglulega. Þá er ég líka áhugamaður um hagfræðilega rökræðu þannig að deilan hefur vakið hjá mér áhuga vegna þessa.

Eins og áður segir snýst deilan um bloggfærslu sem fjallar um rannsókn kanadískrar hugveitu, Fraser Institute, þess efnis að atvinnufrelsi leiði til aukinnar hagsældar, þ.e. að þar sem atvinnufrelsi er mest er hagsæld í formi vergrar landsframleiðslu á mann mjög mikil. Rannsóknin er að sögn Birgis mjög umfangsmikil og fullyrðir hann að orsakasamband sé á milli þessara tveggja þátta þótt miðað við þær myndir sem hann sýni virðist um fylgni að ræða. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þessa rannsókn Fraser-stofnunarinnar og því hef ég ekki forsendur til þess að tjá mig um hvort orsakasambandið sé til staðar eða einungis fylgni (eins og til dæmis Jón Steinsson vill meina). Hins vegar hef ég tvennt að athuga við málflutning Birgis.

Mitt fyrsta fag í háskóla var sagnfræði og þó ég hafi lært ýmislegt áhugavert þar hefur ekkert reynst mér jafnvel og námskeiðið í aðferðafræði. Þar var meðal annars kennd heimildafræði og strax fyrsta daginn lærðum við að setja ekki neitt fram og fullyrða ekki neitt fyrr en við hefðum að minnsta kosti tvær óháðar heimildir sem styðja fullyrðinguna. Þetta er fyrri athugasemd mín við málflutninginn en hin byggir á dagsferð sem við fjölskyldan fórum nú á milli jóla og nýárs.

Sú ferð var til sjálfstjórnarríkisins Álandseyja. Þar í landi ríkir gríðarleg hagsæld og árið 2007 var verg landsframleiðsla á mann 55.829 Bandaríkjadalir (kaupmáttarsamanburður). Það er í stuttu máli sagt mikil hagsæld og til samanburðar má nefna að í Noregi var VLF á mann árið 2011 53.470 Bandaríkjadalir. Þá vaknar auðvitað spurningin hvort atvinnufrelsi sé mikið á Álandseyjum. Ekki virðist mér svo vera. Álandseyjar heyra undir Finnland (þó sem sjálfstjórnarríki) og eru þar með hluti af Evrópusambandinu. Eyjarnar hafa þó varanlega undanþágu til þess að halda í gamlan lagabókstaf sem nefnist á sænsku Hembygdsrätt (sænska er tungumál Álendinga). Þessi lög fela í sér að enginn megi eignast fasteign eða stofna fyrirtæki á Álandseyjum nema vera álenskur ríkisborgari eða hafa búið þar í að minnsta kosti fimm ár. Nokkuð sem samræmist ekki fjórfrelsinu svokallaða.

Ég veit ekki hvernig Fraser Institute skilgreinir atvinnufrelsi en ég held það gildi einu hvernig það er skilgreint. Atvinnufrelsi hlýtur að fela í sér að hver sem er geti nokkurn veginn hvenær sem er stofnað fyrirtæki. Það á líka við um erlenda aðila. Ef markaður er lokaður fyrir erlendum aðilum, sérstaklega jafn lítill markaður og Álandseyjar með sína 28 þúsund íbúa er, er samkeppni alltaf takmörkuð og varla hægt að tala um atvinnufrelsi. Ég myndi því halda að Álandseyjar skori ekki hátt í atvinnufrelsisvísitölu Fraser Institute sem þýðir að orsakasamhengið (eða fylgnin ef út í það er farið) á milli atvinnufrelsis og hagsældar veikist.

Hagfræðingum hættir til að iðka fræðin út frá stjórnmálaskoðunum sínum. Hagfræðingum er jafnframt afar tamt að alhæfa og sníða lögmál útfrá forsendum sem oft eru afar veikar og mér sýnist Birgir Þór Runólfsson hafa fallið í þá gildru. Nema náttúrulega Álandseyjar séu undantekningin sem sannar regluna, sem þó er hæpið.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband