Verðtryggingin enn og aftur

Saga þessarar konu er sorgleg en því miður er hún fjarri því  að vera einsdæmi. Mig grunar að þorri fólks á Íslandi eigi við sama vanda að stríða. Ástæðan er einföld: Verðtrygging lánsfjár. Verðbólgan hefur geysað á undanförnum árum og hefur ekki verið í námunda við verðbólgumarkmiðið, 2,5%, um nokkurra ára skeið. Á meðan fitna verðtryggðu lánin eins og púkinn á fjósbitanum.

Í gær birtist grein eftir hagfræðing í Seðlabankanum sem fullyrðir að verðtryggð jafngreiðslulán séu hagkvæm heimilunum. Ég hefði gaman af að sjá hvernig hann ætlar að réttlæta það fyrir þeim sem eru í sömu stöðu og konan sem Mbl. hefur rætt við.

Þetta er ófremdarástand og ég hugsa að ríkisstjórnin þurfi ekki nema eina aðgerð til þess að vinna kosningarnar í vor. Afnám verðtryggingar.


mbl.is Föst í of lítilli íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hagfræðingur í Seðlabankanum !!!". Þú mátt geta, hvers vegna þjóðin er í þessum vanda sem hún er í núna. Einmitt hagfræðingar í íslenska efnahagskerfinu.

Íslendingur sem kaupir fasteign í dag er þræll eigna sinna um ókomna framtíð og einvörðungu út af röngu hagkefi. Ég var alltaf á móti því að Ísland gengi í EU, en það besta fyrir þjóðina í dag er að komast undir hælinn á ráðamönnunum í Brussel.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 08:35

2 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Nú ert þú hagfræðilega menntaður. Hvernig getur þú útskýrt það fyrir mér hvort að þessi dama sé betur sett með lán sem bera óverðtryggða vexti upp á 20-25%?

Afhverju í ósköpunum er fólk ósátt við verðtrygginguna?  Það er verðbólgan sem er vandamálið. Vissulega er það rétt að verðtryggingin virkar á vissan hátt verðbólguhvetjandi en það er óþarfi að setja hana sem eina skrattann.

Ólafur Guðmundsson, 12.2.2009 kl. 08:48

3 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll Ólafur!

Ég vil byrja á að biðja þig um að fara inn á vef einhvers bankanna og fara inn í lánareiknivélarnar. Á vef Glitnis má t.d. finna vél með verðtryggðu láni og aðra með óverðtryggðu. Sláðu inn breytur, passaðu bara að hafa sömu breyturnar og mundu að stilla verðbólguna á verðtryggða láninu. Þá ætti þetta að koma fram svart á hvítu.

Vandamálið er það að verðbæturnar hlaðast upp á höfuðstólinn þar sem þær eru svo háar. Síðan bætast við vextir á verðbæturnar sem hækkar höfuðstólinn enn meira. Kíktu á dæmið á einhverri reiknivélinni og segðu mér hvað kom út úr því.

Ég vil meina að ef engin væri verðtryggingin yrði verðbólgan ekkert vandamál til lengri tíma. Háir vextir myndu bíta mun hraðar og fólk myndi fara að taka mark á þeim. Það er ekkert lögmál að það eigi að vera há verðbólga á Íslandi.

Guðmundur Sverrir Þór, 12.2.2009 kl. 09:32

4 Smámynd: Hlédís

Þakka pistilinn, Guðm. Sverrir! Verðtyggingin fer verr með fólkið í landinu en allt annað - þar með taldir svikamYlluræningjarnir!    Hún 30 ára gömul mistök. " Af hverju í ósköpum" spyr Ólafur Sverrisson. 

Hér kemur grunnskólareikningur að haldi:    18 + 2 eru 20  , Ólafur!  20% vextir  á Óverðtryggt lán samsvara nú 2% vöxtum á Verðtryggt!  Sérð þú mikið af þannig lánum? Önnur lönd hafa breytilega vexti sem eru verðbólga mæld á réttlátan hátt + hæfileg prósenta. Þessu stýra Seðlabankar landanna.

Hlédís, 12.2.2009 kl. 09:57

5 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Sæll Guðmundur,

já ég fór inn á vef Glitnis og mér til mikillar undrunar þá bjóða þeir upp á þann möguleika að reikna út bæði óverðtryggt og verðtryggt íslenskt íbúðarlán. Hér kemur dæmið upp á 22.000.000 kr. lán (það viðrist vera upphaflega upphæðinn á láni þessarar konu).

Verðtryggt íbúaðrlán til 40 ára:

Vextir 6,5% verðbólga 2,5% (Mikil óvissa í þessu en þetta er verðbólgumarkmið Seðlabankans)

Fyrstu fimm afborganirnar eru frá 129.186 kr. og upp í 130.253 kr. (m.ö.o. við léttum á greiðslubyrði dagsins í dag).

Jafnvel þó að það er reiknað með mjög mjög óraunhæfri verðbólgu (18% eins og hún er í dag) þá hækkar greiðslubyrðin aðeins frá 130.709 kr. og upp í 138.117 kr.

Óverðtryggt íbúðarlán til 40 ára:

Lánið sem Glitnir býður upp á er þannig að gjalddagar eru 4 á ári (þriggja mánaða fresti).

Vextir eru 19,8% og greiðslubyrðin á fyrstu afborgunni er 1.226.975 kr. Ef að við deilum því niður á mánuði þá er það 408.992 kr.

Hvernig getið þið mótmælt mér þegar ég held því fram að hún sé ekki betur sett með óverðtryggt lán. Er þessi kona ekki betur sett með því að borga u.þ.b. 130.000 kr. á mánuði heldur en að borga u.þ.b. 1.200.000 kr. á þriggja mánaða fresti?

Heldur fólk virkilega að vextirnir á íbúðarlánunum hækki ekki þegar verðtryggingi verður bönnuð? Fólk á að sjálfsögðu að hafa val um það hvort að það taki verðtryggt eða óverðtryggt lán.

Ólafur Guðmundsson, 12.2.2009 kl. 11:35

6 Smámynd: Hlédís

Getur Ólafur skýrt muninn á heildargreiðslu fyrir  jafnhá verðtryggð lán Íslandi og óverðtryggð lán í öðrum löndum? Held ekki - og ætti ekki að reyna!

Hlédís, 12.2.2009 kl. 12:10

7 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Vissulega verður greiðslubyrðin erfið, það er einmitt lykillinn að því að stýrivextir bíti, en konan sem rætt er við er ekki að kvarta undan greiðslubyrði og gagnrýni mín á verðtrygginguna kemur greiðslubyrðinni ekkert við. Aðalatriðið er að heildarendurgreiðslan er svo himinhá þegar um verðtryggð lán er að ræða. Tökum þetta 22 milljón króna lán og miðum við 2,5% verðbólgu. Heildargreiðsla eftir 40 ár er 105 milljónir króna, og ef miðað er við 18% verðbólgu er heildargreiðsla 7 milljarðar og 46 milljónir plús klink. Heildargreiðsla af óverðtryggðu láni með 19,8% vöxtum er tæplega 110 milljónir.

Það er óraunhæft að verðbólga verði 18% um ókomna tíð en það er jafn óraunhæft að ætla að óverðtryggðir vextir verði 19,8% um ókomna tíð. Gefum okkur að vaxtastigið sé að meðaltali 9% á lánstímanum (sem eru háir vextir). Þá er heildargreiðsla á mánuði tæpar 62 milljónir og meðalgreiðslubyrði á mánuði um 210 þúsund. Þetta má bera saman við verðtryggt lán með 2,5% verðbólgu. Taka ber fram að reiknivélin leyfir ekki breytingu á vaxtastigi verðtryggðu lánanna.

Annað atriði sem hefur alltaf truflað mig er að greiðslubyrði verðtryggðra lána eykst þegar á líður, verður t.d. 350 þúsund á mánuði síðustu gjalddaganna. Þá eru margir þeir sem hafa tekið 40 ára lán að detta inn í lífeyriskerfið og ég minnist þess ekki að hafa heyrt um ellilífeyrisþega með 350 þúsund krónur á mánuði, ekki almennan að minnsta kosti.

Bestu kveðjur

Guðmundur Sverrir Þór, 12.2.2009 kl. 12:26

8 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Svar við athugasemd númer 1:

Hagfræðingar í Seðlabankanum eru flestir, ef ekki allir, mjög hæfir í sínu starfi. Ég hef, sem blaðamaður, átt við þá mjög góð samskipti í gegnum árin. Hins vegar virðast þeir haldnir þeirri meinloku að verðtryggingin sé almenningi til góða og þar er ég ekki sammála. Þeir eru ekki mjög móttækilegir fyrir rökum gegn verðtryggingu og því kallaði ég þá strúta. Að öðru leiti hef ég ekkert við þá að athuga.

Varðandi athugasemd númer 6 vil ég segja að ég hef lengi pælt í þessu með verðbólgumælingarnar og ég tel þá aðferð sem notuð er á Íslandi alls ekki slæma. Get í raun ekki séð hvernig ætti að mæla hana öðruvísi. Það er verðtryggingin sem er vandamálið, ekki verðlagsmælingin.

Guðmundur Sverrir Þór, 12.2.2009 kl. 12:33

9 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Athugasemd númer 4 um verðlagsmælinguna, afsakið.

Guðmundur Sverrir Þór, 12.2.2009 kl. 12:33

10 Smámynd: Hlédís

þakka öll innlegg Guðm S Þ!  ég veit að til er skárri verðviðmiðun en neysluvísita sem ekki er í takt við launabreytingar. Slikt er athugað eftir föngum í löndum sem ákveða breytilega vexti óverðtryggðra skuldbindinga. hef ekki uppskriftina enda ekki hagfræðingur!

Hlédís, 12.2.2009 kl. 12:54

11 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki heyrt um slíkt. Eru launabreytingar teknar með í vísitöluna?

Guðmundur Sverrir Þór, 12.2.2009 kl. 13:07

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Guðmundur Sverrir,

Ég mæli með að þú kíkir á opinn fund Hagsmunasamtaka heimilanna í kvöld kl. 20:00 að Borgartúni 3. Þar tel ég að skoðanir þínar eigi sterkan hljómgrunn með öflugum hóp.

Heimasíða hagsmunasamtaka heimilanna

Með bestu kveðju,

Hrannar

Hrannar Baldursson, 12.2.2009 kl. 13:31

13 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll Hrannar!

Því miður er ég fluttur til Svíþjóðar þar sem ég er í doktorsnámi í hagfræði. Annars myndi ég glaður koma. Sendu mér tölvupóst á sverrir.thor@ekon.slu.se og þá getum við rætt saman.

Bestu kveðjur

G. Sverrir

Guðmundur Sverrir Þór, 12.2.2009 kl. 13:44

14 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Ég verð bara að bæta við (áður en að lokað verði á athugasemdir við þessa frétt).

Ég varð undrandi á skrifum þínum sem doktorsnemi í hagfræði og þessvegna fór ég að athuga hvar þú værir í doktorsnámi. Svo virðist sem að skólinn þinn sé landbúnaðarháskóli. Það er reyndar kennd einhver hagfræði í grunnnámi (B.a og B.sc.) en ekkert minnst á doktorsnám.

Ertu ekki bara að stunda búfjárnám?

Ólafur Guðmundsson, 18.2.2009 kl. 01:33

15 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Það mætti ætla það. Nei, ég er í doktorsnámi eins og sjá má af eftirfarandi tengli: http://anstallda.slu.se/person.cfm?200902141786089

Námskeið eru keyrð í samvinnu við háskólann í Uppsölum og Stockholm School of Economics.

Hvað var það sem þú ert undrandi á? Sú fullyrðing að verðtryggingin sé slæm eða eitthvað annað?

Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband