Rökin fyrir því að frysta bankakerfið í eitt ár

Fyrir ekki svo löngu síðan lagði ég hér á blogginu fram þá hugmynd að íslenska bankakerfið yrði fryst í eitt ár miðað við stöðu einhvers fyrirfram ákveðins dags. Þetta er hugmynd sem fæddist hjá mér í haust þegar ég var að ræða við fyrrum kollega minn af Morgunblaðinu um frystingu á gengistryggðum lánum. Því meira sem ég velti þessu fyrir mér því sannfærðari verð ég um ágæti þessarar hugmyndar og að hún sé framkvæmanleg. Í áðurnefndri bloggfærslu fór ég ekki mjög ítarlega ofan í hvað ég á við en það hyggst ég gera nú.

Með frystingu bankakerfisins á ég við að frá og með þeim degi sem frystingin á sér stað,  segjum t.d. 15. mars, muni viðskiptavinir bankanna (og reyndar Íbúðalánasjóðs líka) ekki þurfa að greiða af lánum sínum í eitt ár og ég tek það fram að hér er átt við alla viðskiptavini (einstaklinga og fyrirtæki), öll lán og jafnframt að skuldirnar munu ekki safna vöxtum og verðbótum á meðan frystingin er í gildi. Að sama skapi þurfa bankarnir ekki að greiða vexti af innlánum og ekki af annarri fjármögnun á sama tímabili. Ekkert kemur inn og ekkert fer út miðað við stöðuna þann 15. mars, en innistæðueigendur geta þó tekið út eins og venjulega. Þessi frysting er síðan í gildi í eitt ár en það þýðir þó ekki að allir bankar verði lokaðir í eitt ár, bankakerfið heldur áfram að virka eins og það gerði fyrir frystingu þannig að greitt er af öllum lánum sem veitt eru eftir 15. mars, bæði vextir og afborganir, og greiddir eru vextir af öllum innlánum sem lögð eru inn eftir 15. mars.

Á sama tíma verður komið á skyldusparnaði upp á t.d. 20-30% en afganginum af ráðstöfunartekjum sínum geta neytendur, og fyrirtæki, ráðstafað að vild. Skyldusparnaðurinn ber vexti og greiðsla hvers mánaðar er laus til útborgunar ári eftir að hún er lögð inn. Bankakerfið ætti því ekki að komast í lausafjárþrot þar sem velta verður töluverð í hagkerfinu.

Með frystingunni er umsvifalaust reist hin margumrædda skjaldborg um efnahag heimila og fyrirtækja auk þess sem hún gefur stjórnvöldum ráðrúm til þess að meta í ró og næði kostina hvað varðar niðurfærslu skulda og jafnframt að vinda ofan af verðtryggingunni og afnema hana síðan í ró og næði. Að sama skapi geta neytendur notað allar ráðstöfunartekjur sínar, að undanskildum skyldusparnaðinum, í hinn daglega rekstur heimilisins og þannig má snúa hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Skyldusparnaðurinn gefur heimilum og fyrirtækjum síðan kost á því að byggja upp varasjóð auk þess sem ört byggist upp fjárfestingargeta í hagkerfinu, svipað og lífeyrissjóðirnir, sem nota má til opinberra framkvæmda er auka skilvirkni samfélagsins, t.d. vegagerðar o.s.frv.

Eins og ég sagði í upphafi þá er ég þess fullviss að þessi leið er framkvæmanleg en spurningin er hins vegar um kostnaðinn sem ég hef ekki upplýsingar til þess að meta. Ljóst er að allar leiðir til þess að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu verða dýrar og bera verður saman kostnaðinn af hinum ýmsu tillögum og skoða hann einnig í ljósi fórnarkostnaðarins, þ.e. hins samfélagslega kostnaðar sem hlýst af því að gera ekki neitt.

Ég vona að mér hafi takist að skýra þetta út á skiljanlegan hátt og mér þætti vænt um að fá athugasemdir við þessar vangaveltur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Tja það eina sem að ég sé að þessu er að Íbúðarlánasjóður er sjálfur fjármagnaður með lánum, og svo auðvitað bankarnir sem að verða endurfjármagnaðir með lánum. Ef að ríkið sér um allar greiðslur þessara aðila til aðila erlendis þá sé ég ekkert að þessu. Ef ríkið sér um að standa við skuldbiningar íslenskra fjármálastofnana erlendis yfir þetta tímabil þá held ég að þetta sé vel framkvæmanlegt.

Það er töluvert langt síðan að ég mótaði mér þá skoðun að Íslendingar kunni ekki að fara með peninga. Ég vissi að fólkið í landinu kynni ekki að fara með peninga en ég vissi ekki að þessi vankunnátta risti svo djúpt að hvorki stjórnendur fyrirtækja eða banka kynnu ekki heldur að fara með peninga. Ég held að skyldusparnaður sé eitthvað sem að við verðum að taka upp hér á landi, því að það er útséð með það að Íslendingar spari sjálfir.

Jóhann Pétur Pétursson, 27.2.2009 kl. 10:09

2 identicon

Mjög áhugavert. Mig skortir bara hagfræðilegt innsæi til að taka þátt í rökræðum um þetta. Ég væri til í að sjá einhverja sniðuga kíkja hérna inn og gagnrýna þetta.

Mbk,
Drengur

Drengur (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 10:14

3 identicon

Frambjóðandi í prófkjöri Vinstri Grænna sem skortir hagfræðilegt innsæi - af hverju kemur það ekkert á óvart

Gulli (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 16:31

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Eins og ég segi þá er alveg ljóst að þessi leið mun hafa í för með sér kostnað, eins og allar aðgerðir í áttina að því að bjarga heimilunum í landinu. Þess vegna þarf að meta kostnað við allar mögulegar lausnir og meta hann í ljósi áhrifanna.

Guðmundur Sverrir Þór, 27.2.2009 kl. 22:56

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þessi annars áhugaverða uppástunga hefur að minnsta kosti einn agnúa sem ég sé í fljótu bragði.  Það er hópur af fólki, trúlega stærri en mætti virðast, sem skuldar bönkunum ekki neitt en á einnig lítið sem ekkert sparifé.  Þetta er fólkið sem  eyðir ekki umfram efni með lántökum, getur látið launin sín duga til framfærslu en hefur ekki haft tök á að leggja fyrir sparifé annað en í formi lífeyrisgreiðslna.

Verði þessu fólki gert að greiða skyldusparnað, 20-30% af laununum, er fjárhag og afkomu þeirra komið í sömu klípu og skuldaranna.

Kolbrún Hilmars, 2.3.2009 kl. 11:06

6 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæl Kolbrún!

Takk fyrir þessa fínu ábendingu. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki leitt hugann að þessum hópi, ég hafði pælt í þeim sem eru skuldlausir og eiga afgang (hinum svokölluðu fjármagnseigendum) og hafði hugsað upp gott svar við andmælum þeirra en auðvitað eru þeir til sem skulda ekkert og lifa varlega. Eflaust væri hægt að koma á móts við þennan hóp en þó þarf að gæta jafnræðis.

Ég held reyndar að það sé alveg sama hvaða aðgerða er gripið til, þær munu allar koma sér illa fyrir einhverja. Hins vegar er ljóst að það verður að grípa til aðgerða því það er allra hagur að á Íslandi verði ekki fjöldagjaldþrot (sérstaklega einstaklinga), einfaldlega vegna kerfislægra áhrifa slíks áfalls.

Guðmundur Sverrir Þór, 2.3.2009 kl. 13:25

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll aftur Guðmundur.  Ég hef hugsað fram og til baka um hvernig megi leysa áhrif þessarar óréttlátu, að mínu mati, verðtryggingu á húsnæðislánum sem fór algjörlega úr böndunum við bankahrunið.  

Sanngjarnasta leiðin sýnist mér að skera niður hækkanir á verðtryggingunni um 50% og láta lánveitandann bera jafnt tap og lántakandann.  Allar aðrar björgunaraðgerðir, svo sem skattalegar, virðast bitna að einhverju leyti á blásaklausu ráðdeildarfólki.

Kolbrún Hilmars, 2.3.2009 kl. 14:28

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég segi nú eins og einn hér að ofan, að mig skortir hagfræðilegt innsæi til að skilgreina þetta, en þetta hljómar vel. Það sem ég hugleiði í þessu samhengi er verðtryggingin. Ef hún stendur, er þetta einvörðungu lenging í ólinni.  Þetta er eins og flókinn rúbrik teningur að leysa. Allt hefur áhrif á hvort annað innbyrðis. Ef þetta yrði gert, þá fyndist mér hreinlega að afskrifa mætti uppsafnaðar verðbætur að loknu tímabilinu og jafnvel afturvirkt inn í október 08.  Ef þetta er ekki verðtryggt, þá gildir það sama  í raun að rýrnunin verður samkvæmt vísitölunni.  Málið er að það þarf að bjarga fyrirtækjunum líka og þau eiga erfitt um vik og án þeirra er engin atvinna. ef verðbótum á lánum fjölskyldna og fyrirtækja verður aflétt og það afturvirkt og bara á þessum þáttum, þá er von að þetta jafni sig einhvernveginn.  Taka vísitöluna úr sambandi á afmörkuðum stöðum, annar verður enginn fær um að borga neitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 20:01

9 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Það er í mínum huga óumflýjanlegt að taka verðtrygginguna úr sambandi og bakfæra hana svo. Ég hef verið þeirrar skoðunar alveg síðan árið 2004 þegar ég kom til Íslands úr námi og byrjaði Mogganum, enda hefur ég margoft skrifað um það. Að mínu mati er einn af kostunum við þessa leið sem ég legg til einmitt að það gefum mönnum tíma til þess að losna við verðtrygginguna.

Guðmundur Sverrir Þór, 2.3.2009 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband