Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hugleiðingar í tilefni Jarðarstundar

LIM 0197

Eftirfarandi pistill birtist eftir mig í Viðskiptablaðinu í dag:

 

Hugleiðingar í tilefni Jarðarstundar

Jarðarstund, sem á ensku nefnist Earth hour, var haldin hátíðleg um liðna helgi en eins og mörgum er eflaust kunnugt felst „hátíð“ þessi í meginatriðum í því að fólk slekkur ljósin heima hjá sér og slekkur á „ónauðsynlegum“ rafmagnstækjum í eina klukkustund. Sömuleiðis voru ljósin slökkt á mörgum þekktum kennileitum víða um heim, svo sem Eiffel-turninum, óperuhúsinu í Sydney og svona mætti lengi telja. Þá er slökkt á auglýsingaskiltum o.s.frv., allt til þess að vekja almenning til umhugsunar um loftslagsbreytingar og hvetja til samstöðu í baráttunni fyrir hreinna umhverfi.

Margir, sennilega meirihluti þó ég byggi þá ágiskun á tilfinningu en ekki neinum tölum, hafa miklar áhyggjur af hnatthlýnun og öðrum loftslagsbreytingum sem sagðar eru af mannavöldum en þeir eru sömuleiðis margir sem fussa og sveia í hvert skipti sem umhverfismál ber á góma og segja umræðuna á villigötum. Máli sínu til stuðnings benda þeir síðarnefndu á að við getum ekkert fullyrt um að loftslagsbreytingarnar, ef einhverjar eru, séu af mannavöldum en ekki hluti af náttúrulegri hringrás. Hringrás sem nær yfir mun lengri tíma en þann sem veðurfars- og loftslagsmælingar hvers konar spanna. Þetta er vissulega réttmæt ábending en ég hef þó tvennt við þennan málflutning að athuga, eða öllu heldur, ég set tvö spurningarmerki við hann.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég tel mig engan sérstakan umhverfissinna og álít mig vera hlutlausan í umræðunni um umhverfismál. Ég er ekki kolefnisjafnaður, ég ek ekki um á umhverfisvænum bíl og ég sortera ekki ruslið mitt (fyrir utan að ég fer með flöskur og dósir í endurvinnslu þar sem ég fæ smávegis viðbót í budduna fyrir ómakið). Ég slökkti þó ljósin klukkan hálfníu á laugardagskvöldið og hafði þau slökkt í klukkustund; að hluta til vegna hjarðhegðunar en einnig til þess að sýna samstöðu og sömuleiðis vegna þess að ég vil vekja son minn til umhugsunar um þessi mál.

Spurningamerkin tvö

Víkjum nú aftur að þeim spurningamerkjum sem ég vil setja við málflutning áðurnefndra efasemdarmanna. Eins og ég segi benda þeir réttilega á að erfitt, nánast ómögulegt, sé að sanna að loftslagsbreytingar (ef einhverjar eru) séu af mannavöldum. Gott og vel, en geta þessir sömu sannað með óyggjandi hætti að loftlagsbreytingar séu engar eða að þær séu ekki af mannavöldum? Svo má vel vera en ég hef þó ekki séð (eða heyrt) slíkar sannanir. Því spyr ég: Á meðan við vitum þetta ekki fyrir víst, hvers vegna eigum við að taka aukna áhættu?

Þetta var fyrra spurningamerkið en hið síðara er að mínu mati mikilvægara. Hvers vegna eigum við ekki að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hreinsa til í kringum okkur þó svo við getum ekki fært á það óyggjandi sönnur að loftslagsbreytingar eigi sér stað eða að þær séu af völdum mannanna, og þá sérstaklega skítugrar iðnaðarframleiðslu og notkunar skítugra orkugjafa. Á undanförnum áratugum hefur mannkynið gengið mjög harkalega á takmarkaðar auðlindir (munum að allar auðlindir eru takmarkaðar) og gildir þá einu hvort um er að ræða málma og ýmis konar hrávörur eða orkugjafa á borð við jarðefnaeldsneyti. Úrgangi hefur verið fleygt um allar jarðir og jafnvel þótt hann sé urðaður á skilvirkasta hátt sem við þekkjum veldur það alltaf einhverri mengun. Hið sama á við um brennslu jarðefnaeldsneytis. Máski veldur þetta ekki loftslagsbreytingum en við þurfum ekki að kúka hvar sem við komum og okkur ber skylda til þess að skila Hótel Jörð í sama, ef ekki betra, ásigkomulagi og við tókum við henni.

Að lokum

Þegar ég var að kynna mér Jarðarstundina á alfræðivefnum Wikipedia tók ég eftir því að Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki tekur yfirlýstan þátt í átakinu, og hefur aldrei gert. Hvers vegna? Að þessu sögðu óska ég lesendum Viðskiptablaðsins gleðilegra páska.


Næsta skref stigið í Afríku

Líkt og margir aðrir hef ég löngum heillast af Afríku og langar mig mikið til að heimsækja þá álfu þegar fram líða stundir. Afríka hefur stundum verið kölluð dularfull heimsálfa og jafnvel dulmögnuð og þó ég viti ekki hvort sú lýsing sé rétt verð ég að segja að aðdráttarafl hennar er mikið. Þessi áhugi minn á Afríku hefur m.a. tekið á sig þá mynd að ég fylgdist töluvert með þróun efnahagsmála í álfunni þegar ég var á Mogganum og skrifaði nokkrar greinar þar um.

Sú fyrsta þeirra birtist hér að neðan en kveikjan að henni var annað áhugasvið mitt, þ.e. hrávörumarkaðir, enda höfðu mörg Afríkuríki töluverðan hag af þenslunni á hrávörumörkuðum á misserunum fyrir hundadagakreppuna. Greinin er skrifuð í desember 2007, tæpu hálfu ári eftir að bóla tók á kreppunni en þá voru hrávörur enn á blússandi siglingu.

 

Næsta skref stigið í Afríku

Hagvöxtur í ríkjum Afríku sunnan Sahara er nú meiri en nokkru sinni frá lokum nýlendutímans. Aukin eftirspurn eftir hrávörum á stóran þátt í þróuninni

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

Ýmiss konar hrávörur, s.s. málmar, olía og ýmiss konar landbúnaðarafurðir, hafa hækkað mikið í verði á heimsmarkaði að undanförnu með tilheyrandi verðbólguþrýstingi á heimshagkerfið, sérstaklega á Vesturlöndum. Ein er þó sú heimsálfa sem nýtur góðs af hækkununum og grætur þær því varla. Sú heimsálfa er Afríka en þar eru nú gífurlegir vaxtarmöguleikar fyrir hendi.

Hagvöxtur hefur ekki verið hraðari í þrjá áratugi í löndunum sunnan Sahara og verðbólga ekki minni, þegar frá er talið Simbabve, þar sem efnahagslegur glundroði ríkir og verðbólga nálgast 8.000%.

Í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, um efnahagsástandið í Afríku, er því spáð að hagvöxtur í álfunni verði á þessu ári 6% og á næsta ári 6,5% en verðbólga verði 7,5% í ár og enn lítil á næsta ári.

Það eru þó ekki einungis verðhækkanir á hrávörum sem hafa kveikt hagvaxtarbálið í Afríku, stór hluti af skýringunni er að mati IMF sú staðreynd að hagstjórn hefur batnað til muna í flestum ríkjum álfunnar og efnahagsumbætur verið gerðar með efnahagslegan stöðugleika í huga. Í kjölfarið hefur aðgengi ríkjanna að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, þ.e. lánsfé, batnað til muna sem og kjörin þar á. Lánveitendur treysta Afríkuríkjum nú einfaldlega mun betur en áður sem skilar sér í aukinni og betri lántöku sem síðan er hægt að nota til þess að styðja við uppbyggingu hagkerfana. Þá hefur dregið mikið úr milliríkjadeilum auk þess sem viðskiptakjör Afríkuríkja á alþjóðavettvangi hafa batnað – nokkuð sem að einhverju leyti má rekja til betri afkomu þeirra í kjölfar hækkandi afurðaverðs.

Fjármagnið flæðir inn

Financial Times greindi nýlega frá því að það væri ekki einungis lánsfé sem streymdi inn í Afríku. Asía hefur á undanförnum árum og áratugum sogað til sín fjármagn fjárfesta í leit að góðri ávöxtun en eftir því sem hagkerfi þeirrar álfu hafa þróast hefur ávöxtun fjárfestinga smám saman dregist saman í Asíu. Fjárfestar í leit að góðri ávöxtun beina því sjónum í æ meiri mæli til Afríku þar sem hagkerfin eru, þrátt fyrir allt, flest á frumstigi þróunar enn um sinn.

„Afríka er stærsti og mest spennandi hópurinn á meðal ónuminna markaða og allir vilja hlut af kökunni,“ segir Richard Segal, skuldabréfasérfræðingur hjá rússneska fjárfestingarbankanum Renaissance Capital, í samtali við FT. Þá hefur di.se eftir Mark Hammond, sjóðsstjóra EMEA-sjóðs Fidelity, að gengi hlutabréfa í Kína sé almennt orðið frekar hátt en Mið-Austurlönd og Afríka séu ódýrari. Þar sé V/H hlutfall hlutabréfa gjarnan lægra en 10 – V/H er hlutfall markaðsvirðis og hagnaðar fyrirtækis og því lægra sem það er því betra. Samkvæmt di.se er 40% eigna sjóðs þess er Hammond stýrir í Afríku en hann tekur þó fram að þótt möguleikarnir séu miklir sé enn töluverð áhætta fólgin í því að fjárfesta í álfunni.

Þess ber að geta að þótt fjárfestar beini fé sínu í auknum mæli til Afríku á álfan mjög langt í land með að ná Asíu hvað hreinar upphæðir varðar.

Það er þó ekki einungis minnkandi ávöxtun á fjárfestingum annars staðar sem laðar fjárfesta til Afríku. Margir sjá álfuna sem örugga höfn í ólgusjó þeim sem einkennt hefur fjármálamarkaði heimsins að undanförnu.

Áhuginn hefur aukist umtalsvert á undanförnum mánuðum samkvæmt FT enda virðist lítil fylgni vera á milli markaðsþróunar á milli ríkja í Afríka og enn minni er hún út fyrir álfuna. „Afríka er heimur sem í alsælu er óvitandi um veðlánablóðbaðið og kreppuna á bandarískum fasteignamarkaði,“ segir Jeremy Gardiner, framkvæmdastjóri hjá Investec Asset Management, fyrirtæki sem stýrir eignum að andvirði um 34 milljarða dala í Afríku.

Samkvæmt IMF nam samanlögð fjárfesting erlendra einkaaðila í Afríku 45 milljörðum dala á síðasta ári, sem er fimmföldun frá árinu 2000 og þreföldun frá árinu 2003. 45 milljarðar dala eru jafnframt um 6% af samanlagðri landsframleiðslu ríkjanna í Afríku sunnan Sahara. Þá mun hrein erlend fjárfesting í álfunni (þ.e. þegar dregin hefur verið frá fjárfesting Afríkumanna utan álfunnar) nema um 18 milljörðum dala á þessu ári samkvæmt spám IMF og munar þar mest um kaup Iðnaðar- og verslunarbanka Kína (ICBC) á 20% hlut í Standard Bank frá S-Afríku. Fyrir þann hlut mun kínverski bankinn greiða 5,5 milljarða dala, jafngildi um 340 milljarða króna. Kínverjar hafa reyndar verið stórtækir þegar kemur að fjárfestingum í Afríku og er fjárfesting ICBC lýsandi dæmi þar um.

Er viðskiptahallinn ógn?

Ein afleiðing af aukinni erlendri fjárfestingu er afleiðing sem við Íslendingar þekkjum orðið ágætlega. Viðskiptahalli er umtalsverður hjá flestum ríkjum Afríku sunnan Sahara en eins og fram kom í máli bandaríska hagfræðingsins Arthurs Laffers í Þjóðmenningarhúsinu nýlega þarf viðskiptahalli ekki endilega að vera áhyggjuefni, að vissum skilyrðum uppfylltum þó.

Það er t.d. mjög mikilvægt að það fé sem kemur inn í hagkerfið þegar erlend fjárfesting eykst sé nýtt á skilvirkan hátt og beint inn í frjó fjárfestingarverkefni sem, þegar fram líða stundir, skila tekjum og borga sjálf sig í raun upp.

Það er verra þegar erlenda fjármagnið er nýtt til þess að fjármagna mikla neyslu í hagkerfinu eða einfaldlega notað í verkefni sem ekki munu skila miklum tekjum í framtíðinni. Ennfremur getur langvarandi og viðvarandi hár viðskiptahalli verið áhyggjuefni en til skamms tíma þarf hann alls ekki að vera það eins og áður segir.

Ýmislegt að varast

S-Afríka er almennt álitin þróaðasta hagkerfi Afríku og er hún að mati IMF leiðarstjarna annarra ríkja álfunnar sem nú vaxa ört. Þeirra á meðal má nefna Nígeríu og Angóla sem bæði búa yfir auðugum olíulindum. Nígería hefur á örfáum árum nánast þurrkað út gífurlegar skuldir sínar við útlönd og mikið starf hefur verið unnið í þá átt að útrýma spillingu í landinu. Þá hefur Ghana tekið stór skref í áttina að kerfisumbótum sem ættu að ýta undir hagvöxt. En örum hagvexti fylgja margar hættur og því er margt að varast.

Mikilvægt er að þenslan verði ekki of hröð þannig að verðbólgan slíti af sér öll bönd. Ennfremur verða hin ört vaxandi hagkerfi Afríku að vara sig á hollensku veikinni – ruðningsáhrifum þeim er nýr og spennandi iðnaður getur valdið – og halda verður áfram að byggja upp innviði samfélagsins til þess að vöxturinn geti haldist.

Takist þetta er ljóst að hnattvæðingin mun skila Afríku aukinni velmegun og eiga stóran þátt í að draga úr örbirgð í þessari fátækustu álfu heimsins.

 

 

 


Spyrjum markaðinn

Nýlega sat ég námskeið í því sem á ensku heitir Behavioural economics (ég hef aldrei heyrt neitt gott íslenskt nafn á þessum kima hagfræðinnar en hallast helst að því að kalla þetta sálfræðilega hagfræði) í viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi. Þeir hagfræðingar sem aðhyllast sálfræðilega hagfræði gera sér grein fyrir því að ýmsar þær grunnforsendur sem fræðimenn gefa sér í hefðbundinni nýklassískri hagfræði byggja á sandi og eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þar á meðal má nefna að markaðsaðilar hagi sér ávallt rökrænt (e. Rational) og sömuleiðis að markmið allra sé ávallt að hámarka eigin nyt (e. Utility). Ég mun ef til vill skrifa meira um þessi mál á næstunni en legg þau þó að mestu til hliðar nú þar sem til stóð að fjalla um annað.

Behavioural economics hét áður experimental economics og eins og gamla nafnið gefur til kynna er grunnhugsunin að gera félagslegar tilraunir og sjá hvernig fólk bregst við aðstæðum, hvaða áhrif mismunandi aðstæður hafa á ákvarðanatöku þeirra. Niðurstöður þessara rannsókna nota hagfræðingar svo til þess að þróa betur þær kenningar sem við byggjum fræðin á og öðlast betri skilning á því hvers vegna hagkerfið hagar sér eins og það gerir.

Hluti af námskeiðinu fólst einmitt í því að hanna eigin tilraun og þarna komu fram margar góðar hugmyndir en ein er mér þó minnisstæðari en aðrar, ekki endilega af því að hún var betri en aðrar heldur af því að hún snerti kenningu sem ég hef oft velt fyrir mér: tilgátuna um skilvirka markaði (The efficient market hypothesis). Viðkomandi hagfræðingur (sem stundar doktorsnám í hagfræði við KTH (konunglega tækniháskólann) í Stokkhólmi hefur verið að rannsaka fasteignamarkaðinn og hafði í fyrrasumar kynnt rannsóknir sínar á ráðstefnu hagfræðinga um fasteignamarkaðinn. Hann sagði aðra ráðstefnugesti hafa lítið mark tekið á niðurstöðunum enda stæðust þær ekki tilgátuna um skilvirka markaði. Ég veit því miður ekki hverjar niðurstöður hans voru en alltént gekk tilraun sú sem hann lagði til út á að kanna hvort fjárfestar á fasteignamarkaði tryðu á tilgátuna áðurnefndu.

Tilgátan um skilvirka markaði var sett fram fyrir nokkrum áratugum síðan af Eugene Fama og hefur af einhverjum ástæðum orðið veigamikill þáttur í rannsóknum hagfræðinga á fjármála- og eignamörkuðum. Eins og eflaust má lesa út úr þessum orðum mínum, sem og fyrirsögn þessarar bloggfærslu tel ég þessa tilgátu vera bull hið mesta og kalla ég hana stundum bábiljuna um skilvirka markaði (the efficient market fallacy). Í stuttu máli gengur kenning Fama út á að verð fjármálagjörninga og eigna ráðist alltaf af þeim upplýsingum sem fyrir liggja á markaði hverju sinni, ómögulegt er að spá fyrir um verð í framtíðinni og fortíðin hefur ekkert að segja. Markaðurinn er einfaldlega skilvirkur (sem skv. skilgreiningu felur í sér að allir markaðsaðilar hafi jafnan aðgang að öllum upplýsingum).

Hagfræðingurinn frá KTH vildi sem sé ráðast út í viðamikla könnun á meðal fjárfesta á fasteignamarkaði og komast að því hvort þeir tryðu á þessa kenningu, án þess þó að spyrja þá beint. Í umræðum um hugmynd hans benti ég honum á að þessi könnun hefur þó margoft verið gerð; hún fer fram á hverjum degi og heitir einfaldlega markaður. Fasteignir eru ekki diet kók, þetta eru mjög dýrar eignir og það er útilokað að hinn almenni fjárfestir muni leggja stórkostlegar fjárhæðir í eign nema hann telji sig hafa einhverja hugmynd um hvernig verð eignarinnar muni þróast og að hann geti selt hana með hagnaði þegar fram líða stundir. Vissulega eru margir þessara fjárfesta starfsmenn banka eða fjárfestingarsjóða en kjör þeirra og frami í starfi ráðast af því hvernig þeim tekst að ávaxta pund vinnuveitenda sinna og fjárfestir sem tryði því að að ómögulegt sé að spá fyrir um framtíðarþróun fasteignaverðs myndi einfaldlega ekki taka áhættuna.

Þeir sem kaupa og selja á þeim mörkuðum sem almennt teljast til fjármála og eignamarkaða (ég er ekki að tala um fólk sem er að kaupa sér þak yfir höfuðið), kaupa og selja vegna þess að þeir telja sig geta spáð í framtíðina og því gefur það augaleið að þeir trúa ekki á tilgátuna um skilvirka markaði. Svo einfalt er það.

Ég tel að fjármálakreppan, sem síðan breyttist í  alheimsniðursveiflu og gæti vel orðað að heimskreppu, sé að stórum hluta til komin vegna þess hversu ótrúlega takmarkaður skilningur okkar á markaðnum er. Nýklassísk hagfræði kýs að líta á hann sem óskeikult náttúrulögmál og tilgátan um skilvirka markaði er af þeim meiði sprottin. Við þurfum að öðlast betri skilning á þessu ótrúlega flókna fyrirbæri og kenningar um eðli markaðarins sem ekki einu sinni markaðurinn trúir á eru ekki til bóta. Þær leiða okkur frekar á villigötur.

Og hananú!


Gjaldeyrisbrölt bankanna föllnu

Fréttir af því að fyrrum gjaldeyrismiðlari í Landsbankanum hafi sett saman skýrslu þess efnis að bankarnir hafi unnið kerfisbundið gegn krónunni minntu mig á frétt/samantekt sem ég skrifaði í mars 2008 um nákvæmlega þetta efni. Okkur hjá Mogganum höfðu borist til eyrna orðrómar innan úr bankakerfinu um að starfsemi af þessu tagi ætti sér þar stað en þar sem aðeins var um orðróma að ræða og enginn áreiðanlegur heimildarmaður vildi staðfesta þá áttum við erfitt um vik að segja berum orðum að bankarnir væru að leika sér með krónuna. Þess í stað var ákveðið að vinna fréttina eins og hún er hér að neðan með von um að það kæmi af stað umræðu um málið.

Það tókst ágætlega, um þetta mál spannst mikil umræða og minnistæð eru mér ummæli þáverandi seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins um óprúttna miðlara. Oftast var minnst á Kaupþing í þessu samhengi og þá jafnan að þetta væri fyrst og fremst gert til þess að bæta stöðu stærsta hluthafa bankans fallna enda voru eignir þess hluthafa að stórum hluta erlendar.

Fréttin sem birtist hér að neðan birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. mars 2008 (taka ber fram að henni fylgdu tafla og graf sem ég tel mig ekki hafa leyfi til að birta):

Óinnleystur hagnaður bankanna 154 milljarðar

Óvarlegt að segja að bankinn hagnist á falli krónunnar segir forstjóri Kaupþings

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

ÓINNLEYSTUR hagnaður viðskiptabankanna þriggja af lækkun krónunnar á undanförnum vikum nemur um 154 milljörðum króna. Þar af er hagnaður Kaupþings langmestur, ríflega 101 milljarður króna frá áramótum. Hinir bankarnir tveir komast ekki nálægt þeim upphæðum sem Kaupþing hefur hagnast um en hagnaður þeirra af falli krónunnar er engu að síður töluverður. Rétt er að geta þess að þessar tölur eru miðaðar við upplýsingar í uppgjörum bankanna fyrir árið 2007, þ.e. þær byggjast á gjaldeyrisjöfnuði bankanna frá áramótum en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa allir bankarnir bætt við sig erlendum gjaldeyri það sem af er ári þannig að óinnleystur hagnaður þeirra af lækkun krónunnar er ef eitthvað er meiri en fram kemur hér að ofan og í meðfylgjandi töflu.

Gengisvísitalan var 152,279 stig samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands í gær, sem er 8,1% hækkun frá sl. föstudegi, og hefur hún aldrei verið skráð hærri. Hæsta gildi gengisvísitölunnar fram til gærdagsins var 151,16 stig sem skráð var í lok nóvember 2001. Um áramót var vísitalan 120 stig og hefur gengi krónunnar því lækkað um 26,9% það sem af er ári. Í þeim útreikningum sem hér birtast er miðað við viðmiðunargengi Seðlabankans.

Vörn á eiginfjárhlutfalli

Um áramót var 556 milljarða króna halli á gjaldeyrisjöfnuði bankanna, samkvæmt uppgjörum þeirra, sem felur í sér að þeir áttu andvirði 556 milljarða króna meira í erlendum gjaldmiðlum en krónum, þ.e. bankanir höfðu tekið stöðu gegn krónunni sem nemur 556 milljörðum. Veiking krónunnar felur því í sér að verðmæti erlenda gjaldeyrisins, í krónum talið, eykst sem veikingunni nemur. Hér er þó um að ræða óinnleystan gengishagnað, hygðust bankarnir innleysa hagnaðinn þyrftu þeir að jafna hallann á gjaldeyrisjöfnuðnum út með kaupum á íslenskum krónum. Það hefði í för með sér gengisstyrkingu því eftirspurn eftir krónum myndi myndast og þrýsta verðinu á þeim upp. Innleystur hagnaður bankanna af lækkun krónunnar yrði því líklega seint jafnhár og þær tölur sem hér eru.

Bankarnir skilgreina neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð sinn, séð frá krónum, sem vörn á eiginfjárhlutfalli, eigið fé er í íslenskum krónum og skreppur efnahagsreikningurinn ört saman við mikla styrkingu krónunnar en þenst við lækkun af því tagi sem nú er uppi á teningnum. Um leið sveiflast eiginfjárhlutfallið til og frá, sem ekki myndi auka traust á viðkomandi félagi. Út frá skilgreiningunni er því um eins konar sveiflujöfnunarbúnað að ræða.

Kaupþing hagnast mest

Sem fyrr segir hefur Kaupþing hagnast langmest á lækkun krónunnar enda hefur bankinn mestan halla á greiðslujöfnuði sínum. Staða hans á móti krónunni var um áramót ríflega 364 milljarðar króna. Miðað við 26,9% hækkun gengisvísitölunnar það sem af er ári og gengisfall krónunnar hefur bankinn hagnast um ríflega 101 milljarð króna.

Halli á gjaldeyrisjöfnuði Landsbankans var um áramót ríflega 114 milljónir króna og hefur bankinn hagnast um tæplega 30 milljarða það sem af er ári. Halli á gjaldeyrisjöfnuði Glitnis nam tæplega 78 milljörðum króna um áramótin og hefur bankinn hagnast um tæpa 23 milljarða frá áramótum.

Ekki raunveruleg verðmæti

„Megnið af þeirri upphæð sem hér er um að ræða bætist við eigið fé bankans en lítill hluti þess bókast sem hagnaður af veltufjáreignum á rekstrarreikningi bankans,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, aðspurður um þann óinnleysta hagnað sem bankarnir hafa fengið í kjölfar veikingar krónunnar. Hann segir það óvarlegt að setja málið fram á þann hátt að Kaupþing sé að hagnast verulega á veikingu krónunnar. „Hið rétta er að okkur hefur tekist að verja eiginfjárhlutfall bankans í gegnum þessar miklu sveiflur sem hafa orðið á gjaldeyrismarkaði á undanförnum vikum,“ segir Hreiðar.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir mikilvægt að benda á að þessi hagnaður sé allur í krónum talinn, en megnið af starfsemi bankans fari fram erlendis. „Þar stöndum við nokkurn veginn á sama stað,“ segir Lárus. Hann segir gjaldeyriseign bankanna fyrst og fremst til að verja eigið fé þeirra fyrir gengissveiflum og þó núverandi staða krónunnar gefi til kynna mikinn hagnað, sé ekki um raunverulega verðmætasköpun að ræða. Mikilvægt sé að halda vissri gjaldeyrisstöðu, ekki síst í ljósi markaðsaðstæðna. Hjá Glitni er gjaldmiðlahreyfing færð yfir eigið fé, en vaxtakostnaður við gjaldeyrisstöðu fer inn í rekstrarreikning.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir gengishagnað hvers árs fara í gegnum rekstrarreikning bankans. Gjaldeyrisstaðan dragi mið af því að eiginfjárhlutfall hans sé stöðugt, óháð gengisþróun.

„Gengisbreytingar geta haft mikil áhrif á eigna- og skuldastöðu erlendis. Bankar eiga almennt lítið eigið fé miðað við stærð, hjá Landsbankanum er það t.d. um 10,7% eigna. Við þurfum að uppfylla vissar kröfur um eiginfjárhlutfall og því verðum við að verja okkur fyrir sveiflum.“

 

 


Kóngurinn á Wall Street

Í frétt þeirri sem bloggfærsla er tengd við er það haft eftir Ragnari Þórissyni að vinatengsl Ólafs Ragnars við Steve Schwarzman séu í gegnum forsetafrúna en eftir því sem ég best veit er það ekki alls kostar rétt.

Fyrir tæpum þremur árum skrifaði ég prófílgrein um Schwarzman í Viðskiptablað Morgunblaðsins og fékk í kjölfarið að vita að hann hefur lengi talið Ólaf Ragnar til sinna nánustu vina. Þannig var mér tjáð að Schwarzman hafi verið í heimsókn á Bessastöðum hinn 11. september 2001 og hafi þurft að lengja heimsókn sína þar sem flug vestur um haf lá niðri í nokkra daga eftir árásina á Tvíburaturnana.

Greinin um Schwarzman fylgir hér á eftir.

 

Nýi kóngurinn á Wall Street

Maður er nefndur Steve Schwarzman og er hann af mörgum talinn sá allra voldugasti í einum af nöflum fjármálaheimsins. Guðmundur Sverrir Þór fræddist um nýja kónginn á Wall Street.

Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti svokallaðra "private equity"-fjárfestinga, eða þeirra aðila sem sérhæfa sig í slíkum fjárfestingum. Sumir finna þeim allt til foráttu og telja þá nánast handbendi þess er býr í neðra á meðan aðrir telja þá nánast himnasendingu fyrir hagkerfi heimsins. Ekki hefur verið til gott íslenskt hugtak yfir "private equity" en í þessu tilviki er best að tala um óskráð hlutafé.

Þessi fjárfestingarstefna felst í stuttu máli í því að kaupa hlutafélög sem ekki eru skráð á markað – eða kaupa skráð félög og afskrá þau – hagræða í rekstri þeirra á einn eða annan hátt og selja þau síðan með hagnaði. Þessi hugmyndafræði fer mikið fyrir brjóstið á mörgum sem telja hana til marks um græðgi mannskepnunnar en þeir sem telja fræðina af hinu góða benda á að hún leiði til aukinnar skilvirkni og því sé hún til þess fallin að efla efnahagskerfi heimsins. Hér skal ekki skorið úr um hvort þetta sé góð eða slæm hugmyndafræði heldur fjallað um þann mann sem nefndur hefur verið "nýi kóngurinn á Wall Street". Sá heitir Stephen Schwarzman og er forstjóri Blackstone Group, sem í dag er að margra mati öflugasta og áhrifamesta fjárfestingarfyrirtæki heims.

Valdaþróun á Wall Street

"Á 9. áratugnum voru valdhafarnir á Wall Street með rauð axlabönd, snæddu á Le Cirque og græddu peninga á ruslskuldabréfum og misvirðiskaupum. Áratug síðar voru þeir í pólóbolum og spiluðu fótboltaspil í áhættufjárfestingarfyrirtækjunum sem standa við Sand Hill Road í Silicon Valley og uppskáru milljarða eftir fjárfestingar í hátækni. Í dag má finna nýjustu risana á Wall Street sitjandi á hverjum mánudagsmorgni við langt, svolítið slitið, fundarborð í gluggalausu stjórnarherbergi langt fyrir ofan Park Avenue, þar sem Blackstone Group er til húsa."

Á þessum orðum hefst nýleg umfjöllun bandaríska viðskiptatímaritsins Fortune um Schwarzman en hann er annar stofnenda fyrirtækisins og eins og það er orðað í Fortune er það hann sem stýrir mánudagsfundunum í Blackstone Group. Það er hann sem leggur línurnar og Blackstone leggur ekki fé í neitt verkefni án samþykkis hans. Sagt að hann þurfi ekki einu sinni að hækka róminn á fundum því þegar Steve Schwarzman talar leggja menn við hlustir og orð hans eru lög.

Stærsta yfirtakan í þriðju tilraun

Rætur Blackstone liggja í fjárfestingum í óskráðu hlutafé, þótt vissulega sinni fyrirtækið öllum þeim greinum sem talist geta til litrófs fjárfestingalistarinnar. Þetta kemur berlega í ljós þegar litið er yfir dagskrá mánudagsfundanna áðurnefndu.

Það var á einum slíkum fundi sem Schwarzman og vopnabræður hans lögðu á ráðin um yfirtökuna á fasteignafyrirtækinu Equity Office Properties Trust (EOP), stærsta eiganda skrifstofuhúsnæðis í Bandaríkjunum. Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem Blackstone hreppti hnossið en tveimur fyrri tilboðum fyrirtækisins í EOP hafði verið hafnað. Yfirtakan varð að veruleika hinn 9. febrúar síðastliðinn og þegar upp var staðið þurftu Schwarzman og menn hans að punga út 39 milljörðum dollara, jafngildi um 2.700 milljarða króna, og voru það stærstu PE-viðskipti til þess tíma. Síðan hefur verið tilkynnt um 45 milljarða dala yfirtöku nokkurra fyrirtækja á orkufyrirtækinu TXU og er sú yfirtaka sú stærsta til dagsins í dag.

Mikil bjartsýni ríkir á markaði óskráðra hlutabréfa um þessar mundir og til marks um það hefur Schwarzman látið hafa eftir sér að hann sé þess fullviss að fyrir árslok muni eiga sér stað yfirtaka að verðmæti yfir 50 milljarða dala. Ekki fylgir þó sögunni hvort þessi vissa hans byggist á innherjaupplýsingum, þ.e. að hann hafi sjálfur hug á að framkvæma slíka yfirtöku.

8.500 milljarða króna fjárfestingargeta

Schwarzman er fæddur á degi heilags Valentínusar (14. febrúar) árið 1947 og er hann því nýorðinn sextugur. Hann er alinn upp í úthverfum Fíladelfíuborgar og gekk í almennan skóla, sem oft er talið til marks um að menn séu ekki fæddir með silfurskeið í munni. Hann hefur þó sennilega verið afbragðsnámsmaður því úr almenningsskólakerfinu lá leiðin í hinn virta Yale-háskóla og þaðan í Harvard Business School en þaðan lauk Schwarzman MBA-gráðu. Að námi loknu hóf hann störf hjá Lehman Brothers, einum þekktasta fjárfestingarbanka heims.

Þar reis stjarna hans hratt því árið 1978, aðeins 31 árs að aldri, var söguhetjan okkar skipaður framkvæmdastjóri samruna- og yfirtökudeildar þar sem hann starfaði allt til ársins 1984.

Miklar sviptingar innan Lehman Brothers leiddu til þess að Schwarzman yfirgaf fyrirtækið og stofnaði Blackstone Group árið 1985 í félagi við Peter Peterson, sem hafði verið forstjóri Lehman frá 1973–1984. Peterson þessi, sem í dag er stjórnarformaður Blackstone Group, hefur einnig unnið sér það til frægðar að hafa verið viðskiptaráðherra Bandaríkjanna í stjórnartíð Richards Nixons.

Eigið fé Blackstone var í upphafi um 400 þúsund Bandaríkjadalir og hjá fyrirtækinu störfuðu fyrst um sinn fjórir starfsmenn, að þeim Schwarzman og Peterson meðtöldum. Nú þegar rúmlega tveir áratugir eru liðnir frá stofnun fyrirtækisins er fjárfestingageta þess metin á um 125 millarða dala, jafngildi um 8.500 milljarða króna, og hjá fyrirtækinu starfa nú um 750 manns en þar af eru 52 meðeigendur. Fyrir yfirtöku Blackstone á Equity Office Properties hafði fyrirtækið töglin og hagldirnar í 47 fyrirtækjum og voru samanlagðar tekjur þeirra meiri en 85 milljarðar dala á ári. Eftir kaupin á EOP er ljóst að þær tekjur munu aukast eitthvað.

Óhætt er að fullyrða að Schwarzman er á hátindi ferils síns en persónuleg auðæfi hans eru metin á um 3,5 milljarða Bandaríkjadala, um 238 milljarða króna, og er hann talinn 73. ríkasti maður Bandaríkjanna. Schwarzman þykir gífurlega metnaðargjarn og að sögn gamals skólafélaga hans kom metnaður hans þegar í ljós á skólaárunum. "Hann hafði ekki einungis vilja til þess að ná langt, hann vildi ná lengra en aðrir," segir þessi skólafélagi hans og markmiðinu var náð.

Schwarzman var meðal ráðstefnugesta á Heimsviðskiptaþinginu í Davos í Sviss nýlega. Meðal annarra gesta var þýska ofurfyrirsætan Claudia Schiffer og greinir blaðamaður Fortune frá því að hún hafi átt athygli allra gesta ráðstefnunnar. Allra nema Schwarzman. Sá hafði mun meiri áhuga á að ræða viðskipti við títtnefndan blaðamann og þykir það lýsandi dæmi um hversu einstaklega einbeittur maðurinn er.

Hræðist ekki sviðsljósið

Það hefur löngum þótt einkenna þá sem starfa innan fjárfestinga á óskráðum bréfum að þeir forðast sviðsljósið en Schwarzman er ekki einn þeirra.

Árið 2000 flutti hann inn í núverandi íbúð sína sem er í húsinu númer 740 við Park Avenue á Manhattan-eyju en það mun vera dýrasta fjölbýlishús veraldar. Meðal fyrri eigenda íbúðarinnar má nefna John D. Rockefeller hinn yngri og George nokkurn Brewster. Sá tilheyrir einni af fjölskyldum þeim sem komu til Bandaríkjanna með skipinu sögufræga Mayflower árið 1620 en fátt ku þykja fínna en að geta rakið ættir sínar til Mayflower. Íbúðina mun hann hafa greitt um 30 milljónir dala fyrir, jafngildi ríflega tveggja milljarða króna, en jafnframt á hann hús í St. Tropez á frönsku Rivíerunni. Af þessu má ljóst vera að Schwarzman berst töluvert á og sannaðist það svo um munar þegar hann hélt upp á sextugsafmæli sitt fyrir um þremur vikum með pomp og prakt.

Fyrirmenni í veislu

Meðal gesta voru Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Michael Bloomberg, borgarstjóri Nýju Jórvíkur, en hápunktur kvöldsins mun hafa verið þegar Rod Stewart steig á svið og skemmti gestum í um hálfa klukkustund. Fyrir ómakið mun hann hafa þegið eina milljón dala, um 70 milljónir króna, og hefur uppátækið vakið mikla athygli meðal fjölmiðla vestra.

Einn gestanna mun hafa látið hafa eftir sér að hátíðahöldin mörkuðu endalok einhvers en aðeins tveimur vikum síðar tóku hlutabréfavísitölur að lækka hratt og hafa margir viljað tengja þessa atburði saman þótt augljóslega sé um tilviljun að ræða.

Eða hvað?

Í hnotskurn
» Stephen Schwarzman, forstjóri Blackstone Group, fæddist á Valentínusardeginum (14. febrúar) árið 1947 og því nýlega orðinn sextugur.
» Bauð hann vinum sínum og velunnurum til veislu og sparaði hvergi aurinn, enda 73. ríkasti maður Bandaríkjanna.
» Meðal viðstaddra í afmælisveislunni voru Colin Powell, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Michael Bloomberg, borgarstjóri New York.
» Schwarzman fékk Rod Stewart til að stíga á svið og syngja fyrir afmælisgesti. Skoski popparinn fékk litlar 70 milljónir króna fyrir og hneykslaði sú greiðsla margan fjölmiðlamanninn vestanhafs.

 

 


mbl.is Ætti að nota tengsl Dorritar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíbent undraverkfæri

Nú er orðið alllangt síðan ég hef párað eitthvað hér á bloggið og eitthvað mun ég reyna að bæta úr því á næstunni, svona þegar andinn kemur yfir mig. Í þetta skipti ætla ég að halda áfram að nýta mér þá heimild sem Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri, og Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, hafa veitt mér til þess að birta efni sem ég skrifaði í Morgunblaðið á árum mínum sem blaðamaður þar (undir nafni að sjálfsögðu) og birta viðtal sem ég tók í júní 2007 við Gyan nokkurn Sinha, framkvæmdastjóra hjá Bear Stearns.

Sinha þessi var staddur á Íslandi á vegum Aska Capital til þess að kynna skuldabréfavafninga, eða -vöndla, bankans.  Hann lofaði slíka fjármálagerninga mjög og sagði þá loka hringrás fjármagnsmarkaða þannig að óhugsandi væri að kreppur af þeirri tegund sem reið yfir heiminn á 4. áratug síðustu aldar endurtækju sig. Þetta var sem sagt í júní 2007 og rétt rúmum mánuði síðar hófst hrun Dow Jones-hlutabréfavísitölunnar sem markaði upphafið að Hundadagakreppunni eins og ég hef kallað efnahagslægð síðustu missera.

Það voru einmitt skuldabréfavafningarnir sem Sinha lofaði svo mjög sem breyttu smávægilegri niðursveiflu í djúpa lægð og rúmum tveimur mánuðum eftir að ég tók viðtalið við Sinha urðu tveir sjóða Bear Stearns gjaldþrota og innan við ári eftir viðtalið var bankinn allur, orðinn deild í JP Morgan Chase. Það má því með sanni segja að undraverkfærið skuldabréfavafningarnir hafi reynst tvíbent.

Hér að neðan er viðtalið við Sinha en það birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins hinn 14. júní 2007:

Vafningar loka hringrásinni

Dr. Gyan Sinha, framkvæmdastjóri hjá fjárfestingarbankanum Bear Stearns, var nýlega staddur hér á landi á vegum Aska Capital. Guðmundur Sverrir Þór hitti hann að máli og ræddi við hann um horfurnar í efnahagsmálum heimsins.


SKULDABRÉFAVAFNINGAR eru lokahlekkurinn í hringrás fjármálagerninga sem saman mynda þann fjármálamarkað sem við þekkjum í dag. Þetta segir dr. Gyan P. Sinha, framkvæmdastjóri skuldabréfasviðs bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns, sem staddur var hér á landi nýlega í tilefni af ráðstefnu sem Bear Stearns hélt í samvinnu við Aska Capital. Efni ráðstefnunnar var einmitt skuldabréfavafningar og samsettir fjármálagerningar en skuldabréfavafningar (e. collateralized debt obligation) eru í stuttu, og mjög einfölduðu, máli eignasöfn sem byggjast upp á skuldabréfum, lánum og öðrum fasttekjuverðbréfum. Í erindi sínu á ráðstefnunni fjallaði Sinha, sem er tíður gestur og álitsgjafi hjá fjármálamiðlum á borð við Bloomberg og CNBC, um horfur á mörkuðum með skuldabréfavafninga.

Gífurlegur dollaraforði

Sinha segir þessa hringrás mynda endurvinnslu á dollurum um allan heim. "Ef þú lítur á hagkerfi heimsins síðustu fimm til sex ár sérðu að helstu leikendur eru Bandaríkin (þar sem viðskiptahalli er gífurlegur), Mið-Austurlönd og nýmarkaðir Asíu en bæði í Mið-Austurlöndum og Asíu er viðskiptajöfnuður mjög jákvæður.

Nýmarkaðir Asíu hafa vaxið mjög hratt og hagkerfin þar halda gengi gjaldmiðla sinna á vissu stigi sem margir vilja meina að sé allt of lágt. Málið er þó að þau verða að halda genginu svo lágu því ella myndi útflutningur (sem er meginstoð þessara hagkerfa) líða fyrir. Jafnframt safnast peningar mjög hratt saman innan hagkerfanna – hlutfall sparnaðar er þar mjög hátt – enda er samanlagður forði þeirra í Bandaríkjadölum um 3,5 billjónir (1 billjón jafngildir þúsund milljörðum og því er hér um 224 þúsund milljarða króna að ræða, innsk. blaðamanns). Þessi hagkerfi eru nú farin að fjárfesta í stórum stíl í bandarískum ríkisskuldabréfum, skuldabréfum gefnum út af bandarískum íbúðalánasjóðum á borð við Fannie Mae og Freddie Mac.

Á síðustu þremur til fjórum árum hefur stór hluti þessa fjármagns farið inn á markaði þar sem áhættudreifing er góð og ávöxtun sömuleiðis. Þannig hafa þessir markaðir reynst afar hagkvæmir. Ég lít á það sem svo að þegar við sjáum þessa samsetningu dollaraflæðis út um allt tengist það verulega grundvallarþáttum svo sem neyslu og sparnaðarmynstri, sem og því hvernig mismunandi fyrirtæki stjórna gjaldmiðlastefnu sinni.

Þetta breytist ekki vikulega eða mánaðarlega. Það hefur tekið mörg ár að móta þessa hegðun og það tekur mörg ár að gera á henni grundvallarbreytingar þó vissulega geti átt sér stað einstaka afvik," segir Sinha en bendir á að jafnframt sé önnur hlið á málinu.

Fjárfesting Kína í Blackstone gott dæmi

Hún er sú að þessar fjárfestingar skila gífurlegu magni lausafjár inn á okkar markaði og nýjasta og, segir hann, mest áberandi dæmið sé fjárfesting kínverska ríkisins í 10% hlut í bandaríska framtaksfjárfestingarsjóðnum Blackstone Group. Því hlutafé fylgir enginn atkvæðisréttur sem segir okkur að þarna er ekki verið að leita að áhrifum á fjárfestingastefnu sjóðsins heldur einfaldlega góðri ávöxtun og áhættudreifingu.

"Blackstone fékk þarna 3 milljarða dala sem þeir geta tífaldað með skuldsetningu og þar með hefur fjárfesting kínverska ríkisins veitt Blackstone 30 milljarða dala til þess að fjárfesta. Þetta er stórkostlegt dæmi um þau áhrif sem hagkerfin í austri eru farin að hafa áhrif hér á Vesturlöndum og eflaust bara byrjunin.

Þetta sýnir okkur líka hvernig hið gífurlega magn fjármagns sem hægt er að dæla inn á markaði getur dempað flökt og þess vegna tel ég að vaxtamunur muni aðlagast meira að og hreyfast í takt við undirstöður heimshagkerfisins."

Sinha segir suma hafa líkt þessu

flæði fjármagns úr nýmarkaðshagkerfunum við að vatn renni upp á við. "Þetta ferli getur gengið um langa hríð því þróuðu hagkerfin búa yfir stöðugum fjármálakerfum og lagaumhverfi sem oft eru ekki til staðar á nýmörkuðunum. Þess vegna geta þróuðu hagkerfin haldið dampi um langa hríð þrátt fyrir mikinn viðskiptahalla. Vatn getur runnið upp á við ef nægur þrýstingur er fyrir hendi."

Aðspurður segir hann að það versta sem geti gerst sé að Kínverjar hætti að spara svona mikið og noti meira af fjármununum til neyslu en það sé aldrei að vita hvenær, eða hvort, það gerist. "Að minnsta kosti þori ég ekki að spá um það," segir hann.

"Það má segja að nýtt kerfi hafi orðið til og vissulega fylgja því kerfi nýjar áskoranir. Ein slík er fjarlægðin á milli þeirra sem búa til áhættu og þeirra sem taka áhættu. Hin landfræðilega fjarlægð á milli þeirra hefur þó verið mjög gagnleg því hún hefur dregið verulega úr áhættunni á ofhitnun. Áhættan dreifist á milli markaða en samtímis hefur ósamhverfni upplýsinga aukist og það er eitt þeirra vandamála sem þarfnast lausnar. Þess vegna er það mikil áskorun fyrir fjárfesta dagsins í dag að draga úr fjarlægðinni án þess að missa kostina sem hún hefur í för með sér," segir Gyan Sinha.

 

 


Ivar Kreuger: Maðurinn sem breytti Svíþjóð

kreuger_920789.jpgÞegar ég hóf grunnnamið í hagfræði hér í Svíþjóð, á vorönn 2002, var rekstrarhagfræði fyrsta fagið sem ég sat. Um mánuði eftir að kúrsinn hófst tilkynnti kennarinn okkar að þann dag væru liðin 70 ár frá fráfalli Ivars nokkur Kreuger (borið fram Krüger) en segja má að enginn sænskur kaupsýslumaður, fyrr og síðar, hafi verið umfangsmikill og áhrifamikill og sá herramaður. Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að í þessum fyrirlestri skaut upp kollinum eldri maður sem sat á fremsta bekk allan tímann. Hann hafði aldrei sést áður í tímum í faginu og sást aldrei aftur. Auðvitað furðuðum við okkur á þessu en komumst svo að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að hafa verið vofa Kreugers.

Nýlega var ég minntur á að í mars 2007, skömmu eftir að 75 ár voru liðin frá fráfalli Kreugers, skrifaði ég um hann prófílgrein í Viðskiptablað Morgunblaðsins. Ég hef oft hugsað um það síðan að mikil líkindi voru með honum og mörgum af íslensku útrásarskáldunum, eftir honum var tekið um allan heim og hann notaði auk þess mjög flókna fjármálagerninga til þess að fjármagna starfsemi sína. Sem dæmi má nefna participating debentures (sjá betur í greininni að neðan) en eftir því sem ég best veit hafa slíkir gerningar verið bannaðir í Svíþjóð frá falli Kreugers.

Greinin hér á eftir birtist hinn 12. mars 2007:

Maðurinn sem breytti Svíþjóð

Nýlega voru liðin 75 ár frá dauða sænska athafnamannsins Ivar Kreuger. Fráfall hans hafði gífurleg áhrif á sænskt samfélag, eins og Guðmundur Sverrir Þór komst að.

Hinn 12. mars 1932 fannst maður liggjandi í rúmi á íbúð sinni í París, höfuðborg Frakklands. Hann hafði verið skotinn í brjóstið. Dauði þessa manns átti eftir að hafa gífurleg áhrif á sænskt samfélag. Hann hafði í för með sér gjaldþrot fjölda fjölskyldna sem beint eða óbeint höfðu treyst honum fyrir öllu sparifé sínu og varð auk þess til þess að ryðja braut jafnaðarstefnunnar sem gnæft hefur yfir aðrar stjórnmálastefnur í Svíþjóð alla tíð síðan. Síðast en ekki síst varð dauði mannsins til þess að Wallenberg-ættin náði að sölsa undir sig öll völd í sænsku viðskiptalífi.

Maðurinn hét Ivar Kreuger og áhrif hans náðu langt út fyrir landamæri Svíþjóðar. Hann réð á tímabili þremur fjórðu af allri eldspýtnaframleiðslu heimsins og var þess vegna gjarnan kallaður eldspýtnakóngurinn.

Úr byggingariðnaði í eldspýtur

Ivar Kreuger fæddist í Kalmar í suðausturhluta Svíþjóðar 2. mars árið 1880. Faðir hans var umfangsmikill bankamaður og iðnjöfur og má víst telja að áhrifa þess hafi gætt í uppeldi sonarins. Hann lauk framhaldsskólanámi 16 ára gamall og lá leiðin beint í Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi en þaðan útskrifaðist hann með tvær meistaragráður í verkfræði aðeins 20 ára gamall. Að námi loknu tók við sjö ára ferðalag um heiminn þar sem hann starfaði sem verkfræðingur m.a. í Bandaríkjunum, Mexíkó og S-Afríku en árið 1908 kom hann heim til Svíþjóðar og stofnaði byggingafyrirtæki Kreuger & Toll ásamt öðrum sænskum verkfræðingi, Paul Toll.

Í Bandaríkjunum vann Kreuger meðal annars að byggingu fyrsta skýjakljúfsins á Manhattan, Flatiron Building, en við það verk lærði hann að nota stálstyrkta steypu. Þessi þekking hans var eftirsótt í Svíþjóð og vakti fyrirtæki þeirra félaga því fljótt athygli. Eftir það standa margar merkar byggingar í Stokkhólmi, t.d. ólympíuleikvangurinn, ráðhús borgarinnar og verslunarhúsið Nordiska Kompaniet sem síðast komst í heimsfréttirnar þegar Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var myrt þar haustið 2003.

Fimm árum eftir stofnun Kreuger & Toll varð mikil stefnubreyting í fyrirtækinu þegar leitað var til Kreuger um að endurskipuleggja eldspýtnaverksmiðjurnar í Kalmar. Hann tók verkefninu og í hönd fór tími mikilla samruna og fyrirtækjakaupa sem lauk árið 1917 með stofnun Svenska Tändsticks Aktiebolaget (STAB). Um svipað leyti skildi leiðir þeirra Kreuger og Toll en þeir skiptu fyrirtæki sínu upp í tvo hluta; annars vegar byggingafélagið Kreuger & Toll, sem Toll hélt áfram að reka, og hins vegar eignarhaldsfélagið Kreuger & Toll, sem Kreuger átti og rak. Paul Toll kemur ekki meira við sögu í grein þessari og framvegis er átt við eignarhaldsfélagið þegar talað er um Kreuger & Toll.

Á undan sinni samtíð

Með stofnun STAB var grunnurinn lagður að uppbyggingu enn stærra veldis. Á næstu árum gaf fyrirtækið út hlutabréf og skuldabréf sem notuð voru til fjármögnunar á enn frekari fjárfestingum og samrunum í eldspýtnafyrirtækjum en jafnframt keypti Kreuger fasteignir, námur og önnur iðnfyrirtæki víða um heim.

Eitt þessara fyrirtækja var sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson, sem í dag er talið eitt allra mikilvægasta fyrirtæki sænska hagkerfisins. Kreuger keypti hlut í fyrirtækinu og lagði því til fjármagn sem var rekstrinum afar nauðsynlegt en Ericsson hafði tapað miklum fjármunum þegar fjárfestingar fyrirtækisins í austurvegi urðu verðlausar í kjölfar rússnesku byltingarinnar árið 1917. Eignarhlutur Kreuger & Toll í Ericsson óx jafnt og þétt og ekki leið á löngu uns félagið eignaðist meirihluta hlutafjár í félaginu. Þegar við lítum til fortíðar, 75 árum eftir fráfall Kreugers, er ljóst að fjárfesting hans í Ericsson hefur gífurlegt mikilvægi í sögu sænsks efnahagslífs en víkjum nánar að því síðar.

Önnur stórfyrirtæki dagsins í dag sem Kreuger kom að eru kúluleguframleiðandinn SKF, skógarvinnslufyrirtækið SCA – sem varð til þegar Kreuger sameinaði mörg skógarvinnslufyrirtæki í sinni eigu – og Boliden, eitt helsta námafyrirtæki Evrópu í dag.

Viðskiptaaðferðir hans voru á margan hátt ekkert ósvipaðar því sem gerist í dag, eins og dæmin um STAB og SCA sýna en þar náði hann völdum í nokkrum fyrirtækjum innan sömu atvinnugreinarinnar, sameinaði þau og hagræddi í rekstrinum. Fjár aflaði hann m.a. með því að gefa út nýtt hlutafé og skuldabréf sem á íslensku mætti nefna þátttökuskuldabréf (e. participating debentures). Þau skuldabréf munu vera þess eðlis að kaupandinn fær að veði hlut í eigin fé fyrirtækisins. Enn fremur tók hann lán með hlutafé að veði. Þetta hljómar eflaust kunnuglega í eyrum einhverra enda tíðkast þessar aðferðir í mun meiri mæli í dag en þá og má ef til vill segja að Kreuger hafi að einhverju leyti verið á undan sinni samtíð.

Kreppan varð honum að falli

Árið 1929 var Ivar Kreuger á toppi veraldar eins og það heitir vestanhafs. Hann stóð ekki einungis í fyrirtækjarekstri og fjárfestingum heldur var hann einnig orðinn stórtækur í fjármögnun. Og það voru engir smáaðilar sem hann fjármagnaði. Sem dæmi má nefna að hann lánaði franska ríkinu 75 milljónir Bandaríkjadala, því þýska 125 milljónir dala og því rúmenska 28 milljónir dala. Skilyrðin fyrir lánunum voru þau að STAB fengi einkaleyfi á eldspýtnasölu í landinu. Þessar upphæðir þykja ef til vill háar en þess má geta að árið 1929 var Kreuger sennilega auðugasti maður heims og hefur auður hans þetta ár verið metinn á um 30 milljarða sænskra króna á þávirði. Sú upphæð jafngildir um 100 milljörðum Bandaríkjadala á verðlagi ársins 2000 en til samanburðar má nefna að auður Bill Gates er metinn á um 56 milljarða dala og er auðugasti maður heims í dag því aðeins hálfdrættingur á borð við Kreuger þegar best lét.

Ferill Kreugers minnir helst á ævintýri eða lygasögu úr Hollywood en öll ævintýri þurfa einhvern tímann að enda og það gerði ævintýri milljarðamæringsins sænska einnig. Eins og lýst er hér að framan byggði veldi hans að miklu leyti á auðveldu aðgengi að fjármagni, og á háu gengi hlutabréfa. En síðan kom áfallið.

Þriðjudagurinn 29. október 1929 hefur oft verið nefndur svarti þriðjudagurinn og þótt ekki séu allir á einu máli um hvort hann hafi markað upphaf kreppunnar miklu er ljóst að hann markaði upphafið á endalokum Ivars Kreugers. Hlutabréfaverð féll og aðgangur að fjármagni varð afar takmarkaður. Virði skuldabréfa þeirra sem hann hafði gefið út féll um 90% á tveimur árum.

Smám saman komst Kreuger í lausafjárþrot en árið 1931 kom sænski seðlabankinn honum tímabundið til bjargar eftir mikinn þrýsting sænska forsætisráðherrans CG Ekman. En útreikningar bankans sýndu að um 125 milljónir sænskra króna vantaði til þess að Kreuger & Toll gæti staðið við skuldbindingar sínar á árinu 1932 eingöngu. Í stað þess að horfast í augu við lánardrottna sína kaus Ivar Kreuger að svipta sig lífi hinn 12. mars 1932 en þeir eru enn til sem halda því fram að hann hafi verið myrtur. Úr því fáum við aldrei skorið en víst er að hinn ævintýralegi ferill þessa manns heldur áfram að heilla þá sem skoða söguna.

Breytti sænsku samfélagi

Fráfall Kreugers hafði eins og áður sagði gífurleg áhrif á sænskt samfélag. Stuttu fyrir þingkosningar ársins 1932 varð flokkur áðurnefnds CG Ekman uppvís að því að hafa þegið miklar fjárhæðir frá eldspýtnakónginum. Þetta varð flokknum að falli í kosningum og Jafnaðarmannaflokkurinn undir forystu Per-Albin Hansson komst til valda. Að undanskildum nokkrum sumarmánuðum árið 1936 hélt flokkurinn völdum í 44 ár.

Dauði Kreugers varð jafnframt til þess að rétta völdin í sænsku viðskiptalífi í hendur Wallenberg-ættarinnar sem hefur haldið þeim alla tíð síðan. Wallenberg-ættin átti Skandinaviska Enskilda Banken (sem í dag er almennt kallaður SEB og er næststærsti banki Svíþjóðar á eftir Nordea) en bankinn hafði einmitt verið í fararbroddi þeirra sem lánuðu Kreuger og tóku hlutafé að veði. Þannig náði ættin valdastöðu í fyrirtækjum á borð við Ericsson og SKF sem nánast alla 20. öldina hafa verið leiðandi öfl í sænsku atvinnulífi og eru enn.

Í hnotskurn
» Ivar Kreuger vann að byggingu fyrsta skýjakljúfsins á Manhattan.
» Þegar best lét var auður hans metinn á um 100 milljarða dala á núvirði.
» Kreugur lánaði ríkisstjórnum fé gegn einkaleyfi á eldspýtnasölu.

 

 

 


Draga þarf verulega úr umfangi verðtryggingar

Allt frá því ég sneri heim til Íslands úr grunnnámi í hagfræði og hóf störf á Morgunblaðinu haustið 2004 hef ég fundið verðtryggingu lánsfjár flest til foráttu. Ég hóf því að skrifa um hana, í upphafi yfirleitt nafnlaust (sbr. Trygging til trafala) eins og þá tíðkaðist um annað efni en fréttaskýringar og lengri umfjallanir, en þegar á leið fór ég æ oftar að skrifa um þessi mál undir nafni eins og t.d. haustið 2007 þegar ég skrifaði greinina hér að neðan.

Almennt hef ég verið þeirrar skoðunar að verðtryggingu á lánsfé eigi að afnema alveg en þegar ég skrifaði greinina taldi ég boð og bönn hins vegar ekki endilega réttu leiðina heldur að draga þyrfti úr umfanginu t.d. með því að bjóða öllum lánþegum upp á að breyta verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð. Að sama skapi taldi ég rétt að þess yrði krafist af fjármálastofnunum að boðið yrði til jafns upp á verðtryggð lán og óverðtryggð og viðskiptavinum yrði gerð ítarlega grein fyrir því hvaða munur fælist í þessum gerðum lánasamninga. Ég tek það fram að afstaða mín gagnvart því hvernig vinna ber á verðtryggingunni hefur breyst svolítið fram og til baka, nokkru áður en ég skrifaði greinina hér að neðan var ég t.d. á því að banna þyrfti hana með lögum og nú orðið er ég aftur farinn að hallast að hinu sama.

Ég tek það fram að hér er ég fyrst og fremst að tala um verðtrygginu á neytendalánum, ég sé ekkert því til fyrirstöðu að áfram sé boðið upp á verðtryggð ríkisskuldabréf eins og reyndar tíðkast víða um heim. Þannig myndi verðtryggingin áfram virka sem hækja fyrir krónuna en áhrifa hennar myndi ekki gæta á almennum lánamarkaði.

Draga þarf verulega úr umfangi verðtryggingar

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

Umræðan um verðtryggingu lánsfjár skýtur reglulega upp kollinum og sýnist sitt hverjum. Sumir finna verðtryggingunni flest til foráttu en aðrir telja hana nauðsynlega.

Það hefur löngum verið talið hagstæðara að taka verðtryggð lán til húsnæðiskaupa en eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrir skömmu getur það þegar upp er staðið reynst mun hagstæðara að taka óverðtryggð lán, jafnvel þótt vextir á slíkum lánum nálgist 16%.

Færa má rök fyrir því að tilvist verðtryggingar tefji fyrir áhrifum stýrivaxta Seðlabanka Íslands á verðbólgu en á móti kemur að verðtryggingin var íslensku efnahagslífi nauðsynlegt vopn í baráttunni við verðbólgudrauginn sem herjaði á þjóðina ekki alls fyrir löngu. Spurningin er þó hvort verðtrygging lánsfjár sé enn nauðsynleg og jafnframt hvort rétt væri að afnema hana.

Trygging til trafala

Fyrir um einu og hálfu ári, nánar tiltekið hinn 26. apríl 2006, birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fræðslupistill undir fyrirsögninni Trygging til trafala. Þar var því lýst hvernig verðtryggingin dregur máttinn úr stýrivaxtabreytingum Seðlabanka Íslands þar eð lánastofnanir bera enga verðbólguáhættu í þeim tilvikum sem útlán eru verðtryggð og þurfa því ekki að taka tillit til stýrivaxtabreytinga. Ennfremur eru langflest langtímalán sem veitt eru hér á landi verðtryggð, með föstum vöxtum, og hafa stýrivextir, sem eru vextir á óverðtryggðum lánum, engin áhrif á verðtryggða markaðnum. Þar er vaxtastig háð fjármögnunarmöguleikum lánastofnana og á þeim mörkuðum sem þær fjármagna sig hafa kjör verið umtalsvert betri en á skammtímalánum Seðlabankans.

Sama dag og áðurnefnd grein birtist flutti Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, erindi á aðalfundi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, sem nú heita Samtök fjármálafyrirtækja, þar sem hann sagði það m.a. misskilning að verðtryggingin verndaði neytendur fyrir áhrifum verðbólgunnar. Jafnframt sagði hann að tilvist hennar lokaði úti áhrif peningamálastjórnunar eins og þau þekkjast í öðrum löndum. „Við gripum til verðtryggingarinnar sem svars við óstöðugleika – en getur verið að nú sé svo komið að verðtryggingin sé orðin orsakavaldur,“ sagði Hreiðar Már í erindi sínu. Hann bætti því við að til þess að geta haft áhrif á hinn verðtryggða hluta fjármálakerfisins þyrfti Seðlabankinn að setja ofurspennu á óverðtryggða hlutann með miklum og langvinnum vaxtahækkunum. „Í raun þarf því að búa til töluverða bjögun á íslenskum fjármagnsviðskiptum sem gæti átt stóran hlut í þeim óstöðugleika sem við erum nú að ganga í gegnum,“ sagði Hreiðar.

Fleiri hafa síðan tekið undir þær hugmyndir að tilvist verðtryggingar tefji fyrir virkni stýrivaxta en meðal þeirra er Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, sem flutti erindi um stöðu krónunnar í málstofu Seðlabanka Íslands fyrir rúmri viku. Þá sagði hann m.a. að það færi ekki á milli mála að sérstök uppbygging íslenska fjármálakerfisins gerði það að verkum að boðleiðir peningastefnunnar, sérstaklega vaxtaleiðin, væru veikari en æskilegt væri. „Í mínum huga er það fyrst og fremst víðtæk notkun verðtryggingar sem kemur í veg fyrir að virkni peningastefnunnar sé með þeim hætti sem reiknað var með í upphafi,“ sagði Björn Rúnar.

Rótgróin verðbólga

Eflaust eru mörgum í fersku minni þær aðstæður sem ríktu þegar verðtryggingin var sett á, með Ólafslögunum svokölluðu, árið 1979. Há verðbólga var rótgróin og viðvarandi, opinber afskipti af fjármálamarkaði (t.d. skömmtun lánsfjár) voru mikil sem veitti fjármálamörkuðum ekki svigrúm til þess að bregðast við verðbólgunni. Verðbólgan át upp vexti á útlánum bankanna og innlánum viðskiptamanna þeirra. Lífeyrissjóðir landsmanna voru nánast uppurnir og við þeim blasti gjaldþrot. Í stuttu máli sagt var nánast ómögulegt að fá lán og fjárfesting í hagkerfinu var þar af leiðandi af skornum skammti.

Eins og fram kemur í riti Bjarna Braga Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóra, Verðtrygging lánsfjármagns og vaxtastefna á Íslandi, eru almennt tvær leiðir til lausnar þeim vanda sem upp var kominn. „Annars vegar með fyrirbyggjandi aðgerðum til stöðugs verðlags eða hins vegar með leiðréttingum á stofni lánsfjár, þ.e. verðtryggingu þess.“ Eins og bent er á í ritinu eru fyrirbyggjandi aðgerðir til stöðugs verðlags að sjálfsögðu sá æskilegri af þessum tveimur kostum en miðað við þær aðstæður sem ríktu á þessum tíma er vart hægt að sjá að það hafi verið raunhæfur kostur. Verðtrygging varð því fyrir valinu en tilgangurinn með því að verðtryggja fjármagn er í raun að tryggja að það haldi verðgildi sínu þrátt fyrir verðbólguna. Í raun má líta á hana sem kerfisbundna aðferð til þess að hundsa verðbólgu því í hagkerfi sem að fullu er verðtryggt hefur verðbólgan engin áhrif, hún hefur einfaldlega verið tekin út úr jöfnunni, eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd.

Breyttar forsendur

Ekki verður um það deilt að innleiðing verðtryggingar var nauðsynlegt skref á sínum tíma. Verðtryggingin var sá grunnur sem hægt var að byggja lánsfjármarkaðinn og þar með fjárfestingar á en það er ekki þar með sagt að verðtryggingin hafi verið banabiti verðbólgunnar. Verðtryggingin kom vissum stöðugleika á hagkerfið og jafnvægi en það voru þjóðarsáttarsamningarnir frá 1990 sem endanlega bundu enda á það verðbólguskeið sem ríkt hafði á Íslandi nánast frá síðari heimsstyrjöld.

Spurningin er hins vegar hvort verðtryggingin sé jafn nauðsynleg nú og hún var á 8. og 9. áratugnum.

Efnahagslegur forsendur eru einfaldlega allt aðrar nú en þær voru þá. Verðbólga hefur vissulega verið mikil á undanförnum misserum en þó ekkert í líkingu við það sem var þegar verst lét, sennilega hefði flestum þótt tæplega 9% verðbólga (eins og hún hefur náð hæst í þessari hrinu) ásættanleg um miðjan 9. áratuginn. Það sem mestu munar á aðstæðum nú og árið 1979 er hins vegar að fjármálamarkaðir eru orðnir frjálsir. Ekki gilda lengur neinar hömlur á lánveitingum, nema þær sem markaðurinn setur, og ríkið hefur ekki bein afskipti af lánamarkaði – ekki þá nema í gegnum Íbúðalánasjóð en hann er þó fyrst og fremst markaðsaðili sem er í eigu hins opinbera. Þá getur útgáfa ríkisskuldabréfa ekki talist afskipti af markaði, hið opinbera er einfaldlega þátttakandi á markaði, og enn síður stýrivextir sem flokkast undir opnar markaðsaðgerðir, þ.e. Seðlabankinn er til staðar á lánsfjármarkaði og reynir með stýrivaxtaákvörðunum sínum að hafa áhrif á markaðinn en stýrivextir eru á engan hátt fyrirmæli til markaðarins, orð Seðlabankans eru ekki lengur lög.

Ennfremur má ekki gleyma því að verðbréfamarkaður er nú orðinn mjög virkur á Íslandi þannig að valkostum þeirra sem vilja fjárfesta hefur fjölgað. Nú geta lífeyrissjóðir til dæmis leitað á hlutabréfamarkaði til þess að ávaxta pund sitt, nokkuð sem nánast var ómögulegt fyrir aldarfjórðungi.

Að teknu tilliti til þessa má ætla að ekki sé lengur ástæða til þess að verðtrygging gildi, fjármálamarkaðurinn hefur nú þann sveigjanleika sem þarf til þess að bregðast við verðbólgu, sérstaklega þar sem Seðlabankinn er orðinn þátttakandi á markaði en ekki sá sem ákveður formlega þau kjör og skilyrði sem þar ríkja.

Þátttaka í hagstjórn

Ein spurning er hvort umræðan um afnám verðtryggingar sé „sanngjörn“ gagnvart útlánastofnunum landsins, t.d. bönkum og lífeyrissjóðum, sem meðal annars fjármagna íbúðakaup neytenda með langtímalánum. Með afnámi verðtryggingar er hætt við því að útlánastofnanir fái ekki það sem þeim ber þegar lánaviðskiptin eru gerð upp að lánstíma liðnum, þar eð verðbólgan getur valdið því að raunávöxtun er mun lægri en nafnávöxtun. Þeirri spurningu er ef til vill hægt að svara með því að spyrja hvort það sé sanngjarnt að viðskiptamenn bankanna taki á sig alla áhættuna af verðbólgunni, áhættu sem markaðsaðilar ættu alla jafna að deila.

Bent hefur verið á að ef ekki væri til staðar verðtrygging myndu langtímalán verða úr sögunni, nema þá lán með breytilegum vöxtum sem gætu hækkað mjög ört ef verðbólguskot ætti sér stað og myndi valda einhverjum vandræðum. Á móti kemur að það er einmitt sú virkni sem gert er ráð fyrir að markaðurinn sýni. Hækki vextir ört þurfa lántakendur að auka aðhald í eigin neyslu og eftirspurn í hagkerfinu dregst saman og í kjölfarið verðbólga. Að sama skapi er hægt að sjá fyrir sér að veitt séu lán til langs tíma með föstum vöxtum sem endurskoðast reglulega. Þannig verða þeir aðilar sem mest geta haft áhrif á þensluna í efnahagslífinu, þ.e. fjármálastofnanir, virkir þátttakendur í hagstjórninni og verða að axla þá ábyrgð að draga úr lánveitingum ef vísbendingar eru um að þensla sé að fara úr böndunum, ellegar myndu þeir verða af verðmætum.

Fælir frá

Annar flötur á sama peningi er gjaldmiðillinn okkar, krónan. Í sögulegu samhengi hefur raungengi (raungengi er gengi að teknu tilliti til verðbólgu) krónunnar verið veikt og erlendir fjárfestar því borið lítið traust til hennar.

Það er ekki mikil hagnaðarvon fólgin í því að fjárfesta í gjaldmiðli sem í raun og veru er mun verðminni en nafngengi hans gefur til kynna. Verðbólga rýrir raungengi gjaldmiðla og þegar hún er langvarandi og há missa fjárfestar traust á gjaldmiðlinum. Þessu hefur verið lýst sem svo að krónan geti ekki staðið á eigin fótum og því þurfi hún hækju, verðtrygginguna, sem geri það að verkum að raungengi er alltaf það sama og nafngengi.

Verðtryggingin gerir það að verkum að fjárfestar treysta krónunni, þeir geta fjárfest á íslenskum fjármagnsmarkaði – t.d. í ríkisskuldabréfum – án þess að eiga á hættu að verðbólga rýri verðmæti fjárfestinganna. Það er því ljóst að afnám verðtryggingar myndi fæla erlenda fjárfesta frá því að fjárfesta í íslensku hagkerfi.

Aukinn stöðugleiki

Þegar allt er tekið saman er ljóst að tilvist verðtryggingarinnar veldur töluverðri truflun á íslenskum lánsfjármarkaði, þannig að stýrivextir Seðlabanka virka síður en ella – með tilheyrandi kostnaði. Það er þó fyrst og fremst hið gífurlega umfang verðtryggingarinnar sem veldur brenglun. Færð hafa verið rök fyrir því að verðtrygging sé ekki lengur nauðsynleg til þess að halda jafnvægi á lánsfjármarkaði en vafasamt er að afnema hana alveg, t.d. vegna áhrifa á krónuna. Hins vegar er æskilegt að draga verulega úr umfangi verðtryggingar á lánsfé. Fátt bendir til annars en að til langs tíma muni það valda auknum stöðugleika.

Er leigumarkaður lausnin?

Öllum ætti að vera ljóst að þótt bankakerfið hefði ekki hrunið sl. haust stóð Ísland frammi fyrir krappri efnahagslægð eða niðursveiflu. Þenslan í hagkerfinu var slík árin á undan að þrátt fyrir að ekki hefði komið til sú undarlega bankastarfsemi sem virðist hafa átt sér stað í landinu var alltaf von á leiðréttingu. Í raun var leiðréttingin hafin og hagkerfið var á leið inn í lægðina.

Þenslan einkenndist að stórum hluta að mikilli bólu á fasteignamarkaði og ljóst hefði mátt vera að þegar hún spryngi myndu margir lenda í miklum vanda. Síðla árs 2007 skrifaði ég grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins um mögulega leið til þess að draga úr bólunni, sem enn var að þenjast út þótt vissulega hefði hægt verulega á henni. Eftir á að hyggja hefði þessi ábending mátt koma öllu fyrr en þetta er þó enn mál sem þarf að hyggja að til þess að koma í veg fyrir aðra eins þenslu á fasteignamarkaði þegar hagkerfið tekur við sér á ný (og jafnvel enn síðar). Greinina má sjá hér að neðan.

Er leigumarkaður lausnin?

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

Þenslan í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum og víst er að velmegun hér á landi hefur aukist á undanförnum árum þótt sumir vilji meina að ekki hafi allir notið jafn góðs af henni. Seðlabankinn hefur reynt að sporna við þróuninni með hækkun stýrivaxta en ekki haft erindi sem erfiði og hefur verið deilt hart á hann fyrir vikið. Um þetta er gjarnan talað sem hagstjórnarvandann. Ein helsta ástæða þess að stýrivaxtahækkanir, sem eru í raun eina vopn Seðlabankans til þess að berjast gegn þenslunni, hafa ekki virkað betur en raun ber vitni er hin mikla þensla á fasteignamarkaði.

Fasteignaverð hefur á undanförnum árum rokið upp og hefur tiltölulega auðvelt aðgengi að lánsfé kynt þar undir. Nú bendir ýmislegt til þess að um sé að hægjast og fasteignaverð hækkar ekki jafn hratt og áður. En hvað er það sem veldur því að fasteignaverð hefur hækkað svo mikið? Er það óhófleg bjartsýni neytenda eða ráða aðrir þættir þar meira um?

Það vantar skýran valkost

Vissulega hefur þensluskeiðið einkennst af bjartsýni en þótt sú bjartsýni hafi haft áhrif er ekki hægt að kenna henni um þensluna á fasteignamarkaði.

Samkeppni banka og Íbúðalánasjóðs hefur verið nefnd sem einn sökudólganna sem og verðtrygging lánsfjár. Sú gerir það að verkum að lánveitendur þurfa enga verðbólguáhættu að taka og geta því nánast hunsað þau tilmæli sem felast í stýrivaxtahækkunum Seðlabankans. Enn einn þáttur, sem hingað til hefur lítið verið til umræðu, er sú staðreynd að hér á landi er ekki til neitt sem heitir virkur leigumarkaður.

Þeir sem þurfa að koma þaki yfir höfuðið eiga því nánast engra annarra kosta völ en að kaupa fasteign. Eins og stundum er sagt í pólitískri umræðu: Það vantar skýran valkost. Að undanförnu höfum við heyrt af því að nauðungarsölum hefur fjölgað mikið á árinu og er ástæðan sú að fjölmargir ráða engan veginn við þá greiðslubyrði sem þeir búa við. En eins og áður segir, fólk hefur almennt enga aðra raunhæfa leið til þess að koma þaki yfir höfuðið en að kaupa fasteign og verður því að beygja sig undir að bera þá greiðslubyrði sem á það er lögð.

Samkeppni við íbúðamarkað

Spurningin er þó hvort tilvist virks leigumarkaðar myndi verða til þess að koma í veg fyrir hækkanir á fasteignaverði, benda ber á að fasteignaverð hefur einnig hækkað erlendis á undanförnum misserum og þar er virkur leigumarkaður víðast hvar til staðar.

Best er að líta á málið út frá lögmálum samkeppninnar. Samkeppni felur í sér að valkostir eru fyrir hendi. Væri leigumarkaðurinn raunhæfur valkostur hér á landi myndu verðhækkanir á fasteignamarkaði haldast hóflegri en ella. Erlendis er sú staða víða komin upp að almennur skortur er á húsnæði og þá gildir einu hvort fólk vill kaupa eða leigja. Við þær aðstæður sem nú ríkja hér á landi eru þeir sem þurfa að koma þaki yfir höfuðið nánast nauðbeygðir til þess að kaupa og greiða uppsett verð. Virkur leigumarkaður myndi hins vegar veita fasteignamarkaði aðhald, einfaldlega vegna þess að þangað gætu þeir sem ekki hafa efni á eigin fasteign leitað. Þannig má færa rök fyrir því að tilvist leigumarkaðar myndi jafnvel hjálpa til við að leysa hagstjórnarvandann svokallaða. Því fer þó fjarri að einn og sér myndi leigumarkaður vera lausnin á öllum vanda.

Eðlileg verðmyndun

Eins og áður segir heyrum við æ oftar af fólki sem lendir í vandræðum með greiðslubyrði sína og uppboðum hefur fjölgað mikið. Reikna má með því að þeir sem eru að koma inn á fasteignamarkaðinn í fyrsta skipti – og jafnvel sumir þeirra sem þegar eru inni á honum, þ.e. búa í eigin húsnæði – væru betur settir ef þeim byðist sá kostur að leigja sér húsnæði á meðan þeir væru að koma undir sig fótunum.

Að því gefnu að verðmyndun á leigumarkaði væri nokkurn veginn eðlileg myndi greiðslubyrði þessara aðila ekki vera nærri því jafn þung og hún er nú. Á sama hátt og virkur leigumarkaður myndi veita íbúðamarkaði samkeppni myndu aðilar á leigumarkaði keppa innbyrðis – þess vegna er mikilvægt að fleiri en einn aðili séu til staðar sem bjóða upp á leiguhúsnæði.

Leigumarkaður er til staðar

Að lokum ber að taka fram að vissulega er til staðar leigumarkaður hér á landi en í þeirri mynd sem nú er gæti hann seint kallast virkur. Yfirleitt eru það einkaaðilar sem bjóða fram leiguhúsnæði og framboðið er afar lítið. Þá geta sennilega flestir verið sammála um að verð á leiguhúsnæði sé mjög hátt. Ennfremur eru leigjendur almennt séð háðir duttlungum, eða þörfum leigusala sinna.

Þegar talað er um virkan markað í þessu samhengi er átt við markað þar sem framboð er stöðugt og nokkrir stórir aðilar standa fyrir því. Samkeppni þarf að ríkja til þess að markaðurinn geti talist virkur. Jafnframt leiðir samkeppni, að öllu jöfnu, til þess að verðlag helst í skefjum þar sem neytendur geta leitað til annars leigusala reyni sá sem þeir eiga viðskipti við að hækka verðið óeðlilega.

 

 

 


Broddflugan veitir aðhald!

Því hefur oft verið haldið fram að hagsmunir allra hluthafa fyrirtækja, stórra sem smárra (hluthafa þ.e.a.s.), fari alltaf saman. Þess vegna þurfi smærri hluthafar ekki að hafa áhrif á stjórn fyrirtækja né heldur á ákvarðanir hluthafafunda, eðli málsins samkvæmt gæti stóru hluthafarnir hagsmuna hinna smærri.

Ég er ekki endilega sammála þessu og tel mjög mikilvægt að smærri hluthafar eigi sér málsvara sem veitir hinum stærri aðhald. Á Íslandi hefur Vilhjálmur Bjarnason tekið þetta vanþakkláta hlutverk að sér og hér í Svíþjóð eru til mjög áhrifarík og öflug samtök hluthafa, Aktiespararna, sem sinna aðhaldshlutverkinu. Í Bandaríkjunum hefur ein kona verið í fararbroddi í baráttu smærri hluthafa fyrir vönduðum stjórnarháttum fyrirtækja og réttindum hluthafa. Sú heitir Evelyn Y. Davis, stundum kölluð Queen of the Corporate Jungle.

Fyrir rúmu ári síðan fjallaði ég um þessa litríku konu í viðskiptablaði Morgunblaðsins og ég held ég geti fullyrt að sjaldan hefur mér þótt jafn gaman að skrifa grein og þegar þessi var í vinnslu. Greinina má lesa hér að neðan en fyrst bendi ég þeim sem þetta lesa á að kíkja á myndband með Evelyn Davis á Youtube. http://www.youtube.com/watch?v=L0PDEKlVa5E

Broddflugan Evelyn Y. Davis

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

Mikla athygli vakti fyrr á árinu þegar Vilhjálmi Bjarnasyni, formanni Samtaka fjárfesta, tókst á aðalfundi Spron að berja í gegn tillögu um að laun stjórnarmanna félagsins yrðu lækkuð miðað við tillögu þá sem stjórn þess hafði sett fram. Vilhjálmur hefur lengi barist fyrir því að hagsmuna minni hluthafa fyrirtækja sé gætt, m.a. á hluthafafundum, en þrátt fyrir að hann hafi verið dugmikill í þessari virðingarverðu baráttu sinni er ljóst að hann á langt í land með að ná þeim árangri eða áhrifum sem öldruð kona í Bandaríkjunum hefur náð. Sú heitir Evelyn Y. Davis og hefur oft verið nefnd drottning „fyrirtækjafrumskógarins.“

Evelyn þessi er orðin 78 ára gömul og hefur allt frá árinu 1960 verið áberandi á hluthafafundum bandarískra fyrirtækja. Ætla má að sjaldan hafi hún haft jafnmikið að gera og nú. Mikið hefur verið deilt á stjórnendur og stjórnir fyrirtækja vestanhafs fyrir að skammta sér vænar launagreiðslur og kaupauka og því er líklegt að gósentíð sé hjá þeim sem veita slíkum aðilum virkt aðhald.

Í sundbol á aðalfundum

Frú Davis var lengi vel álitin sérvitur í meira lagi og jafnvel stórundarleg en henni hefur engu að síður tekist að vinna sér inn mikla virðingu í Bandaríkjunum. Henni hefur enda margoft tekist að knésetja stjórnendur stórfyrirtækja í mörgum þeim mála sem hún hefur barist fyrir. Sem dæmi má nefna að fyrir fimm árum féllst stjórn lyfjaframleiðandans Bristol-Myers Squibb, sem er í 255. sæti á nýjasta lista Forbes yfir stærstu skráðu fyrirtæki heims, á þá kröfu Davis að allir stjórnarmenn yrðu kosnir árlega. Slíkt væri ef til vill ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún hóf baráttu sína árið 1985 og hafði því barist fyrir þessari breytingu hjá Bristol-Myers í 18 ár. „Að halda tillögunni á lífi var einstakt afrek,“ sagði Robert Hutchison, talsmaður Bristol-Myers í samtali við USA Today á þeim tíma.

Ekki er nóg með að Davis hafi tekist að beygja stjórn lyfjafyrirtækisins því um svipað leyti tók stjórn útgáfurisans Dow Jones sams konar ákvörðun og vísaði til baráttu þessarar kjarnakonu. Fleiri fyrirtæki fylgdu síðan í kjölfarið.

Eins og segir hér að framan hefur Evelyn Davis oft verið álitin sérvitur og stórundarleg og má kannski að einhverju leyti rekja það til þess að hún hefur gjarnan mætt skrautlega klædd á hluthafafundi, í þessu samhengi eru aðalfundir flokkaðir undir hluthafafundi enda eru þeir ekkert annað – eini munurinn er sá að aðalfundir eru árvissir viðburðir. Davis hefur t.d. mætt klædd í þröngum stuttbuxum (e. hot pants), sundfötum og einkennisbúningi skurðlæknis á hluthafafundi og segir hún ástæðuna fyrir þessum uppátækjum vera þá að hún þurfi að ná athygli fundarmanna. Hvort sem hún er undarleg eður ei eða bara það sem kallast kynlegur kvistur, er ljóst að henni hefur tekist að ná athyglinni og að margir hafa notið góðs af starfi hennar. Þrátt fyrir það er hún ekki í forsvari fyrir nein samtök en „enginn þekkir fyrirtæki Bandaríkjanna jafn vel og Evelyn Y. Davis,“ eins og hún segir sjálf. Sérviskan hefur einnig reynst henni til framdráttar. „Öflugasta vopn hennar er að henni er hjartanlega sama um hvað öðrum finnst um hana þannig að hún er tilbúin að vera ruddaleg, að trufla, að vera ráðrík og gera nokkurn veginn hvað sem er til þess að ná athyglinni,“ segir Randall Tobias, fyrrum forstjóri Eli Lilly, annars stórs lyfjafyrirtækis.

Lifði af helförina

Evelyn Y. Davis hefur búið í Bandaríkjunum allt frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari, þ.e. í meira en 60 ár, en hún er þó fædd „vitlausum megin við hafið,“ eins og það heitir í æviágripi hennar á heimasíðu bandaríska fjármálaeftirlitsins, SEC. Fátt segir kannski meira um þau áhrif sem Davis hefur haft vestanhafs á undanförnum áratugum en einmitt það að SEC skuli sjá ástæðu til þess að skella æviágripi hennar á vef sinn, því eftir því sem blaðamaður kemst næst hefur frú Davis aldrei þegið laun frá þeirri merku stofnun. En hvað um það, eins og áður segir er Davis fædd í Evrópu, nánar tiltekið í Amsturdammi árið 1930. Hún er gyðingur og flokkast því til þeirra sem lifðu helför nasista af. Hún hefur sagt frá því að árið 1942 hafi hún ásamt móður sinni og bróður verið handtekin og send í þrælkunarbúðir þegar faðir hennar var í viðskiptaferð handan Atlantshafsins. Þau lifðu hins vegar öll af vistina og fluttust til Bandaríkjana að stríðinu loknu.

Davis lauk framhaldsskólanámi í Maryland-fylki árið 1947 og þaðan lá leið hennar í George Washington-háskólann, einkaháskóla sem staðsettur er aðeins fjórum húsaröðum frá Hvíta húsinu, en þar lærði hún viðskiptafræði.

Faðir hennar var læknir við Johns Hopkins-háskólann í Baltimore og ljóst er að hann var ágætlega efnaður því nám við einkaskóla á borð við George Washington er ekki ódýrt. Jafnframt segir sagan einnig að ferill Evelyn sem fjárfestis hafi hafist þegar hún erfði verðbréf við andlát föður síns og í nokkurra ára gamalli grein í St. Petersburg Times (sem er staðarblaðið í St. Petersburg í Flórída en ekki Pétursborg í Rússlandi) kemur fram að hún hafi mætt á sinn fyrsta aðalfund árið 1959, hjá IBM. Ef til vill hefur hún látið lítið fyrir sér fara á þeim fundi þar sem hún segist sjálf hafa fyrst látið fyrir sér finna á slíkum fundum árið 1960.

Baunaði á Bill

Í áðurnefndri grein í St. Peterburg Times er að finna stórskemmtilega lýsingu blaðamanns af samskiptum Davis við Bill Harrison, þáverandi forstjóra JP Morgan Chase – bankans sem keypti Bear Stearns fyrr á þessu ári – á aðalfundi bankans sem haldinn var í Tampa í Flórída árið 2002. Afkoma bankans árið áður hafði verið afleit og gengi hlutabréfa hans hafði fallið um 20% en þrátt fyrir það hafði Harrison þegið 10 milljón dala aukakaupauka, 80% aukningu á milli ára. Eins og gefur að skilja var söguhetjan okkar ekki par ánægð með slíkt framferði og flaug hún því frá heimaborg sinni, Washington, til Tampa til þess að láta Harrison heyra það.

Blaðamaðurinn lýsir því hvernig Harrison, sem er hávaxinn maður og naut mikillar virðingar, hélt erindi sitt yfir aðalfundargestum en síðan greip Davis fram í fyrir honum.

„Í augum margra hinna rúmlega 200 hluthafa sem ekki vissu hver hún er og starfsmanna JP Morgan Chase á svæðinu sem sóttu fundinn lítur Davis út fyrir að vera sæt amma. Ó, hugsa þeir, hér er annar lítill hluthafi sem hættur er störfum sem vill spyrja saklausrar spurningar.

Harrison, sem stendur í pontu veit betur. Líkamstjáning hans bendir til þess að hann sé að koma sér í stellingar, ákafur í að halda stjórn á hluthafafundinum án þess að missa kúlið eða verða móðgandi. Handleggir hans eru krosslagðir. Á hann í erfiðleikum með að anda?“ segir í grein blaðsins og síðan lýsir blaðamaður því hvernig hin smávaxna Davis tekur til máls og baunar erfiðum spurningum á forstjórann. Þess má geta að þegar hún talar er germönskuskotinn hreimur hennar mjög áberandi og röddin frekar skræk, nokkuð sem blaðamaður St. Petersburg Times segir vera mjög öflugt vopn þegar hún hefur hljóðnema í hendi. Raunar má benda lesendum þessa greinarkorns á að slá Evelyn Davis upp í leitarvélum á netinu því þar má finna myndbrot, t.d. á Youtube, þar sem hún lætur gamminn geysa, því vel má skemmta sér yfir því um stund. Þess má geta að í lok fundarins mun Harrison hafa spurt Davis hvort hún hefði fleiri spurningar og ekki stóð á svarinu: „Já, hvernig kemst ég út á flugvöll?“ Eins og gefur að skilja uppskar hún mikinn hlátur og þegar Harrison sagðist myndu láta starfsmann bankans aka henni á flugvöllinn tók við hátt og langt lófatak.

Fjarri því sest í helgan stein

Davis hefur allt frá árinu 1965 gefið út tímaritið Highlights and Lowlights þar sem hún fjallar um stjórnhætti, hugðarefni sitt, og hún hefur um árabil verið gestafyrirlesari við hina og þessa háskóla vestanhafs, m.a. Yale. Ekki þarf að koma á óvart að efni fyrirlestranna er stjórnhættir fyrirtækja. Hún er vellauðug og stofnaði árið 1989 góðgerðarstofnunina Evelyn Y. Davis Foundation sem létur fé af hendi rakna til hinna og þessara góðra málefna. Þrátt fyrir það er þessi kjarnakona þó fjarri því sest í helgan stein enda á boðskapur hennar ef til vill meira erindi nú en um langt skeið.

Í nýlegu viðtali á CNBC, sem einnig má sjá á netinu, bendir Davis m.a. á að stórir bankar á borð við Citigroup og áðurnefndan JP Morgan Chase hafi ákveðið að halda aðalfundi sína á sömu dögum og önnur fyrirtæki. Yfirleitt hafa bankarnir passað upp á vera einir um athyglina. Þetta segir Davis vera til marks um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera og fjölmiðlar og greinendur ættu að vera á varðbergi. Og hananú!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband