Tvíbent undraverkfæri

Nú er orðið alllangt síðan ég hef párað eitthvað hér á bloggið og eitthvað mun ég reyna að bæta úr því á næstunni, svona þegar andinn kemur yfir mig. Í þetta skipti ætla ég að halda áfram að nýta mér þá heimild sem Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri, og Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, hafa veitt mér til þess að birta efni sem ég skrifaði í Morgunblaðið á árum mínum sem blaðamaður þar (undir nafni að sjálfsögðu) og birta viðtal sem ég tók í júní 2007 við Gyan nokkurn Sinha, framkvæmdastjóra hjá Bear Stearns.

Sinha þessi var staddur á Íslandi á vegum Aska Capital til þess að kynna skuldabréfavafninga, eða -vöndla, bankans.  Hann lofaði slíka fjármálagerninga mjög og sagði þá loka hringrás fjármagnsmarkaða þannig að óhugsandi væri að kreppur af þeirri tegund sem reið yfir heiminn á 4. áratug síðustu aldar endurtækju sig. Þetta var sem sagt í júní 2007 og rétt rúmum mánuði síðar hófst hrun Dow Jones-hlutabréfavísitölunnar sem markaði upphafið að Hundadagakreppunni eins og ég hef kallað efnahagslægð síðustu missera.

Það voru einmitt skuldabréfavafningarnir sem Sinha lofaði svo mjög sem breyttu smávægilegri niðursveiflu í djúpa lægð og rúmum tveimur mánuðum eftir að ég tók viðtalið við Sinha urðu tveir sjóða Bear Stearns gjaldþrota og innan við ári eftir viðtalið var bankinn allur, orðinn deild í JP Morgan Chase. Það má því með sanni segja að undraverkfærið skuldabréfavafningarnir hafi reynst tvíbent.

Hér að neðan er viðtalið við Sinha en það birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins hinn 14. júní 2007:

Vafningar loka hringrásinni

Dr. Gyan Sinha, framkvæmdastjóri hjá fjárfestingarbankanum Bear Stearns, var nýlega staddur hér á landi á vegum Aska Capital. Guðmundur Sverrir Þór hitti hann að máli og ræddi við hann um horfurnar í efnahagsmálum heimsins.


SKULDABRÉFAVAFNINGAR eru lokahlekkurinn í hringrás fjármálagerninga sem saman mynda þann fjármálamarkað sem við þekkjum í dag. Þetta segir dr. Gyan P. Sinha, framkvæmdastjóri skuldabréfasviðs bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns, sem staddur var hér á landi nýlega í tilefni af ráðstefnu sem Bear Stearns hélt í samvinnu við Aska Capital. Efni ráðstefnunnar var einmitt skuldabréfavafningar og samsettir fjármálagerningar en skuldabréfavafningar (e. collateralized debt obligation) eru í stuttu, og mjög einfölduðu, máli eignasöfn sem byggjast upp á skuldabréfum, lánum og öðrum fasttekjuverðbréfum. Í erindi sínu á ráðstefnunni fjallaði Sinha, sem er tíður gestur og álitsgjafi hjá fjármálamiðlum á borð við Bloomberg og CNBC, um horfur á mörkuðum með skuldabréfavafninga.

Gífurlegur dollaraforði

Sinha segir þessa hringrás mynda endurvinnslu á dollurum um allan heim. "Ef þú lítur á hagkerfi heimsins síðustu fimm til sex ár sérðu að helstu leikendur eru Bandaríkin (þar sem viðskiptahalli er gífurlegur), Mið-Austurlönd og nýmarkaðir Asíu en bæði í Mið-Austurlöndum og Asíu er viðskiptajöfnuður mjög jákvæður.

Nýmarkaðir Asíu hafa vaxið mjög hratt og hagkerfin þar halda gengi gjaldmiðla sinna á vissu stigi sem margir vilja meina að sé allt of lágt. Málið er þó að þau verða að halda genginu svo lágu því ella myndi útflutningur (sem er meginstoð þessara hagkerfa) líða fyrir. Jafnframt safnast peningar mjög hratt saman innan hagkerfanna – hlutfall sparnaðar er þar mjög hátt – enda er samanlagður forði þeirra í Bandaríkjadölum um 3,5 billjónir (1 billjón jafngildir þúsund milljörðum og því er hér um 224 þúsund milljarða króna að ræða, innsk. blaðamanns). Þessi hagkerfi eru nú farin að fjárfesta í stórum stíl í bandarískum ríkisskuldabréfum, skuldabréfum gefnum út af bandarískum íbúðalánasjóðum á borð við Fannie Mae og Freddie Mac.

Á síðustu þremur til fjórum árum hefur stór hluti þessa fjármagns farið inn á markaði þar sem áhættudreifing er góð og ávöxtun sömuleiðis. Þannig hafa þessir markaðir reynst afar hagkvæmir. Ég lít á það sem svo að þegar við sjáum þessa samsetningu dollaraflæðis út um allt tengist það verulega grundvallarþáttum svo sem neyslu og sparnaðarmynstri, sem og því hvernig mismunandi fyrirtæki stjórna gjaldmiðlastefnu sinni.

Þetta breytist ekki vikulega eða mánaðarlega. Það hefur tekið mörg ár að móta þessa hegðun og það tekur mörg ár að gera á henni grundvallarbreytingar þó vissulega geti átt sér stað einstaka afvik," segir Sinha en bendir á að jafnframt sé önnur hlið á málinu.

Fjárfesting Kína í Blackstone gott dæmi

Hún er sú að þessar fjárfestingar skila gífurlegu magni lausafjár inn á okkar markaði og nýjasta og, segir hann, mest áberandi dæmið sé fjárfesting kínverska ríkisins í 10% hlut í bandaríska framtaksfjárfestingarsjóðnum Blackstone Group. Því hlutafé fylgir enginn atkvæðisréttur sem segir okkur að þarna er ekki verið að leita að áhrifum á fjárfestingastefnu sjóðsins heldur einfaldlega góðri ávöxtun og áhættudreifingu.

"Blackstone fékk þarna 3 milljarða dala sem þeir geta tífaldað með skuldsetningu og þar með hefur fjárfesting kínverska ríkisins veitt Blackstone 30 milljarða dala til þess að fjárfesta. Þetta er stórkostlegt dæmi um þau áhrif sem hagkerfin í austri eru farin að hafa áhrif hér á Vesturlöndum og eflaust bara byrjunin.

Þetta sýnir okkur líka hvernig hið gífurlega magn fjármagns sem hægt er að dæla inn á markaði getur dempað flökt og þess vegna tel ég að vaxtamunur muni aðlagast meira að og hreyfast í takt við undirstöður heimshagkerfisins."

Sinha segir suma hafa líkt þessu

flæði fjármagns úr nýmarkaðshagkerfunum við að vatn renni upp á við. "Þetta ferli getur gengið um langa hríð því þróuðu hagkerfin búa yfir stöðugum fjármálakerfum og lagaumhverfi sem oft eru ekki til staðar á nýmörkuðunum. Þess vegna geta þróuðu hagkerfin haldið dampi um langa hríð þrátt fyrir mikinn viðskiptahalla. Vatn getur runnið upp á við ef nægur þrýstingur er fyrir hendi."

Aðspurður segir hann að það versta sem geti gerst sé að Kínverjar hætti að spara svona mikið og noti meira af fjármununum til neyslu en það sé aldrei að vita hvenær, eða hvort, það gerist. "Að minnsta kosti þori ég ekki að spá um það," segir hann.

"Það má segja að nýtt kerfi hafi orðið til og vissulega fylgja því kerfi nýjar áskoranir. Ein slík er fjarlægðin á milli þeirra sem búa til áhættu og þeirra sem taka áhættu. Hin landfræðilega fjarlægð á milli þeirra hefur þó verið mjög gagnleg því hún hefur dregið verulega úr áhættunni á ofhitnun. Áhættan dreifist á milli markaða en samtímis hefur ósamhverfni upplýsinga aukist og það er eitt þeirra vandamála sem þarfnast lausnar. Þess vegna er það mikil áskorun fyrir fjárfesta dagsins í dag að draga úr fjarlægðinni án þess að missa kostina sem hún hefur í för með sér," segir Gyan Sinha.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir félagi sverrirthor! Skemmtilegt hjá þér að rifja þetta upp, þeir voru margir sérfræðingarnir sem á ráku á okkar fjörur! Er ekki rétt munað hjá mér að á mynd með Sinha var Tryggvi Þór Herbertsson?

Björn Jóhann (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 00:05

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sælinú og takk fyrir það. Jú, mikið rétt. Tryggvi var viðstaddur viðtalið enda Sinha á landinu á hans vegum. Hann átti nokkur innskot í viðtalið sem þó rötuðu ekki á prent.

Guðmundur Sverrir Þór, 13.12.2009 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband