Niðurlæging á körfuboltavelli

Aldrei þessu vant ætla ég að blogga og aldrei þessu vant ætla ég hvorki að blogga um efnahagsmál eða raunir Liverpool á fótboltavellinum. Ég ætla að blogga um körfubolta. Ég er kominn með töluverða þörf fyrir að skrifa á ný þannig að á næstunni má e.t.v. búast við fleiri bloggum og ekki endilega um efnahags- eða samfélagsmál eins og venjan hefur verið á þessari síðu. 

Við feðgarnir gerðum svolítið af því í fyrra að fara saman á körfuboltaleiki enda er sá stutti einkar áhugasamur um körfubolta og getur eytt heilu klukkutímunum úti við körfu og æft sig að kasta. Hér í Uppsölum er mikil körfuboltahefð og Uppsala Basket eins og liðið heitir hefur um áratugaskeið verið á meðal þeirra allra bestu í Svíþjóð, sérstaklega hefur unglingastarfið verið til fyrirmyndar en mér skilst að unglingalið KFUM Uppsala (sem er hið rétta nafn félagsins) hafi árum saman borið höfuð og herðar yfir önnur unglingalið hér í landi.

Hvað um það, körfuboltatímabilið er tiltölulega nýbyrjað hér í Svíaríki og við feðgarnir ákváðum að skella okkur á völlinn í kvöld og sjá Uppsala Basket spila. Andstæðingar kvöldsins voru LF Basket Norrbotten frá Luleå, sem fram að þessu hafa heitað Plannja Basket og lentu í öðru sæti í keppninni um Svíþjóðarmeistaratitilinn í fyrra eftir að hafa slegið Uppsala út í undanúrslitum.

Til að gera langa sögu stutta voru Uppsalabúar, með Íslendinginn Helga Magnússon innanborðs, gjörsamlega niðurlægðir. LF Basket skoruðu úr 7 fyrstu sóknum sínum og eftir bara örfáar mínútur var staðan orðin 4-15 og eftir það sáu Uppsalapiltarnir aldrei til sólar. Í hálfleik var staðan 33-59 og eftir þriggja mínútna spil í síðari hálfleik stóð 33-70 á stigatöflunni. Þá slökuðu norðanmennirnir aðeins á klónni og leyfðu Uppsala að sprikla en munurinn varð aldrei minni en 25 stig og þegar upp var staðið skildu 32 stig liðin að, 74-106. Það segir sína sögu um gang leiksins að minnsta manni LF Basket, 183 cm og 92 kg, tókst ítrekað að ýta burtu stærsta manni Uppsala, 217 cm og 115 kg, og jafnvel vinna af honum fráköst.  

Ég hef ekki séð Uppsala spila jafnilla í þeim um það bil tíu leikjum sem ég hef séð með liðinu en vona að þetta sé ekki það sem koma skal. Það er nefnilega ljóst að við feðgarnir munum fara á mun fleiri leiki í vetur en í fyrra; á þriðjudag byrja æfingar P03 en það er aldursflokkur guttans og þar mun yðar einlægur standa fyrir þjálfun. Fyrst um sinn einn, sem gæti orðið áhugavert þar sem ég hef aldrei komið nálægt körfuboltaþjálfun, en þegar líður á veturinn skilst mér að ég muni fá aðstoðarmenn úr unglingaflokkum liðsins.

Þjálfarar fá ókeypis ársmiða á leiki Uppsala Basket og krakkar sem æfa með liðinu fá ársmiða á mjög lágu verði, sem sagt við munum fara á mun fleiri leiki en í fyrra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband