Laugardagskvöld með Freddie og félögum

Þeir sem þekkja mig vita sennilega flestir að ég er mikill aðdáandi bresku hljómsveitarinnar Queen og hef verið um all langt skeið. Ekki er ég svo sem einn um það enda hljóta þeir Freddie Mercury og félagar hans að vera á meðal vinsælustu hljómsveita sögunnar.

Nýlega benti Bobbi vinur minn mér á að hér í Uppsölum stóð til að þekktir sænskir tónlistarmenn flyttu helstu lög Queen og vorum við að velta fyrir okkur að sjá þá sýningu. EKki veit ég svo sem um hvaða tónlistarmenn var að ræða en minnugur þeirrar hörmungar sem flutningur íslenska „tónlistarlandsliðsins“á meistaraverki Bítlanna Sgt. Pepper árið 2008 var, ákvað ég að sleppa því að sjá þessa sýningu. Þess í stað sagði ég Bobba að ég skyldi einhvern daginn bjóða honum í mat og setja síðan DVD-diskinn með klassískum tónleikum Queen á Wembley 1986 í spilarann.

Disk þennan gáfu íslenskir vinir okkar fjölskyldunnar í Skövde mér í afmælisgjöf, ásamt Greatest Hits með Queen á DVD, árið 2004. Sannarlega góð gjöf sem ég held mikið upp á. Ég hef þó ekki horft á diskinn síðan áður en ég flutti aftur til Svíaríkis í ágúst 2008 þannig að það var svo sannarlega tími til kominn þegar við Bobbi létum verða af því að skella honum í tækið nú um helgina.

Sannast sagna var ég búinn að gleyma hvað tónleikar þessir eru frábær skemmtun og ljóst er að ég mun ekki láta jafn langan tíma líða uns ég set diskinn aftur í tækið. Árið 1986 var ég ellefu ára gamall og auk þess hafði ég ekki uppgötvað Queen alveg á þeim aldri, hafði að sjálfsögðu heyrt þau lög hljómsveitarinnar sem voru hvað mest spiluð á Rás 2 á þessum árum og hafði mjög gaman af en hafði lítið heyrt af eldri meistaraverkum. Eðli málsins samkvæmt fór ég því aldrei á Queen-tónleika en tel mig geta fullyrt að þeir sem voru á Wembley laugardaginn 12. júlí 1986 eiga aldrei eftir að gleyma þeirri upplifun. Mér er meira að segja sagt að tónleikarnir hafi verið sýndir í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna og að þeir sem sáu þá útsendingu muni seint gleyma því.

Félagarnir í Queen voru allir tónlistarmenn í hæsta gæðaflokki en þeir höfðu einnig stórkostlega sviðsframkomu, sem m.a. sést glögglega á því að það er almenn skoðun þeirra sem börðu Live Aid-tónleikana á Wembley ári áður augum að þar hafi Queen borið af. Fremstur meðal jafningja þar var söngvarinn Freddie Mercury sem hafði einstakt lag á að ná til áheyrenda. Það kemur e.t.v. einna best fram í laginu Love of my life, sem ég hef heyrt Freddie segja í viðtali að honum hafi alltaf þótt skemmtilegast að flytja á tónleikum þar sem áhorfendur tóku jafnan svo vel undir. (Takið eftir að í þessu lagi missir Brian May þráðinn stundarkorn, nokkuð sem ekki mun hafa gerst oft hjá þessum frábæra gítarleikara.)

Laugardagskvöldið með þeim Freddie Mercury, Brian May, Roger Taylor og John Deacon var svo sannarlega góð skemmtun og við hæfi að njóta þess á laugardagskvöldi, við náðum reyndar ekki að klára tónleikana það kvöldið og þurftum því að horfa á síðustu lögin daginn eftir, í góðum félagsskap, right 'til the end.

 
Góðar stundir!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Þessir Wembley-tónleikar eru náttúrulega alveg að gera sig ... og miklu meira en það ;) ...

Páll Jakob Líndal, 9.11.2010 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband