Rétturinn til að kjósa ... ekki

Í dag er kosið til stjórnlagaþings og þegar þessar línur eru ritaðar bendir flest til þess að kjörsókn hafi verið í dræmari kantinum, jafnvel afar dræm. Í aðdraganda kosninga, og jafnan þegar kjörsókn er dræm, fáum við að heyra álitsgjafa benda á hversu slæmt það sé þegar kjósendur nýta sér ekki þennan mikilvægasta rétt lýðræðisins, hornstein hins frjálsa samfélag. Stundum heyrir maður álitsgjafa, og að sjálfsögðu stjórnmálamenn, segja það vera lýðræðislega skyldu okkar kjósenda að kjósa og hafa þannig áhrif.

Vissulega er dræm kjörsókn óheppileg en í mínum huga er þó einn réttur mikilvægari í lýðræðissamfélagi en kosningarétturinn. Það er rétturinn til þess að kjósa ekki ef maður kærir sig ekki um það. Kosningarétturinn er einmitt það sem felst í orðanna hljóðan, réttur en ekki skylda. Rétturinn að kjósa felur einnig í sér réttinn til þess að kjósa ekki og um leið og hann verður að kvöð hættir hann að vera réttur og þá er frelsið ekki lengur mikið. Þess vegna er rétturinn til þess að kjósa ekki mun mikilvægari en rétturinn til þess að kjósa. Gleymum því ekki að það hefur gerst í heimi hér að fólk hafi verið skyldað til að mæta á kjörstað.

Með því að kjósa höfum við áhrif á það hvernig samfélaginu er stýrt og að sjálfsögðu fyrigerum við þeim áhrifum okkar með því að mæta ekki á kjörstað en það breytir því ekki að kosningarétturinn er réttur en ekki kvöð. Oft er bent á að forfeður okkar börðust fyrir almennum kosningarétti og að okkur beri að sýna þeirri baráttu virðingu. Vissulega börðust forfeður okkar fyrir þessum rétti og víða var það blóðug barátta en væri kosningaskylda ekki einmitt þvert á allt það sem forfeður okkar börðust fyrir?

Ég tel svo vera. Kosningarétturinn er réttur en ekki kvöð og hann má aldrei verða að kvöð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband