Stýrivaxtalækkun ekki líkleg ef marka má orð seðlabankastjóra

Eflaust hafa margir vonað að með nýjum húsbónda í Svörtuloftum myndi vaxtastefna Seðlabankans breytast og vextir brátt taka að lækka. Ljóst er að háir stýrivextir eru mörgum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, afar þungur baggi og því ekki að undra að kröfur séu uppi um að lækka vexti.

Eftir að hafa lesið viðtal Viðskiptablaðsins við Svein Harald Öygard sýnist mér ljóst að ekki verði mönnum að þeirri ósk sinni. Augljóst er í stjórnartíð hans verður lögð höfuðáhersla á að afnema þau gjaldeyrishöft sem nú eru í gildi og til þess þarf að styrkja krónuna.

„Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að krónan sé stöðug og þá verður hægt að afnema gjaldeyrishöftin,“ segir Öygard í viðtalinu en skömmu áður hafði hann sagt það vera forgangsatriði að afnema gjaldeyrishöftin.

Hið opinbera hefur ekki mörg úrræði til þess að styrkja krónuna. Í raun er þetta allt saman spurning um framboð og eftirspurn. Að því gefnu að framboðið verði óbreytt þarf hið opinbera að finna leiðir til þess að auka eftirspurn eftir krónum. Þá er spurningin hvernig þetta er gert. Ein leið er að Seðlabankinn verði virkur kaupandi á krónum á gjaldeyrismarkaði en til þess verður hann að hafa tiltölulega stóran gjaldeyrisforða, sennilega töluvert stærri en nú er.

Önnur leið er að fá erlenda fjárfesta til þess að vilja fjárfesta á Íslandi. Þetta er auðveldast gert með háum vöxtum og þess vegna tel ég einsýnt að ekki verður hróflað við vaxtastigi á næstunni enda svarar Öygard þegar hann er spurður hvenær hann sjái fyrir sér að stýrivextir lækki: „Þegar verðbólguþrýstingur lækkar og það mun gerast með sterkara gengi krónunnar.“

Sem sagt, vextir fara ekki að lækka fyrr en gengi krónunnar eru orðið nægilega sterkt. Nú vildi seðlabankastjórinn vissulega ekki tjá sig um það hversu sterk krónan þurfi að vera en mér þykir líklegt að hún sé enn talin alltof veik.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband