Kærasta í hverri höfn

Þegar ég var á leið heim úr fótbolta í kvöld var ég með útvarpið í bílnum stillt á P4, eina af stöðvum sænska ríkisútvarpsins. Þá var á dagskrá þáttur er nefnist Karlavagnen, eða Karlsvagninn eins og stjörnumerkið heitir á íslensku, en sá þáttur er á dagskrá á hverju kvöldi og þar getur fólk hringt inn og rætt hin og þessi mál. Stundum má ræða hvað sem er en yfirleitt eru þemu og í kvöld átti það við. Efni kvöldins var tvöfalt líf og þegar ég sat í bílnum barst þættinum eitt ótrúlegasta samtal sem ég hef nokkurn tíma heyrt í Karlavagnen og þó hef ég hlustað á nokkra þætti í gegnum tíðina.

Sá sem hringdi var maður á miðjum aldri, kannski tæplega sextugur. Hann sagðist hafa starfað sem flutningabílstjóri síðan 1973 og þá yfirleitt utan Svíþjóðar. Síðustu ár hefur hann starfað í Eystrasaltslöndunum. Hann siglir þangað síðdegis á sunnudögum og vinnur mánudaga til miðvikudaga. Á fimmtudögum siglir hann svo heim og eyðir því sem eftir lifir vikunnar, þangað til hann siglir aftur yfir Eystrasaltið, með eiginkonunni. 

Fram að þessu var svo sem ekkert athugavert við frásögnina en síðan fór maðurinn að segja frá því hvað honum þætti notalegt að taka ferjuna yfir því það kæmi alloft fyrir að einhver bankaði upp á í káetunni og spyrði hvort hann langaði ekki að koma að skemmta sér. „Þá lendir maður oft í ævintýrum,“ bætti hann við.

Að þessu loknu fór söguhetjan okkar, sem í raun má kalla and-hetju, að segja frá því að hann á eina ástkonu í Tallinn, sem hann hittir á mánudögum, eina í Riga, sem hann hittir á þriðjudögum, og eina í Vilnius, sem hann hittir á miðvikudögum. Enginn þeirra veit af hver annarri og hann er vanur að senda þeim sms þar sem hann tilkynnir að hann sé væntanlegur. Þá hringja þær venjulega og spyrja hvort hann vilji vera heima eða fara út að borða og dansa. Vinurinn vill gjarnan fara út að dansa því þá finna skvísurnar að hann er enn til í tuskið, enn með blek í pennanum ef svo má að orði komast. Síðan lýsti hann því ansi ítarlega hvernig hann vill að hjákonurnar séu klæddar þegar þau fara út að borða.

Þegar hér var komið við sögu ákvað þáttastjórnandinn, sem greinilega var í hálfgerðu sjokki og hafði ekki getað stunið upp orði á meðan vinurinn lýsti tvöfeldni sinni, að grípa fram í fyrir honum og spurði hvort konan hans vissi af þessum hjákonum. „Nei,“ sagði hetjan okkar og gaf í skyn að þetta kæmi henni bara ekkert við. Hún væri ánægð á meðan hún fengi heimilistæki sem hana vantaði og vetrardekk á bílinn auk alls annars sem hún pantaði. Ekki mátti heldur gleyma því að hún fengi nú að hafa hann þá daga sem hann væri ekki að vinna; „hún hefur því varla yfir neinu að kvarta,“ gaf hann í skyn.

„Hvað fyndist þér ef konan þín væri jafn tvöföld í roðinu og þú,“ spurði þáttastjórnandinn nú og var hún greinilega búin að ná sér af mesta áfallinu. Svarið var hápunktur þessa stórkostlega samtals. „Á nú að fara að dæma mann?“ spurði vinurinn á móti og þegar þáttastjórnandinn svaraði: „Nei, ég vil bara vita hvað þér myndi finnast ef konan þín lifði lífinu á svipaðan hátt og þú,“ brást vinurinn hinn versti við. „Ég hringdi ekki til að tala um það. Þetta er greinilega þín leið til þess að ljúka samtalinu,“ og lagði á.

Eins og ég segi hef ég aldrei heyrt annað eins samtal í þessum þáttum og ég vona svo sannarlega að menn með svo sveigjanlegt siðgæði sé ekki að finna á hverju strái. Ég er þó nægilega raunsær til að gera mér grein fyrir því að þessi maður er ekki sá eini í heiminum sem er með kærustu í hverri höfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband