Jákvætt

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir ríður á að hið opinbera, hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög, skapi störf. Miðað við þau fjárlög sem samþykkt voru í haust og þann stakk sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sniðið ríkinu er ekki hægt að búast við mikið meiru en þeim spörðum sem ríkisstjórnin tíndi til fyrr á árinu og því er mjög mikilvægt að sveitarfélögin taki við keflinu.

Hið opinbera þarf að þenja út í kreppu af því tagi sem nú herjar á heiminn, ekki bara á Íslandi, og því tel ég þetta vera mjög jákvætt skref hjá Reykjavíkurborg. Ég hef verið gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn, m.a. vegna fréttar sem birtist nýlega um afturvirkan niðurskurð fjárframlaga til Tónlistarskóla Reykjavíkur, en þetta er skref í rétta átt og vonandi verða þau fleiri.

Atvinnuleysi er mikið böl og langvarandi mikið atvinnuleysi getur gert kreppuna enn alvarlegri en hún þarf að vera. Þess vegna ber að grípa til allra ráða til þess að draga úr atvinnuleysinu, sér í lagi þegar atvinnulífið er þess ekki megnugt.


mbl.is 5200 ráðnir í sumarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Mér finnst Reykjavíkurborg vera að gera frábæra hluti í dag. Hönnu Birnu hefur þar að auki tekist að múlbinda liðið því ekki hafa verið teljandi vandræði hjá meirihlutanum. Ríkið mætti taka sér þetta til fyrirmyndar. En það er borin von.

Guðmundur St Ragnarsson, 2.5.2009 kl. 00:53

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Takk fyrir þetta innlegg nafni. Ég hef ekki verið á Íslandi síðan í ágúst sl. þannig að ég fylgist ekki alveg jafnvel með því sem gerist í borginni og áður en fréttir af því að skera ætti afturvirkt niður fjárframlög til Tónlistarskóla Reykjavíkur þóttu mér ekki til fyrirmyndar. En 5200 sumarstörf eru það vissulega.

Hvað múlbindinguna varðar, er þetta ekki eins og venjulega spurning um hagsmuni og auk þess það að öll athyglin hefur verið á þjóðmálunum?

Guðmundur Sverrir Þór, 3.5.2009 kl. 08:09

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ástæða þess að ríkið er ekki að þenja sig út er að á síðustu árum hefur ríkisútgjöldum verið stýrt eins og um kreppu hafi verið að ræða.  Aukin ríkisútgjöld ýttu undir bóluna og gerðu hana stærri og kreppuna verri.

Nú þegar ríkið þarf að þenja sig út þá er kassinn tómur og krónan í 'flotkví'.

Allar aðgerðir til að auka eftirspurn munu auka þrýstinginn á krónuna til lækkunar og þar með hækka verðbólgu og gengistryggð lán. (nema að eftirspurn eftir krónu á gjaldeyrismörkuðum aukist með meiri nettó gjaldeyrisafgangi).

Ég lít ekki á það sem atvinnusköpun að rétta fólki skóflu til að grafa holu til þess að fylla hana svo aftur.  Atvinnusköpun er þegar fólk skapar verðmæti með vinnu sinni og eykur þannig sína velferð og annarra í þjóðfélaginu.  -  Þess vegna þarf að vanda allar aðgerðir sem kallast atvinnuskapandi.

Það sem getur gert kreppuna lengri en hún þyrfti að vera er sóun á fjármagni í óhagkvæm verkefni.

Lúðvík Júlíusson, 3.5.2009 kl. 12:18

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll Lúðvík!

Ég geri mér grein fyrir því hvers vegna ríkið getur ekki gert meira, enda kemur það fram í upphaflegu færslunni. Á krepputímum er vel réttlætanlegt að reka ríkið með halla (prenta peninga) og við okkur hagfræðingum sem teljum það m.a.s. nauðsynlegt fjölgar. Ég er þér hjartanlega sammála um að best er að ráðast í framkvæmdir sem efla innviði samfélagsins til lengri tíma litið en við megum heldur ekki hafna aðgerðum sem í raun hafa ekkert annað markmið en að draga úr atvinnuleysi. Atvinnuleysi er mesta böl kreppa og leita ber allra leiða til að draga úr því. Kostnaðurinn þarf ekki að vera mikið meiri en við útborgun atvinnuleysisbóta en ávinningurinn verður mun meiri. Að mínu mati getur stórfelldur niðurskurður hjá hinu opinbera orðið til þess að dýpka kreppuna enn frekar þegar við bætast hundruðir eða jafnvel þúsundir á atvinnuleysisskrá.

Ræktun sprota, og aðgerðir til þess að bæta umhverfi slíkra fyrirtækja, eru hið besta mál en við megum ekki gleyma því að þær hafa líka mikinn kostnað í för með sér.

Guðmundur Sverrir Þór, 3.5.2009 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband