Kóngurinn á Wall Street

Í frétt þeirri sem bloggfærsla er tengd við er það haft eftir Ragnari Þórissyni að vinatengsl Ólafs Ragnars við Steve Schwarzman séu í gegnum forsetafrúna en eftir því sem ég best veit er það ekki alls kostar rétt.

Fyrir tæpum þremur árum skrifaði ég prófílgrein um Schwarzman í Viðskiptablað Morgunblaðsins og fékk í kjölfarið að vita að hann hefur lengi talið Ólaf Ragnar til sinna nánustu vina. Þannig var mér tjáð að Schwarzman hafi verið í heimsókn á Bessastöðum hinn 11. september 2001 og hafi þurft að lengja heimsókn sína þar sem flug vestur um haf lá niðri í nokkra daga eftir árásina á Tvíburaturnana.

Greinin um Schwarzman fylgir hér á eftir.

 

Nýi kóngurinn á Wall Street

Maður er nefndur Steve Schwarzman og er hann af mörgum talinn sá allra voldugasti í einum af nöflum fjármálaheimsins. Guðmundur Sverrir Þór fræddist um nýja kónginn á Wall Street.

Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti svokallaðra "private equity"-fjárfestinga, eða þeirra aðila sem sérhæfa sig í slíkum fjárfestingum. Sumir finna þeim allt til foráttu og telja þá nánast handbendi þess er býr í neðra á meðan aðrir telja þá nánast himnasendingu fyrir hagkerfi heimsins. Ekki hefur verið til gott íslenskt hugtak yfir "private equity" en í þessu tilviki er best að tala um óskráð hlutafé.

Þessi fjárfestingarstefna felst í stuttu máli í því að kaupa hlutafélög sem ekki eru skráð á markað – eða kaupa skráð félög og afskrá þau – hagræða í rekstri þeirra á einn eða annan hátt og selja þau síðan með hagnaði. Þessi hugmyndafræði fer mikið fyrir brjóstið á mörgum sem telja hana til marks um græðgi mannskepnunnar en þeir sem telja fræðina af hinu góða benda á að hún leiði til aukinnar skilvirkni og því sé hún til þess fallin að efla efnahagskerfi heimsins. Hér skal ekki skorið úr um hvort þetta sé góð eða slæm hugmyndafræði heldur fjallað um þann mann sem nefndur hefur verið "nýi kóngurinn á Wall Street". Sá heitir Stephen Schwarzman og er forstjóri Blackstone Group, sem í dag er að margra mati öflugasta og áhrifamesta fjárfestingarfyrirtæki heims.

Valdaþróun á Wall Street

"Á 9. áratugnum voru valdhafarnir á Wall Street með rauð axlabönd, snæddu á Le Cirque og græddu peninga á ruslskuldabréfum og misvirðiskaupum. Áratug síðar voru þeir í pólóbolum og spiluðu fótboltaspil í áhættufjárfestingarfyrirtækjunum sem standa við Sand Hill Road í Silicon Valley og uppskáru milljarða eftir fjárfestingar í hátækni. Í dag má finna nýjustu risana á Wall Street sitjandi á hverjum mánudagsmorgni við langt, svolítið slitið, fundarborð í gluggalausu stjórnarherbergi langt fyrir ofan Park Avenue, þar sem Blackstone Group er til húsa."

Á þessum orðum hefst nýleg umfjöllun bandaríska viðskiptatímaritsins Fortune um Schwarzman en hann er annar stofnenda fyrirtækisins og eins og það er orðað í Fortune er það hann sem stýrir mánudagsfundunum í Blackstone Group. Það er hann sem leggur línurnar og Blackstone leggur ekki fé í neitt verkefni án samþykkis hans. Sagt að hann þurfi ekki einu sinni að hækka róminn á fundum því þegar Steve Schwarzman talar leggja menn við hlustir og orð hans eru lög.

Stærsta yfirtakan í þriðju tilraun

Rætur Blackstone liggja í fjárfestingum í óskráðu hlutafé, þótt vissulega sinni fyrirtækið öllum þeim greinum sem talist geta til litrófs fjárfestingalistarinnar. Þetta kemur berlega í ljós þegar litið er yfir dagskrá mánudagsfundanna áðurnefndu.

Það var á einum slíkum fundi sem Schwarzman og vopnabræður hans lögðu á ráðin um yfirtökuna á fasteignafyrirtækinu Equity Office Properties Trust (EOP), stærsta eiganda skrifstofuhúsnæðis í Bandaríkjunum. Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem Blackstone hreppti hnossið en tveimur fyrri tilboðum fyrirtækisins í EOP hafði verið hafnað. Yfirtakan varð að veruleika hinn 9. febrúar síðastliðinn og þegar upp var staðið þurftu Schwarzman og menn hans að punga út 39 milljörðum dollara, jafngildi um 2.700 milljarða króna, og voru það stærstu PE-viðskipti til þess tíma. Síðan hefur verið tilkynnt um 45 milljarða dala yfirtöku nokkurra fyrirtækja á orkufyrirtækinu TXU og er sú yfirtaka sú stærsta til dagsins í dag.

Mikil bjartsýni ríkir á markaði óskráðra hlutabréfa um þessar mundir og til marks um það hefur Schwarzman látið hafa eftir sér að hann sé þess fullviss að fyrir árslok muni eiga sér stað yfirtaka að verðmæti yfir 50 milljarða dala. Ekki fylgir þó sögunni hvort þessi vissa hans byggist á innherjaupplýsingum, þ.e. að hann hafi sjálfur hug á að framkvæma slíka yfirtöku.

8.500 milljarða króna fjárfestingargeta

Schwarzman er fæddur á degi heilags Valentínusar (14. febrúar) árið 1947 og er hann því nýorðinn sextugur. Hann er alinn upp í úthverfum Fíladelfíuborgar og gekk í almennan skóla, sem oft er talið til marks um að menn séu ekki fæddir með silfurskeið í munni. Hann hefur þó sennilega verið afbragðsnámsmaður því úr almenningsskólakerfinu lá leiðin í hinn virta Yale-háskóla og þaðan í Harvard Business School en þaðan lauk Schwarzman MBA-gráðu. Að námi loknu hóf hann störf hjá Lehman Brothers, einum þekktasta fjárfestingarbanka heims.

Þar reis stjarna hans hratt því árið 1978, aðeins 31 árs að aldri, var söguhetjan okkar skipaður framkvæmdastjóri samruna- og yfirtökudeildar þar sem hann starfaði allt til ársins 1984.

Miklar sviptingar innan Lehman Brothers leiddu til þess að Schwarzman yfirgaf fyrirtækið og stofnaði Blackstone Group árið 1985 í félagi við Peter Peterson, sem hafði verið forstjóri Lehman frá 1973–1984. Peterson þessi, sem í dag er stjórnarformaður Blackstone Group, hefur einnig unnið sér það til frægðar að hafa verið viðskiptaráðherra Bandaríkjanna í stjórnartíð Richards Nixons.

Eigið fé Blackstone var í upphafi um 400 þúsund Bandaríkjadalir og hjá fyrirtækinu störfuðu fyrst um sinn fjórir starfsmenn, að þeim Schwarzman og Peterson meðtöldum. Nú þegar rúmlega tveir áratugir eru liðnir frá stofnun fyrirtækisins er fjárfestingageta þess metin á um 125 millarða dala, jafngildi um 8.500 milljarða króna, og hjá fyrirtækinu starfa nú um 750 manns en þar af eru 52 meðeigendur. Fyrir yfirtöku Blackstone á Equity Office Properties hafði fyrirtækið töglin og hagldirnar í 47 fyrirtækjum og voru samanlagðar tekjur þeirra meiri en 85 milljarðar dala á ári. Eftir kaupin á EOP er ljóst að þær tekjur munu aukast eitthvað.

Óhætt er að fullyrða að Schwarzman er á hátindi ferils síns en persónuleg auðæfi hans eru metin á um 3,5 milljarða Bandaríkjadala, um 238 milljarða króna, og er hann talinn 73. ríkasti maður Bandaríkjanna. Schwarzman þykir gífurlega metnaðargjarn og að sögn gamals skólafélaga hans kom metnaður hans þegar í ljós á skólaárunum. "Hann hafði ekki einungis vilja til þess að ná langt, hann vildi ná lengra en aðrir," segir þessi skólafélagi hans og markmiðinu var náð.

Schwarzman var meðal ráðstefnugesta á Heimsviðskiptaþinginu í Davos í Sviss nýlega. Meðal annarra gesta var þýska ofurfyrirsætan Claudia Schiffer og greinir blaðamaður Fortune frá því að hún hafi átt athygli allra gesta ráðstefnunnar. Allra nema Schwarzman. Sá hafði mun meiri áhuga á að ræða viðskipti við títtnefndan blaðamann og þykir það lýsandi dæmi um hversu einstaklega einbeittur maðurinn er.

Hræðist ekki sviðsljósið

Það hefur löngum þótt einkenna þá sem starfa innan fjárfestinga á óskráðum bréfum að þeir forðast sviðsljósið en Schwarzman er ekki einn þeirra.

Árið 2000 flutti hann inn í núverandi íbúð sína sem er í húsinu númer 740 við Park Avenue á Manhattan-eyju en það mun vera dýrasta fjölbýlishús veraldar. Meðal fyrri eigenda íbúðarinnar má nefna John D. Rockefeller hinn yngri og George nokkurn Brewster. Sá tilheyrir einni af fjölskyldum þeim sem komu til Bandaríkjanna með skipinu sögufræga Mayflower árið 1620 en fátt ku þykja fínna en að geta rakið ættir sínar til Mayflower. Íbúðina mun hann hafa greitt um 30 milljónir dala fyrir, jafngildi ríflega tveggja milljarða króna, en jafnframt á hann hús í St. Tropez á frönsku Rivíerunni. Af þessu má ljóst vera að Schwarzman berst töluvert á og sannaðist það svo um munar þegar hann hélt upp á sextugsafmæli sitt fyrir um þremur vikum með pomp og prakt.

Fyrirmenni í veislu

Meðal gesta voru Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Michael Bloomberg, borgarstjóri Nýju Jórvíkur, en hápunktur kvöldsins mun hafa verið þegar Rod Stewart steig á svið og skemmti gestum í um hálfa klukkustund. Fyrir ómakið mun hann hafa þegið eina milljón dala, um 70 milljónir króna, og hefur uppátækið vakið mikla athygli meðal fjölmiðla vestra.

Einn gestanna mun hafa látið hafa eftir sér að hátíðahöldin mörkuðu endalok einhvers en aðeins tveimur vikum síðar tóku hlutabréfavísitölur að lækka hratt og hafa margir viljað tengja þessa atburði saman þótt augljóslega sé um tilviljun að ræða.

Eða hvað?

Í hnotskurn
» Stephen Schwarzman, forstjóri Blackstone Group, fæddist á Valentínusardeginum (14. febrúar) árið 1947 og því nýlega orðinn sextugur.
» Bauð hann vinum sínum og velunnurum til veislu og sparaði hvergi aurinn, enda 73. ríkasti maður Bandaríkjanna.
» Meðal viðstaddra í afmælisveislunni voru Colin Powell, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Michael Bloomberg, borgarstjóri New York.
» Schwarzman fékk Rod Stewart til að stíga á svið og syngja fyrir afmælisgesti. Skoski popparinn fékk litlar 70 milljónir króna fyrir og hneykslaði sú greiðsla margan fjölmiðlamanninn vestanhafs.

 

 


mbl.is Ætti að nota tengsl Dorritar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband