31.3.2010 | 12:34
Hugleiðingar í tilefni Jarðarstundar
Eftirfarandi pistill birtist eftir mig í Viðskiptablaðinu í dag:
Hugleiðingar í tilefni Jarðarstundar
Jarðarstund, sem á ensku nefnist Earth hour, var haldin hátíðleg um liðna helgi en eins og mörgum er eflaust kunnugt felst hátíð þessi í meginatriðum í því að fólk slekkur ljósin heima hjá sér og slekkur á ónauðsynlegum rafmagnstækjum í eina klukkustund. Sömuleiðis voru ljósin slökkt á mörgum þekktum kennileitum víða um heim, svo sem Eiffel-turninum, óperuhúsinu í Sydney og svona mætti lengi telja. Þá er slökkt á auglýsingaskiltum o.s.frv., allt til þess að vekja almenning til umhugsunar um loftslagsbreytingar og hvetja til samstöðu í baráttunni fyrir hreinna umhverfi.
Margir, sennilega meirihluti þó ég byggi þá ágiskun á tilfinningu en ekki neinum tölum, hafa miklar áhyggjur af hnatthlýnun og öðrum loftslagsbreytingum sem sagðar eru af mannavöldum en þeir eru sömuleiðis margir sem fussa og sveia í hvert skipti sem umhverfismál ber á góma og segja umræðuna á villigötum. Máli sínu til stuðnings benda þeir síðarnefndu á að við getum ekkert fullyrt um að loftslagsbreytingarnar, ef einhverjar eru, séu af mannavöldum en ekki hluti af náttúrulegri hringrás. Hringrás sem nær yfir mun lengri tíma en þann sem veðurfars- og loftslagsmælingar hvers konar spanna. Þetta er vissulega réttmæt ábending en ég hef þó tvennt við þennan málflutning að athuga, eða öllu heldur, ég set tvö spurningarmerki við hann.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég tel mig engan sérstakan umhverfissinna og álít mig vera hlutlausan í umræðunni um umhverfismál. Ég er ekki kolefnisjafnaður, ég ek ekki um á umhverfisvænum bíl og ég sortera ekki ruslið mitt (fyrir utan að ég fer með flöskur og dósir í endurvinnslu þar sem ég fæ smávegis viðbót í budduna fyrir ómakið). Ég slökkti þó ljósin klukkan hálfníu á laugardagskvöldið og hafði þau slökkt í klukkustund; að hluta til vegna hjarðhegðunar en einnig til þess að sýna samstöðu og sömuleiðis vegna þess að ég vil vekja son minn til umhugsunar um þessi mál.
Spurningamerkin tvö
Víkjum nú aftur að þeim spurningamerkjum sem ég vil setja við málflutning áðurnefndra efasemdarmanna. Eins og ég segi benda þeir réttilega á að erfitt, nánast ómögulegt, sé að sanna að loftslagsbreytingar (ef einhverjar eru) séu af mannavöldum. Gott og vel, en geta þessir sömu sannað með óyggjandi hætti að loftlagsbreytingar séu engar eða að þær séu ekki af mannavöldum? Svo má vel vera en ég hef þó ekki séð (eða heyrt) slíkar sannanir. Því spyr ég: Á meðan við vitum þetta ekki fyrir víst, hvers vegna eigum við að taka aukna áhættu?
Þetta var fyrra spurningamerkið en hið síðara er að mínu mati mikilvægara. Hvers vegna eigum við ekki að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hreinsa til í kringum okkur þó svo við getum ekki fært á það óyggjandi sönnur að loftslagsbreytingar eigi sér stað eða að þær séu af völdum mannanna, og þá sérstaklega skítugrar iðnaðarframleiðslu og notkunar skítugra orkugjafa. Á undanförnum áratugum hefur mannkynið gengið mjög harkalega á takmarkaðar auðlindir (munum að allar auðlindir eru takmarkaðar) og gildir þá einu hvort um er að ræða málma og ýmis konar hrávörur eða orkugjafa á borð við jarðefnaeldsneyti. Úrgangi hefur verið fleygt um allar jarðir og jafnvel þótt hann sé urðaður á skilvirkasta hátt sem við þekkjum veldur það alltaf einhverri mengun. Hið sama á við um brennslu jarðefnaeldsneytis. Máski veldur þetta ekki loftslagsbreytingum en við þurfum ekki að kúka hvar sem við komum og okkur ber skylda til þess að skila Hótel Jörð í sama, ef ekki betra, ásigkomulagi og við tókum við henni.
Að lokum
Þegar ég var að kynna mér Jarðarstundina á alfræðivefnum Wikipedia tók ég eftir því að Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki tekur yfirlýstan þátt í átakinu, og hefur aldrei gert. Hvers vegna? Að þessu sögðu óska ég lesendum Viðskiptablaðsins gleðilegra páska.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.