5.11.2010 | 13:50
Bankaáhlaup í alvöru og í bíó
Fátt fannst mér skemmtilegra á árum mínum sem blaðamaður en að skrifa það sem kannski má kalla fræðsluefni með vísan í málefni líðandi stundar. Þetta efni má ef til vill flokka til fréttaskýringa en er þó að mínu mati af aðeins öðrum meiði sprottið, að minnsta kosti miðað við hvernig fréttaskýringar tíðkuðust á Mogganum þegar ég var þar.
Sagt er að góður kennari sé mjög naskur við að finna dæmi sem geta skýrt mál hans og þó ekki sé ég dómbær á hvort ég sé góður kennari eður ei reyndi ég að tileinka mér þessa aðferð og leitaði þá gjarnan dæma í kvikmyndasögunni, og þá helst í þeim myndum sem náð höfðu til almennings en ekki eingöngu hörðustu kvikmyndaáhugamanna.
Eitt dæmi um slíka umfjöllun var grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 11. október 2007. Þar var fjallað um bankaáhlaup, málefni sem var mjög í fréttum vegna áhlaupsins á breska bankann Northern Rock haustið 2007. Innblásturinn (dæmið sem ég notaði til stuðnings) var myndin um barnfóstruna Mary Poppins, ein af mínum eftirlætismyndum þegar ég var barn og ég hef enn mikið dálæti á henni.
Þessi grein birtist sem áður segir í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 11. október 2007, fyrir rúmum þremur árum síðan, og er birt hér með leyfi útgefanda Mbl.
Bankaáhlaup í alvöru og bíó
BANKAÁHLAUP, eða úttektarfár, á borð við það sem enski fasteignalánabankinn Northern Rock lenti í nýlega koma sem betur fer sjaldan upp. Sem betur fer fyrir bankana því nytu þeir ekki jafn mikils trausts og raun ber vitni myndu þeir ekki geta hagnast jafn mikið. Og sem betur fer fyrir neytendur því treystu þeir ekki bönkunum jafn vel og raun ber vitni myndi fólk í raun eyða öllum deginum í að labba á milli banka og færa fé sitt á milli. Og sofa síðan með það í tösku úti á miðju gólfi líkt og Lína nokkur Langsokkur. Það væri engum í hag nema ef til vill einstaka innbrotsþjófi, og náttúrulega fyrirtækjum sem selja þjófavörn.
Svo sjaldgæf eru bankaáhlaup að sá sem þetta ritar man ekki eftir slíku síðan ég fór að fylgjast með efnahagsmálum. En þó hafði ég séð að minnsta kosti eitt slíkt. Það var í hinni klassísku kvikmynd um barnfóstruna sem sveif um í regnhlífinni, Mary Poppins. Eflaust hafa bankaáhlaup komið fyrir í fleiri kvikmyndum en ekki þó á jafn eftirminnilegan hátt og í þessari skemmtilegu fjölskyldumynd. Rifjum aðeins upp úttektarfárið úr Mary Poppins.
"Skilaðu peningunum"
Svo skemmtilega vill til að ættarlaukur Banks-ættarinnar, Michael, á tvö pens og þau tekur hann með sér þegar hann fer með föður sínum í vinnuna. Þegar þau systkinin ganga fram hjá dómkirkjunni koma þau auga á fuglakonuna sem mælir hjáróma: "Gefið fuglunum. Pokinn kostar tvö pens." Auðvitað vill barnið frekar gefa fuglunum að borða fyrir smáaurana sína en bankamaðurinn, faðir hans, þykist vita betur. Peningarnir skulu lagðir inn á reikning í Fidelity Fiduciary bankanum. Og ekki skánar ástandið þegar komið er inn fyrir dyr bankans. Þá kemur gamall fauskur, aðaleigandi bankans, og hirðir klinkið af drengnum unga. "Skilaðu peningunum," hrópar barnið og þegar viðskiptavinir bankans heyra að einhver fær ekki peningana sína heimta þeir að fá innlán sín tilbaka. Þeir missa traustið til bankans. Bankaáhlaupið er staðreynd.
Orðrómurinn var réttur
Bankaáhlaup eru yfirleitt afleiðing þess að viðskiptavinir missa traustið til bankans. Northern Rock er þar engin undantekning. Fjallað hafði verið um það í fjölmiðlum áður en úttektarfárið hófst að bankinn gæti lent í lausafjárvanda þar sem hann fjármagnaði útlán sín að stórum hluta til á markaði og fjármagnsmarkaðir voru nánast þornaðir upp.Þetta þvertóku forsvarsmenn bankans fyrir og það var ekki fyrr en þeir óskuðu eftir aðstoð Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, að þeir neyddust til þess að viðurkenna að orðrómurinn ætti sér stoð í raunveruleikanum. Þótt margir hafi bent á að í raun hafi ekkert verið að óttast misstu viðskiptavinir bankans trúna á að þar væri sparifé þeirra best borgið og þeir þustu í bankann til þess að taka það út.
Það er mjög sjaldgæft að bankar liggi á öllu því fé sem inn í þá er lagt, sem er til marks um það traust sem viðskiptavinir bera almennt til þeirra, og því geta þeir lent í töluverðum vandræðum þegar úttektarfár skellur á. Sú staða gæti, a.m.k. fræðilega, komið upp að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar við viðskiptavinina. Þetta óttuðust sumir þegar áhlaupið var gert á Northern Rock og því gripu bresk stjórnvöld til þess ráðs að ábyrgjast öll innlán í bankann.
Það var ekki gert í Mary Poppins og því var föður Michael litla Banks sagt upp störfum þegar tekist hafði að loka öllum kössum og rýma húsakynni Fidelity Fiduciary Bank. Hann greip hins vegar til þess ráðs að segja orðið sem öll vandamál leysir, þ.e. Supercalifragilisticexpialidocious, og sagði brandarann um karlinn með tréfótinn Smith. Og viti menn, daginn eftir fékk hann stöðuhækkun þegar gamli fauskurinn hafði dáið úr hlátri.
Ekki er enn ljóst hvort eftirmál áhlaupsins á Northern Rock verða hin sömu en víst er að stundum má finna líkindi með kvikmyndum og raunveruleikanum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.