21.12.2010 | 23:17
Ódrengileg framkoma á körfuboltavellinum
Eins og mörgum ætti að vera kunnugt er ég mikill áhugamaður um íþróttir og fátt er það sem fer meira í taugarnar á mér en að horfa á ódrengilega leikinn íþróttaleik. Það þurfti ég að gera í kvöld þegar við feðgarnir fórum á þriðja körfuboltaleik okkar á tímabilinu. Einn leiðinlegur ljóður á ráði hins annars ágæta körfuboltaliðs Uppsalaborgar er sú staðreynd að þegar liðið leikur gegn liðum sem á pappírnum eru sterkari, virðist það alltaf telja einu leiðina til sigurs vera að leika af aukinni hörku. Þannig reyna menn að hleypa leiknum upp í slagsmál til þess að koma andstæðingunum úr jafnvægi.
Þetta var sérstaklega áberandi í fyrra þegar Uppsala lék við Jakob Sigurðarson og félaga í Sundsvall í fyrstu umferð úrslitakeppni sænsku deildarinnar (í báðum heimaleikjum sínum beitti Uppsala þessari aðferð með góðum árangri) og þetta þótti mér einnig áberandi í leik kvöldsins þar sem Uppsala, sem fyrir leikinn var í fimmta sæti, mætti Södertälje, sem var í öðru sæti. Uppsala lék af mikilli festu og tókst að koma andstæðingunum úr jafnvægi svo um munaði. Þannig fengu leikmenn Södertälje, sem voru orðnir áberandi pirraðir, á sig tvær ásetningsvillur og nokkur tæknivíti. Einn leikmaður fékk tvö tæknivíti og var þar með sendur í sturtu sem og þjálfari liðsins og amk tveir þurftu að setjast á bekkinn með fimm villur þegar töluvert var eftir af leiknum.
Þá fékk bandarískur burðarás Södertälje-liðsins þungt högg á rifbein þannig að hann var studdur út af og skv. frétt staðarblaðsins var hann sendur á spítala í sjúkrabíl eftir að hafa liðið út af í búningsklefanum. Enn er ónefndur þáttur vallarkynnisins, sem yfirleitt er reyndar alveg óþolandi, en hann hæddist að leikmönnum Södertälje þegar dómararnir tíndu þá einn af öðrum af vellinum og bauð þeim t.d. gleðileg jól.
Vel studdir af áhorfendum sem, ef marka má viðbrögðin bæði í fyrra og í kvöld, kunna að meta þessa leikaðferð gengu leikmenn Uppsala svo á lagið og gjörsigruðu það litla sem eftir var af liði Södertälje.
Í mínum bókum telst þetta ekki drengileg framkoma og þótt ég hafi almennt gaman af að horfa á leiki með körfuboltaliðinu hér í borg finnst mér þetta eins og áður segir frekar leiðinlegur ljóður á ráði liðs sem vel getur spilað góðan körfubolta og ætti ekki að þurfa að grípa til bragða af þessu tagi. Vissulega má benda á að lið sem láti slíkt koma sér úr jafnvægi eigi e.t.v. ekki erindi í keppni af þessu tagi en svipuð rök má líka nota um lið sem þarf að beita óþverrabrögðum til þess að vinna leiki.
Annars er mjög gaman að fylgjast með framgöngu íslensku körfuboltamannana hér í Svíþjóð. Ég hef séð tvo leiki með Sundsvall í sjónvarpi og þar bera þeir Jakob Sigurðarson og Hlynur Bæringsson liðið á herðum sér, sérstaklega hefur Hlynur slegið í gegn hér í landi og heyrist mér hann almennt vera talinn einn allra besti leikmaður deildarinnar. Þá hefur Helgi Magnússon spilað vel í þeim leikjum Uppsala sem ég hef séð, fyrir utan þann fyrsta þar sem allt liðið var ótrúlega dapurt, og Logi Gunnarsson virðist vera að gera góða hluti í Solna. Gaman að því.
Góðar stundir.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.