Á barmi gjaldþrots en auglýsa samt gríðarlega

Hér í Svíaríki tíðkast það að hin og þessi fyrirtæki kosti sýningar sjónvarpsstöðva á efni, og það á síður en svo eingöngu við um beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum; það er varla til svo aum sápuópera eða gamanþáttaröð að hver þáttur sé ekki kostaður af að minnsta kosti einu fyrirtæki.

Meðal þeirra fyrirtækja sem eru hvað mest áberandi í kostun sjónvarpsefnis eru Eniro og 118 100 Online AB en bæði reka þau símaskrá á netinu, svipað og ja.is, auk þess sem hægt er að fá upplýsingar með því að að hringja eða senda sms. Ennfremur er hægt að senda hinar og þessar spurningar með sms-i og starfsfólk fyrirtækjanna slær spurninguna inn á Google og sendir svarið um hæl. Þannig er kjörorð 118 100 „Svar við öllu“ og segja má að Eniro sé systurfyrirtæki Já, fyrirtækið var áður dótturfélag Telia sem áður var í eigu ríkisins og líkt og Já gefur Eniro út símaskrána. 

Ég hef lengi velt því fyrir mér hversu margir nýta sér svona þjónustu, eflaust eru það töluvert margir því næga fjármuni virðast fyrirtækin hafa til þess að kosta sjóvarpsefni. Auglýsingar í formi kostunar eru eflaust eitthvað ódýrari en venjulegar sjónvarpsauglýsingar (sem fyrirtækin kaupa reyndar líka) en þetta eru engu að síður alldýrar auglýsingar. Til þess að fjármagna auglýsingarnar er því ljóst að velta fyrirtækjanna þarf að vera töluverð og sem bendir til þess að ansi margir nýti sér þjónustuna.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki ódýr þjónusta sem fyrirtækin bjóða upp á og sömuleiðis að þau gera töluvert út á unglinga sem senda hinar og þessar heimskulegar spurningar bara til þess að reyna að hanka fyrirtækin á röngum svörum. Ég veit hins vegar líka að Eniro rambar á barmi gjaldþrots, það er ekki langt síðan fyrirtækið þurfti að fara í mjög stórt hlutafjárútboð einfaldlega til þess að ná sér í nýtt rekstrarfé. Þá hefur forstjóra fyrirtækisins verið vikið úr starfi og allt er í steik eins og það heitir á kjarnyrtri íslensku.

Spurning hvort fjármunum fyrirtækisins, og um leið hluthafa, sé ekki betur varið í eitthvað annað en kostun misgóðra bandarískra sjónvarpsþátta. Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig 118 100 stendur en ég á bágt með að ímynda mér að myljandi gróði sé af starfseminni, miðað við hvað fyrirtækið hlýtur að eyða í kostun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður veltir því stundum fyrir sér hvort mörg fyrirtæki eru ekki fyrst og fremst að auglýsa sig sem fjárfestingakost frekar en vörur sína eða þjónustu. Hver man ekki eftir atvinnuauglýsingunum í byrjun síðasta áratugar sem engin (eða fá) störf voru á bak við.

Drengur (IP-tala skráð) 6.1.2011 kl. 00:56

2 identicon

Eniro minnir svolítið á hljómplötuútgefendur, örvæntingarfullt að rembast við að halda úreldri tækni lifandi með litlar sem engar hugmyndir um hvernig þeir eiga að lifa með nútímatækni.

T.d. kostar að meðaltali (skv. þeirra tölum) 16,35 sek + moms að fá uppgefið símanúmer en sennilega ekki mikið meira en eina krónu að hringja í einhvern vin sinn og biðja hann að fletta því upp á Eniro fyrir sig! Nú eða ef þú ert með "snjallsíma" þá flettirðu því bara upp sjálfur í ókeypis appinu sem Eniro gefur þér í gegnum Android Market eða Apple Store.

Símaskráin var síðast þegar ég heyrði ennþá einn stærsti tekjuliðurinn þeirra sem segir töluvert um hversu vel þeir hafa aðlagað sig að nútímanum.

Gulli (IP-tala skráð) 6.1.2011 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband