Veni, vidi, vici

Fyrsta helgin í nóvember, sem Svíar kalla alla jafna Allhelgonahelgina með vísan til Allra heilagra messu, er jafnan mikil skákhelgi hér í Svíþjóð. Fjöldi stórra opinna móta er haldinn þessa helgi m.a. í Stokkhólmi, Gautaborg, Lundi og Karlstad. Það mót sem á sér sennilega lengsta sögu er þó Björkstadsschacket í Umeå í N-Svíþjóð. Nafn mótsins er til komið vegna þess að Umeå mun vera óvenjulega mikið af birkitrjám og er bærinn því oft nefndur Björkstaden eða Birkibærinn á íslensku.

Þar sem fyrsta vikan í nóvember, vika 44 (sænsk áætlanagerð miðast iðulega við vikur), er frívika í skólum landsins ákváðum við fjölskyldan fyrir nokkru að taka okkur frí frá vinnu og skella okkur norður í land og heimsækja Magga og Vöku vini okkar sem eru tiltölulega nýflutt til Umeå. Þegar ég áttaði mig á því að ég gæti notað tækifærið og teflt í leiðinni ákvað ég að skrá mig í Björkstadsschacket, sérstaklega þar sem þetta mót er skráð til Elo-stiga en mig vantaði einmitt tvær skákir til þess að komast á þann góða lista. 

Þegar mætt var til leiks var ég í 8. stigahæsti keppandinn í mótinu en á meðal keppanda voru öflugir skákmenn á borð við FM Johan Ingbrandt sem er með tæp 2500 sænsk stig og Eric Vaarala sem varð sænskur unglingameistari í sumar en hann er með 2300 sænsk stig. Til þess að gera langa sögu stutta skaut ég þessum góðu drengjum ref fyrir rass, sem og öllum öðrum. Ég vann sem sagt mótið með fjóra vinninga úr fimm skákum, vann þrjár skákir og gerði tvö jafntefli. Reyndar vorum við þrír sem fengum fjóra vinninga, þ.á m. áðurnefndur Ingbrandt, en ég varð efstur samkvæmt stigum sem notuð eru til þess að skera úr þegar menn eru jafnir.

Þetta er langbesti árangur sem ég hef náð í skákmóti, ég hef svo sem unnið nokkur mót í gegnum tíðina en aldrei jafn sterk mót og þetta. Sigurinn tók þó á. Fyrir síðustu umferðina var ég í 5. sæti og þegar sest var að tafli var ég með dúndrandi mígreni. Eftir 8 leiki bauð ég jafntefli, það hefði tryggt okkur báðum verðlaunasæti, enda var ég ekki vel stemmdur. Andstæðingurinn hafnaði því þó með þjósti (sem betur fer) og þá ákvað ég að ég skyldi bara vinna hann í staðinn. Eftir rúma fjóra tíma og 84 leiki var því markmiði svo náð. Sennilega hefur engin skák sem ég hef teflt reynt jafnmikið á mig. Þegar skákin var búin var mér ljóst að ég væri í 1.-3. sæti en fann enga gleði, ég var einfaldlega of þreyttur. Það var ekki fyrr en tilkynnt var við verðlaunaafhendinguna að ég hefði orðið efstur á stigum að ég fann siguránægjuna. 

Það munaði sömuleiðis engu að ég hefði glutrað sigrinum niður því ég lék ónákvæmum leik í endataflinu sem hefði getað tryggt andstæðingnum jafntefli. Sem betur fer var hann líka þreyttur og auk þess í tímahraki þannig að hann missti af bestu leiðinni og ég vann.

Samkvæmt heimasíðu skákklúbbsins hér í Umeå er þessi sigur minn sögulegur því þetta mun vera í fyrsta skipti í 33 ára sögu Björkstadsschacket sem skákmaður með minna en 2000 stig (ég er sem stendur með 1988 stig) vinnur mótið.

Gaman að því.

Best að bæta við lokastöðu mótsins: http://chess-results.com/tnr58411.aspx?art=1&rd=5&lan=1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með þennan flotta árangur frændi :)

Sigríður Júlía (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband