Innibandý í fyrsta skipti

Í kvöld fórum við feðgarnir á innibandýleik í fyrsta skipti. Flest íslensk skólabörn fá einhvern tíma að spreyta sig á þessari göfugu íþrótt í leikfimi í skólanum en fyrir utan það snerta fæstir Íslendingar innibandýkylfu. Þetta þykir svo sem ágætis tilbreyting í leikfiminni en í flestra huga er þetta þó aldrei annað en tilbreyting og fæsta Íslendinga dreymir sennilega um að stunda innibandý af einhverri alvöru, hvað þá að gera það að æfistarfi sínu.

Hér í Svíaríki er sannarlega annað upp á teningnum. Innibandý, sem varð til hér í landi á 8. áratug síðustu aldar, er að verða stærsta vetraríþróttin hér í landi hvað varðar fjölda iðkenda, og Svíar taka sitt innibandý mjög alvarlega. Hér er m.a.s. atvinnumannadeild í þessari íþrótt sem víðast telst til jaðaríþrótta.

Í þessari atvinnumannadeild eru tvö lið frá Uppsölum, Storvreta sem er besta innibandýlið í Svíþjóð um þessar mundir og hefur orðið meistari tvö síðustu árin, og Sirius. Sirius, sem eftir því sem ég veit best er stærsta íþróttafélagið hér í borg með sæmilega frambærilegt fótboltalið, bandýlið í efstu deild og svo innibandýliðið, situr hins vegar á botni deildarinnar (athugið að bandý og innibandý eru tvær mismunandi íþróttir). Það var botnliðið Sirius sem við sáum spila í kvöld.

Andstæðingarnir voru AIK frá Solna en það félag er svolítið eins og KR á Íslandi, menn annað hvort halda með því eða hata það eins og pestina. AIK fylgir m.a. mjög harðskeytt lið stuðningsmanna sem kalla sig Black Army og valda usla og látum hvar sem þeir koma. Hingað til virðast þessar bullur þó ekki hafa sýnt innibandý áhuga enda er svo sem ekki miklu ofbeldi fyrir að fara í þeirri íþrótt, ólíkt fótbolta og umfram allt íshokkí. 

Ekki get ég sagt að ég sé dómbær á hvort leikurinn hafi verið vel leikinn, ég hef séð nokkra leiki í flokki barna á aldrinum 7-14 ára, en burtséð frá því var þetta hin besta skemmtun. Sirius tapaði með þriggja marka mun, 3-6, en eftir því sem ég gat séð voru yfirburðir AIK ekki nægilegir til þess að réttlæta svo stóran sigur enda var markmaður gestanna valinn maður leiksins auk þess sem Sirius átti mun fleiri skot á mark. Það eru hins vegar mörkin sem telja og þar voru AIK mun beittari.

Leikurinn var eins og áður segir hin besta skemmtun en ég reikna nú samt frekar með að við feðgar munum halda áfram að fara á körfuboltaleiki í stað þess að stunda innibandýáhorf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband