Undarleg fyrirsögn á vef DV

Ég les ekki mörg blogg en eitt þeirra sem ég kíki reglulega, ekki alltaf þó, á er blogg Eiðs Guðnasonar, fyrrum fréttamanns, ráðherra og sendiherra, sem hann hefur tileinkað umfjöllun um málfar og miðla. Ég hef gaman að blogginu hans enda áhugamaður um bæði vandað málfar og fjölmiðlun. Nú hyggst ég feta í fótspor Eiðs og er ástæðan fyrirsögn ein sem birtist með frétt á vef DV í gærkvöldi.

Allir þeir sem starfað hafa að blaðamennsku vita að fyrirsagnasmíð getur verið hið vandasamasta verk. Fyrirsögnin er það fyrsta sem lesandinn sér en þarf auk þess að vera stutt þannig að æskilegt er að hún sé hnitmiðuð. Sömuleiðis þarf hún að vera innihaldsrík og gefa góða vísbendingu um innihaldið. Ekki skemmir fyrir ef hægt er að stuðla fyrirsögnina eða setja inn rím enda grípur hún þá lesandann fyrr. Mikilvægast af öllu er þó að fyrirsögnin sé nokkurn veginn málfræðilega rétt og skiljanleg.

Nóg um það, í gærkvöldi birti DV á vef sínum frétt þess efnis að vonir standi til að mannskepnunni hafi tekist að útrýma sjúkdómi sem nefnist Gíneuormur og kemur af völdum sníkjudýrs með sama nafni. Þetta er hið besta mál og mun það vera í annað skipti í sögunni sem okkur tekst að útrýma sjúkdómi. Hinn fyrri var bólusótt sem m.a. lék Íslendinga afar grátt fyrr á öldum, sem dæmi má nefna að talið er að Stórabóla hafi drepið allt að þriðjung Íslendinga á árunum 1707-1709, en bólusóttinni var komið endanlega fyrir kattarnef árið 1979.

Yfir þessari frétt birtist upphaflega fyrirsögnin „Annar sjúkdómurinn til að verða útrýmdur.“ Þessi fyrirsögn er svo sem alveg skiljanleg en málfræðilega er hún eins og fimm ára barn hafi skrifað hana. Bent var á það í Fésbókarathugasemdum við fréttina að fyrirsögnin væri engan veginn í samræmi við málfræðireglur og henni síðan breytt. Nú er yfir fréttinni fyrirsögnin „Öðrum sjúkdóminum til að vera útrýmt.“ Enn er fyrirsögnin svo sem skiljanleg, þeim sem vill skilja, en ekki er hún réttari en sú fyrri. Ef eitthvað er þá er hún jafnvel enn vitlausari og það er ekki boðlegt miðli sem vill njóta virðingar að birta svona. 

Fyrirsagnasmíð getur sem áður segir verið vandasamt verk og reyndustu blaðamenn geta lent í basli með að finna fréttum sínum góðar fyrirsagnir. Ekki skánar það þegar maður nálgast skilafrest eða við þá stöðugu pressu sem fylgir því að skrifa á vefinn. Víða úti í heimi er það alfarið á könnu ritstjóra að semja fyrirsagnir en í þeim tilvikum sem ég hef kynnst er það þó blaðamannsins. Hvort heldur sem er er það ritstjóra, eða fréttastjóra, að sjá til þess að efni sem birtist á vegum miðilsins sé birtingarhæft.

Til þess að taka upp handskann fyrir blaðamann DV vil ég benda á að í Fésbókarathugasemdum við fréttina var blaðamaður gagnrýndur fyrir kunnáttuskort í prósentureikningi auk þess sem talað var um að orðalag fréttarinnar væri fáránlegt þar sem sníkjudýrinu hefði ekki verið útrýmt og nú tilvik Gíneuorms ættu eftir að koma. Besserwisseraháttur af þessu tagi er ansi algengur á meðal þeirra sem lesa netmiðla og oft hef ég heyrt grín gert að þýðingum. Vel má vera að staðreyndir skolist oft til í þýðingum frétta yfir á íslenska (og sænska) miðla en þegar maður hefur fyrir því að finna þá frétt sem íslenska fréttin hefur verið unnin upp úr sér maður að það vill oft brenna við að þar er sama staðreyndavilla og því ekki hægt að kenna lélegri tungumálakunnáttu um. 

Þess vegna hafði ég fyrir því að smella á tengil sem birtist með ofannefndri frétt DV en hann var á vef hins virta vísindatímarits Scientific American. Þar kemur einmitt fram nákvæmlega sú prósentutala sem DV nefndi í frétt sinni auk þess sem Scientific American segir að sníkjudýrinu verði brátt útrýmt. Þar að auki er það í báðum tilvikum haft eftir viðmælendum hins bandaríska tímarits þannig að það er bæði rangt og ómaklegt að skrifa þessar villur (ef um villu er að ræða í síðarnefnda tilvikinu) á blaðamann DV.

Ambagan í fyrirsögninni er hins vegar alfarið á hans ábyrgð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband