Aðgát skal höfð ...

... í nærveru sálar.

Sjaldan hefur þetta spakmæli átt betur við en nú í vikunni þegar ung kona slasaðist alvarlega er lest sem hún var í ók á litla blokk í úthverfi Stokkhólms. Lestin hafði keyrt á fullu stími á enda sporsins og þar í gegn og inn í húsið sem stóð við enda lestarteinanna. Atvikið átti sér stað um miðja nótt og engin vitni urðu að því.

Ég heyrði af atvikinu í útvarpi þar sem ég sat í lestinni á leið í vinnuna og þar var ekki talað um annað en að konan, sem mun vera 22 ára og hafa starfað við hreingerninagar hjá Arriva (fyrirtækinu sem á lestina), hafi stolið lestinni. Ekki var vitað hvað fyrir henni vakti en því var slegið föstu að lestinni hefði verið stolið og leitt að því líkum að hún hefði ætlað að fyrirfara sér. Talsmaður Arriva fullyrti í viðtölum við alla sem vildu heyra að stúlkan hefði rænt lestinni og hið sama á við um talskonu SL, almenningssamgöngufyrirtækis Stokkhólms sem Arriva starfar fyrir. Fjölmiðlar gripu ummælin á lofti og fóru mikinn í umfjöllun um konuna ungu; allt vakti þetta athygli erlendra fjölmiðla og meðal annars fjallaði Moggi um málið á netinu:

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/01/15/hreingerningakona_stal_lest_og_ok_a_hus/

Til að bæta gráu ofan á svart ku konan vera af erlendu bergi brotin og ég hef heyrt allnokkra hafa orð á því að ekki hafi verið að undra að innflytjandi hafi stolið lestinni. Þess má geta að undiralda útlendingahaturs hefur verið að byggjast upp hér í Svíaríki undanfarin ár.

Konan er sem áður segir alvarlega slösuð og henni hefur verið haldið sofandi en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort hún er vöknuð nú fimm dögum eftir að slysið varð.

Slysið já, því nú er komið í ljós að þetta var slys. Konan var að þrífa lestina og felldi fram sæti lestarstjórans sem lenti á spaka þeim sem stýrir hraða lestarinnar (svipað og stýripinni á gömlu Sinclair-tölvunum ef mér skjátlast ekki). Alla jafna hefði þetta ekki átt að skipta neinu máli en í þetta skipti hafði lestarstjóri sá er gekk frá lestinni kvöldið áður greinilega gleymt að drepa á henni og skilið lyklana eftir í svissinum. Þannig var lestin í gangi og um leið og stóll lestarstjórans rakst á gírinn fór lestin á fulla ferð og hreingerningakonan gat enga björg sér veitt. Þetta var sem sé slys og ef eitthvað er brot á reglum um vinnuumhverfi, nokkuð sem mér skilst að sænska vinnueftirlitið sé nú að skoða.

Eins og áður segir hefur konan, sem nú liggur alvarlega slösuð á spítala, verið ásökuð um alvarlegan glæp. Hún hefur ekki getað varið sig. Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um málið en hvað ég hef séð hefur enginn greint frá nýrri vitneskju um að um slys hafi verið að ræða. Hvað umheiminn varðar er konan því enn glæpamaður og þetta er bara enn eitt dæmið um að ekki sé hægt að treysta innflytjendum af vissum kynþætti - ef marka má umfjöllun fjölmiðla er þessi kona influtt frá annarri heimsálfu.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þetta spakmæli hef ég alltaf reynt að hafa að leiðarljósi í starfi mínu sem blaðamaður og sjaldan hefur það átt jafnvel við og nú, finnst mér. Vitaskuld er þáttur talsmanna samgöngufyrirtækjanna stærstur en fjölmiðlar gleyptu við skýringum þeirra gagnrýnislaust. Umfjöllunin bitnar ekki eingöngu á konunni ungu heldur á fjölskyldu hennar og samstarfsfólki. Þetta er skýrt dæmi um hvernig fjölmiðlar fóru offari í umfjöllun þegar betra hefði verið að bíða eftir niðurstöðum rannsóknar lögreglunnar og jafnvel setja einhver spurningamerki við málflutning talsmanna fyrirtækjanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband