10.2.2009 | 22:41
Skref í rétta átt
Í góðæri á hið opinbera að rifa seglin og spara til mögru áranna og í hallæri á hið opinbera (gildir einu hvort um er að ræða ríki eða sveitarfélög) að auka útgjöldin til þess að örva hagkerfið. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið megininntakið í hagfræðikenningum John Maynard Keynes. Þannig getur hið opinbera jafnað út sveiflurnar en það vill hins vegar brenna við að umsvif hins opinbera aukist verulega í góðæri, Ísland er gott dæmi um það, og síðan sé dregið úr umsvifum þegar harðnar á dalnum. Á þann hátt ýkir hið opinbera sveifluna, hvort sem er upp eða niður.
Ákvörðunin um að reisa menningarhús í Eyjum er í mínum huga gott dæmi um einkar skynsama efnahagsstjórn. Mér er svo sem ekki kunnugt um aðdraganda þessarar ákvörðunar, það má vel vera að málið hafi verið lengi á dagskrá en hvað sem því líður er tímasetningin afar heppileg og mjög skynsamlegt að slá verkefninu ekki á frest. Þarna leggjast ríki og sveitarfélag saman á sveif um verkefni sem mun skapa einhver atvinnutækifæri auk þess að efla mikilvægt byggðarlag. Menningarhús í Vestmannaeyjum er dæmi um framkvæmd sem "markaðurinn" myndi sjaldan telja þess virði að ráðast í og það er mikilvægt að ráðast í slíkar framkvæmdir á samdráttartímum. Bæði dregur það úr atvinnuleysi og býr um leið til skatttekjur og auk þess gerir það samfélagið skilvirkara þegar fram líða stundir.
Verkefnið er ekki mjög stórt á þeim mælikvarða sem við höfum fengið að kynnast á undanförnum árum en margt smátt gerir eitt stórt og það er vonandi að fleiri verkefni af þessu tagi fylgi í kjölfarið.
Um allt land.
Eyjamenn reisa menningarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.