Hvernig á að koma í veg fyrir hrun krónunnar?

Hagfræðingar telja margir hverjir verðbólgu vera besta mælikvarðan á efnahagslegan stöðugleika. Lág stöðug verðbólga er til marks um efnahagslegan stöðugleika (of lág verðbólga er til marks um stöðnun) en mikil eða of sveiflukennd verðbólga er til marks um að hagkerfið sé óstöðugt. Þessi skilgreining á efnahagslegum stöðugleika (ef skilgreiningu skyldi kalla) spratt upp í huga mér í dag þegar ég renndi augum yfir stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka fram að þetta er um margt mjög gott plagg og sérstaklega er ég ánægður með grein nr. 4 þar sem kveðið er á um að hið opinbera muni liðka fyrir stórum framkvæmdum til þess að stuðla að aukinni atvinnu. Þetta er mjög svo í anda þeirra hagfræðikenninga sem ég aðhyllist og að mínu mati nauðsynlegt til þess að rjúfa vítahring þann sem hagkerfið er statt í. Fáist lífeyrissjóðirnir til þátttöku í fjármögnun er það hið besta mál enda er hlutverk sjóðanna öðrum þræði að fjárfesta í innlendum verkefnum. 

Hvað stöðugleikann varðar er mér hins vegar alveg fyrirmunað að skilja hvernig afnema á gjaldeyrishöft og lækka vexti án þess að gengi krónunnar hríðfalli. Hvað gerist þá? Jú, verðbólgan mun aftur rjúka upp sem síðan mun m.a. skila sér í hækkandi höfuðstól verðtryggðra lána.

Ég vil slá þann varnagla að þegar verðbólgan er notuð sem mælikvarði á efnahagslegan stöðugleika er um eftirspurnarverðbólgu að ræða en ég er hér að tala um kostnaðarverðbólgu sem ekki er alveg hægt að heimfæra á stöðugleika en vandinn er bara sá að kostnaðarverðbólga er enn erfiðari viðureignar en eftirspurnarverðbólga. Eigi Seðlabankinn að koma í veg fyrir fall krónunnar og verðbólguskot af verri gerðinni verður hann annaðhvort að hækka vexti eða nota gjaldeyrisforðann dýrmæta til þess að styrkja krónuna. Ekki veit ég hvort stýrivaxtahækkun muni ógilda stöðugleikasáttmálann en þó þykist ég viss um að hún muni valda töluverðri úlfúð í samfélaginu og ljóst er að sóun á gjaldeyrisforðanum í krónukaup er ekki vönduð meðferð á lánsfé frá útlöndum.

Þriðja lausnin er að afnema verðtryggingu lánsfjár þannig að verðbólgan muni ekki leggjast á lán heimilanna í landinu en ekkert er minnst á verðtrygginguna í stöðugleikasáttmálanum.

Það má vel vera að menn séu með lausnir á þessum atriðum á reiðum höndum en þá mættu þeir segja okkur hverjar þær eru. Sáttmálinn er sem áður segir um margt gott plagg en mér finnst of óljóst í sáttmálanum hvernig koma á í veg fyrir hrun krónunnar til þess að geta stokkið hæð mína í loft af fögnuði.

Það hlýtur hins vegar að vera von okkar allra að allt gangi þetta að óskum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir nú.

Já, ég hef nú ekki skoðað þetta plagg ennþá en ég er mjög hræddur um að aukin verðbólga á þessum síðustu og verstu geri allar aðrar aðgerð "futile" eða bitlausar. "Þriðja lausnin er að afnema verðtryggingu lánsfjár þannig að verðbólgan muni ekki leggjast á lán heimilanna í landinu en ekkert er minnst á verðtrygginguna í stöðugleikasáttmálanum." Jóhanna Sigurðardóttir hefur margoft gefið það út að verðtrygging (lána) verði ekki afnumin í bráð. 

Þar með tek ég undir bón þína um að okkkur sé sagt hvernig á að koma í veg fyrir þær afleiðingar sem kostnaðarverðbólgan mun hafa í för með sér.

Drengur (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband