24.6.2012 | 20:58
Þrír í röð hjá Vaksala Vets
Heldrimannalið Vaksala SK, Vaksala Vets, er heldur betur komið á beinu brautina í heldrimannadeild Upplands. Í kvöld innbyrtum við þriðja sigurinn í röð og það á móti eina taplausa liðinu í deildinni, til þessa. Í raun hefði leikurinn átt að fara fram fyrir viku síðan en andstæðingar okkar í K/A/L-L/V áttu ekki heimangengt og óskuðu eftir því að leiknum yrði seinkað um viku sem reyndist auðsótt mál.
Sem fyrr vorum við þrír Íslendingarnir í Vaksala og allir á sínum stað; Bobbi spilaði á miðjunni og átti sinn besta leik til þessa að mínu mati, Lárus var í hægri bakverðinum eins og undanfarna leiki og var traustur og undirritaður var í sókninni eins og allt vorið fyrir utan fyrsta leikinn þegar ég var á vinstri kantinum.
K/A/L-L/V hét í fyrra V.A.L.L.K. og er frá Knivsta sem er næsti bær fyrir sunnan Uppsali. Í fyrra heimsóttum við þá í síðasta leik tímabilsins og vorum kjöldregnir, 9-2, þar sem Bobbi skoraði annað markið okkar. Þetta er án efa eitt þriggja bestu liðanna í deildinni en að þessu sinni komust þeir lítt áfram geng óvenju sterkri vörn Vaksala Vets þar sem tveir nýir menn léku saman (annar þeirra hefur spilað tvo leiki) í hjarta varnarinnar. Þá sjaldan sem annar þessara hvíldi - það eru fríar skiptingar í heldrimannaboltanum - eða sóknarmenn K/A/L-L/V náðu að prjóna sig í gegn lentu þeir í klónum á markverðinum okkar sem hefur verið jafnbesti maður liðsins okkar í þeim leikjum sem hann hefur spilað í vor.
Þetta var tvímælalaust besti leikur okkar í vor. Menn voru viljugir og yfirleitt sæmilega agaðir sem hingað til hefur verið veikleiki liðsins. Þegar upp var staðið hafði Vaksala Vets skorað tvö mörk en K/A/L-L/V ekki eitt einasta. Þriðji sigurinn í röð og nú er bara að hamra járnið meðan það er heitt. Vandinn er bara sá að nú er deildin komin í sumarfrí og ekki verður byrjað aftur fyrr en 12. ágúst nk. Þá mætum við Gamla Uppsala SK sem vann fyrri leikinn með 6-0. Hætt er við því að heldri mennirnir verði eitthvað farnir að stirðna þá en GUSK fær ekki að skora sex mörk í haust. Það er á hreinu!
Góðar stundir!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2012 | 20:53
Lárus gerði gæfumuninn
Skömmu áður en flautað var til leiks í leik Spánverja og Ítala í EM í kvöld settust 13 vaskir leikmenn Vaksala Vets í heldrimannaboltanum upp í bíla og óku af stað. Ferðinni var heitið til Funbo, lítils sveitaþorps hér fyrir utan Uppsali þar sem berja átti á leikmönnum Funbo í næst síðasta leiknum fyrir sumarpásu. Í hópnum voru þrír Íslendingar en auk mín voru þeir Bobbi félagi minn og hinn sívaski og geðgóði Lárus Guðmundsson sem okkur Bobba tókst að draga með í Vaksala Vets eftir að hafa séð hann leika listir sínar í innanhúsbolta Íslendingaliðsins 20 mínútna í vetur.
Hann er ekki mjög langur aksturinn til Funbo en þegar þangað var komið voru þó engir leikmenn heimaliðsins mættir á völlinn sem vel er falinn í skógarrjóðri sem svo heppilega vill til að er hæfilega stórt til að rýma einn knattspyrnuvöll og einn skúr með búningsklefum. Aðeins einn maður var mættur á svæðið og þegar við tjáðum honum erindið hleypti hann okkur inn í búningsklefa þar sem við drógum á okkur herklæðin auk þess sem nokkrir kúk- og pissbrandarar voru látnir flakka. Merkilegt nokk þurfti hálft liðið einmitt að ganga örna sinna áður en leikurinn hófst og er ég ekki frá því að dollan inn af búningsklefanum hafi verið stífluð all rækilega á þeim örfáu mínútum sem við vorum í Funbo.
Já, þær voru nefnilega ekki margar. Þegar fyrirliðinn okkar mætti á svæðið kom nefnilega í ljós að við áttum bara alls ekkert að spila í Funbo. Annan hvern heimaleik spilar Funbo í Almunge, aðeins stærra sveitaþorpi sem er 16 km fjær Uppsölum. Þá var ekki um annað að ræða en að skella sér í bílana og aka í loftinu til Almunge. Þar beið okkar þessi fallegi grasvöllur, í aðeins stærra skógarrjóðri, þar sem varamannaskýlin voru upp í brekku.
Aðstæður voru prýðilegar, smá andvari, glampandi sól og um það bil 20 stiga hiti og eftir smá upphitun var okkur ekkert að vanbúnaði að byrja að spila. Þó ekki sé ég nú mikill markaskorari og enn síður sóknarmaður þrjóskast kauðarnir tveir sem stilla upp liðinu alltaf til þess að hafa mig í sókninni og var dagurinn í dag engin undantekning. Að sama skapi hafa þeir tekið upp á því að skella Lárusi í stöðu hægri bakvarðar og hefur hann verið frekar óhress með það, ég hefði nú samt ekkert á móti því að skipta við hann því það heyrir til tíðinda ef sóknarmenn Vaksala Vets fá að snerta boltann mikið í leikjum. Framan af sumri hefur verkefni mitt því aðallega verið að hlaupa og hlaupa og hlaupa svo aðeins meira og reyna að halda varnarmönnunum við efnið (yfirleitt þó án bolta). Í þessum leik fékk ég þó boltann aðeins meira en venjulega án þess þó að ná að koma mér í nokkur færi en aðalverkefnið var sem fyrr að hlaupa.
Í fyrri hálfleik benti fátt til annars en að leikurinn yrði markalaus enda var fátt um fína drætti í spili okkar Vaksalamanna og lið Funbo var ekki mjög burðugt. Það hefur yfirleitt verið mjög áberandi í leik okkar að dekkuninni er afar ábótavant og var fyrri hálfleikur þar engin undantekning. Í dag var það nýr miðvörður (það vill bregða við að mannskapurinn er sjaldan sá sami tvo leiki í röð) sem átti meginsökina. Lagt var upp með 4-4-2 leikkerfi en áðurnefndur miðvörður hafði mun meiri áhuga á að leika stöðu sweepers. Þar af leiðandi dekkaði hann ekki sem þýddi að hinn miðvörðurinn þurfti að dekka tvo sem yfirleitt endaði með því að annar bakvörðurinn var kominn inn í hjarta varnarinnar (yfirleitt Lárus) sem síðan þýddi að útherjinn sem bakvörðurinn átti að dekka var laus. Fyrir vikið var bakvörðurinn yfirleitt ekki úti á kantinum þegar kom að því að byggja upp sóknir og útherjinn okkar sem í raun var orðinn bakvörður (yfirleitt Bobbi) var sjaldan á sínum stað á kantinum.
Gegn betra liði hefði þetta eflaust kostað okkur nokkur mörk en í hálfleik ræddum við Íslendingarnir málin og það varð úr að Lárus færði sig út á sinn kant og gaf skít í að dekka sóknarmanninn sem hinn sjálfskipaði sweeper dekkaði ekki. Fyrir vikið varð sóknarleikurinn mun beittari. Þeir Bobbi og Lárus náðu vel saman á kantinum og áttu nokkrar góðar rispur upp kantinn þar sem Lárus overlappaði nokkrum sinnum. Ekki leið á löngu áður en Vaksalir skoruðu og var þar á ferðinni Íslandsvinurinn Ambjörn sem þrátt fyrir afar takmarkaða knattspyrnuhæfileika hefur einstakt lag á að koma sér í færi og klúðra boltanum svo inn í markið. Nokkru síðar kom að Lárusar þætti Guðmundssonar. Hann brá sér í sóknina og var eftir gott spil kominn inn í vítateig þar sem hann var felldur þannig að hann tók skrúfu í loftinu sem hefði sómt sér vel í dýfingakeppni Ólympíuleikanna. EKkert annað en víti og hinn annars afar slaki (nánar um það síðar) dómari leiksins dæmdi víti.
Þetta er sko mitt víti, sagði Lárus og gekk ákveðnum skrefum að boltanum. Hann smellti honum síðan í slánna alveg út við skeytin og inn í markið, algjörlega óverjandi fyrir markmanninn sem þó gerði heiðarlega tilraun til þess að verja. Stórglæsilegt víti!
Þetta reyndist vera markið sem gerði gæfumuninn því skömmu síðar fengu Funbo ódýrt víti sem þeir skoruðu út eftir afar vafasama tilburði markvarðar okkar. Ekki veit ég hvar dómarinn fann vítið en við þorðum þó lítið að mótmæla enda hafði dómarinn gefið mér áminningu skömmu áður þegar ég mótmælti sáran undan vafasömum rangstöðudómi - eitt af því merkilega við heldrimannaboltann er að þar eru engir línuverðir og dómararnir dæma yfirleitt rangstöðu ef einhver kemst einn í gegn. Fyrsta gula spjaldið sem ég hef fengið í 20 ár.
Þetta var annar sigur Vaksala í röð og það voru kátir Vaksalir sem óku heim, nokk sama um að hafa misst af leik Spánverja og Ítala.
Íþróttir | Breytt 11.6.2012 kl. 06:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2012 | 12:00
Hugleiðingar um Eurovision
Ég hef alltaf litið á Eurovision-daginn sem hátíðisdag. Framan af var það öðru fremur vegna þess að ég hef gaman af Eurovision en eftir því sem árin hafa liðið hefur það bæst við að ég er mikill Evrópusinni og mér finnst Evrópusamstarfið á vissan hátt kristallast í þessari keppni. Þarna koma saman listamenn frá öllum hornum álfunnar og takast á í vinsamlegri söngkeppni. Ég fullyrði að enginn annar samevrópskur viðburður er betra dæmi um vel heppnaða samvinnu en Eurovision (EM í fótbolta þar með talið).
Sumar þjóðir leggja meira upp úr þessu en aðrar, ég tel mér til dæmis óhætt að fullyrða að sænska Eurovision-samfélagið hafi verið komið í hálfgerða tilvistarkreppu yfir að hafa ekki unnið síðan 1999 og hér í Svíaríki er talað um þessa keppni sem EM í tónlist. Þá hafa mörg nýríki A-Evrópu lagt mikið upp úr sigri í keppninni. Íslendingar leggja líka jafnan mikið upp úr keppninni, sem m.a. sést á því við erum alltaf að fara að vinna og nær hver einasta sála sem hefur Facebook-reikning hefur þörf á að tjá sig um Eurovision.
Ég verð að viðurkenna að þó ég búi í Svíþjóð og sé almennt mjög hrifinn af sænskri menningu þá var ég ekkert voðalega sáttur við sigur Svía. Loreen (það er ekki sagt Lorín heldur Loren) var vissulega glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar en mér fannst lagið einfaldlega ekki það besta, hvorki í sænsku undankeppninni né í úrslitakeppninni í gær. Nú bætir það vissulega úr skák að höfundur lagsins, Thomas G:son, er frá mínum gamla heimabæ Skövde en lagið var bara samt ekkert spes. Ég tek það fram að ég er ekki vel að mér í flokkun nútímadanstónlistar en fyrir mér var þetta dæmigert Europop-danslag sem fær líffærin í manni til þess að hristast ósjálfviljug (ég er ekki að tala um útlimina heldur innri líffærin) og gæti kvarnað úr beinunum á manni ef maður stendur of nálægt hátalara á dansgólfi.
Persónulega var ég mun hrifnari af rússneska laginu sem og þeim frá Moldóvu og Serbíu og að sjálfsögðu má ekki gleyma því íslenska sem mér fannst prýðisgott. Þá var mjög gaman af því að sjá Engelbert gamla Humperdinck á sviði en honum hefði að ósekju mátt ganga betur.
Því fer þó fjarri að ég ætli að fara að segja að vitlaust lag hafi unnið. Það er einfaldlega ekki hægt að segja svoleiðis. Tónlistarsmekkur er huglægur og þar af leiðandi eins misjafn og við erum mörg. Það er ekki til neitt sem heitir góð eða vond músík, þetta er allt saman huglægt. Tónlistarsmekkur er í raun bara skoðun og að er ekkert til sem heitir rétt eða röng skoðun. Ég var ekki hrifinn af Euphoria en það voru hins vegar greinilega fleiri sem voru hrifnir af því og þar með vann lagið. Það er mikið talað um að rétt lag hafi unnið að þessu sinni en staðreyndin er sú að rétt lag vinnur alltaf, jafnvel þótt lagið falli ekki öllum í geð.
Eitt af því skemmtilega við Eurovision er að þar fáum við innsýn í menningu annarra þjóða, innsýn sem sum okkar leitast ekki við að fá öðruvísi. Íslenska lagið var t.d. með séríslenskum blæ sem mér fannst mjög skemmtilegt og hið sama má segja um rússneska lagið og það albanska auk margra annarra en þetta eru þau dæmi sem koma fyrst upp í hugann. Því miður var ekkert þjóðlegt sænskt við sænska lagið en þannig er það bara.
Það sem hins vegar fer afar mikið í taugarnar á mér við Eurovision eru upphrópanir, sérfræðinga í sjónvarpi og annarra, um hvað hitt og þetta sé asnalegt. Þannig las ég ansi margar athugasemdir á Facebook í gær um hvað rússneska lagið hefði verið asnalegt (og að það hefði eyðilagt Eurovision babúskurnar hefðu unnið) sem og írsku tvíburarnir sem einhver gekk meira að segja svo langt að kalla ofvirka hálfvita (og annar hefur líkt þeim við erfðabreytta silunga). Oft eru það jafnvel vel menntaðir einstaklingar sem tala svona. Þetta er mínum huga til marks um þröngsýni. Eins og ég segi hér að framan gefur þessi keppni okkur einstaka innsýn í aðra menningarheima og er til marks um hversu fjölbreytt menningarsvæði Evrópa er í raun. Þarna eru listamenn að koma sínum sköpunarverkum á framfæri og það er bara ekkert asnalegt við það. Það er ekkert asnalegt þótt hollenskur þátttakandi sé með lírukassa á sviðinu, það er einfaldlega hluti af þeirra menningu. Okkur geta þótt atriðin léleg eða leiðinleg en það þýðir ekki að þau séu asnaleg. Virðing og umburðarlyndi eru góðir eiginleikar og við eigum að sýna menningu annarra virðingu og umburðarlyndi.
Ég lýk þessu með smá hugleiðingu um þá umræðu sem myndast hefur um mannréttindabrot í Azerbaijan og hvort íslenski hópurinn hefði átt að tjá sig eitthvað um þau. Nú vitum við ekki nákvæmlega hvað Greta Salóme lét eftir sér hafa og hvernig það var klippt til en mín skoðun er sú að ekki eigi að blanda pólitík og Eurovision saman. Ástæðan fyrir því að þessi keppni hefur enst í öll þessi 56 ár er einfaldlega sú að Eurovision er ekki pólitísk keppni. Þarna koma lönd saman og keppa í vinsemd og sýna hvort öðru umburðarlyndi. Fengi Eurovision að verða pólitísk keppni myndi hún sennilega deyja drottni sínum á nokkrum árum. Það er mín skoðun.
Grattis Sverige!
Menning og listir | Breytt 28.5.2012 kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2012 | 18:25
Teikni-Óli í heldrimannabolta
Maður er nefndur Ola Andersson. Í daglegu tali er hann þekktur sem Rit-Ola eða Teikni-Ola. Sá er sænskur fótboltakappi sem lagði skóna á hilluna fyrir um 10 árum síðan og gerðist þá fótboltasérfræðingur hjá sænska ríkissjónvarpinu. Nú starfar hann hjá Viasat, fyrirtækinu sem bæði hefur sýnt Meistaradeildina og enska boltann í vetur og sat síðast í myndveri þeirra á laugardagskvöldið þar sem hann jós úr brunnum knattspyrnuvisku sinnar ásamt Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands, og teiknaði. Ástæðan fyrir því að hann er kallaður Teikni-Ola er nefnilega sú að hann er flestum öðrum fimari með skjápenna og á auk þess mjög auðvelt með að skýra fótbolta út á mannamáli og nota teikningar sér til aðstoðar.
Ola þessi er þó ekki eingöngu flinkur með pennann, hann var lengi í hópi betri knattspyrnumanna Svíþjóðar. Hann var leikstjórnandi AIK og var fyrirliði undir lok síðustu aldar þegar liðið varð Svíþjóðarmeistari og hefur það meðal annars á ferilskrá sinni að hafa leikið tvo A-landsleiki árið 1995 og gert jafntefli við Barcelona í Meistaradeildinni. Teikni-Ola er því sænskum knattspyrnuáhugamönnum flestum að góðu kunnur en víkjum betur að honum síðar.
Sumarið eftir við fluttum til Uppsala, þ.e. 2009, fór ég að spila fótbolta með Íslendingum hér í borg og árið 2010 tók 20 mínútur sem er lið okkar Íslendinganna í Uppsölum þátt í Klakamótinu, knattspyrnumóti Íslendinga á Norðurlöndum, sem það ár fór fram í Lundi. Í fyrra dró Bobbi félagi minn mig svo með sér á æfingu með heldrimannaliði (old boys) Vaksala SK sem er eitt af stærri íþróttafélögum borgarinnar. Vaksala Vets eins og liðið okkar er kallað tekur þátt í deild heldri manna liða hér í Uppsala og nærsveitum. Þess má síðan geta að í hópinn hefur bæst einn Íslendingur og unnið er að því að fjölga Íslendingunum um einn til viðbótar þannig að við verðum fjórir í lok tímabilsins.
Hvað um það, það væri synd að segja að Vaksala Vets sé mjög gott fótboltalið þótt nokkur batamerki hafi sést á leik liðsins í síðustu tveimur leikjum eftir að tveir leikmannana fóru að skipta sér af þjálfun á æfingum. Við höfum spilað þrjá leiki það sem af er tímabilinu; sá fyrsti tapaðist með 6-0, leikur númer tvo tapaðist 3-0 og þeim þriðja sem leikinn var í gær lauk 0-0.
Sá leikur var sögulegur í meira lagi. Þegar mætt var til leiks kom á daginn að ekki allir sem höfðu tilkynnt þátttöku myndu mæta og útlit var fyrir að við hefðum ekki nema tvo skiptimenn (reyndar má deila um það hvort það geri okkur mikið gagn að hafa skiptimenn en skiptingar eru frjálsar í heldrimannaboltanum og leikskipulagið hefur riðlast allhressilega þegar mikið er skipt). Markmaðurinn okkar sem hafði rekist á vin sinn einn fyrir utan þar sem sá var að horfa á dóttur sína spila fótbolta bauðst til að hringja í þennan vin. Sá brást vel við en mætti þó ekki tíu mínútum eftir að leikurinn hófst. Einmitt þegar hann kom hafði ég nýskipt til þess að taka mér stutta pásu en þegar skiptimenn eru til staðar er beinlínis ætlast til þess að maður róteri til þess að allir fái að spila jafnt.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér brá þegar ég sá Teikni-Ola allt í einu standandi við hliðina á mér í búningi Vaksala og hnýtandi teygjuna á stuttbuxunum sínum. Síðan var honum skipt inn á í snatri.
Ég held ég geti fullyrt að ég hef aldrei spilað fótbolta með betri leikmanni en Teikni-Ola, með fullri virðingu fyrir félögum mínum í 20 mínútum og öðrum. Það er greinilegt að hann hefur litlu gleymt og hann er auk þess í fantagóðu formi enda segja félagarnir í Vaksala mér að hann hlaupi að minnsta kosti 25 kílómetra í viku. Hann hefur enn augað fyrir spili og gefur góðar sendingar, einn mesti munurinn að spila með honum miðað við hina heldri mennina er sá að maður þarf ekki að standa og vonast til þess að boltinn drífi þegar búið er að gefa hann í áttina að manni. Sendingarnar hjá Ola skiluðu sér. Þrisvar átti hann frábærar stungusendingar á mig en í öll skiptin var ég ranglega dæmdur rangstæður (ég passaði mig á því að vera réttstæður) þar sem ekki eru neinir línuverðir í heldrimannabolta.
Eitt sem mér fannst líka mjög skemmtilegt að sjá var að þótt kappinn, sem þótti teknískur mjög, hefði eflaust getað sólað alla karlana upp úr skónum og skorað helling af mörkum var hann ekki að standa í neinu slíku. Hann er þrautþjálfaður fótboltamaður og búið að innræta honum að spila fótbolta eins og hann sé í liði og hann hélt sig við það. Hefði hann haft sæmilega samherja hefðum við auðveldlega unnið þennan leik.
Það var mjög skemmtilegt að spila fótbolta með kappa sem hefur barist við Guardiola og fleiri hetjur á miðjunni í Meistaradeildinni. Hið eina sem skyggði á það er að einn af félögum okkar í liðinu meiddist á hné og hefur samkvæmt síðustu fréttum spilað sinn síðasta fótboltaleik.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2012 | 11:46
Óverðskuldaður sigur?
Líkt og milljónir annarra fótboltaáhugamanna horfði ég á fótboltaleik í gær. Leikinn sem átti að verða lokahólmganga þeirra Messi og Ronaldo um hver er bestur fótboltamanna í heimi hér en varð í staðinn barátta Bayern München og Chelsea um hvort liðanna mætti kalla sig besta lið Evrópu í nokkra daga. Þetta var sum sé úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu eins og flestir ættu að hafa áttað sig á.
Ekki ætti að hafa farið framhjá neinum að Chelsea vann leikinn. Ég hafði haft það sterklega á tilfinningunni í einhverja daga og spáði því m.a. á Facebook um miðjan dag í gær að Chelsea myndi vinna leikinn. Það var skrifað í skýin eins og ég orðaði það. Víkjum að því síðar, nú langar mig að tala aðeins um leikinn. Ég tók nefnilega eftir því á áðurnefndri Fésbók eftir leikinn að margir töluðu um óverðskuldaðan sigur og það var einnig inntakið í umræðum sumra þeirra sem komu hingað og horfðu á leikinn. Andfótbolti er orð sem ég hef heyrt og séð notað yfir lék Chelsea. Ég er því ekki sammála.
Já, Bayern München pressaði og var meira með boltann (56%) og þeir fengu fullt af hornum (20 á móti 1). Sömuleiðis áttu þeir 43 skot á meðan Chelsea átti bara 9. Tölfræðin talar sínu máli myndu kannski einhverjir segja en aftur, ég er ekki sammála. Ekki ef maður horfir á leikinn út frá strategísku eða taktísku sjónarhorni. Ástæðan fyrir því að Bayern München pressaði og var meira með boltann og átti fullt af hornum og enn meira af skotum var nefnilega ekki sú að þeir yfirspiluðu Chelsea heldur sú að Chelsea leyfði þeim að pressa og vera meira með boltann og gaf þeim fullt af hornum og skotum. Nákvæmlega það sama og gerðist í leikjum Chelsea og Barcelona.
Það má vel vera að nálgun Chelsea sé leiðinleg og að liðið spili leiðinlegan fótbolta (það er smekksatriði) en það er alrangt að liðið hafi spilað illa. Þeir komu inn í leikinn með skýra áætlun um hvenrig þeir ætluðu að spila og framkvæmdu hana nánast fullkomlega (með tveimur undantekningum sem voru annars vegar mark Bayern þar sem dekkunin klikkaði hrapalega og vítið sem Bayern fékk).
Þessu má líkja við mitt stóra áhugamál sem er skák. Ég telst mjög sókndjarfur skákmaður og fer gjarnan í sókn um leið og færi gefst. Tefli oft djarft. Segjum nú sem svo að andstæðingurinn hafi unnið heimavinnuna sína og viti þetta þannig að í staðinn fyrir að æða sjálfur í sókn ákveði hann að tefla varlega og leyfa mér að sækja. Hann gefur engan höggstað á sér og þegar upp er staðið hafa sóknartilraunir mínar mistekist og ég tapa skákinni (sem ekki hefur ósjaldan gerst). Hvor telfdi betur, sá sem tefldi djarft og samkvæmt einhverri skilgreiningu skemmtilega eða sá sem varðist vel og gaf ekki færi á sér og vann þegar upp var staðið? Sá síðarnefndi auðvitað. Hann tefldi kannski leiðinlega en hann útfærði sína áætlun fullkomlega.
Góð hernaráætlun í fótbolta er fyrir mér oft frekar að koma í veg fyrir að andstæðingurinn geti spilað þann leik sem honum hentar heldur en að spila þann leik sem andstæðingnum hentar betur en hann gerir sjálfur (vonandi er þetta ekki of ruglingslega orðað). Aðalsmerki Bayern München er og hefur lengi verið góð vörn og hraður sóknarleikur, sérstaklega hraðar skyndisóknir. Þeir eru yfirleitt með eldfljóta og leikna vængmenn (í þessu tilviki þá Ribéry og Robben) sem geta auðveldlega sprengt sig í gegnum illa skipulagðar varnir og skorað eða gefið á trukkinn í miðjunni, hvort sem hann heitir Carsten Jancker eða Mario Gomez eða eitthvað annað. Hver er þá besta leiðin til að spila á móti þeim? Jú, skipulögð vörn og ekki leyfa þeim að sækja hratt. Gefa eftir miðjuna og takmarka svæðin og hægja á þeim eins og kostur er enda getur lið sem liggur í sókn varla farið í skyndisóknir. Allt þetta gerði Chelsea mjög vel.
Vitaskuld fær sóknarliðið alltaf einhver færi en þau eru í langflestum tilvikum hálffæri (eins og í gær) og þegar þú ert með einn af betri markvörðum heims fyrir aftan vörnina þá auðveldar það þessa leikaðferð verulega. Í raun sló Petr Cech bara eina feilnótu í leiknum í gær og það var þegar hann fékk á sig markið. Það segir líka sitt að aðeins sjö af þessum 43 skotum rötuðu á markið og yfirleitt var sem sé um hálffæri að ræða. Hvað hornin varðar þá var það nokkuð ljóst snemma leiks að það var hluti af leikaðferðinni að gefa þau eftir enda kom það á daginn að Robben var ekki í réttu takkaskónum í gær. Ekki ein einasta hornspyrna skapaði teljandi hættu (svipað og þegar Steven Gerrard tekur horn fyrir mína menn í Liverpool) svo ekki sé talað um það lélega víti sem hann tók í leiknum eða aukaspyrnurnar.
Þegar öllu er á botninn hvolft snýst fótbolti um að skora mörk og lið sem ekki skapa sér almennileg færi eða nýta ekki þau færi sem þau skapa sér eiga ekki skilið að vinna, gildir einu hvað þau hafa boltann mikið úti á velli eða eiga skot í rammann eða mörg horn. Liðið sem fylgir sinni hernaðaráætlun og framkvæmir hana það vel að andstæðingarnir ná ekki að skora fleiri mörk spilar í mínum huga betur en hitt.
Það skal tekið fram að sem stuðningsmaður Liverpool er ég enginn sérstakur aðdáandi Chelsea en ég dáist samt að því hversu agað og vel þeir spiluðu þessa þrjá síðustu leiki í Meistaradeildinni. Góður herforingi þekkir takmarkanir sinna manna og áætlar út frá því og Roberto Di Matteo er sannarlega góður herforingi sem skilur að oft er betra að taka lífinu með ró en að æða af stað í sóknir sem gætu gert þig berskjaldaðan. Þetta gildir jafnt í fótbolta sem í skák og eftir að fór að hugsa þannig við taflborðið hefur árangurinn ekki látið á sér standa.
Að lokum, þetta var skrifað í skýin. Það var ljóst fyrir leikinn að leikmenn Bayern höfðu meiru að tapa. Þeir voru á heimavelli og ekki unnið deildina í tvö ár í röð (sem er í fyrsta skipti síðan elstu menn muna) og það sást berlega á því að það voru þeir sem stunduðu svokallað trashtalk fyrir leikinn. Auk þess hafði Chelsea slegið út það lið sem án vafa er í hópi betri liða sögunnar með því að spila stórkostlega vörn og það var alveg ljóst að Bayern myndi ekki eiga auðvelt með að brjóta hana á bak aftur.
Góðar stundir!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2012 | 13:11
... dómarar tapa ekki leikjum
Þegar íþróttir eru annars vegar fer fátt meira í taugarnar á mér en íþróttamenn (eða stuðningsmenn íþróttaliða) sem kenna dómurum um ófarir á vellinum. Það sem verrra er er að maður heyrir eða les svona væl nánast eftir hvern einasta kappleik nú til dags. Það virðist alltaf vera dómurum að kenna ef lið tapa og nú er oftar en ekki talað um innleiðingu marklínumyndavéla og jafnvel myndavéladómara sem dómarar á vellinum geta ráðfært sig við ef þurfa þykir.
Með þetta í hug átti ég von á holskeflu stöðuuppfærslna á Fésbókinni í gær eftir bikarúrslitaleik minna manna í Liverpool á móti Chelsea þegar Andy Carroll skallaði boltann að því er virtist inn í markið áður en Petr Cech mokaði honum í slá og út. Línudómarinn dæmdi að boltinn hefði ekki farið inn í markið og virtist fullviss í sinni sök. Eflaust var þetta umdeilanleg niðurstaða hjá línuverðinum enda voru honum ekki vandaðar kveðjurnar á Pitcher's sportbarnum hér í Uppsölum þar sem ég sat í hópi góðra vina og horfði á leikinn.
Liverpool tapaði leiknum með einu marki og það er óumdeilanlegt að hefði þetta verið dæmt mark hefði leikurinn, að öðru óbreyttu, farið 2-2. Það væri því auðvelt fyrir súra Púllara að segja dómarann hafa kostar okkur sigurinn. Ég verð að viðurkenna að miðað við þær endursýningar sem ég hef séð get ég með engu móti verið viss um að boltinn hafi allur verið fyrir innan marklínuna. Kannski var hann það og kannski ekki, en það skiptir engu máli. Það var einfaldlega ekki dómaranum, og enn síður línudómaranum, að kenna að Liverpool tapaði leiknum. Það var eingöngu leikmönnum liðsins að kenna og engum öðrum, nema kannski þjálfaranum.
Dómarar vinna ekki leiki og dómarar tapa ekki leikjum. Knattspyrnuleikur er 90 mínútur að lengd og þótt það sé ekki langur tími í veraldarsögunni þá er það feykinógur tími til þess að skora einu marki meira en andstæðingarnir gera og munum að eitt mark er allt sem þarf. Liverpool var í lófa lagið að skora fleiri mörk en þeir gerðu það ekki og fyrir vikið áttu þeir ekki skilið að vinna leikinn. Leikmenn Liverpool voru einfaldlega arfaslakir í 60 mínútur í gær og það kostaði þá tvö mörk, mörk sem þeir náðu ekki að vinna upp á þessum 30 mínútum sem þeir gátu eitthvað.
Miðjumennirnir stóðu sig alls ekki vel og þar var helsti sökudólgurinn Jay Spearing sem verður að taka á sig stóran hluta skammarinnar fyrir bæði mörk Chelsea. Í fyrra markinu gaf hann boltann beint á Juan Mata sem hafði alla miðjuna til að vinna með og gaf svo góða stungusendingu á Ramires sem skoraði. Í seinna markinu seldi Spearing sig og gaf Lampard opið svæði þannig að hann gat auðveldlega gefið boltann á Drogba. Bæði mörkin skrifast að hluta til einnig á varnarmenn þar sem Enrique hleypti Ramires alltof auðveldlega framhjá sér og Skrtel dekkaði Drogba ekki nógu vel.
Það var ekki fyrr en Spearing fór út af fyrir Carroll sem Liverpool fór að sýna einhvern lit. Carroll skoraði gull af marki þegar hann lék sér að John Terry og var nálægt að jafna leikinn þegar Cech varði á marklínu. Máski var boltinn allur inn og kannski ekki en eins og ég segi það skiptir ekki máli. Það er ekki við dómarann að sakast að Liverpool tapaði leiknum.
Dómarar vinna ekki leiki og dómarar tapa ekki leikjum og miðað við hversu fáir þeirra Púllara sem ég er með að Fésbók hafa kvartað yfir dómaranum virðist mér sumir vera að átta sig á þessu. Sem er hið besta mál.
Ég læt Gerry og Gangráðana ljúka þessu fyrir mig. YNWA!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2012 | 21:53
Innibandý í fyrsta skipti
Í kvöld fórum við feðgarnir á innibandýleik í fyrsta skipti. Flest íslensk skólabörn fá einhvern tíma að spreyta sig á þessari göfugu íþrótt í leikfimi í skólanum en fyrir utan það snerta fæstir Íslendingar innibandýkylfu. Þetta þykir svo sem ágætis tilbreyting í leikfiminni en í flestra huga er þetta þó aldrei annað en tilbreyting og fæsta Íslendinga dreymir sennilega um að stunda innibandý af einhverri alvöru, hvað þá að gera það að æfistarfi sínu.
Hér í Svíaríki er sannarlega annað upp á teningnum. Innibandý, sem varð til hér í landi á 8. áratug síðustu aldar, er að verða stærsta vetraríþróttin hér í landi hvað varðar fjölda iðkenda, og Svíar taka sitt innibandý mjög alvarlega. Hér er m.a.s. atvinnumannadeild í þessari íþrótt sem víðast telst til jaðaríþrótta.
Í þessari atvinnumannadeild eru tvö lið frá Uppsölum, Storvreta sem er besta innibandýlið í Svíþjóð um þessar mundir og hefur orðið meistari tvö síðustu árin, og Sirius. Sirius, sem eftir því sem ég veit best er stærsta íþróttafélagið hér í borg með sæmilega frambærilegt fótboltalið, bandýlið í efstu deild og svo innibandýliðið, situr hins vegar á botni deildarinnar (athugið að bandý og innibandý eru tvær mismunandi íþróttir). Það var botnliðið Sirius sem við sáum spila í kvöld.
Andstæðingarnir voru AIK frá Solna en það félag er svolítið eins og KR á Íslandi, menn annað hvort halda með því eða hata það eins og pestina. AIK fylgir m.a. mjög harðskeytt lið stuðningsmanna sem kalla sig Black Army og valda usla og látum hvar sem þeir koma. Hingað til virðast þessar bullur þó ekki hafa sýnt innibandý áhuga enda er svo sem ekki miklu ofbeldi fyrir að fara í þeirri íþrótt, ólíkt fótbolta og umfram allt íshokkí.
Ekki get ég sagt að ég sé dómbær á hvort leikurinn hafi verið vel leikinn, ég hef séð nokkra leiki í flokki barna á aldrinum 7-14 ára, en burtséð frá því var þetta hin besta skemmtun. Sirius tapaði með þriggja marka mun, 3-6, en eftir því sem ég gat séð voru yfirburðir AIK ekki nægilegir til þess að réttlæta svo stóran sigur enda var markmaður gestanna valinn maður leiksins auk þess sem Sirius átti mun fleiri skot á mark. Það eru hins vegar mörkin sem telja og þar voru AIK mun beittari.
Leikurinn var eins og áður segir hin besta skemmtun en ég reikna nú samt frekar með að við feðgar munum halda áfram að fara á körfuboltaleiki í stað þess að stunda innibandýáhorf.
6.11.2011 | 23:03
Veni, vidi, vici
Fyrsta helgin í nóvember, sem Svíar kalla alla jafna Allhelgonahelgina með vísan til Allra heilagra messu, er jafnan mikil skákhelgi hér í Svíþjóð. Fjöldi stórra opinna móta er haldinn þessa helgi m.a. í Stokkhólmi, Gautaborg, Lundi og Karlstad. Það mót sem á sér sennilega lengsta sögu er þó Björkstadsschacket í Umeå í N-Svíþjóð. Nafn mótsins er til komið vegna þess að Umeå mun vera óvenjulega mikið af birkitrjám og er bærinn því oft nefndur Björkstaden eða Birkibærinn á íslensku.
Þar sem fyrsta vikan í nóvember, vika 44 (sænsk áætlanagerð miðast iðulega við vikur), er frívika í skólum landsins ákváðum við fjölskyldan fyrir nokkru að taka okkur frí frá vinnu og skella okkur norður í land og heimsækja Magga og Vöku vini okkar sem eru tiltölulega nýflutt til Umeå. Þegar ég áttaði mig á því að ég gæti notað tækifærið og teflt í leiðinni ákvað ég að skrá mig í Björkstadsschacket, sérstaklega þar sem þetta mót er skráð til Elo-stiga en mig vantaði einmitt tvær skákir til þess að komast á þann góða lista.
Þegar mætt var til leiks var ég í 8. stigahæsti keppandinn í mótinu en á meðal keppanda voru öflugir skákmenn á borð við FM Johan Ingbrandt sem er með tæp 2500 sænsk stig og Eric Vaarala sem varð sænskur unglingameistari í sumar en hann er með 2300 sænsk stig. Til þess að gera langa sögu stutta skaut ég þessum góðu drengjum ref fyrir rass, sem og öllum öðrum. Ég vann sem sagt mótið með fjóra vinninga úr fimm skákum, vann þrjár skákir og gerði tvö jafntefli. Reyndar vorum við þrír sem fengum fjóra vinninga, þ.á m. áðurnefndur Ingbrandt, en ég varð efstur samkvæmt stigum sem notuð eru til þess að skera úr þegar menn eru jafnir.
Þetta er langbesti árangur sem ég hef náð í skákmóti, ég hef svo sem unnið nokkur mót í gegnum tíðina en aldrei jafn sterk mót og þetta. Sigurinn tók þó á. Fyrir síðustu umferðina var ég í 5. sæti og þegar sest var að tafli var ég með dúndrandi mígreni. Eftir 8 leiki bauð ég jafntefli, það hefði tryggt okkur báðum verðlaunasæti, enda var ég ekki vel stemmdur. Andstæðingurinn hafnaði því þó með þjósti (sem betur fer) og þá ákvað ég að ég skyldi bara vinna hann í staðinn. Eftir rúma fjóra tíma og 84 leiki var því markmiði svo náð. Sennilega hefur engin skák sem ég hef teflt reynt jafnmikið á mig. Þegar skákin var búin var mér ljóst að ég væri í 1.-3. sæti en fann enga gleði, ég var einfaldlega of þreyttur. Það var ekki fyrr en tilkynnt var við verðlaunaafhendinguna að ég hefði orðið efstur á stigum að ég fann siguránægjuna.
Það munaði sömuleiðis engu að ég hefði glutrað sigrinum niður því ég lék ónákvæmum leik í endataflinu sem hefði getað tryggt andstæðingnum jafntefli. Sem betur fer var hann líka þreyttur og auk þess í tímahraki þannig að hann missti af bestu leiðinni og ég vann.
Samkvæmt heimasíðu skákklúbbsins hér í Umeå er þessi sigur minn sögulegur því þetta mun vera í fyrsta skipti í 33 ára sögu Björkstadsschacket sem skákmaður með minna en 2000 stig (ég er sem stendur með 1988 stig) vinnur mótið.
Gaman að því.
Best að bæta við lokastöðu mótsins: http://chess-results.com/tnr58411.aspx?art=1&rd=5&lan=1
Spil og leikir | Breytt 23.7.2012 kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2011 | 20:39
Íslendingarnir yfirburðamenn
Við feðgarnir brugðum okkur að vanda á körfuboltaleik í kvöld. Þetta var annar leikurinn sem við sáum á þessu tímabili en fyrir viku síðan sáum við Uppsala Basket vinna Norrköping, sem undanfarin ár hefur verið í hópi bestu liða hér í Svíaríki. Uppsala hefur byrjað tímabilið óvenjulega vel og var fyrir leikinn við Sundsvall í kvöld eitt í efsta sæti þannig að við bjuggumst við jöfnum og spennandi leik, en annað kom á daginn.
Það var einfaldlega klassamunur á liðunum og Sundsvall var betra á öllum sviðum. Yfirleitt hafa þeir leikir þessara liða sem við höfum séð einkennst af því að Sundsvall er mun betra framan af en síðan hefur Bo Eriksson, þjálfari Uppsala, kynt rækilega upp í sínum mönnum og Uppsala hefur hleypt leikjunum upp í vitleysu með grófum brotum. Þetta hefur fipað Sundsvall sem þá hefur misst dampinn og leikurinn jafnast út.
Eins og nærri má geta reyndi Bosse bössa eins og hann er kallaður þetta í kvöld líka en að þessu sinni lenti hann á íslensku blágrýti. Þeir Jakob, Hlynur og Pavel voru einfaldlega yfirburðamenn á vellinum og létu aukna hörku ekki slá sig út af laginu. Jakob er potturinn og pannan í öllum sóknarleik Sundsvall. Hann er snöggur, glöggur og dritar niður þriggja stiga skotunum. Miðað við leiki undanfarinna ára hefur Jakob bætt sig mikið því það sem ég hef séð af Sundsvall hefur Jakob yfirleitt haldið sig til hlés á útivelli en verið frábær á heimavelli. Hlynur stjórnar vörninni eins og herforingi; nautsterkjur og útsjónarsamur og rífur niður fráköstin. Pavel hefur síðan fært liðinu nýja vídd og nú er byrjunarlið Sundsvall, sem mér virðist vera langbesta liðið í sænsku deildinni um þessar mundir, skipað þremur Íslendingum og tveimur Könum sem þótt vissulega séu þeir gagnlegir til síns brúks eru eiginlega meira í stoðhlutverki.
Næst förum við feðgarnir sennilega á leik Uppsala og ecoÖrebro sem verður 18. nóvember.
Jakob Örn stigahæstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2011 | 22:43
Viðburðaríkt ár að baki
Í gær var merkilegur dagur. Þá var ég búinn að vera 35 ára gamall í 365 daga og af því má skilja að ég varð 36 ára í dag. Nýtt ár er framundan, vonandi fullt af nýjum tækifærum og verkefnum. Í þessari bloggfærslu vil ég þó horfa aðeins í baksýnisspegilinn því eftir á að hyggja held ég að 36. aldursár mitt, það sem lauk í gær, hafi verið eitt það viðburðaríkasta á ævi minni.
Á þessu ári eignaðist ég fjölda nýrra vina, og endurnýjaði auk þess vináttuna við gamla vini með aðstoð hins stórmerklega fyrirbæris Facebook. Sérstaklega er gaman að segja frá því að ég hef endurnýjað kynnin við mann sem fyrir 30 árum bjó í næstu blokk við mig í Álfheimunum. Við lékum okkur mikið saman og vorum góðir vinir. Síðan flutti hann í Mosfellssveit, eins og það hét þá, og ég heyrði aldrei meira frá honum. Ekki fyrr en í desember sl. þegar hann sendi mér póst á FB vegna handboltaleiks. Hann vissi þó ekki hver ég var og það var ekki fyrr en ég spurði hvort þetta væri minn gamli leikfélagi. Það stóð heima og þá kom á daginn að vinurinn býr hér skammt fyrir suðaustan Uppsali. Gaman að því og skemmtilegt hvernig Facebook getur fært fólk saman á ný.
Ég hef einnig ferðast mikið á árinu. Við nýttum okkur það í fyrrasumar að Svíþjóð tengist meginlandi Evrópu og ókum niður til Þýskalands ásamt foreldrum mínum. Þar leigðum við sumarbústað í Eifel-fjallgarðinum í námunda við ánna Mósel í eina viku en gáfum okkur nærri viku til að komast þangað og heimsóttum skemmtilegar borgir á leiðinni. Sömuleiðis ókum við um Móseldalinn og standa heimóknirnar í Trier, sem ég hef reyndar komið til nokkrum sinnum áður en þó ekki síðan ég var barn, og Cochem þar upp úr. Sömuleiðis ókum við til Lúxemborgar, þar sem ég hitti Helga Mar kollega minn af Mogganum, og aðeins inn í Frakkland. Á leiðinni heim fórum við svo í gegnum Belgíu og Holland áður en við komum aftur inn í Þýskaland og gistum í þrjár nætur áður en haldið var yfir til Danmerkur og þaðan til Svíþjóðar. Ég fylgdist því að mestu með HM i fótbolta í Þýskalandi en var í Hollandi þegar Hollendingar slógu Brasilíumenn út úr keppninni og svo í Þýskalandi daginn eftir þegar Þjóðverjar slógu Argentínu út. Í þessari ferð heimsóttum við samtals sex lönd, þar af tvö sem ég hef aldrei komið til áður.
Í haust fór ég síðan aftur til Belgíu og sótti þar fund vegna ESB-verkefnis sem ég er að vinna að. Skömmu fyrir jól brugðum við okkur í helgarferð til Íslands, sem reyndar lengdist aðeins vegna veikinda og er það fyrsta Íslandsferð mín síðan ég flutti af landi brott í ágúst 2008. Í upphafi febrúar fórum við hjónin svo ásamt góðum vinum, þeim Bobba og Laugu sem hér búa í Uppsölum, til Búdapestar. Upphaflega stóð til að sonurinn kæmi með en honum tókst að ná sér í streptókokka-sýkingu og RS-vírus samtímis aðeins viku áður en lagt var í hann. Til allrar hamingju voru foreldrar mínir stödd í Kaupmannahöfn þegar þetta var þannig að mamma brá sér yfir og passaði ættarlaukinn fyrir okkur á meðan við hjónin slökuðum á í heimalandi gúllasins. Ég hef lengi verið að plana að skrifa um þessa Búdapestarferð, hef mikið um hana að segja, og vonast til að gera það á næstunni.
Í september tók ég mig svo til og tók þátt í fótboltamóti í fyrsta skipti síðan ég og nokkrir félagar tókum þátt í 4. deildinni í innanhúsknattspyrnu heima á Íslandi á öndverðum 10. áratugnum. Sú ferð reyndist þó ekki til fjár og satt að segja hafði mig ekki grunað að ég myndi nokkurn tíma æfa fótbolta aftur. Maður á samt aldrei að segja aldrei og í haust fór ég ásamt níu félögum í knattspyrnufélaginu 20 mínútum (þar af var einn frá Ghana og einn Svíi) til Lundar og tók þátt í Klakamótinu, knattspyrnumóti íslenskra karlmanna á Norðurlöndunum. Þetta reyndist hin skemmtilegasta ferð og ég hef sennilega ekki verið í betra líkamlegu ásigkomulagi í áratugi. Auðvitað er stefnt að þátttöku í Klakamótinu 2011 sem fram fer í Sönderborg í Danmörku í september og ég hef sett markið á að byggja mig enn betur upp fyrir það mót.
Ekki má svo gleyma því að bókin mín um hann Sjandra litla kom út á þessu ári sem liðið er síðan ég varð 35 ára og ég er búinn að skrifa handrit að annarri bók. Þá er ég kominn aftur í blaðamennskuna og alvöru hagfræði, en ekki bara fræðilega og hef alltaf jafn gaman að. Ég er líka með fleiri verkefni á prjónunum sem vonandi verða að veruleika og þá mun ég greina nánar frá þegar þar að kemur. Ennfremur hef ég í fyrsta skipti á ævinni staðið fyrir framan töflu og kennt í kennslustofu, alveg ný reynsla og mjög skemmtileg.
Viðburðaríkt ár, sem sagt, en ekki er þó allt jafn jákvætt. Kona móðurbróður míns, sem alltaf var mér mjög góð, kvaddi þetta jarðlíf eftir mjög löng og erfið veikindi. Ég gat því miður ekki kvatt hana og ekki fylgt henni til grafar og það þótti mér erfitt. Því miður var sambandið við hana stopult síðustu árin og er það ein af ástæðum þess að ég hef einsett mér að bæta samband mitt við frændur mína og frænkur með hjálp FB. Þá hef ég átt í stökustu vandræðum með nýrnasteina. Ég þurfti að taka mér tveggja vikna veikindaleyfi í lok nóvember og byrjun desember og hef farið þrisvar sinnum í nýrnasteinabrjótinn á árinu en án árangurs. Steinninn sem um ræðir er enn að valda mér vandræðum og eyðilagði hann m.a. fyrir mér heilt skáktímabil. Ég hafði sett mér metnaðarfullt markmið fyrir tímabilið og byrjaði mjög vel í haust, ég held ég geti fullyrt að ég hafi aldrei teflt betur en í skákmóti sem ég tók þátt í í lok september og var kominn hálfa leið að markmiðinu. Síðan fór steinninn að valda vandræðum og þegar ég sit við taflborðið fæ ég alltaf nístandi verk í nýrað sem gerir að ég get alls ekki einbeitt mér. Fyrir vikið hef ég tapað um 15 skákstigum miðað við sama tíma í fyrra en stefndi á að ná mér í 100 stig og fara yfir 2100.
Burtséð frá þessu hefur þetta þó verið hið fínasta ár og viðburðaríkt eins og áður segir. Nú er bara að vona að mér takist að ná markmiðum mínum fyrir næsta ár.
Að lokum, við fengum góða gesti í mat á afmælisdaginn. Þau komu færandi hendi með íslenskan lambahrygg sem ég matreiddi að hætti hússins og heppnaðist að ég held mjög vel. Ég hef fengið fjöldann allan af afmæliskveðjum á Facebook og annan hátt og í dag er búið að vera frábært veður. Rúmlega 20 stiga hiti og glampandi sól. Þetta er í stuttu máli sagt búinn að vera mjög góður afmælisdagur.
Kærar þakkir fyrir mig. Góðar stundir.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)