8.2.2009 | 22:50
Bréfið er gullmoli en bankastjórnin þarf að segja af sér
Hver svo sem skoðun manna er á Davíð Oddssyni og þeirri ákvörðun hans að segja ekki af sér verður að viðurkennast að bréfið til Jóhönnu er algjör gullmoli, þetta er ósvikin smjörklípa.
Sem hagfræðingur er ég sammála Davíð um það að seðlabanki á að njóta sjálfstæðis frá stjórnvöldum, einfaldlega vegna þess að seðlabanki þarf oft að taka erfiðar ákvarðanir sem ekki henta populistískum stjórnmálamönnu. Hins vegar er ég einnig þeirrar skoðunar að Davíð og félagar hans í bankastjórn Seðlabankans eigi að víkja. Eigi mönnum að takast að byggja upp traust á bankanum og trúverðugleika hans er nauðsynlegt að skipta um menn í brúnni. Verkefni Seðlabankans er að halda verðbólgu í skefjum og það hefur honum fráleitt tekist og það er það eina sem skiptir máli, ekki hvaða skoðun fólk hefur á Davíð Oddssyni eða Jóni Jónssyni. Trúverðugleiki Seðlabanka Íslands er enginn, og það mun ekki breytast á meðan núverandi seðlabankastjórar sitja, gildir einu hvort þeir eru lögfræðingar eða hagfræðingar. Ingimundur Friðriksson er maður að meiri fyrir að hafa sagt af sér.
Mikið hefur verið rætt um háa stýrivexti og þvílíkt böl þeir eru fyrir íslenskt efnahagslíf en staðreyndin er engu að síður sú að bankinn hafði ekki um önnur verkfæri að ræða til þess að vinna á verðbólgunni (ég er ekki sannfærður um að hærri bindiskylda lausafjár hefði breytt neinu), aðrir þættir hafa síðan orðið til þess að stýrivextirnir hafa ekki virkað sem skyldi. Meira um það síðar.
Davíð segir ekki af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2009 | 22:28
Loksins loksins
Jæja, þá kom að því að maðurinn byrjaði að blogga. Hér hef ég hugsað mér að blogga um heima og geima en þó helst sennilega um efnahagsmál og kannski eitthvað um stjórnmál og samfélagsmál enda tengjast þessir málaflokkar gjarnan. Ég mun eflaust skrifa eitthvað um skák og aðrar íþróttir og hver veit nema ég nefni einstaka bíómynd.
Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá stunda ég nú doktorsnám í hagfræði við SLU í Uppsölum en starfaði áður sem blaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins. Ég er mikill andstæðingur verðtryggingar eins og margoft kom fram í skrifum mínum á síðum Morgunblaðsins og tel mig hafa ýmislegt til málanna að leggja hvað verðtryggingu varðar enda tel ég mig hafa komið þeim málaflokki á kortið þótt ekki séu sumir mér sammála um það og vilji eigna sér heiðurinn af því. Einnig varð ég frægur (kannski að endemum) fyrir að hafa tekið viðtal við Robert nokkurn Aliber sem birtist í júní sl. Ég mun án nokkurs vafa fjalla um þetta viðtal einhvern tímann á þessu bloggi enda hefur nánast allt sem hinn aldni prófessor sagði ræst.
Ég hef skoðun á öllu en þó sérstaklega á efnahagsmálum á Íslandi og því hruni sem nú er orðið. Öllum er frjálst að vera ósammála mér en fólk er þó beðið að halda sig innan velsæmismarka því munum að skoðanir manna eru jafn misjafnar og þeir eru margir.