Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
27.11.2010 | 23:00
Rétturinn til að kjósa ... ekki
Í dag er kosið til stjórnlagaþings og þegar þessar línur eru ritaðar bendir flest til þess að kjörsókn hafi verið í dræmari kantinum, jafnvel afar dræm. Í aðdraganda kosninga, og jafnan þegar kjörsókn er dræm, fáum við að heyra álitsgjafa benda á hversu slæmt það sé þegar kjósendur nýta sér ekki þennan mikilvægasta rétt lýðræðisins, hornstein hins frjálsa samfélag. Stundum heyrir maður álitsgjafa, og að sjálfsögðu stjórnmálamenn, segja það vera lýðræðislega skyldu okkar kjósenda að kjósa og hafa þannig áhrif.
Vissulega er dræm kjörsókn óheppileg en í mínum huga er þó einn réttur mikilvægari í lýðræðissamfélagi en kosningarétturinn. Það er rétturinn til þess að kjósa ekki ef maður kærir sig ekki um það. Kosningarétturinn er einmitt það sem felst í orðanna hljóðan, réttur en ekki skylda. Rétturinn að kjósa felur einnig í sér réttinn til þess að kjósa ekki og um leið og hann verður að kvöð hættir hann að vera réttur og þá er frelsið ekki lengur mikið. Þess vegna er rétturinn til þess að kjósa ekki mun mikilvægari en rétturinn til þess að kjósa. Gleymum því ekki að það hefur gerst í heimi hér að fólk hafi verið skyldað til að mæta á kjörstað.
Með því að kjósa höfum við áhrif á það hvernig samfélaginu er stýrt og að sjálfsögðu fyrigerum við þeim áhrifum okkar með því að mæta ekki á kjörstað en það breytir því ekki að kosningarétturinn er réttur en ekki kvöð. Oft er bent á að forfeður okkar börðust fyrir almennum kosningarétti og að okkur beri að sýna þeirri baráttu virðingu. Vissulega börðust forfeður okkar fyrir þessum rétti og víða var það blóðug barátta en væri kosningaskylda ekki einmitt þvert á allt það sem forfeður okkar börðust fyrir?
Ég tel svo vera. Kosningarétturinn er réttur en ekki kvöð og hann má aldrei verða að kvöð.
17.11.2010 | 19:32
Breyttir tímar fyrir skákáhugamenn
Óhætt er að segja að undanfarnar vikur hafi verið gósentíð fyrir okkur skákáhugamenn. Auk Ólympíumóts í Rússlandi hafa farið fram nokkur gríðarsterk skákmót; þ.á m. heimsbikarmót í Sevilla, ofurmót í Nanjing í Kína og svo minningarmótið um Tal í Moskvu sem lauk sl. sunnudag. Tvö síðastnefndu mótin eru orðin að árvissum viðburði (ég er ekki viss um heimsbikarmótið en Ólympíumótið fer fram annað hvert ár) og eru þau jafnan á meðal sterkustu móta hvers árs, ef ekki þau sterkustu.
Ég smitaðist aftur af skákbakteríunni í fyrrahaust eftir að hún hafði legið í dvala um margra ára skeið. Ég hafði að vísu teflt í deildakeppninni íslensku og tekið þátt í einstaka skákmótum og eitthvað gert af því að tefla hraðskák á netinu en skákáhuginn var með minnsta móti og ég hafði lítið fylgst með því sem var að gerast í skákheiminum síðan fyrir aldamót. Ekki veit ég hvað það var sem vakti skákbakteríuna af dvala sínum (ég held að maður læknist aldrei alveg af henni) en hitt veit ég að nú fylgist ég náið með öllum helstu skákviðburðum og þá kemur netið sér vel.
Þegar ég var yngri var ekki alltaf auðvelt að fylgjast með skákmótum úti í heimi. Mogginn og fleiri íslensk blöð birtu reyndar reglulega fréttir af skák og auðvitað var hægt að fylgjast með í erlendum skákblöðum sem rötuðu inn á heimilið eða upp í taflfélag en mikið fleiri voru möguleikarnir ekki. Mér er alltaf minnistætt einvígi þeirra Jóhanns Hjartarsonar og Viktors Kortsnoj í St. John 1988; þá var karl faðir minn ennþá með skákþætti í útvarpinu og þegar ljóst var að Jóhann átti möguleika á að vinna einvígið var ákveðið að pabbi skyldi vera til taks í útvarpinu og lesa upp leikina í beinni útsendingu og skýra skákina jafnóðum. Eftir að hafa verið í heimsókn hjá vini mínum sem bjó nánast í næsta húsi við Útvarpshúsið ákvað ég að rölta yfir í Útvarpshúsið þegar líða tók á kvöldið (ef mig misminnir ekki þá var þetta á laugardagskvöldi) og fylgjast með. Pabbi sat þarna við stjórnborðið, sem hann hafði fengið skyndikennslustund á, og spilaði lög á milli þess sem hann fékk símtöl frá Kanada um nýja leiki og miðlaði þeim áfram til hlustenda, með tilheyrandi útskýringum. Nú er öldin svo sannarlega önnur.
Skákþættir í útvarpinu eru liðin tíð og hvað þá í sjónvarpinu, með þeirri undantekningu að sýnt er beint frá úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í atskák. Mogginn birtir skákþátt einu sinni í viku að ógleymdu skákkrílinu, eins og það er kallað innanhúss á Mogga, en að öðru leyti hefur skák ekki átt upp á pallborðið hjá íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár og miðað við það sem ég hef kynnst af erlendum fjölmiðlum á hið sama við þar. Nú orðið er það netið sem sér um fréttaflutning af skák og það er svo sannarlega breyting til batnaðar.
Hægt er að fylgjast með flestum skákmótum nánast í rauntíma og þar með talið horfa á skákir í beinni útsendingu, oftar en ekki með skýringum. Hægt er að nálgast gríðarstór skákasöfn á netinu, amk vikulega. Til er töluverður fjöldi vefsíðna sem tileinkaðar eru fréttaflutningi af skák. Það er meira að segja hægt að horfa á skákfréttaþætti á netinu. Þetta kemur kannski engum á óvart en ég verð að segja að mér þótti það svolítið merkilegt þegar ég byrjaði að fylgjast með á ný hversu vel skákmönnum hefur tekist að aðlaga sig netinu og færa sér það í nyt.
Hvað um það, eins og ég sagði í upphafi hafa undanfarnar vikur sannarlega verið gósentíð fyrir skákáhugamenn. Sérstaklega þótti mér gaman að fylgjast með norska skákundrinu Magnúsi Carlsen vinna yfirburðasigur á ofurmótinu í Nanjing. Mér þykir einkar gaman að fylgjast með þessum 19 ára pilti sem að mínu mati, og fjölmargra annarra er besti skákmaður heims í dag. Fram að mótinu í Nanjing hafði hann átt erfitt haust, honum gekk brösuglega í Ólympíumótinu og sömuleiðis í Sevilla, þannig að ég reikna með að honum hafi þótt sigurinn í Nanjing einkar sætur og jafnvel má færa rök fyrir því að hann sé meðal þeirra mikilvægustu á ferli þessa unga snillings.
Annar skemmtilegur skákmaður sem hefur verið að gera það gott að undanförnu er Bandaríkjamaðurinn Hikaru Nakamura. Sá er jafnan ofarlega á blaði þegar bestu hraðskákmenn heims eru taldir upp og oft sagður sá besti í þeirri grein. Hann hefur jafnt og örugglega verið að fikra sig upp stigalistann á undanförnum árum og er nú kominn í hóp 10 stigahæstu manna heims skv. liverating.org, vefsíðu sem heldur utan um tifandi stig þeirra skákmanna sem hafa meira en 2700 stig hverju sinni. Nakamura stóð sig mjög vel í minningarmótinu um Mikhail Tal, töframanninn frá Riga, sem lauk í Moskvu á sunnudag en þar lenti hann í 4.-5. sæti eftir að hafa ítrekað misst af vinningi í lokaskákinni, sem hefði tryggt honum jafnmarga vinninga og efstu mönnum.
Nú er þessi færsla orðin alltof löng og ég ætla því að setja punkt. Það geri ég með myndbandi sem ég fann á Youtube með skák þeirra Nakamura og Carlsen í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í hraðskák sem nú stendur yfir í Moskvu. Stórskemmtilegt myndband
9.11.2010 | 20:55
Laugardagskvöld með Freddie og félögum
Þeir sem þekkja mig vita sennilega flestir að ég er mikill aðdáandi bresku hljómsveitarinnar Queen og hef verið um all langt skeið. Ekki er ég svo sem einn um það enda hljóta þeir Freddie Mercury og félagar hans að vera á meðal vinsælustu hljómsveita sögunnar.
Nýlega benti Bobbi vinur minn mér á að hér í Uppsölum stóð til að þekktir sænskir tónlistarmenn flyttu helstu lög Queen og vorum við að velta fyrir okkur að sjá þá sýningu. EKki veit ég svo sem um hvaða tónlistarmenn var að ræða en minnugur þeirrar hörmungar sem flutningur íslenska tónlistarlandsliðsinsá meistaraverki Bítlanna Sgt. Pepper árið 2008 var, ákvað ég að sleppa því að sjá þessa sýningu. Þess í stað sagði ég Bobba að ég skyldi einhvern daginn bjóða honum í mat og setja síðan DVD-diskinn með klassískum tónleikum Queen á Wembley 1986 í spilarann.
Disk þennan gáfu íslenskir vinir okkar fjölskyldunnar í Skövde mér í afmælisgjöf, ásamt Greatest Hits með Queen á DVD, árið 2004. Sannarlega góð gjöf sem ég held mikið upp á. Ég hef þó ekki horft á diskinn síðan áður en ég flutti aftur til Svíaríkis í ágúst 2008 þannig að það var svo sannarlega tími til kominn þegar við Bobbi létum verða af því að skella honum í tækið nú um helgina.
Sannast sagna var ég búinn að gleyma hvað tónleikar þessir eru frábær skemmtun og ljóst er að ég mun ekki láta jafn langan tíma líða uns ég set diskinn aftur í tækið. Árið 1986 var ég ellefu ára gamall og auk þess hafði ég ekki uppgötvað Queen alveg á þeim aldri, hafði að sjálfsögðu heyrt þau lög hljómsveitarinnar sem voru hvað mest spiluð á Rás 2 á þessum árum og hafði mjög gaman af en hafði lítið heyrt af eldri meistaraverkum. Eðli málsins samkvæmt fór ég því aldrei á Queen-tónleika en tel mig geta fullyrt að þeir sem voru á Wembley laugardaginn 12. júlí 1986 eiga aldrei eftir að gleyma þeirri upplifun. Mér er meira að segja sagt að tónleikarnir hafi verið sýndir í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna og að þeir sem sáu þá útsendingu muni seint gleyma því.
Félagarnir í Queen voru allir tónlistarmenn í hæsta gæðaflokki en þeir höfðu einnig stórkostlega sviðsframkomu, sem m.a. sést glögglega á því að það er almenn skoðun þeirra sem börðu Live Aid-tónleikana á Wembley ári áður augum að þar hafi Queen borið af. Fremstur meðal jafningja þar var söngvarinn Freddie Mercury sem hafði einstakt lag á að ná til áheyrenda. Það kemur e.t.v. einna best fram í laginu Love of my life, sem ég hef heyrt Freddie segja í viðtali að honum hafi alltaf þótt skemmtilegast að flytja á tónleikum þar sem áhorfendur tóku jafnan svo vel undir. (Takið eftir að í þessu lagi missir Brian May þráðinn stundarkorn, nokkuð sem ekki mun hafa gerst oft hjá þessum frábæra gítarleikara.)
Laugardagskvöldið með þeim Freddie Mercury, Brian May, Roger Taylor og John Deacon var svo sannarlega góð skemmtun og við hæfi að njóta þess á laugardagskvöldi, við náðum reyndar ekki að klára tónleikana það kvöldið og þurftum því að horfa á síðustu lögin daginn eftir, í góðum félagsskap, right 'til the end.
Góðar stundir!
5.11.2010 | 13:50
Bankaáhlaup í alvöru og í bíó
Fátt fannst mér skemmtilegra á árum mínum sem blaðamaður en að skrifa það sem kannski má kalla fræðsluefni með vísan í málefni líðandi stundar. Þetta efni má ef til vill flokka til fréttaskýringa en er þó að mínu mati af aðeins öðrum meiði sprottið, að minnsta kosti miðað við hvernig fréttaskýringar tíðkuðust á Mogganum þegar ég var þar.
Sagt er að góður kennari sé mjög naskur við að finna dæmi sem geta skýrt mál hans og þó ekki sé ég dómbær á hvort ég sé góður kennari eður ei reyndi ég að tileinka mér þessa aðferð og leitaði þá gjarnan dæma í kvikmyndasögunni, og þá helst í þeim myndum sem náð höfðu til almennings en ekki eingöngu hörðustu kvikmyndaáhugamanna.
Eitt dæmi um slíka umfjöllun var grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 11. október 2007. Þar var fjallað um bankaáhlaup, málefni sem var mjög í fréttum vegna áhlaupsins á breska bankann Northern Rock haustið 2007. Innblásturinn (dæmið sem ég notaði til stuðnings) var myndin um barnfóstruna Mary Poppins, ein af mínum eftirlætismyndum þegar ég var barn og ég hef enn mikið dálæti á henni.
Þessi grein birtist sem áður segir í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 11. október 2007, fyrir rúmum þremur árum síðan, og er birt hér með leyfi útgefanda Mbl.
Bankaáhlaup í alvöru og bíó
BANKAÁHLAUP, eða úttektarfár, á borð við það sem enski fasteignalánabankinn Northern Rock lenti í nýlega koma sem betur fer sjaldan upp. Sem betur fer fyrir bankana því nytu þeir ekki jafn mikils trausts og raun ber vitni myndu þeir ekki geta hagnast jafn mikið. Og sem betur fer fyrir neytendur því treystu þeir ekki bönkunum jafn vel og raun ber vitni myndi fólk í raun eyða öllum deginum í að labba á milli banka og færa fé sitt á milli. Og sofa síðan með það í tösku úti á miðju gólfi líkt og Lína nokkur Langsokkur. Það væri engum í hag nema ef til vill einstaka innbrotsþjófi, og náttúrulega fyrirtækjum sem selja þjófavörn.
Svo sjaldgæf eru bankaáhlaup að sá sem þetta ritar man ekki eftir slíku síðan ég fór að fylgjast með efnahagsmálum. En þó hafði ég séð að minnsta kosti eitt slíkt. Það var í hinni klassísku kvikmynd um barnfóstruna sem sveif um í regnhlífinni, Mary Poppins. Eflaust hafa bankaáhlaup komið fyrir í fleiri kvikmyndum en ekki þó á jafn eftirminnilegan hátt og í þessari skemmtilegu fjölskyldumynd. Rifjum aðeins upp úttektarfárið úr Mary Poppins.
"Skilaðu peningunum"
Svo skemmtilega vill til að ættarlaukur Banks-ættarinnar, Michael, á tvö pens og þau tekur hann með sér þegar hann fer með föður sínum í vinnuna. Þegar þau systkinin ganga fram hjá dómkirkjunni koma þau auga á fuglakonuna sem mælir hjáróma: "Gefið fuglunum. Pokinn kostar tvö pens." Auðvitað vill barnið frekar gefa fuglunum að borða fyrir smáaurana sína en bankamaðurinn, faðir hans, þykist vita betur. Peningarnir skulu lagðir inn á reikning í Fidelity Fiduciary bankanum. Og ekki skánar ástandið þegar komið er inn fyrir dyr bankans. Þá kemur gamall fauskur, aðaleigandi bankans, og hirðir klinkið af drengnum unga. "Skilaðu peningunum," hrópar barnið og þegar viðskiptavinir bankans heyra að einhver fær ekki peningana sína heimta þeir að fá innlán sín tilbaka. Þeir missa traustið til bankans. Bankaáhlaupið er staðreynd.
Orðrómurinn var réttur
Bankaáhlaup eru yfirleitt afleiðing þess að viðskiptavinir missa traustið til bankans. Northern Rock er þar engin undantekning. Fjallað hafði verið um það í fjölmiðlum áður en úttektarfárið hófst að bankinn gæti lent í lausafjárvanda þar sem hann fjármagnaði útlán sín að stórum hluta til á markaði og fjármagnsmarkaðir voru nánast þornaðir upp.Þetta þvertóku forsvarsmenn bankans fyrir og það var ekki fyrr en þeir óskuðu eftir aðstoð Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, að þeir neyddust til þess að viðurkenna að orðrómurinn ætti sér stoð í raunveruleikanum. Þótt margir hafi bent á að í raun hafi ekkert verið að óttast misstu viðskiptavinir bankans trúna á að þar væri sparifé þeirra best borgið og þeir þustu í bankann til þess að taka það út.
Það er mjög sjaldgæft að bankar liggi á öllu því fé sem inn í þá er lagt, sem er til marks um það traust sem viðskiptavinir bera almennt til þeirra, og því geta þeir lent í töluverðum vandræðum þegar úttektarfár skellur á. Sú staða gæti, a.m.k. fræðilega, komið upp að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar við viðskiptavinina. Þetta óttuðust sumir þegar áhlaupið var gert á Northern Rock og því gripu bresk stjórnvöld til þess ráðs að ábyrgjast öll innlán í bankann.
Það var ekki gert í Mary Poppins og því var föður Michael litla Banks sagt upp störfum þegar tekist hafði að loka öllum kössum og rýma húsakynni Fidelity Fiduciary Bank. Hann greip hins vegar til þess ráðs að segja orðið sem öll vandamál leysir, þ.e. Supercalifragilisticexpialidocious, og sagði brandarann um karlinn með tréfótinn Smith. Og viti menn, daginn eftir fékk hann stöðuhækkun þegar gamli fauskurinn hafði dáið úr hlátri.
Ekki er enn ljóst hvort eftirmál áhlaupsins á Northern Rock verða hin sömu en víst er að stundum má finna líkindi með kvikmyndum og raunveruleikanum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2010 | 22:58
Niðurlæging á körfuboltavelli
Aldrei þessu vant ætla ég að blogga og aldrei þessu vant ætla ég hvorki að blogga um efnahagsmál eða raunir Liverpool á fótboltavellinum. Ég ætla að blogga um körfubolta. Ég er kominn með töluverða þörf fyrir að skrifa á ný þannig að á næstunni má e.t.v. búast við fleiri bloggum og ekki endilega um efnahags- eða samfélagsmál eins og venjan hefur verið á þessari síðu.
Við feðgarnir gerðum svolítið af því í fyrra að fara saman á körfuboltaleiki enda er sá stutti einkar áhugasamur um körfubolta og getur eytt heilu klukkutímunum úti við körfu og æft sig að kasta. Hér í Uppsölum er mikil körfuboltahefð og Uppsala Basket eins og liðið heitir hefur um áratugaskeið verið á meðal þeirra allra bestu í Svíþjóð, sérstaklega hefur unglingastarfið verið til fyrirmyndar en mér skilst að unglingalið KFUM Uppsala (sem er hið rétta nafn félagsins) hafi árum saman borið höfuð og herðar yfir önnur unglingalið hér í landi.
Hvað um það, körfuboltatímabilið er tiltölulega nýbyrjað hér í Svíaríki og við feðgarnir ákváðum að skella okkur á völlinn í kvöld og sjá Uppsala Basket spila. Andstæðingar kvöldsins voru LF Basket Norrbotten frá Luleå, sem fram að þessu hafa heitað Plannja Basket og lentu í öðru sæti í keppninni um Svíþjóðarmeistaratitilinn í fyrra eftir að hafa slegið Uppsala út í undanúrslitum.
Til að gera langa sögu stutta voru Uppsalabúar, með Íslendinginn Helga Magnússon innanborðs, gjörsamlega niðurlægðir. LF Basket skoruðu úr 7 fyrstu sóknum sínum og eftir bara örfáar mínútur var staðan orðin 4-15 og eftir það sáu Uppsalapiltarnir aldrei til sólar. Í hálfleik var staðan 33-59 og eftir þriggja mínútna spil í síðari hálfleik stóð 33-70 á stigatöflunni. Þá slökuðu norðanmennirnir aðeins á klónni og leyfðu Uppsala að sprikla en munurinn varð aldrei minni en 25 stig og þegar upp var staðið skildu 32 stig liðin að, 74-106. Það segir sína sögu um gang leiksins að minnsta manni LF Basket, 183 cm og 92 kg, tókst ítrekað að ýta burtu stærsta manni Uppsala, 217 cm og 115 kg, og jafnvel vinna af honum fráköst.
Ég hef ekki séð Uppsala spila jafnilla í þeim um það bil tíu leikjum sem ég hef séð með liðinu en vona að þetta sé ekki það sem koma skal. Það er nefnilega ljóst að við feðgarnir munum fara á mun fleiri leiki í vetur en í fyrra; á þriðjudag byrja æfingar P03 en það er aldursflokkur guttans og þar mun yðar einlægur standa fyrir þjálfun. Fyrst um sinn einn, sem gæti orðið áhugavert þar sem ég hef aldrei komið nálægt körfuboltaþjálfun, en þegar líður á veturinn skilst mér að ég muni fá aðstoðarmenn úr unglingaflokkum liðsins.
Þjálfarar fá ókeypis ársmiða á leiki Uppsala Basket og krakkar sem æfa með liðinu fá ársmiða á mjög lágu verði, sem sagt við munum fara á mun fleiri leiki en í fyrra.
25.10.2010 | 11:22
Enn af skortsölum
Eftirfarandi pistill birtist eftir mig í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag. Þar er höggvið í sama knérunn og í síðustu bloggfærslu minni, þ.e. ég fjalla um skortsölur.
Misráðið að banna skortsölur
G. Sverrir Þór
Hundadagakreppan, eins og ég hef kosið að kalla þá skörpu efnahagslægð sem fylgdi í kjölfar hrunsins á fjármálamörkuðum heimsins á Hundadögum árið 2007, opnaði augu margra fyrir því að leikreglum á markaði var ábótavant og sömuleiðis að gagnsæi markaðarins var ekki nægilegt. Markaðurinn var einfaldlega ekki eins skilvirkur og margir höfðu talið og vísað í fræðikenningar máli sínu til stuðnings.
Ef þú spyrð tíu hagfræðinga hvað þeir telji hafa valdið Hundadagakreppunni er allt eins víst að þú fáir að minnsta kosti tíu mismunandi svör en þó má ætla að einhvers staðar sjáirðu þann rauða þráð að við ósamhverfni upplýsinga og algenga fylgifiska þess vandamáls, þ.e. hrakval og freistnivanda, sé að sakast. Ekki hef ég pláss til að fara mjög náið út í þá sálma hér en ósamhverfni upplýsinga felur í einfölduðu máli í sér að þegar tveir aðilar eiga viðskipti sín í milli hefur annar aðilinn aðgang að upplýsingum sem hinn hefur ekki. Ósamhverfni upplýsinga er þó ekki umfjöllunarefni mitt hér en tengist því þó þar sem þetta vandamál er afleiðing af öðru vandamáli sem ég hyggst öðrum þræði fjalla um, þ.e. skorti á gagnsæi.
Siðlausar skortsölur
Eins og áður segir rann það upp fyrir mörgum í kjölfar hrunsins á sumarmánuðum 2007 að leikreglunum væri ábótavant og því hafa þær raddir magnast að efla beri lagarammann, nokkuð sem m.a. stendur til að gera innan Evrópusambandsins. Meðal þess sem hefur verið rætt um að banna eru skortsölur á ýmis konar fjármálagjörningum en skortsölur virðast í huga margra vera helsta birtingarmynd þess siðleysis sem margir vilja meina að hafi einkennt fjármálamarkaðinn undanfarinn áratug. Þeir eru sömuleiðis til, jafnvel meðal hagfræðinga, sem beinlínis vilja meina að skortsölur áttu stóran þátt í hruninu og alloft heyrist að skortsala á íslensku krónunni hafi valdið bankahruninu 2008 og efnahagskreppunni sem í kjölfarið herjar á íslenskt samfélag. Áður en lengra er haldið er þó ef til vill rétt að skýra aðeins nánar hvað skortsala er.
Í mjög stuttu máli felst skortsala í því að fjárfestir fær verðbréf að láni og selur í von um að verðgildið lækki. Þegar verðlækkunin hefur átt sér stað kaupir hann síðan bréfin aftur og skilar þeim og mismunurinn á kaup- og söluverði er hagnaður fjárfestisins. Skortsala gjaldmiðla er ekki ósvipað ferli, fjárfestir tekur fé að láni í einni mynt og kaupir fyrir það annan gjaldeyri með von um að myntin sem lánið er tekið í lækki í verði.
Kemur í veg fyrir bólumyndun
Ég get vel tekið undir þær raddir sem segja nauðsynlegt að efla ramma markaðarins og tel að róa beri öllum árum í þá átt að auka gagnsæi en að banna skortsölur alfarið tel ég þó afar misráðið. Skortsala er mikilvægur hluti af verðmyndun á markaði og þar af leiðandi einn nauðsynlegra innviða markaðarins.
Eins og áður segir er skortsala mikilvægur hluti af verðmyndun á markaði þar sem aukin skortsala á t.d. hlutabréfum einhvers fyrirtækis er til marks um að markaðnum þyki fyrirtækið eða orðið of dýrt. Hið sama á við um gjaldmiðla. Þannig er skortsala hluti af þeirri dýnamík markaða sem t.d. á að koma í veg fyrir bólumyndun.
Gagnsæi og markaðsmisnotkun
Nú má vitaskuld benda á að í júlí 2007 sprakk risavaxin verðbóla sem þandist út þrátt fyrir að skortsala væri heimil. Vissulega en spurningin á móti ætti þá að vera: Hvers vegna virkaði skortsalan ekki eins og henni er ætlað. Svarið er tvíþætt í mínum huga. Annars vegar er skortsöluferlið ekki nógu gagnsætt og hins vegar nýttu fjárfestar sér skortsölu til markaðsmisnotkunar.
Skortsöluferlið er ekki nægilega gagnsætt að því leytinu til að víða er engin upplýsingaskylda á fjárfestum, eða fjármálafyrirtækjum um hvaða hlutabréf eru lánuð eða hver það er sem fær þau að láni. Því er sá möguleiki víða fyrir hendi að skortselja án þess að markaðurinn verði þess var og þar af leiðandi gegnir skortsalan ekki því hlutverki sínu að hindra bólumyndun. Hvað markaðsmisnotkun varðar er fall bandaríska fjárfestingabankans Bear Stearns gott dæmi en um það bil er bankinn féll var það mikið rætt að óprúttnir fjárfestar hefðu skortselt hlutabréf og skuldabréf bankans og síðan komið af stað orðrómi um slæma stöðu fyrirtækisins. Þetta olli áhlaupi á bankann sem varð til þess að hann féll.
Að mínu mati er það alveg ljóst að skerpa þarf verulega á reglum um skortsölu, m.a. til þess að stuðla að auknu gagnsæi og koma í veg markaðsmisnotkun. Að banna hana er hins vegar fráleitt.
Höfundur stundar doktorsnám í hagfræði.
18.10.2010 | 12:53
Er skortsala endilega eitthvað neikvætt?
Í kjölfar hrunsins á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um mitt ár 2007 og hinnar skörpu efnahagslægðar sem fylgdi á eftir, þess sem ég hef kosið að kalla Hundadagakreppuna, hefur m.a. verið rætt um að banna skortsölur á allskyns fjármálagjörningum. Þetta tel ég vera töluverð mistök enda er skortsala nauðsynlegur hluti af virkni markaðarins, eins og ég tíunda í eftirfarandi umfjöllun sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins snemma árs 2008.
Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að herða þurfi verulega lagarammann um skortsölur og sömuleiðis að tryggja þurfi gagnsæi þeirra, ella þjóna þær einfaldlega ekki tilgangi sínum.
Birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 24. janúar 2008
Veðjað á gengislækkun
Eftir Guðmund Sverri Þór
Ör lækkun úrvalsvísitölu kauphallarinnar á undanförnum vikum hefur orðið mörgum yrkisefni enda vart ofsögum sagt að hún hafi verið eitt helsta fréttaefni fjölmiðla að undanförnu. Sú umfjöllun hefur helst snúist um öll þau verðmæti sem rokið hafa út um gluggann og hefur eflaust einhverjum brugðið í brún við þær tölur. Minna hefur þó verið minnst á að ekki síður er hægt að hagnast á neikvæðri þróun hlutabréfaverðs og þegar þau þróast jákvætt. Það er gert með skortsölu, en kauphöll OMX hefur nú uppi áform um að koma á fót virkum lánamarkaði með hlutabréf, til að gera skortsöluna gegnsærri.
Nauðsynlegur hluti
Skortsala (e. short selling) fer þannig fram að fjárfestir fær hlutabréf að láni og selur þau, þaðan er hugtakið skortsala fengið fjárfestirinn er að selja bréf sem hann skortir. Einnig er oft talað um að taka stutta stöðu (e. short position) en þá er einmitt átt við að fjárfestirinn hafi selt bréf sem hann ekki átti.Með því að skortselja er fjárfestirinn að veðja á að gengi bréfanna muni lækka. Þegar það hefur lækkað kaupir hann bréfin síðan aftur og skilar þeim. Mismuninum heldur hann eftir, þ.e. mismunurinn er hagnaðurinn af viðskiptunum.
Margir virðast líta á fyrirbærið skortsölu sem eitthvað neikvætt, jafnvel siðlaust, en staðreyndin er sú að skortsala er nauðsynlegur hluti markaðarins. Hún er mikilvægur hluti af verðmyndun á skilvirkum og gegnsæjum mörkuðum og leikur mikilvægt hlutverk í því að koma í veg fyrir verðbólumyndun. Þegar fjárfestar telja verð hluta- eða skuldabréfa einhvers fyrirtækis vera orðið of hátt skortselja þeir bréfin. Víða ber lánendum að tilkynna hversu mikið hefur verið lánað þannig að þegar markaðurinn sér aukningu í skortsölum stillist verð bréfanna alla jafna af.
Almennt séð er fátt við skortsölu að athuga, þ.e. hún er sjaldan neikvætt eða siðlaust fyrirbæri eins og áður segir, en vissulega á hún sér neikvæðar hliðar eins og flest annað. Þannig hafa oft verið brögð að því að aðilar sem skortselja reyni að hafa áhrif til verðlækkunar þess verðbréfs sem um er að ræða. Mörgum er í fersku minni sú umræða sem vaknaði snemma árs 2006 þegar sagt var að erlendir fjárfestingarbankar hefðu skortselt skuldabréf íslenskra banka og greiningardeildir viðkomandi fjárfestingarbanka síðan gefið út neikvæðar greiningar á íslensku bönkunum, með það í huga að verð bréfanna lækkaði. Ekkert sannaðist hins vegar í þeim efnum og er í raun alveg óljóst hvort svo hafi verið. Þá er rétt að taka fram að hvers kyns orðrómur er daglegt brauð á fjármálamörkuðum og því getur reynst erfitt að greina á milli hvaða orðrómi er hleypt af stað með það í huga að hafa beinlínis áhrif til verðlækkunar verðbréfa.
Ekki hvaða bréf sem er
Skortsala er leyfð hér á landi en skiptar skoðanir eru um hvort lögin banni beinlínis lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum að skortselja. Einn viðmælenda blaðsins bendir á að í lögum um lífeyrissjóði standi að þeir megi aðeins nota afleiðusamninga til að draga úr áhættu sjóðsins. Líta megi á skortsölu sem ákveðið túlkunaratriði sem getiverið til þess fallin að draga úr áhættu viðkomandi lífeyrissjóðs, svo framarlega sem hann á meira magn viðkomandi bréfa í sinni eigu. Þannig væri lífeyrissjóðurinn einungis að minnka stöðu sína í viðkomandi félagi, þ.e. minnka markaðsáhættu sína af umræddu félagi.Lífeyrissjóðir hér á landi mega hins vegar ekki lána sín eigin bréf til þriðja aðila. Þannig geta lífeyrissjóðir til að mynda ekki aukið ávöxtun sína með því að lána eigin bréf og fá greitt fyrir það þóknun. Það eru því aðallega bankarnir sem stunda verðbréfalán enda fáir aðrir sem hafa yfir að ráða nægilega miklu magni verðbréfa til þess að lána út. En þá er spurningin; hvaða bréf má lána út? Geta fjármálastofnanir lánað hlutabréfviðskiptavina sinna sem eru á vörslureikningi líkt og þeir geta lánað þá peninga sem viðskiptavinir leggja inn á reikninga sína?
Svarið er nei, fjármálastofnanir mega ekki lána hlutabréf nema þær eigi bréfin sjálfar. Ástæðan er sú að hlutabréf sem eru í láni bera ekki atkvæðisrétt og því missir eigandi vörslureikningsins atkvæðisrétt sinn í félaginu sem um ræðir. En getur hver sem er fengið hlutabréf að láni?
Fræðilega séð getur hver sem er gert það en hinar praktísku hindranir væru sennilega flestum yfirstíganlegar. Fjárfestar þurfa að geta skilað mjög góðum tryggingum fyrir láninu sem yfirleitt þarf að vera mjög stórt til þess að það borgi sig að standa í þessu brölti. Almennt þurfa lánþegarnir yfirleitt einnig að greiða þóknun til bankans og jafnvel vexti af því.
Eftir því sem næst verður komist eru það fyrst og fremst erlendir fjárfestar sem skortselja íslenska markaðinn. Líklegasta skýringin á því er sú að íslenskir fjárfestar hafa haft það mikla trú á markaðnum að þeir hafi ekki veðjað á lækkun, og því síður svo mikla sem raun ber vitni.
Að lokum er vert að velta því fyrir sér hvaða hlutabréf það eru sem mest eru skortseld hér á landi og svarið er hlutabréf fjármálafyrirtækja og fjárfestingarfélaganna FL Group og Existu. Ástæðan er sú að þau eru seljanlegust á íslenska markaðnum.
Seljanleiki er mikilvæg forsenda þess að skortsöluviðskipti geti farið fram þar sem skortsala er í raun lítið annað en framvirkur samningur. Fjárfestirinn fær bréfin lánuð og þegar það gerist skuldbindur hann sig nánast undantekningalaust til þess að skila þeim á einhverjum fyrirfram ákveðnum tíma. Til þess að geta verið viss um að hægt sé að skila bréfunum þarf fjárfestirinn því að vera viss um að hann geti keypt þau aftur. Og það getur hann ekki verið nema seljanleiki bréfanna sé mikill.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2010 | 11:34
Ofhitnun ekki hættuleg - Viðtal við Arthur Laffer frá 2007
Eitt skemmtilegasta viðtal sem ég tók sem blaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins var við bandaríska hagfræðinginn Arthur Laffer. Laffer þessi kom til landsins á haustdögum 2007 til þess að halda erindi um skattamál en hann er heimsþekktur fyrir Laffer-kúrfuna sem sýnir hvernig ríki geta aukið skatttekjur sínar með því að lækka skatthlutfall og eins og nærri má geta er hann fyrir vikið í guðatölu á meðal frjálshyggjumanna og annarra hægri manna.
Sagan segir að Laffer hafi teiknað kúrfuna á servíettu á veitingastað einum í Washington þar sem hann sat ásamt blaðamanni og þeim Donald Rumsfeld og Dick Cheney en hann hefur sjálfur sagst ekki muna eftir þessum fundi og jafnframt að hann efist um sannleiksgildi sögunnar. Ég hef kannað málið og á þessum veitingastað eru tauservíettur. Heldri konan móðir mín kenndi mér ungum að teikna aldrei á slíkar servíettur, sagði Laffer við undirritaðan þegar við ræddum saman að erindi hans loknu.
Ég hef ýmislegt út á Laffer-kúrfuna að setja (tel hugmyndina vera ranga) og stefni að því að blogga meira um málið á næstu vikum en finnst rétt að birta viðtalið fyrst. Þeir sem lesa viðtalið sjá að þar setur þessi áhrifamikli hagfræðingur fram ýmsar fullyrðingar sem ekki ríma við þá þróun sem átti sér á mánuðunum eftir að viðtalið birtist. Hjá mér stendur eftir skemmtilegt viðtal við einkar skemmtilegan og áhugaverðan viðmælanda, þótt ég sé vantrúaður á margt af því sem hann sagði. Nokkrum vikum eftir fund okkar fékk ég í pósti bréf frá Laffer þar sem hann þakkaði fyrir góðan fund og gott viðtal, það var í eina skiptið sem erlendur viðmælandi sýndi slíka vinsemd.
Viðtalið birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 17. nóvember 2007 og birtist með góðfúslegu leyfi útgefanda Morgunblaðsins.
Ofhitnun ekki hættuleg
Arthur Laffer segir hagkerfið ekki geta þanist of mikið út
ÁRANGUR Íslendinga í efnahagsmálum er framúrskarandi og ætti landið að vera fyrirmynd annarra. Þetta segir bandaríski hagfræðingurinn Arthur Laffer sem staddur var hér á landi og flutti fyrirlestur í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Í samtali við Morgunblaðið að fundinum loknum sagði Laffer Íslendinga hafa sýnt fram á að réttmæti hugmynda hans en tók jafnframt skýrt fram að skattalækkanir væru ekki eina ástæða þenslunnar og góðærisins sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum. Fleiri þættir spila að sjálfsögðu inn í, þetta er samspil margra hluta, segir Laffer sem viðurkennir að hann hafi ekki náð að kynna sér til hlítar allar þær breytingar sem orðið hafa á íslensku efnahagsumhverfi á undanförnum árum og áratugum. Hann segir það hins vegar engum vafa undirorpið að breytingar þær sem ráðist hefur verið í á íslensku skattakerfi hafi skilað miklum árangri.
Þótt kenningum Laffers hafi stundum verið beitt sem sönnun þess að skattar eigi ekki rétt á sér segir hann þá vera illa nauðsyn. Öll hagkerfi þurfa einhvern skattagrundvöll til þess að byggja þjónustu hins opinbera á. Hin pólitíska umræða á síðan að fjalla um hversu mikil hin opinera þjónusta á að vera en skatturinn á ekki að þurfa að vera meiri en svo að það dekki kostnað hins opinbera. Ef möguleiki er á að lækka skatta og samtímis auka tekjur hins opinbera hver er þá á móti því að lækka skatta? Annað væri brjálæði. Það er það sem ég hef verið að benda á, segir hann og ítrekar að Laffer-kúrfuna eigi ekki að líta á sem einhverja óhrekjanlega hagfræðikenningu, hann hafi upphaflega rissað hana upp til þess að sýna nemendum sínum fram á að það geta verið tekjuáhrif af skattalækkunum. Jafnframt varar hann við því að valdhafar reyni að finna einhvern topp á Laffer-kúrfunni til þess að finna hæsta skattstig sem ekki veldur verðmætatapi. Aðalatriðið sé að skattstigið sé vinstra megin við hæsta punkt á kúrfunni. En hvað á að gera þegar lægsta hagkvæma skattstigi hefur verið náð?
Þá þarf að hætta að lækka skatta. og finna aðrar leiðir til þess að örva hagkerfið. Við verðum að leyfa stjórnmálamönnum að taka ákvörðun um hvaða leiðir á að nota. Það er hins vegar alveg ljóst að hingað til höfum við gengið alltof langt í að hækka skatta, segir Laffer.
Íslenska hagkerfið hefur þanist út með ógnarhraða á undanförnum árum og hefur verið sagt að framleiðsluspenna sé í hagkerfinu. Þá hafa sérfræðingar erlendra stofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og OECD varað við því að skattar séu lækkaðir á miðju þensluskeiði. Það sé eins og að hella olíu á eld. Það er ekki verið að hella olíu á eld með því að lækka skatta. Að mínu mati getur hagkerfið ekki þanist of mikið út. Það veldur engum vandræðum að hafa framleitt of mikið, segir Laffer og segir kenningar um framleiðsluspennu rangar. Það er ekkert að neikvætt við ofhitað hagkerfi, hvað svo sem það þýðir. Atvinnuleysi getur aldrei verið of lágt og fólk getur aldrei verið of ríkt. Það er aldrei hægt að útrýma fátækt of hratt, bætir hann við og aðspurður um raddir þess efnis að með skattalækkunum breikki bilið á milli fátækra og ríkra segir hann að þýði það að minnka bilið að hinir fátæku verði fátækari þá vilji hann ekki að það minnki. Það meiðir mig ekki þótt einhverjir séu ríkari en ég og ef þú verður ríkari og ég verð ríkari þá hef ég það betra. John F. Kennedy sagði eitt sinn að enginn Bandaríkjamaður hefði nokkurn tíma orðið betur settur af því að draga annan niður og að í hvert skipti sem einn Bandaríkjamaður hagnaðist myndu allir hagnast. Ennfremur sagði hann að á flóði lyftust öll skip og það er sú regla sem ég lifi eftir. Í hvert skipti sem afkoma Bandaríkjamanns batnar þá verð ég hamingjusamur, gildir þá einu hvort um er að ræða fátæka eða ríka. Ég vil að þeim fátæku farnist betur og ég vil að þeim ríku farnist betur, segir Arthur Laffer og segist að lokum þakklátur Íslendingum. Árangur ykkar hefur rennt stoðum undir Laffer-kúrfuna, segir hann og hlær.
Í hnotskurn
» Arthur Laffer er heimsþekktur fyrir Laffer-kúrfuna svokölluðu sem sýnir að tekjur hins opinbera af skattheimtu geta hækkað þrátt fyrir að skattar lækki.» Laffer var hugmyndafræðingurinn á bak við skattalækkanir Ronald Reagan og hefur einnig komið að endurbótum á írska skattkerfinu.
9.4.2010 | 19:41
Pælingar um markaðinn
Af ummælum mínum um markaðinn og aðferðafræði margra fræðibræðra mína í hagfræðinni í undanförnum bloggum gætu einhverjir þeirra sem villst hafa hingað inn fengið á tilfinninguna að ég sé einhvers konar andmarkaðssinni og að mér sé illa við hinn frjálsa markað. Ekkert gæti verið fjær sanni. Þótt ég telji mig vissulega til villutrúarmanna innan hagfræði þá er ég svo sannarlega markaðssinnaður; ég er Keynesisti og frjálslyndur jafnaðarmaður. Þó er ekki þar með sagt að ég trúi í blindni á hinn frjálsa markað. Markaðurinn á að vera eins frjáls og mögulegt er en þó eru mikilvægar undantekningar; ég tel nauðsynlegt að hafa með honum öflugt eftirlit, einfaldlega vegna þess að auðvelt er að misnota (eða manípúlera) hann. Það er meira að segja mjög auðvelt eins og dæmin hafa margítrekað sannað.
Ég endurtek, ég er fráleitt á móti hinum frjálsa markaði enda er hann langskilvirkasta tækið sem við eigum til þess að dreifa gæðum og skipta þeim. En markaðurinn er fjarri því að vera fullkominn eins og margir virðast halda (eins og ég hef áður komið inn á er það mjög algengt að hagfræðingar gefi sér þá forsendu í líkönum sínum og rannsóknum sem á þeim byggja) og enn síður er hann nokkurt náttúrulögmál. Markaðurinn er mannanna verk og þar af leiðandi þjáist hann af sömu breyskleikum og við mannfólkið. Hinn mikli fjöldi markaðsaðila útilokar ekki þessa breyskleika í gangvirki markaðarins, fjöldinn gæti mildað þá en til þess að útiloka þá þyrfti fjöldi markaðsaðila að vera óendanlegur, og það eru ekki til neinar ósýnilegar hendur (mér finnst alltaf jafn merkilegt að heyra yfirlýsta trúleysingja tala um hina ósýnilegu hönd markaðarins).
Dæmi um algengan breyskleika mannkynsins er græðgin og það er breyskleiki sem auðveldlega kemur fram í viðskiptum. Þegar vonin um skjótan gróða kviknar þá láta margir alla varkárni lönd og leið og það má færa mjög sterk rök fyrir því að einmitt slík hegðun hafi valdið þeirri efnahagslægð sem heimurinn glímir nú við. Um leið og slakað var á klónni hvað eftirlit og reglugerðir varðar kviknaði gróðavonin, áhættusækni jókst og bólan tók að þenjast út. Ekki einungis á Íslandi heldur alls staðar. Ég hef heyrt, og séð, þá er aðhyllast frjálshyggju halda því fram að það hafi verið of mikið eftirlit og ekki nægilega mikið frelsi sem olli Hundadagakreppunni; hefði markaðurinn fengið fullt frelsi þá hefði hann sjálfur rétt sig af og allt verið í himnalagi. Slíkt virkar í hagfræðilíkönum þar sem byggt er á rökrænni hegðun og allt er til langs tíma en til langs tíma litið erum við öll dauð. Sú tímavídd er því miður ekki til nema í fræðunum og við lifum í skammtímaheimi. Mér þætti því gaman að vita hvernig þessi sjálflækning hefði átt að fara fram.
Hinn algjörlega frjálsi markaður leitar ekki í áttina að fullkomnun (þar sem fjöldi bæði framleiðenda og neytenda er óendanlegur). Þess í stað er innbyggður í hann sjálfseyðingarbúnaður sem t.d. gerir að hann leitar í átt að einokun. Fyrirtækjum fjölgar ekki í óendanleika (sem er fræðileg stærð) heldur fækkar þeim enda er það markmið fyrirtækja að stækka og auka hagnað og arðsemi eigenda sinna. Margur verður af aurum api og í þessari viðleitni svífast fyrirtækin oft einskis. Þess vegna er nauðsynlegt að setja markaðnum skorður og hafa með honum öflugt eftirlit. Oft er jafnvel æskilegt að ríkið sé þátttakandi á markaðnum en þó þarf að tryggja að ríkisfyrirtæki skekki ekki markaðinn í krafti stærðar sinnar og sömuleiðis að þau stýri ekki markaðnum heldur séu frekar í hlutverki hemilsins. Þannig getur ríkið t.d. komið í veg fyrir verðsamráð o.fl. með því einu að vera virkur markaðsaðili.
Þetta á við á samkeppnismörkuðum en eins og áður segir er það mikilvæg forsenda að hægt sé að tryggja að ríkið taki sér ekki markaðsráðandi stöðu. Þar sem einokun ríkir er hins vegar æskilegt að hún sé frekar í höndum hins opinbera en einkafyrirtækis sem svífst einskis til þess að hámarka hagnað sinn á kostnað neytenda. Sömuleiðis ber hinu opinbera að tryggja jafnan aðgang allra að infrastrúktúr hvers konar, t.d. heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngumannvirkjum o.s.frv. enda er það hlutverk hins opinbera á að vera að gæta hagsmuna borgaranna.
7.4.2010 | 15:12
Þetta er ekki pípa
Einn af helstu vanköntum hagfræðinnar í dag (að mínu mati) er hversu mikið við reiðum okkur á líkön byggð á forsendum sem í besta falli má kalla barnalegar, dæmi um slíkar forsendur er að markaðsaðilar (sem eru allir í hagkerfinu) teljast rökrænir (e. rational) auk þess sem þeir miði allar sínar aðgerðir í lífinu að því að hámarka eigin peningaleg nyt. Önnur óraunhæf forsenda sem hagfræðingar telja afar mikilvæga er fullkominn markaður.
Ég hef stundum verið að fjargviðrast um þetta við félaga mína í doktorsnáminu, sem sjálf virðast sjá fátt athugavert við þær aðferðir sem beitt er, og fyrir nokkru kom einn þeirra með mynd sem hann hafði prentað út. Um var að ræða mynd af pípu og undir henni stóð, á frönsku, Ceci nest pas une pipe eða Þetta er ekki pípa. Myndin ku vera þekkt listaverk eftir belgískan listamann er Magritte hét og tjáði fræðibróðir minn mér að kennari í kúrsi einum sem hann tók hafi veifað myndinni atarna framan í hópinn máli sínu til stuðnings þegar hann fjallaði um ágæti aðferðanna sem stuðst var við í kúrsinum (þ.e. áðurnefndra líkana). Rökstuðningurinn var eitthvað á þessa leið: Líkt og mynd Magritte af pípu er ekki raunveruleg pípa heldur einmitt tvívíð mynd af pípu, eru líkön hagfræðinga einfölduð mynd af þeim veruleika sem við fjöllum um en ekki raunveruleikinn enda er hann allt of flókinn til þess að við getum gert honum nákvæm skil í fræðunum. Í staðinn notum við þessi einfölduðu líkön (þau eru sem sé myndin af pípunni) til þess að gefa okkur mynd af heiminum sem við notum síðan til þess að bæta skilning okkar á heiminum.
Gott og vel, ég get alveg samþykkt það að heimurinn sé of flókin til þess að hægt sé að búa til af honum heilstætt líkan sem veitir okkur fullan skilning á samvinnu mikilvægra efnahagslegra þátta. En eins og ég benti fræðibróður mínum á, ef ég vil reykja pípu þá get ég ekki tekið mynd af pípu og kveikt í henni. Á sama hátt get ég ekki reykt hagfræðilíkan, þ.e. ef ég vil vita hvaða áhrif aðgerð í efnahagsmálum hefur á hagkerfið get ég ekki treyst því að áhrifin verði þau sem líkanið gefur til kynna. Þetta á sérstaklega við þegar ég ætla að reykja pípu en myndin er í raun af vindli eða sígarettu eins og oft er raunin þegar forsendur þær sem líkanið byggir á eru jafnveikar og raun ber vitni. Ályktun getur aldrei orðið réttari en þær forsendur sem hún byggir á og því verður að vanda valið.
Eins og áður segir, ég geri mér fyllilega grein fyrir því að viðfangsefni hagfræðinnar er mjög flókið og að líkönin eru ekki pípur heldur einfaldar myndir af þéttriðnu neti samverkandi þátta en þar liggur hundurinn einmitt að mörgu leyti grafinn. Aðferðir okkar eru svo takmarkaðar að við neyðumst til þess að halda mörgum þáttum föstum í útreikningum á meðan við metum áhrif eins þáttar í einu á heildarmyndina en þetta eru samverkandi þættir og við verðum að leita leiða til þess að ná betri heildaryfirsýn. Aðferðir dagsins í dag eru of takmarkaðar og við erum of sátt við þær. Hugsið út í það að nú eru liðin 234 ár síðan Adam Smith gekk hagfræðinni í föðurstað með riti sínu Auðlegð þjóðanna; við erum búin að grandskoða og greina markaðinn ofan í kjölinn í meira en 200 ár og enn er það ríkjandi trú manna að einhver ósýnileg hönd komi og leiðrétti allt.
Við verðum að átta okkur á því hvað hagfræðin er takmörkuð fræðigrein og því hvað niðurstöður okkar eru takmarkaðar. Flestir, ef ekki allir, hagfræðingar eru meðvitaðir um að líkönin eru einföldun á heiminum en engu að síður láta flestir hinir sömu eins og niðurstöður þeirra séu einhver lögmál. Þessar niðurstöður eru birtar í fræðitímaritum og engir varnaglar slegnir þannig að hver sem er, t.d. misvitrir stjórnmálamenn og skoðanamótendur, éta þær upp eins og heilagan sannleik án þess að gera sér grein fyrir því að forsendurnar geta verið, og eru oft, mjög veikar.
Ég hef stundum haft í flimtingum að hagfræðitímaritum ætti að fylgja aðvörun líkt og þungum vinnuvélum: Þessar niðurstöður eru aðeins ætlaðar ...
Viðskipti og fjármál | Breytt 27.7.2010 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)