Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
3.3.2011 | 10:40
Skeiðað fram á ritvöllinn
Eins og margir vita hef ég mikið dálæti á skrifum, ég hef m.a.s. verið kallaður skriffíkill af einum góðum vini og fyrrum vinnufélaga á Mogganum. Þetta dálæti var ein ástæða þess að ég ákvað að hella mér út í blaðamennskuna á nýjan leik en mig hefur líka lengi langað til þess að gera meira á þessu sviði og jafnvel geta kynnt mig sem rithöfund þegar fram líða stundir.
Nú er fyrsta skrefið í þessa átt tekið en á næstu vikum kemur út hjá Urði bókafélagi barnabók eftir mig. Sú heitir Sjandri og úfurinn og fjallar um lítinn strák sem langar til þess að fræðast um skrítinn hlut sem er að finna í munninum á honum, úfinn svokallaða.
Þótt bókin sé að koma út fyrst núna er hún reyndar ekki alveg ný því ég skrifaði hana snemma árs 2007. Mér leiddist eitthvað í vinnunni þann daginn og þar sem sonur minn hafði verið að spyrja mig um tilgang úfsins, sem er totan sem hangir niður úr efri gómnum í okkur öllum, og ég var ekki alveg með svarið á reiðum höndum ákvað ég að lesa mér til um það á þessu merkilega fyrirbæri sem við köllum internet. Þegar ég var búinn að finna út úr þessu datt mér í hug að það gæti verið gaman að skrifa fróðleikssögu fyrir börn um úfinn og lesa hana fyrir pjakkinn. Ég byrjaði því strax að skrifa og kláraði söguna svo sama kvöld þegar sá stutti var farinn að sofa.
Ástæða þess að bókin hefur ekki komið út enn er sú að ég hafði ekki fundið teiknara og því var handritið komið ofan í skúffu. Nú skömmu fyrir jól lá ég heima í tveggja vikna veikindarfríi og ákvað að senda Andrési Andréssyni, sem var teiknari á Mogganum á sínum tíma, póst og spyrja hvort hann hefði áhuga á að myndskreyta. Hann hafði áhuga og ég sendi honum handritið og ekki liðu nema tvær vikur uns hann var búinn að senda þessar líka frábæru teikningar. Þar sem foreldrar mínir eru búin að stofna bókaforlag lá svo beinast við að spyrja þau hvort þau vildu gefa bókina út og það reyndist auðsótt mál þannig að nú er ég orðinn barnabókahöfundur. Ég fékk svo snillinginn hana Helgu Rún Gylfadóttur, frænku mína, til þess að hanna kápu.
Sjandri og úfurinn, þessi frumraun mín sem rithöfundur, kemur sem sagt út um miðjan mánuðinn en ég á von á að fá nokkur eintök í pósti á næstu dögum og það verður spennandi að sjá útkomuna og sömuleiðis hvort bókin fái góðar viðtökur. Ég hef beðið nokkra að lesa hana yfir fyrir mig, bæði börn og fullorðna, og eingöngu fengið góð viðbrögð. Ég er með hugmynd að annarri bók um Sjandra og mun væntanlega setja hana á blað á næstunni en hvort hún verður gefin út ræðst svo væntanlega af því hvaða viðtökur fyrsta bókin fær. Áhugasömum bendi ég á að panta bókina beint hjá forlaginu, þá er nefnilega auðveldara að fá hana áritaða.
Ég mun setja inn mynd af bókinni þegar hún dettur í póstkassann.
20.2.2011 | 19:05
Hvað heitir lobbyisti á íslensku?
Sem blaðamaður sem fjallar um efnahagsmál lendi ég oft í vandræðum með erlend hugtök, hugtök sem oft eru hin sömu í mörgum tungumálum en ekki þykir við hæfi að birta í íslenskum fjölmiðlum. Eitt þessara hugtaka er infrastructure. Í daglegu máli held ég að flestir tali orðið um infrastrúktúr í íslensku en það orð þykir ekki par fínt og er yfirleitt litið hornauga af prófarkalesurum fjölmiðla. Þess í stað ber að tala um innviði samfélagsins og eins og nærri má geta getur það reynst heldur óþjált og á stundum varla við þannig að oft hef ég þurft að skrifa mig einhvern veginn framhjá þessu.
Nú er ég að lesa á sænsku bókina Lobbyisten eftir Thomas Bodström, fyrrum fóboltamann og dómsmálaráðherra Svíþjóðar sem margir vilja sjá sem framtíðarleiðtoga sænskra jafnaðarmanna. Um leið og ég byrjaði að lesa bókina fór ég að velta fyrir mér þessu orði lobbyist, enda er þetta einmitt eitt þeirra orða sem blaðamenn lenda iðulega í vandræðum með.
Mér vitanlega er ekki til neitt íslenskt orð yfir lobbyista en þegar hópar koma sér saman um að vinna málum brautargengi kallast þeir á ensku lobby groups. Þetta hefur á íslensku verið þýtt sem þrýstihópar, sem mér finnst mjög gott orð; það lýsir fyrirbærinu mjög vel og engum dylst hvað átt er við. Ég legg því til að sama prinsipp (annað erfitt orð) verði notað þegar talað er um einstaklinga og að lobbyisti verði einfaldlega kallaður þrýstir og að í fleirtölu verði talað um þrýsta (þeir eru þrýstar).
11.2.2011 | 21:34
Vinsælasti íþróttamaður Svía
Þeir sem fylgjast með sænsku íþróttalífi í gegnum íslenska fjölmiðla telja sennilega flestir að vinsælasti íþróttamaður Svíþjóðar sé knattspyrnusnillingurinn Zlatan Ibrahimovic. Lái þeim hver sem vill, Zlatan er sá sænski íþróttamaður sem langoftast er nefndur í íslenskum fjölmiðlum enda einn allra besti knattspyrnumaður heims.
Ekkert gæti þó verið fjær sanni. Þótt fótbolti sé e.t.v. sú íþrótt sem flestir Svíar stunda er þjóðin nánast heltekin af íshokkí; alla vega eins heltekin og heil þjóð getur orðið af íþróttum, svona svipað og Íslendingar af handbolta og nú stendur þjóðin á öndinni yfir því að Peter nokkur Forsberg mun í nótt spila á ný eftir langt hlé. Forsberg þessi var fyrir nokkrum árum tvímælalaust einn besti hokkíspilari heims, ef ekki sá besti, en hefur ekkert getað spilað af viti undanfarin ár vegna fótmeiðsla.
Foppa, eins og Svíar kalla hann, er jafnframt langvinsælasti íþróttamaður Svía síðan Ingmar Stenmark var upp á sitt besta. Enginn kemst með tærnar þar sem þeir tveir hafa haft hælana, hvorki Zlatan, Henrik Larsson, skíðagöngukappinn Gunde Svan, sunddrottningin Terese Alshammar eða skíðaskotfimidrottningin Magdalena Forsberg, þegar vinsældir á meðal sænsku þjóðarinnar eru annars vegar. Ekki einu sinni Tomas Brolin þegar hann var upp á sitt besta eða tennisgoðsögnin Björn Borg geta talist jafningjar þeirra Stenmark og Foppa á því sviði.
Öðru fremur var það þetta víti sem tryggði Foppa eilífan sess í hjörtum sænskra íþróttaáhugamanna og tryggði Svíum sömuleiðis gullverðlaun í íshokkí á Ólympíuleikunum í Lillehammer. Það munu hafa verið fyrsta Ólympíugull Svía í íshokkí og ekki skemmdi fyrir að þeir unnu Kanadamenn í úrslitaleiknum en það hefur lengi andað köldu á milli Svía og Kanadamanna þegar landsliðin mætast. Vítið þykir enn þann dag í dag einkar flott meðal þeirra sem vit hafa á hokkí og til marks um ótrúlega hæfileika og andlegan styrk.
Þarna var Foppa, sem er fæddur 1973, ekki nema 21 árs gamall og var hann þá þegar álitinn bestur þeirra hokkíspilara sem léku utan NHL og það þarf ekki að koma á óvart að hann flutti loks yfir til N-Ameríku fyrir tímabilið 1994-1995.
Svíar hafa átt marga frábæra hokkíspilara og ég man þegar ég bjó í Svíaríki sem unglingur, undir lok 9. áratugarins og í upphafi þess 10. voru stóru nöfnin Kenta Nilsson og Börje Salming, sem þá var að ljúka farsælum ferli í N-Ameríku. Varla leið sá dagur að ekki væri minnst á þessa tvo í sænskum íþróttafréttum en þeir mega sín þó lítils í samanburði við Peter Forsberg, sem má segja að sé á svipuðum stalli hjá sænsku þjóðinni og Ólafur Stefánsson hjá okkur Íslendingum. Eigi landsliðinu að ganga vel á mótum er þátttaka hans frumforsenda.
Ferli Foppa virtist vera lokið vegna þrálátra meiðsla í fæti en nú bendir allt til þess að hann sé að verða leikfær á ný. Það er til marks um þá virðingu sem fyrir honum er borin að hann þurfti ekki annað en að mæta á svæðið hjá Colorado Avalanche og æfa nokkrum sinnum með liðinu áður en honum var boðinn samningur. Fyrir vikið eru Svíar himinlifandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.2.2011 | 18:05
Breyskleiki markaðarins
Eins og ég greindi frá nýlega hér á blogginu er ég farinn að starfa sem blaðamaður á ný, fyrir Viðskiptablaðið. Í fyrsta tölublaðinu eftir að ég varð formlega starfsmaður, sem kom út síðasta fimmtudag, birtist eftir mig pistill þar sem ég fjalla um matvælaverð í samhengi uppreisnanna í Túnis og Egyptalandi. Heimsmarkaðsverð á matvælum hefur lengi verið mitt aðaláhugamál innan hagfræðinnar og það voru einmitt hugmyndir mínar um þessi mál, að finna þyrfti leiðir til þess að skilja á milli raunverulegrar eftirspurnar og spekúlatífrar eftirspurnar eða eftirspurnar spákaupmanna, sem ég kynnti fyrir leiðbeinanda mínum við SLU þegar ég fór í viðtal þar í júní 2008.
Sá tók vel í hugmyndirnar og bauð mér stöðuna en síðan hefur af einhverjum ástæðum ekki verið minnst meira á þetta. Hvað um það, hér er pistillinn:
Breyskleiki markaðarins
Undanfarna daga og vikur hafa borist fréttir af mótmælum og uppreisnum í Túnis og Egyptalandi og jafnvel víðar. Þetta eru að margra mati góðar fréttir þar sem lýðræði hefur ekki beinlínis verið í hávegum haft í þessum löndum. Enn er þó sennilega of snemmt að hrósa happi þar sem erfitt er að spá fyrir um hver eða hverjir ná völdum í þessum löndum og hvort stjórn þeirra verður á nokkurn hátt betri eða verri en fyrirrennaranna.
Það er engin tilviljun að mótmælin og uppreisnirnar beri upp á sama tíma og heimsmarkaðsverð á matvöru fer ört hækkandi. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem matarverð hækkar ört og vafalaust ekki í hið síðasta. Ekki eru liðin þrjú ár síðan við heyrðum fréttir af miklum hækkunum á matvælaverði og ólgu víða heim einmitt vegna þessa og skal engan undra að hækkanir á matvælaverði valdi ólgu. Flestum ætti að vera kunnugt hverstu óþægileg tilfinning það er að vera svangur en fæstir þeir sem þetta lesa geta þó gert sér í hugarlund hvernig það er að svelta heilu hungri.
Öruggur fjárfestingarkostur
Spurningin er hvað veldur þessum miklu og öru hækkunum heimsmarkaðsverðs á matvælum. Hagfræðin kennir okkur að verð á markaði ákvarðist af samspili framboðs og eftirspurnar á vöru eða þjónustu og vissulega má skýra hluta hækkananna með því að eftirspurn hafi aukist í Asíu og að uppskerubrestur hafi orðið en spurningin er hvort það sé öll skýringin. Vorið 2008 var sú alls ekki raunin. Þá skýrðist verðhækkunin á heimsmarkaði öðru fremur af því að spákaupmenn og aðrir fjárfestar, í leit að ávöxtun sem ekki bauðst á verðbréfamörkuðum, flykktust inn á hrávörumarkaðina. Þannig má segja að ímynduð eftirspurn eftir matvöru hafi aukist gríðarlega sem þrýsti verðinu upp; eftirspurnin var ímynduð í þeim skilningi að fjárfestarnir hugðust aldrei eiga sjálfa matvöruna, þeir áttu viðskipti með afleiður og matvælaframleiðsla jókst aldrei í samræmi við hina auknu "eftirspurn". Efnahagshorfur í heiminum eru óvissar og þá leita fjárfestar í fjárfestingarkosti sem teljast öruggir. Fólk verður að borða og því geta fjárfestar reitt sig á að eftirspurn eftir matvælum dregst sjaldan saman.
Í mínum huga er þetta stórt vandamál; almenningur í ríkjum heims á ekki til hnífs og skeiðar vegna þess að spákaupmenn eru í leit að öruggum fjárfestingum. Þetta vandamál þarf að leysa og þá á ég alls ekki við að það eigi að banna spákaupmönnum að fjárfesta í hrávöru. Einhvern veginn þarf að finna leið til þess að skilja á milli raunverulegrar eftirspurnar og eftirspurnar spákaupmanna eftir matvælum. Málsmetandi stjórnmálamenn og fræðimenn hafa látið hafa eftir sér að þetta vandamál þurfi markaðurinn að leysa en að mínu mati er breyskleiki markaðarins einmitt vandamálið hér. Eflaust getur markaðurinn fundið lausnina en slíkt tæki langan tíma og spurningin er hversu margir þurfi að svelta í hel á meðan. Við erum þegar allt kemur til alls að tala um afkomu og líf fólks.
Tilhugsunin um matarskort og hungur er einn þeirra þátta sem reka fátæka íbúa Túnis og Egyptaland til þess að rísa upp á afturlappirnar. Fátt drífur mannskepnuna jafnharkalega áfram og einmitt hungur og ef ekki tekst að stemma stigu við innistæðulausum hækkunum á matvælaverði megum við búast við að heyra frekari fréttir af mótmælum og uppreisnum víðar um heim.
3.2.2011 | 22:55
Aftur í blaðamennskuna
Eins og einhverjir þeirra fáu sem hingað villast inn vita þegar er ég nú tekinn til við blaðamennskuna á nýjan leik. Nánar tiltekið er ég orðinn blaðamaður á Viðskiptablaðinu þannig að ég held mig við leistinn minn og mun fjalla áfram um viðskipti og efnahagsmál. Ég er þó ekki hættur í náminu en hef tekið mér leyfi frá starfi mínu við SLU og vinn samhliða starfinu á Viðskiptablaðinu að mjög áhugaverðu verkefni sem ég tók að mér í haust og vil klár, fyrst um sinn í hálfu starfi og svo kemur í ljós hversu hátt starfshlutfallið verður.
Þetta verkefni, sem er á vegum Evrópusambandsins og fjallar um þáttamarkaði og landbúnað, mun skila tveimur vísindagreinum sem verða uppistaðan í licenciat-ritgerð sem ég lýk við í haust. Licenciat-gráða er u.þ.b. hálf doktorsgráða, ég veit satt að segja ekki hvort upp á hana er boðið víðar en í Svíaríki, og að henni lokinni mun ég taka ákvörðun um hvort ég vil ljúka við doktorsgráðuna eða láta þar við sitja.
Ég get alveg viðurkennt að ég er orðinn hundleiður á náminu og þurfti því ekki að hugsa mig lengi um þegar Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, bauð mér starfið enda hafði það komið til tals þegar ég hitti hann á Núðluhúsinu í desember. Forsenda þess að ég vinni þar er þó að ég geti unnið frá Svíþjóð þar sem við höfum engan hug á að flytja til Íslands á næstunni.
Mikið er gaman að vera kominn aftur í blaðamennskuna.
27.1.2011 | 16:59
„Var ég að vekja þig?“
Sennilega hafa allir einhvern tíma lent í því að hringja Á KRISTILEGUM TÍMA í vin eða ættingja, nú eða bara einhvern annan, og svefndrukkin rödd svarar. Var ég að vekja þig? tíðkast þá að spyrja og í 9 af hverjum 10 tilvikum er svarið eitthvað á þessa leið: Nei, alls ekki. Ég er löngu vöknuð/vaknaður! Var bara að geispa. Þetta þrátt fyrir að það fari alls ekkert á milli mála að viðkomandi var steinsofandi þegar síminn byrjaði að hringja. Ég tek það fram að ég er engin undantekning.
Mér hefur alltaf þótt þetta fyrirbæri mannlegrar náttúru afskaplega merkilegt og jafnvel forvitnilegt. Af hverju svarar fólk ekki einfaldlega sannleikanum samkvæmt og viðurkennir að það hafi verið sofandi? Vissulega gerist það endrum og eins (í 9 af hverjum 10 tilvikum segi ég hér að ofan) að viðkomandi viðurkenni að hafa verið sofandi og vissulega getur það komið fyrir að viðkomandi hafi í raun verið vakandi en yfirleittgetur fólk ekki viðurkennt að það hafi verið í fasta svefni þegar síminn hringdi. Hvers vegna?
Þar sem ég er áhugamaður um mannlega hegðun, að mínu mati verður hagfræðingur að velta því fyrir sér hvers vegna fólk heðgar sér eins og það gerir, hef ég pælt töluvert í þessu í gegnum árin og ég er með kenningu.
Ég held að þetta fyrirbæri skýrist af því að fólk vilji ekki sýna veikleikamerki, það að vera sofandi á tímum sem flestir eru vakandi (eins og fram kemur í upphafi er ég að tala um símtöl á tíma sem flokkast til kristilegs tíma) er í huga margra veikleikamerki og það viljum við fyrir alla muni forðast. Þess vegna viðurkennum við ekki að hafa verið sofandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2011 | 18:59
JKG: Mikilsmetinn og umdeildur hagfræðingur
Einn allra merkasti hagfræðingur sögunnar er að mínu mati John Kenneth Galbraith. Sá var á sínum tíma í hópi efnahagsráðgjafa Franklin Delano Roosevelt og sömuleiðis John F. Kennedy. Galbraith þessi, sem var talsmaður Keynesískrar hagfræði og sömuleiðis Stokkhólmsskólans svokallaða, var mikils metinn álitsgjafi, rithöfundur og kennari en lagði þó ekki mikið af mörkum til fræðikenninga - hann var öðru fremur praktískur hagfræðingur, ef svo má að orði komast, en ekki teóretískur. Það ætti því ekki að koma á óvart að Galbraith deildi mikið á þá stefnu sem hagfræðin hafði tekið, m.a. var honum mjög uppsigað við stærðfræðiáráttu fræðibræðra sinna (og minna).
Af svipuðum meiði sprottin var How did economists get it so wrong?, stórmerkileg grein Paul Krugman í NY Times haustið 2009. Skyldulesning fyrir alla hagfræðinga og alla þá sem hafa áhuga á viðfangsefninu. Á Youtube má finna mjög skemmtileg myndbönd með Galbraith, m.a. röð sjónvarpsþátta sem kallast The Age of Uncertainty, en ein bóka hans hét einmitt því nafni, Öld óvissunar - hugmyndir hagfræðinnar og áhrif þeirra.
Þegar ég var í grunnnáminu í hagfræði fann ég á bókasafninu í Skövde bókina A journey through economic times eftir Galbraith en þar fjallar hann um hagsögu 20. aldar með sínu nefi. Stórgóð bók sem veitti mér mikinn innblástur í námi mínu og skoðunum mínum á hagfræði. Þess má líka geta að Galbraith lauk doktorsnámi í landbúnaðarhagfræði, sem er einmitt viðfangsefni mitt í mínu námi.
Árið 2005 skrifaði ég heilsíðugrein um Galbraith í Viðskiptablað Morgunblaðsins, þá var hann orðinn 96 ára gamall og átti aðeins tæpt ár eftir ólifað. Áður en ég birti það vil ég þó benda á mjög skemmtilegt viðtal við þennan merka hagfræðing:
Hér má svo lesa grein mína um John Kenneth Galbraith sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 30. júní 2005:
Mikilsmetinn og umdeildur hagfræðingur
Ráðgjafi forseta, sendiherra, prófessor, metsöluhöfundur, einn áhrifamesti menntamaður síns tíma. Allar þessar lýsingar eiga við bandaríska hagfræðinginn John Kenneth Galbraith. Guðmundur Sverrir Þór hefur kynnt sér feril hans.
Ómyrkur í máli
Það hefur ávallt einkennt Galbraith að hann liggur ekki á skoðunum sínum. "Tæpitunga er honum fjarri, af því hann er sannfærður um það, að þeir sem slá úr og í, rjúfa aldrei þá skel vanahugsunar, sem svo mjög ríkir í þjóðfélagslegum efnum. Til að ná þessu markmiði er honum gjarnt að setja skoðanir sínar fram á sem vægðarlausastan hátt, og velur hann þá einatt að skotmörkum þá menn, sem eru bestir fulltrúar úreltrar vanahugsunar," segir Jóhannes Nordal, fyrrum seðlabankastjóri, í inngangi sínum að íslenskri útgáfu ritsins Iðnríki okkar daga eftir Galbraith.Hann hefur alla tíð gagnrýnt hina stærðfræðilegu nálgun sem hagfræðin hefur haft frá því um miðja síðustu öld en hann telur slíka nálgun gera lítið úr greininni og viðfangsefnum hennar. Þessa gagnrýni sína hefur hann byggt á því að stærðfræðileg nálgun gerir ráð fyrir að allar aðrar breytur en sú sem verið er að rannsaka séu óbreyttar. Þetta gerir það að verkum að hagfræðingar ná síður heildaryfirsýn yfir viðfangsefni sitt að mati Galbraiths.
Uppreisn æru á ævikvöldinu
Nýlega kom út ævisaga Galbraiths, rituð af Richard Parker, og í bókardómi um hana í The New York Review of Books segir að tímasetning ævisögunnar sé heppileg þar sem margir hagfræðingar eru farnir að efast um ágæti einhverra kenninga þeirra sem Galbraith hefur gagnrýnt gegnum tíðina. Má því segja að skoðanir hans séu að fá uppreisn æru á ævikvöldi hans.Bókarýnir NYRB telur það til marks um mikið hugrekki og sjálfstraust Galbraiths að hafa staðið svo fast á skoðunum sínum. Hann aðhylltist kenningar breska hagfræðingsins Johns Maynard Keynes en vildi jafnvel ganga enn lengra sem varð til þess að honum var næstum því neitað um fastráðningu hjá Harvard-háskólanum. En víkjum nú aðeins að menntun hans.
Búfræðingur
Galbraith skráði sig í landbúnaðarháskóla í Ontario og nam búfræði. Hann þótti góður rithöfundur og tók meðal annars þátt í því að koma á fót skólablaði. Að lokinni gráðu í búfræði hlaut hann styrk til doktorsnáms í landbúnaðarhagfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1931.Þar var hann vel skólaður í kenningum Alfreds Marshall, svokölluðum nýklassískum kenningum, sem í riti sínu The Principles of Economics frá 1890 endurbætti kenningar Adams Smith. Megináherslan í kenningum Smith gekk út á að framleiðni hagkerfis muni vaxa náttúrulega og ná hámarki sínu ef samkeppni ríkir. Marshall byggði ofan á þessar kenningar og var það hann sem kynnti til sögunnar framboðs- og eftirspurnarkúrfurnar sem flestir hagfræðinemar kynnast strax á fyrsta ári náms síns. Það sama gilti um vinnumarkaðinn að mati þeirra Smith og Marshall.
Helstu áhrifavaldarnir
Eins og áður sagði hóf Galbraith hagfræðinám sitt árið 1931 en þá var Kreppan mikla í hámarki og þegar verk hans eru lesin verður öllum ljóst að skoðanir hans hafa litast verulega af þeim veruleika sem hann sá á degi hverjum, atvinnuleysi og eymd. Það er því kannski ekki að furða að hann aðhylltist frekar skoðanir Karls Marx og Torsteins Veblen. Er það mat ævisagnaritara Galbraith að áhrif Veblen, sem var áhrifamikill samfélagsgagnrýnandi um aldamótin 1900, á hinn unga hagfræðinema hafi verið enn meiri en áhrif Marx.Eitt af höfuðritum hagfræðinnar er Altæka kenningin um vinnu, vexti og peninga eftir John Maynard Keynes, sem kom út árið 1936. Ekki er hægt að gera grein fyrir ferli Galbraith án þess að minnast á það rit, svo mikil áhrif hafði það á hann sem og aðra hagfræðinga þess tíma. Það sem hinum klassísku hagfræðingum, meðal þeirra Marshall, hafði mistekist tókst Keynes. Hann gat skýrt ástæður kreppunnar á einfaldan hátt og sýnt fram á einfalda lausn, aukin afskipti hins opinbera af efnahagsmálum.
Prófessor við Harvard
Galbraith lauk doktorsnámi sínu í Berkeley árið 1934 og í kjölfarið fékk hann starf sem kennari við Harvard-háskólann. Staðan var fjármögnuð af kanadískum yfirvöldum og er það talið til marks um hugrekki hans og sjálfstraust að sækjast eftir starfi við Harvard sem gjarnan er talinn vera besti háskóli í heimi. Í Harvard komst Galbraith í kynni við John D. Black, sem var einn af leiðandi landbúnaðarhagfræðingum Bandaríkjanna og ráðgjafi Roosevelt forseta sem á þeim tíma var að koma New Deal-stefnu sinni í framkvæmd. Black þessi tók hinn unga Galbraith undir verndarvæng sinn og barðist fyrir því að hann yrði endurráðinn til skólans að lokinni seinni heimsstyrjöld en fyrri ráðning hans hjá skólanum var tímabundin og hafði hann ekki fengið endurnýjun, m.a. vegna skoðana sinna. Það var árið 1948 sem hann fékk fastráðningu hjá Harvard en þá hafði hann kennt við bæði Princeton og Kaliforníu-háskóla. Hjá Harvard hefur hann starfað alla tíð síðan, með nokkrum hléum en hann fór formlega á eftirlaun árið 1975. Hann er nú heiðursprófessor við Harvard og hefur kennt þar af og tilalla tíð síðan hann fór á eftirlaun.Starfað fyrir forseta
Galbraith hefur alla tíð frá barnsbeini haft áhuga á stjórnmálum en faðir hans var virkur í Frelsisflokknum í Kanada. Ekki fer neinum sögum af menntun hans en sagt er hann hafi lagt mikla áherslu á þátttöku hins opinbera í efnahagsmálum og má því segja að Galbraith hinum yngri hafi kippt í kynið.Í upphafi fimmta áratugarins var hann ráðinn sem yfirmaður bandarísku verðlagsstofunnar sem var mjög umdeild stofnun. Búist var við því að verðbólga færi úr böndunum um það leyti vegna hinnar miklu þenslu sem framleiðsla hergagna olli í hagkerfinu. Þeim Galbraith og Leon Henderson, sem var hans nánasti yfirmaður, tókst þó að hafa hemil á verðlaginu en uppskáru fyrir vikið óvild margra og þurftu þeir báðir að segja af sér á endanum. Var Galbraith meðal annars legið á hálsi fyrir að hafa kommúnískar hneigðir.
Andstæðingur stríðsins í Víetnam
Þegar John F. Kennedy sóttist eftir forsetaembættinu leitaði hann til Galbraith eftir ráðgjöf en Kennedy hafði verið nemandi hins síðarnefnda nokkrum árum áður. Í þakkarskyni fyrir aðstoðina skipaði hann fyrrum kennara sinn svo sendiherra á Indlandi, nokkuð sem veitti Galbraith ómælda ánægju. Þrátt fyrir að vera í órafjarlægð átti hann eyra forsetans og er hann sagður hafa verið helsti ráðgjafi Kennedy í efnahagsmálum. Sagt er að honum hafi nær tekist að sannfæra Kennedy um að draga Bandaríkin úr Víetnamstríðinu þegar forsetinn var myrtur haustið 1963. Hann starfaði um skeið með Lyndon Johnson, eftirmanni Kennedys, en þá greindi á um stríðið og sneri Galbraith sér aftur að kennslu stuttu seinna.Metsöluhöfundur
Árið 1943 var Galbraith ráðinn í starf ritstjóra hins virta tímarits Fortune. Sagan hermir að þar hafi hann þróað hinn beinskeytta stíl sinn sem hann hefur síðan orðið frægur fyrir. Hann hefur skrifað nokkrar metsölubækur um hagfræðileg málefni og eru Iðnríki okkar daga og The Affluent Society þeirra langþekktastar.Galbraith er maður hávaxinn, hann er 206 cm á hæð, og er mikill fjölskyldumaður. Árið 1937 giftist hann Catherine Atwater og eiga þau þrjá syni. Hann hefur verið skipaður heiðursprófessor í um 45 háskólum víða um heim, meðal þeirra Moskvu-háskóla. Það er til marks um hve virtur hann er að hann var á sínum tíma skipaður heiðursfélagi í sovésku vísindaakademíunni.
Viðskipti og fjármál | Breytt 27.1.2011 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2011 | 00:08
Kærasta í hverri höfn
Þegar ég var á leið heim úr fótbolta í kvöld var ég með útvarpið í bílnum stillt á P4, eina af stöðvum sænska ríkisútvarpsins. Þá var á dagskrá þáttur er nefnist Karlavagnen, eða Karlsvagninn eins og stjörnumerkið heitir á íslensku, en sá þáttur er á dagskrá á hverju kvöldi og þar getur fólk hringt inn og rætt hin og þessi mál. Stundum má ræða hvað sem er en yfirleitt eru þemu og í kvöld átti það við. Efni kvöldins var tvöfalt líf og þegar ég sat í bílnum barst þættinum eitt ótrúlegasta samtal sem ég hef nokkurn tíma heyrt í Karlavagnen og þó hef ég hlustað á nokkra þætti í gegnum tíðina.
Sá sem hringdi var maður á miðjum aldri, kannski tæplega sextugur. Hann sagðist hafa starfað sem flutningabílstjóri síðan 1973 og þá yfirleitt utan Svíþjóðar. Síðustu ár hefur hann starfað í Eystrasaltslöndunum. Hann siglir þangað síðdegis á sunnudögum og vinnur mánudaga til miðvikudaga. Á fimmtudögum siglir hann svo heim og eyðir því sem eftir lifir vikunnar, þangað til hann siglir aftur yfir Eystrasaltið, með eiginkonunni.
Fram að þessu var svo sem ekkert athugavert við frásögnina en síðan fór maðurinn að segja frá því hvað honum þætti notalegt að taka ferjuna yfir því það kæmi alloft fyrir að einhver bankaði upp á í káetunni og spyrði hvort hann langaði ekki að koma að skemmta sér. Þá lendir maður oft í ævintýrum, bætti hann við.
Að þessu loknu fór söguhetjan okkar, sem í raun má kalla and-hetju, að segja frá því að hann á eina ástkonu í Tallinn, sem hann hittir á mánudögum, eina í Riga, sem hann hittir á þriðjudögum, og eina í Vilnius, sem hann hittir á miðvikudögum. Enginn þeirra veit af hver annarri og hann er vanur að senda þeim sms þar sem hann tilkynnir að hann sé væntanlegur. Þá hringja þær venjulega og spyrja hvort hann vilji vera heima eða fara út að borða og dansa. Vinurinn vill gjarnan fara út að dansa því þá finna skvísurnar að hann er enn til í tuskið, enn með blek í pennanum ef svo má að orði komast. Síðan lýsti hann því ansi ítarlega hvernig hann vill að hjákonurnar séu klæddar þegar þau fara út að borða.
Þegar hér var komið við sögu ákvað þáttastjórnandinn, sem greinilega var í hálfgerðu sjokki og hafði ekki getað stunið upp orði á meðan vinurinn lýsti tvöfeldni sinni, að grípa fram í fyrir honum og spurði hvort konan hans vissi af þessum hjákonum. Nei, sagði hetjan okkar og gaf í skyn að þetta kæmi henni bara ekkert við. Hún væri ánægð á meðan hún fengi heimilistæki sem hana vantaði og vetrardekk á bílinn auk alls annars sem hún pantaði. Ekki mátti heldur gleyma því að hún fengi nú að hafa hann þá daga sem hann væri ekki að vinna; hún hefur því varla yfir neinu að kvarta, gaf hann í skyn.
Hvað fyndist þér ef konan þín væri jafn tvöföld í roðinu og þú, spurði þáttastjórnandinn nú og var hún greinilega búin að ná sér af mesta áfallinu. Svarið var hápunktur þessa stórkostlega samtals. Á nú að fara að dæma mann? spurði vinurinn á móti og þegar þáttastjórnandinn svaraði: Nei, ég vil bara vita hvað þér myndi finnast ef konan þín lifði lífinu á svipaðan hátt og þú, brást vinurinn hinn versti við. Ég hringdi ekki til að tala um það. Þetta er greinilega þín leið til þess að ljúka samtalinu, og lagði á.
Eins og ég segi hef ég aldrei heyrt annað eins samtal í þessum þáttum og ég vona svo sannarlega að menn með svo sveigjanlegt siðgæði sé ekki að finna á hverju strái. Ég er þó nægilega raunsær til að gera mér grein fyrir því að þessi maður er ekki sá eini í heiminum sem er með kærustu í hverri höfn.
5.1.2011 | 23:57
Á barmi gjaldþrots en auglýsa samt gríðarlega
Hér í Svíaríki tíðkast það að hin og þessi fyrirtæki kosti sýningar sjónvarpsstöðva á efni, og það á síður en svo eingöngu við um beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum; það er varla til svo aum sápuópera eða gamanþáttaröð að hver þáttur sé ekki kostaður af að minnsta kosti einu fyrirtæki.
Meðal þeirra fyrirtækja sem eru hvað mest áberandi í kostun sjónvarpsefnis eru Eniro og 118 100 Online AB en bæði reka þau símaskrá á netinu, svipað og ja.is, auk þess sem hægt er að fá upplýsingar með því að að hringja eða senda sms. Ennfremur er hægt að senda hinar og þessar spurningar með sms-i og starfsfólk fyrirtækjanna slær spurninguna inn á Google og sendir svarið um hæl. Þannig er kjörorð 118 100 Svar við öllu og segja má að Eniro sé systurfyrirtæki Já, fyrirtækið var áður dótturfélag Telia sem áður var í eigu ríkisins og líkt og Já gefur Eniro út símaskrána.
Ég hef lengi velt því fyrir mér hversu margir nýta sér svona þjónustu, eflaust eru það töluvert margir því næga fjármuni virðast fyrirtækin hafa til þess að kosta sjóvarpsefni. Auglýsingar í formi kostunar eru eflaust eitthvað ódýrari en venjulegar sjónvarpsauglýsingar (sem fyrirtækin kaupa reyndar líka) en þetta eru engu að síður alldýrar auglýsingar. Til þess að fjármagna auglýsingarnar er því ljóst að velta fyrirtækjanna þarf að vera töluverð og sem bendir til þess að ansi margir nýti sér þjónustuna.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki ódýr þjónusta sem fyrirtækin bjóða upp á og sömuleiðis að þau gera töluvert út á unglinga sem senda hinar og þessar heimskulegar spurningar bara til þess að reyna að hanka fyrirtækin á röngum svörum. Ég veit hins vegar líka að Eniro rambar á barmi gjaldþrots, það er ekki langt síðan fyrirtækið þurfti að fara í mjög stórt hlutafjárútboð einfaldlega til þess að ná sér í nýtt rekstrarfé. Þá hefur forstjóra fyrirtækisins verið vikið úr starfi og allt er í steik eins og það heitir á kjarnyrtri íslensku.
Spurning hvort fjármunum fyrirtækisins, og um leið hluthafa, sé ekki betur varið í eitthvað annað en kostun misgóðra bandarískra sjónvarpsþátta. Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig 118 100 stendur en ég á bágt með að ímynda mér að myljandi gróði sé af starfseminni, miðað við hvað fyrirtækið hlýtur að eyða í kostun.
21.12.2010 | 23:17
Ódrengileg framkoma á körfuboltavellinum
Eins og mörgum ætti að vera kunnugt er ég mikill áhugamaður um íþróttir og fátt er það sem fer meira í taugarnar á mér en að horfa á ódrengilega leikinn íþróttaleik. Það þurfti ég að gera í kvöld þegar við feðgarnir fórum á þriðja körfuboltaleik okkar á tímabilinu. Einn leiðinlegur ljóður á ráði hins annars ágæta körfuboltaliðs Uppsalaborgar er sú staðreynd að þegar liðið leikur gegn liðum sem á pappírnum eru sterkari, virðist það alltaf telja einu leiðina til sigurs vera að leika af aukinni hörku. Þannig reyna menn að hleypa leiknum upp í slagsmál til þess að koma andstæðingunum úr jafnvægi.
Þetta var sérstaklega áberandi í fyrra þegar Uppsala lék við Jakob Sigurðarson og félaga í Sundsvall í fyrstu umferð úrslitakeppni sænsku deildarinnar (í báðum heimaleikjum sínum beitti Uppsala þessari aðferð með góðum árangri) og þetta þótti mér einnig áberandi í leik kvöldsins þar sem Uppsala, sem fyrir leikinn var í fimmta sæti, mætti Södertälje, sem var í öðru sæti. Uppsala lék af mikilli festu og tókst að koma andstæðingunum úr jafnvægi svo um munaði. Þannig fengu leikmenn Södertälje, sem voru orðnir áberandi pirraðir, á sig tvær ásetningsvillur og nokkur tæknivíti. Einn leikmaður fékk tvö tæknivíti og var þar með sendur í sturtu sem og þjálfari liðsins og amk tveir þurftu að setjast á bekkinn með fimm villur þegar töluvert var eftir af leiknum.
Þá fékk bandarískur burðarás Södertälje-liðsins þungt högg á rifbein þannig að hann var studdur út af og skv. frétt staðarblaðsins var hann sendur á spítala í sjúkrabíl eftir að hafa liðið út af í búningsklefanum. Enn er ónefndur þáttur vallarkynnisins, sem yfirleitt er reyndar alveg óþolandi, en hann hæddist að leikmönnum Södertälje þegar dómararnir tíndu þá einn af öðrum af vellinum og bauð þeim t.d. gleðileg jól.
Vel studdir af áhorfendum sem, ef marka má viðbrögðin bæði í fyrra og í kvöld, kunna að meta þessa leikaðferð gengu leikmenn Uppsala svo á lagið og gjörsigruðu það litla sem eftir var af liði Södertälje.
Í mínum bókum telst þetta ekki drengileg framkoma og þótt ég hafi almennt gaman af að horfa á leiki með körfuboltaliðinu hér í borg finnst mér þetta eins og áður segir frekar leiðinlegur ljóður á ráði liðs sem vel getur spilað góðan körfubolta og ætti ekki að þurfa að grípa til bragða af þessu tagi. Vissulega má benda á að lið sem láti slíkt koma sér úr jafnvægi eigi e.t.v. ekki erindi í keppni af þessu tagi en svipuð rök má líka nota um lið sem þarf að beita óþverrabrögðum til þess að vinna leiki.
Annars er mjög gaman að fylgjast með framgöngu íslensku körfuboltamannana hér í Svíþjóð. Ég hef séð tvo leiki með Sundsvall í sjónvarpi og þar bera þeir Jakob Sigurðarson og Hlynur Bæringsson liðið á herðum sér, sérstaklega hefur Hlynur slegið í gegn hér í landi og heyrist mér hann almennt vera talinn einn allra besti leikmaður deildarinnar. Þá hefur Helgi Magnússon spilað vel í þeim leikjum Uppsala sem ég hef séð, fyrir utan þann fyrsta þar sem allt liðið var ótrúlega dapurt, og Logi Gunnarsson virðist vera að gera góða hluti í Solna. Gaman að því.
Góðar stundir.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)