Næsta skref stigið í Afríku

Líkt og margir aðrir hef ég löngum heillast af Afríku og langar mig mikið til að heimsækja þá álfu þegar fram líða stundir. Afríka hefur stundum verið kölluð dularfull heimsálfa og jafnvel dulmögnuð og þó ég viti ekki hvort sú lýsing sé rétt verð ég að segja að aðdráttarafl hennar er mikið. Þessi áhugi minn á Afríku hefur m.a. tekið á sig þá mynd að ég fylgdist töluvert með þróun efnahagsmála í álfunni þegar ég var á Mogganum og skrifaði nokkrar greinar þar um.

Sú fyrsta þeirra birtist hér að neðan en kveikjan að henni var annað áhugasvið mitt, þ.e. hrávörumarkaðir, enda höfðu mörg Afríkuríki töluverðan hag af þenslunni á hrávörumörkuðum á misserunum fyrir hundadagakreppuna. Greinin er skrifuð í desember 2007, tæpu hálfu ári eftir að bóla tók á kreppunni en þá voru hrávörur enn á blússandi siglingu.

 

Næsta skref stigið í Afríku

Hagvöxtur í ríkjum Afríku sunnan Sahara er nú meiri en nokkru sinni frá lokum nýlendutímans. Aukin eftirspurn eftir hrávörum á stóran þátt í þróuninni

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

Ýmiss konar hrávörur, s.s. málmar, olía og ýmiss konar landbúnaðarafurðir, hafa hækkað mikið í verði á heimsmarkaði að undanförnu með tilheyrandi verðbólguþrýstingi á heimshagkerfið, sérstaklega á Vesturlöndum. Ein er þó sú heimsálfa sem nýtur góðs af hækkununum og grætur þær því varla. Sú heimsálfa er Afríka en þar eru nú gífurlegir vaxtarmöguleikar fyrir hendi.

Hagvöxtur hefur ekki verið hraðari í þrjá áratugi í löndunum sunnan Sahara og verðbólga ekki minni, þegar frá er talið Simbabve, þar sem efnahagslegur glundroði ríkir og verðbólga nálgast 8.000%.

Í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, um efnahagsástandið í Afríku, er því spáð að hagvöxtur í álfunni verði á þessu ári 6% og á næsta ári 6,5% en verðbólga verði 7,5% í ár og enn lítil á næsta ári.

Það eru þó ekki einungis verðhækkanir á hrávörum sem hafa kveikt hagvaxtarbálið í Afríku, stór hluti af skýringunni er að mati IMF sú staðreynd að hagstjórn hefur batnað til muna í flestum ríkjum álfunnar og efnahagsumbætur verið gerðar með efnahagslegan stöðugleika í huga. Í kjölfarið hefur aðgengi ríkjanna að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, þ.e. lánsfé, batnað til muna sem og kjörin þar á. Lánveitendur treysta Afríkuríkjum nú einfaldlega mun betur en áður sem skilar sér í aukinni og betri lántöku sem síðan er hægt að nota til þess að styðja við uppbyggingu hagkerfana. Þá hefur dregið mikið úr milliríkjadeilum auk þess sem viðskiptakjör Afríkuríkja á alþjóðavettvangi hafa batnað – nokkuð sem að einhverju leyti má rekja til betri afkomu þeirra í kjölfar hækkandi afurðaverðs.

Fjármagnið flæðir inn

Financial Times greindi nýlega frá því að það væri ekki einungis lánsfé sem streymdi inn í Afríku. Asía hefur á undanförnum árum og áratugum sogað til sín fjármagn fjárfesta í leit að góðri ávöxtun en eftir því sem hagkerfi þeirrar álfu hafa þróast hefur ávöxtun fjárfestinga smám saman dregist saman í Asíu. Fjárfestar í leit að góðri ávöxtun beina því sjónum í æ meiri mæli til Afríku þar sem hagkerfin eru, þrátt fyrir allt, flest á frumstigi þróunar enn um sinn.

„Afríka er stærsti og mest spennandi hópurinn á meðal ónuminna markaða og allir vilja hlut af kökunni,“ segir Richard Segal, skuldabréfasérfræðingur hjá rússneska fjárfestingarbankanum Renaissance Capital, í samtali við FT. Þá hefur di.se eftir Mark Hammond, sjóðsstjóra EMEA-sjóðs Fidelity, að gengi hlutabréfa í Kína sé almennt orðið frekar hátt en Mið-Austurlönd og Afríka séu ódýrari. Þar sé V/H hlutfall hlutabréfa gjarnan lægra en 10 – V/H er hlutfall markaðsvirðis og hagnaðar fyrirtækis og því lægra sem það er því betra. Samkvæmt di.se er 40% eigna sjóðs þess er Hammond stýrir í Afríku en hann tekur þó fram að þótt möguleikarnir séu miklir sé enn töluverð áhætta fólgin í því að fjárfesta í álfunni.

Þess ber að geta að þótt fjárfestar beini fé sínu í auknum mæli til Afríku á álfan mjög langt í land með að ná Asíu hvað hreinar upphæðir varðar.

Það er þó ekki einungis minnkandi ávöxtun á fjárfestingum annars staðar sem laðar fjárfesta til Afríku. Margir sjá álfuna sem örugga höfn í ólgusjó þeim sem einkennt hefur fjármálamarkaði heimsins að undanförnu.

Áhuginn hefur aukist umtalsvert á undanförnum mánuðum samkvæmt FT enda virðist lítil fylgni vera á milli markaðsþróunar á milli ríkja í Afríka og enn minni er hún út fyrir álfuna. „Afríka er heimur sem í alsælu er óvitandi um veðlánablóðbaðið og kreppuna á bandarískum fasteignamarkaði,“ segir Jeremy Gardiner, framkvæmdastjóri hjá Investec Asset Management, fyrirtæki sem stýrir eignum að andvirði um 34 milljarða dala í Afríku.

Samkvæmt IMF nam samanlögð fjárfesting erlendra einkaaðila í Afríku 45 milljörðum dala á síðasta ári, sem er fimmföldun frá árinu 2000 og þreföldun frá árinu 2003. 45 milljarðar dala eru jafnframt um 6% af samanlagðri landsframleiðslu ríkjanna í Afríku sunnan Sahara. Þá mun hrein erlend fjárfesting í álfunni (þ.e. þegar dregin hefur verið frá fjárfesting Afríkumanna utan álfunnar) nema um 18 milljörðum dala á þessu ári samkvæmt spám IMF og munar þar mest um kaup Iðnaðar- og verslunarbanka Kína (ICBC) á 20% hlut í Standard Bank frá S-Afríku. Fyrir þann hlut mun kínverski bankinn greiða 5,5 milljarða dala, jafngildi um 340 milljarða króna. Kínverjar hafa reyndar verið stórtækir þegar kemur að fjárfestingum í Afríku og er fjárfesting ICBC lýsandi dæmi þar um.

Er viðskiptahallinn ógn?

Ein afleiðing af aukinni erlendri fjárfestingu er afleiðing sem við Íslendingar þekkjum orðið ágætlega. Viðskiptahalli er umtalsverður hjá flestum ríkjum Afríku sunnan Sahara en eins og fram kom í máli bandaríska hagfræðingsins Arthurs Laffers í Þjóðmenningarhúsinu nýlega þarf viðskiptahalli ekki endilega að vera áhyggjuefni, að vissum skilyrðum uppfylltum þó.

Það er t.d. mjög mikilvægt að það fé sem kemur inn í hagkerfið þegar erlend fjárfesting eykst sé nýtt á skilvirkan hátt og beint inn í frjó fjárfestingarverkefni sem, þegar fram líða stundir, skila tekjum og borga sjálf sig í raun upp.

Það er verra þegar erlenda fjármagnið er nýtt til þess að fjármagna mikla neyslu í hagkerfinu eða einfaldlega notað í verkefni sem ekki munu skila miklum tekjum í framtíðinni. Ennfremur getur langvarandi og viðvarandi hár viðskiptahalli verið áhyggjuefni en til skamms tíma þarf hann alls ekki að vera það eins og áður segir.

Ýmislegt að varast

S-Afríka er almennt álitin þróaðasta hagkerfi Afríku og er hún að mati IMF leiðarstjarna annarra ríkja álfunnar sem nú vaxa ört. Þeirra á meðal má nefna Nígeríu og Angóla sem bæði búa yfir auðugum olíulindum. Nígería hefur á örfáum árum nánast þurrkað út gífurlegar skuldir sínar við útlönd og mikið starf hefur verið unnið í þá átt að útrýma spillingu í landinu. Þá hefur Ghana tekið stór skref í áttina að kerfisumbótum sem ættu að ýta undir hagvöxt. En örum hagvexti fylgja margar hættur og því er margt að varast.

Mikilvægt er að þenslan verði ekki of hröð þannig að verðbólgan slíti af sér öll bönd. Ennfremur verða hin ört vaxandi hagkerfi Afríku að vara sig á hollensku veikinni – ruðningsáhrifum þeim er nýr og spennandi iðnaður getur valdið – og halda verður áfram að byggja upp innviði samfélagsins til þess að vöxturinn geti haldist.

Takist þetta er ljóst að hnattvæðingin mun skila Afríku aukinni velmegun og eiga stóran þátt í að draga úr örbirgð í þessari fátækustu álfu heimsins.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband