7.4.2010 | 15:12
Þetta er ekki pípa
Einn af helstu vanköntum hagfræðinnar í dag (að mínu mati) er hversu mikið við reiðum okkur á líkön byggð á forsendum sem í besta falli má kalla barnalegar, dæmi um slíkar forsendur er að markaðsaðilar (sem eru allir í hagkerfinu) teljast rökrænir (e. rational) auk þess sem þeir miði allar sínar aðgerðir í lífinu að því að hámarka eigin peningaleg nyt. Önnur óraunhæf forsenda sem hagfræðingar telja afar mikilvæga er fullkominn markaður.
Ég hef stundum verið að fjargviðrast um þetta við félaga mína í doktorsnáminu, sem sjálf virðast sjá fátt athugavert við þær aðferðir sem beitt er, og fyrir nokkru kom einn þeirra með mynd sem hann hafði prentað út. Um var að ræða mynd af pípu og undir henni stóð, á frönsku, Ceci nest pas une pipe eða Þetta er ekki pípa. Myndin ku vera þekkt listaverk eftir belgískan listamann er Magritte hét og tjáði fræðibróðir minn mér að kennari í kúrsi einum sem hann tók hafi veifað myndinni atarna framan í hópinn máli sínu til stuðnings þegar hann fjallaði um ágæti aðferðanna sem stuðst var við í kúrsinum (þ.e. áðurnefndra líkana). Rökstuðningurinn var eitthvað á þessa leið: Líkt og mynd Magritte af pípu er ekki raunveruleg pípa heldur einmitt tvívíð mynd af pípu, eru líkön hagfræðinga einfölduð mynd af þeim veruleika sem við fjöllum um en ekki raunveruleikinn enda er hann allt of flókinn til þess að við getum gert honum nákvæm skil í fræðunum. Í staðinn notum við þessi einfölduðu líkön (þau eru sem sé myndin af pípunni) til þess að gefa okkur mynd af heiminum sem við notum síðan til þess að bæta skilning okkar á heiminum.
Gott og vel, ég get alveg samþykkt það að heimurinn sé of flókin til þess að hægt sé að búa til af honum heilstætt líkan sem veitir okkur fullan skilning á samvinnu mikilvægra efnahagslegra þátta. En eins og ég benti fræðibróður mínum á, ef ég vil reykja pípu þá get ég ekki tekið mynd af pípu og kveikt í henni. Á sama hátt get ég ekki reykt hagfræðilíkan, þ.e. ef ég vil vita hvaða áhrif aðgerð í efnahagsmálum hefur á hagkerfið get ég ekki treyst því að áhrifin verði þau sem líkanið gefur til kynna. Þetta á sérstaklega við þegar ég ætla að reykja pípu en myndin er í raun af vindli eða sígarettu eins og oft er raunin þegar forsendur þær sem líkanið byggir á eru jafnveikar og raun ber vitni. Ályktun getur aldrei orðið réttari en þær forsendur sem hún byggir á og því verður að vanda valið.
Eins og áður segir, ég geri mér fyllilega grein fyrir því að viðfangsefni hagfræðinnar er mjög flókið og að líkönin eru ekki pípur heldur einfaldar myndir af þéttriðnu neti samverkandi þátta en þar liggur hundurinn einmitt að mörgu leyti grafinn. Aðferðir okkar eru svo takmarkaðar að við neyðumst til þess að halda mörgum þáttum föstum í útreikningum á meðan við metum áhrif eins þáttar í einu á heildarmyndina en þetta eru samverkandi þættir og við verðum að leita leiða til þess að ná betri heildaryfirsýn. Aðferðir dagsins í dag eru of takmarkaðar og við erum of sátt við þær. Hugsið út í það að nú eru liðin 234 ár síðan Adam Smith gekk hagfræðinni í föðurstað með riti sínu Auðlegð þjóðanna; við erum búin að grandskoða og greina markaðinn ofan í kjölinn í meira en 200 ár og enn er það ríkjandi trú manna að einhver ósýnileg hönd komi og leiðrétti allt.
Við verðum að átta okkur á því hvað hagfræðin er takmörkuð fræðigrein og því hvað niðurstöður okkar eru takmarkaðar. Flestir, ef ekki allir, hagfræðingar eru meðvitaðir um að líkönin eru einföldun á heiminum en engu að síður láta flestir hinir sömu eins og niðurstöður þeirra séu einhver lögmál. Þessar niðurstöður eru birtar í fræðitímaritum og engir varnaglar slegnir þannig að hver sem er, t.d. misvitrir stjórnmálamenn og skoðanamótendur, éta þær upp eins og heilagan sannleik án þess að gera sér grein fyrir því að forsendurnar geta verið, og eru oft, mjög veikar.
Ég hef stundum haft í flimtingum að hagfræðitímaritum ætti að fylgja aðvörun líkt og þungum vinnuvélum: Þessar niðurstöður eru aðeins ætlaðar ...
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 27.7.2010 kl. 11:39 | Facebook
Athugasemdir
frábær hugleiðing!
Lúðvík Júlíusson, 8.4.2010 kl. 07:27
Takk fyrir það, þetta er búið að hvíla á mér alllengi.
Guðmundur Sverrir Þór, 8.4.2010 kl. 08:16
Góður!
Drengur (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 16:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.