Vinsælasti íþróttamaður Svía

Þeir sem fylgjast með sænsku íþróttalífi í gegnum íslenska fjölmiðla telja sennilega flestir að vinsælasti íþróttamaður Svíþjóðar sé knattspyrnusnillingurinn Zlatan Ibrahimovic. Lái þeim hver sem vill, Zlatan er sá sænski íþróttamaður sem langoftast er nefndur í íslenskum fjölmiðlum enda einn allra besti knattspyrnumaður heims.

Ekkert gæti þó verið fjær sanni. Þótt fótbolti sé e.t.v. sú íþrótt sem flestir Svíar stunda er þjóðin nánast heltekin af íshokkí; alla vega eins heltekin og heil þjóð getur orðið af íþróttum, svona svipað og Íslendingar af handbolta og nú stendur þjóðin á öndinni yfir því að Peter nokkur Forsberg mun í nótt spila á ný eftir langt hlé. Forsberg þessi var fyrir nokkrum árum tvímælalaust einn besti hokkíspilari heims, ef ekki sá besti, en hefur ekkert getað spilað af viti undanfarin ár vegna fótmeiðsla. 

Foppa, eins og Svíar kalla hann, er jafnframt langvinsælasti íþróttamaður Svía síðan Ingmar Stenmark var upp á sitt besta. Enginn kemst með tærnar þar sem þeir tveir hafa haft hælana, hvorki Zlatan, Henrik Larsson, skíðagöngukappinn Gunde Svan, sunddrottningin Terese Alshammar eða skíðaskotfimidrottningin Magdalena Forsberg, þegar vinsældir á meðal sænsku þjóðarinnar eru annars vegar. Ekki einu sinni Tomas Brolin þegar hann var upp á sitt besta eða tennisgoðsögnin Björn Borg geta talist jafningjar þeirra Stenmark og Foppa á því sviði.

Öðru fremur var það þetta víti sem tryggði Foppa eilífan sess í hjörtum sænskra íþróttaáhugamanna og tryggði Svíum sömuleiðis gullverðlaun í íshokkí á Ólympíuleikunum í Lillehammer. Það munu hafa verið fyrsta Ólympíugull Svía í íshokkí og ekki skemmdi fyrir að þeir unnu Kanadamenn í úrslitaleiknum en það hefur lengi andað köldu á milli Svía og Kanadamanna þegar landsliðin mætast. Vítið þykir enn þann dag í dag einkar flott meðal þeirra sem vit hafa á hokkí og til marks um ótrúlega hæfileika og andlegan styrk.

Þarna var Foppa, sem er fæddur 1973, ekki nema 21 árs gamall og var hann þá þegar álitinn bestur þeirra hokkíspilara sem léku utan NHL og það þarf ekki að koma á óvart að hann flutti loks yfir til N-Ameríku fyrir tímabilið 1994-1995.

Svíar hafa átt marga frábæra hokkíspilara og ég man þegar ég bjó í Svíaríki sem unglingur, undir lok 9. áratugarins og í upphafi þess 10. voru stóru nöfnin Kenta Nilsson og Börje Salming, sem þá var að ljúka farsælum ferli í N-Ameríku. Varla leið sá dagur að ekki væri minnst á þessa tvo í sænskum íþróttafréttum en þeir mega sín þó lítils í samanburði við Peter Forsberg, sem má segja að sé á svipuðum stalli hjá sænsku þjóðinni og Ólafur Stefánsson hjá okkur Íslendingum. Eigi landsliðinu að ganga vel á mótum er þátttaka hans frumforsenda.

Ferli Foppa virtist vera lokið vegna þrálátra meiðsla í fæti en nú bendir allt til þess að hann sé að verða leikfær á ný. Það er til marks um þá virðingu sem fyrir honum er borin að hann þurfti ekki annað en að mæta á svæðið hjá Colorado Avalanche og æfa nokkrum sinnum með liðinu áður en honum var boðinn samningur. Fyrir vikið eru Svíar himinlifandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg ótrúlegur andsk... að ég skuli muna eftir þessu víti!

Gulli (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 22:10

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Segir allt sem segja þarf

Guðmundur Sverrir Þór, 11.2.2011 kl. 23:50

3 identicon

Þú veist að það var gert frímerki af þessu víti? :)

Og þú fylgist eflaust með "landskampen" í sjónvarpinu? Frábæri Foppa!!

Halla Sig. (IP-tala skráð) 12.2.2011 kl. 15:17

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Vissi það reyndar ekki, en það kemur ekki á óvart. Nú virðist hins vegar ljóst að karlinn sé loksins búinn að átta sig á því að þetta er búið. Come back-ið reyndist Bjarmalandsför Peter Forsberg.

Nei, ég horfi svo sannarlega ekki á Landskampen

Guðmundur Sverrir Þór, 14.2.2011 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband