17.3.2011 | 18:11
Sjandri kominn út og í búðirnar
Í dag er stór dagur, að minnsta kosti í mínum heimi. Frumraun mín sem rithöfundur, Sjandri og úfurinn, kemur nefnilega út hjá Urði bókafélagi í dag og búið er að dreifa bókinni í bókabúðir.
Fyrir um hálfu ári síðan var ég búinn að gefa upp alla von um að finna teiknara til að myndskreyta þessa litlu barnabók sem ég skrifaði árið 2007. Haustið 2009 var ég meira að segja búinn að týna handritinu en sem betur fer átti fyrsti teiknarinn sem ég hafði rætt við það um myndskreytingar það enn í sínum fórum.
Þegar ég hafði fengið handritið hjá þeim góða dreng hafði ég upp á öðrum teiknara, sem ég þekki reyndar ekki neitt, en sá hafði aldrei tíma til þess að byrja verkið og í haust var ég orðinn úrkula vonar um að finna einhvern sem gæti myndskreytt bókina fyrir mig. Ég var í raun búinn að ákveða að láta handritið endanlega ofan í skúffu og setja þetta bara í reynslubankann, eins og það heitir, en það var svo í byrjun nóvember (nánar tiltekið 5. nóvember skv. pósthólfinu mínu) sem mér datt í hug að hafa samband við Andrés Andrésson, góðan vinnufélaga af Mogganum.
Honum leist vel á að myndskreyta bókina en ég ákvað að hrósa ekki happi fyrr en ég væri kominn með myndir og viti menn, á innan við mánuði var Andrés búinn að ljúka verkinu (hann sendi mér myndirnar 2. desember). Myndirnar eru frábærar, eins og Andrésar er von og vísa, og hann á ekki minni hlut í þessari bók en ég.
Nú eru um fjögur ár síðan ég lauk við að skrifa bókina og loksins er hún komin út. Vonandi veitir hún fleirum en mér og Andrési ánægju!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.