14.4.2011 | 20:32
Bonanza og Rawhide
Eins og flestir drengir af minni kynslóð, og sennilega fleiri kynslóðum, hafði ég í æsku einstaklega gaman af því að horfa á vestra. Ólíkt mörgum óx ég svo aldrei upp úr því og hef enn mikið dálæti á þessari tegund mynda. Verst er þó að afskaplega lítið er framleitt af vestrum nú orðið og gæðavestra sem framleiddir hafa verið undanfarna áratugi má telja á fingrum annarrar handar. Ég á reyndar enn eftir að sjá True Grit.
Ég man að sem sjö til átta ára gamall pjakkur og bjó í Álfheimunum fór ég oft heim til Ásgeirs vinar míns, hann var eini maðurinn sem ég þekkti þá sem átti vídeótæki, og við horfðum á vestra. Í sérstöku uppáhaldi var vestri með hörkutólinu krúnurakað Yul Brynner. Ekki man ég hvað myndin heitir en eitt atriði er mér þó alltaf minnisstætt, þegar hetjan sat ofan í gili og skaut einhvern óvina sinna í gegnum stígvélið sitt. Þegar við Ásgeir vorum ekki að horfa á vestra eða í fótbolta gerðist það ekki ósjaldan að við færum í kábojaleik, eins og það hét þá.
Villta vestrið hefur alltaf heillað mig, ég get samt ekki nákvæmlega sagt hvað það er sem er svo heillandi, og þegar ég var strákur voru þær ófáar ferðirnar á bókasafnið til þess að fá lánaðar bækur eftir Karl May eða um indíánan Arnarauga, sem ég átti reyndar eitthvað af bókum um líka. Oft fór ég sömuleiðis í fornbókabúðir niðri í miðbæ í leit að slíkum bókum.
Sérstakt dálæti hafði ég þó á Bonanza-bókunum, um þá bræður Adam, Hoss og Litla Jóa Cartwright á Ponderosa. Þær las ég mikið og ég man að ég öfundaði mikið fullorðna fólkið sem hafði séð Bonanza-þættina í Kanasjónvarpinu. Á þessum tíma var ekki hægt að kaupa heilu sjónvarpsþáttaraðirnar úti í búð en nú er öldin önnur og fyrir nokkrum vikum rakst ég einmitt á box með Bonanza-þáttum úti í búð.
Þetta var þó ekki eiginlegt box eins og oft má sjá heldur var í hulstrinu að finna tvo diska með samanlagt átta þáttum úr þessari frábæru þáttaröð. Eins og nærri má geta greip ég eitt eintak, og ekki skemmdi fyrir að herlegheitin kostuðu ekki nema 59 sænskar krónur. Konu minni til mikillar armæðu hef ég verið að horfa á þetta þegar komið er upp í rúm á kvöldin og skemmt mér vel, þótt yfirleitt takist mér nú að sofna áður en þættirnir eru á enda. Nú er ég búinn að horfa á þá alla og þá er bara að vona að fleiri þættir verði fáanlegir en af nógu er að taka enda var Bonanza sýnt í einhver 15 ár.
Bonanza eru reyndar ekki einu vestraþættirnir sem ég hef komist yfir á síðustu misserum, í sænskum stórmörkuðum má oft finna algjörar perlur á hlægilegu verði. Þannig eignaðist ég í haust alla þætti af Rawhide sem framleiddir voru.
Margir tengja nafnið Rawhide eflaust við frábæran flutning Blues Brothers á frábæru titillagi þáttana en þetta eru þættir sem ég mæli hiklaust með við alla vestraaðdáendur. Það var í þessum þáttum sem tiltölulega ungur Clint Eastwood sló í gegn en stjarna þáttanna er engu að síður Eric nokkur Fleming sem lék Gil Favor, foringja kúrekanna. Fleming þessi, sem ber höfuð og herðar yfir aðra leikara í þáttunum, lést allt of ungur í kanóslysi við upptökur á ævintýramynd í Perú, árið 1966. HLutverkið átti að verða hans síðasta en hann mun hafa hugsað sér að gerast kennari.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.