21.5.2012 | 18:25
Teikni-Óli í heldrimannabolta
Maður er nefndur Ola Andersson. Í daglegu tali er hann þekktur sem Rit-Ola eða Teikni-Ola. Sá er sænskur fótboltakappi sem lagði skóna á hilluna fyrir um 10 árum síðan og gerðist þá fótboltasérfræðingur hjá sænska ríkissjónvarpinu. Nú starfar hann hjá Viasat, fyrirtækinu sem bæði hefur sýnt Meistaradeildina og enska boltann í vetur og sat síðast í myndveri þeirra á laugardagskvöldið þar sem hann jós úr brunnum knattspyrnuvisku sinnar ásamt Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfara Íslands, og teiknaði. Ástæðan fyrir því að hann er kallaður Teikni-Ola er nefnilega sú að hann er flestum öðrum fimari með skjápenna og á auk þess mjög auðvelt með að skýra fótbolta út á mannamáli og nota teikningar sér til aðstoðar.
Ola þessi er þó ekki eingöngu flinkur með pennann, hann var lengi í hópi betri knattspyrnumanna Svíþjóðar. Hann var leikstjórnandi AIK og var fyrirliði undir lok síðustu aldar þegar liðið varð Svíþjóðarmeistari og hefur það meðal annars á ferilskrá sinni að hafa leikið tvo A-landsleiki árið 1995 og gert jafntefli við Barcelona í Meistaradeildinni. Teikni-Ola er því sænskum knattspyrnuáhugamönnum flestum að góðu kunnur en víkjum betur að honum síðar.
Sumarið eftir við fluttum til Uppsala, þ.e. 2009, fór ég að spila fótbolta með Íslendingum hér í borg og árið 2010 tók 20 mínútur sem er lið okkar Íslendinganna í Uppsölum þátt í Klakamótinu, knattspyrnumóti Íslendinga á Norðurlöndum, sem það ár fór fram í Lundi. Í fyrra dró Bobbi félagi minn mig svo með sér á æfingu með heldrimannaliði (old boys) Vaksala SK sem er eitt af stærri íþróttafélögum borgarinnar. Vaksala Vets eins og liðið okkar er kallað tekur þátt í deild heldri manna liða hér í Uppsala og nærsveitum. Þess má síðan geta að í hópinn hefur bæst einn Íslendingur og unnið er að því að fjölga Íslendingunum um einn til viðbótar þannig að við verðum fjórir í lok tímabilsins.
Hvað um það, það væri synd að segja að Vaksala Vets sé mjög gott fótboltalið þótt nokkur batamerki hafi sést á leik liðsins í síðustu tveimur leikjum eftir að tveir leikmannana fóru að skipta sér af þjálfun á æfingum. Við höfum spilað þrjá leiki það sem af er tímabilinu; sá fyrsti tapaðist með 6-0, leikur númer tvo tapaðist 3-0 og þeim þriðja sem leikinn var í gær lauk 0-0.
Sá leikur var sögulegur í meira lagi. Þegar mætt var til leiks kom á daginn að ekki allir sem höfðu tilkynnt þátttöku myndu mæta og útlit var fyrir að við hefðum ekki nema tvo skiptimenn (reyndar má deila um það hvort það geri okkur mikið gagn að hafa skiptimenn en skiptingar eru frjálsar í heldrimannaboltanum og leikskipulagið hefur riðlast allhressilega þegar mikið er skipt). Markmaðurinn okkar sem hafði rekist á vin sinn einn fyrir utan þar sem sá var að horfa á dóttur sína spila fótbolta bauðst til að hringja í þennan vin. Sá brást vel við en mætti þó ekki tíu mínútum eftir að leikurinn hófst. Einmitt þegar hann kom hafði ég nýskipt til þess að taka mér stutta pásu en þegar skiptimenn eru til staðar er beinlínis ætlast til þess að maður róteri til þess að allir fái að spila jafnt.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér brá þegar ég sá Teikni-Ola allt í einu standandi við hliðina á mér í búningi Vaksala og hnýtandi teygjuna á stuttbuxunum sínum. Síðan var honum skipt inn á í snatri.
Ég held ég geti fullyrt að ég hef aldrei spilað fótbolta með betri leikmanni en Teikni-Ola, með fullri virðingu fyrir félögum mínum í 20 mínútum og öðrum. Það er greinilegt að hann hefur litlu gleymt og hann er auk þess í fantagóðu formi enda segja félagarnir í Vaksala mér að hann hlaupi að minnsta kosti 25 kílómetra í viku. Hann hefur enn augað fyrir spili og gefur góðar sendingar, einn mesti munurinn að spila með honum miðað við hina heldri mennina er sá að maður þarf ekki að standa og vonast til þess að boltinn drífi þegar búið er að gefa hann í áttina að manni. Sendingarnar hjá Ola skiluðu sér. Þrisvar átti hann frábærar stungusendingar á mig en í öll skiptin var ég ranglega dæmdur rangstæður (ég passaði mig á því að vera réttstæður) þar sem ekki eru neinir línuverðir í heldrimannabolta.
Eitt sem mér fannst líka mjög skemmtilegt að sjá var að þótt kappinn, sem þótti teknískur mjög, hefði eflaust getað sólað alla karlana upp úr skónum og skorað helling af mörkum var hann ekki að standa í neinu slíku. Hann er þrautþjálfaður fótboltamaður og búið að innræta honum að spila fótbolta eins og hann sé í liði og hann hélt sig við það. Hefði hann haft sæmilega samherja hefðum við auðveldlega unnið þennan leik.
Það var mjög skemmtilegt að spila fótbolta með kappa sem hefur barist við Guardiola og fleiri hetjur á miðjunni í Meistaradeildinni. Hið eina sem skyggði á það er að einn af félögum okkar í liðinu meiddist á hné og hefur samkvæmt síðustu fréttum spilað sinn síðasta fótboltaleik.
Athugasemdir
Já, það var grábölvaður andskoti að geta ekki spilað þennan leik með Teikni-Ola ... er ekki viss um að annað tækifæri bjóðist ...
Páll Jakob Líndal, 22.5.2012 kl. 13:07
Sagan segir að hann hafi haft gaman af þessu og vilji spila meira.
Guðmundur Sverrir Þór, 23.5.2012 kl. 09:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.