Ritstuldur um Regin

Sennilega hafa flestir blaðamenn, og aðrir sem vinna við textasmíð, lent í því að einhver hefur fengið texta að láni frá þeim. Allir geta lent í því að taka texta að láni án þess að geta heimildar; blaðamenn, námsmenn, meira að segja virtir fræðimenn og prófessorar en yfirleitt eru það stutt textabrot og ég vil trúa því að í langflestum tilvikum sé um gáleysi að ræða og menn gleymi því einfaldlega að geta heimilda.

Það hefur komið fyrir að vitnað er í fréttir sem ég hef skrifað eða fréttaskýringar en þá er heimilda yfirleitt getið jafnvel þó ég hafi stundum rekist á kunnugleg textabrot sem ekki eru innan gæsalappa eins og vera ber. Yfirleitt hef ég þó ekki séð ástæðu til þess að gera úr því mál enda hefur mér yfirleitt þótt um smámál að ræða og nánast undantekningarlaust hefur heimildar þó verið getið í þeim texta sem um ræðir.

Fjölmiðlar vitna hver í aðra, taka smá stykki úr texta annarra innan gæsalappa en í asanum ferst það stundum fyrir að setja inn gæsalappirnar eða að geta heimildar. Stundum gerist þetta bara og lítið við því að gera. Verra er þegar um kerfisbundinn eða grófan ritstuld, þar sem heilu fréttirnar eru teknar og endurbirtar, er ræða. Þá verður auðvitað að bregðast við eins og Agnes Bragadóttir gerði þegar hún ritaði eitt sinn harðorðan pistil um slíkt mál þegar fréttastofa RÚV hafði ítrekað sagt fréttir í morgunfréttatímum sínum sem þó höfðu birst á síðum Morgunblaðsins fyrr um morguninn.

Ég lenti í slíkum ritstuldi í gær. Á þriðjudaginn skrifaði ég frétt fyrir vef Fastighetsnytt um skráningu Regins á íslenskan hlutabréfamarkað Þar sem um fyrsta fasteignafélagið í Kauphöllinni er að ræða þótti okkur þetta skemmtilegt efni enda sá markaður sem Fastighetsnytt fjallar um. Eins og þeir sem nenna að elta tengilinn sjá ræddi ég m.a. við Magnús Harðarson, aðstoðarforstjóra Kauphallarinnar, og vitnaði tvisvar í hann í fréttinni. Engin stórfrétt svo sem en ég var þess nokkuð viss að hún vekti áhuga sænskra lesenda enda þykir Svíum mörgum hverjum Ísland og allt sem því við kemur krúttlegt.

Fréttin var birt á vef okkar á miðvikudaginn sem aðalfrétt dagsins og vitnaði mbl.is meðal annars í hana. Í gærmorgun var hún svo efsta frétt í daglegu fréttabréfi Fastighetsnytt sem sent er út klukkan sjö á morgnanna. Þetta þýðir að fréttin hefur komið fyrir augu flestra í sænska fasteignageiranum og þar með talið keppinauta okkar í blaðamannastétt.

Í morgun benti vefritstjórinn okkar mér svo á frétt á sænskri útgáfu danska vefjarins World in Property um skráningu Regins. „Þessi frétt er ansi lík þinni,“ sagði hann og svo litum við aðeins nánar á fréttina og sáum að hún var ekki bara lík, hún var nær alveg eins. Eini munurinn var sá að tilvitnarnir í Magnús voru ekki lengur tilvitnanir heldur voru þær látnar líta út fyrir að vera texti blaðamannsins. Þá var frétt World in Property aðeins styttri en mín en að öðru leyti voru þær eins.

Heimildin sem vísað var til var síðan fréttatilkynning frá Regin. Þegar ég hafði leitað af mér allan grun hafði ég svo samband við félagið og fékk þar þær upplýsingar að þaðan hefðu ekki verið sendar neinar tilkynningar á þeim nótum sem ég skrifaði. Ennfremur var mér sagt að fréttin mín hefði vakið athygli víða á Norðurlöndum þaðan sem fólk hafði haft samband við Regin vegna hennar. Gaman því.

Hvað um það, svona grófum ritstuldi hef ég ekki lent í áður og ég geri fastlega ráð fyrir að framkvæmdastjóri Fastighetsnytt, sem er ábyrgðarmaður fyrir miðlunum okkar, muni grípa til aðgerða málsins vegna enda ekki hægt að láta svona líðast. Það heyrir sögunni til að World in Property hefur verið að reyna að hasla sér völl á sænskum markaði og hefur þar af leiðandi sænska útgáfu af vefsíðu sinni og fréttabréfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband