Pælt í atvinnuleysisbótum

Nú er enn á ný komin í gang sú furðulega umræða að atvinnuleysi á Íslandi sé jafnhátt og raun ber vitni, 4,8% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar fyrir júnímánuð, vegna þess að atvinnuleysisbætur séu of háar. Þar sem atvinnuleysisbætur eru ekki mikið lægri en lágmarkslaun þykir það letja fólk til þess að taka störfum þar sem lágmarkslaun eru í boði. Þar af leiðandi hljóta atvinnuleysisbætur að vera of háar. DV fjallaði um þetta í gær og er útgangspunkturinn sá að það borgi sig ekki að vinna í ljósi atvinnuleysisbótanna.

Þessi hugsunarháttur á uppruna sinn í þeirri stórundarlegu hugmynd klassískrar hagfræði (sem nýklassíkin hefur tekið upp á arma sína) að orsök atvinnuleysis sé leti. Fólk nenni ekki að vinna og atvinnuleysi stafi því einfaldlega af því að ekki sé eftirspurn eftir störfum. Þegar hinir atvinnulausu fá síðan styrki frá hinu opinbera, annað hvort í formi atvinnuleysisbóta eða sjúkradagpeninga, minnki hvatinn til þess að vinna enn frekar. Þegar þessir styrkir eru lækkaðir, eða einfaldlega fjarlægðir, verði fólk að fara að vinna og þá minnki atvinnuleysi. Arbetslinjen svokallaða sem hægri menn undir hugmyndafræðilegri forystu þeirra Fredrik Reinfeldt og Anders Borg unnu þingkosningar í Svíþjóð 2006 með byggir á þessari hugmynd og hið sama á eins og áður segir við umræðuna um of háar atvinnuleysisbætur á Íslandi.

Eflaust eru einhverjir puttalingar til sem ekki nenna að vinna og komast upp með það á kostnað allra hinna (e. free-riding) en ég held að flestir þeir sem einhvern tíma hafa þurft að ganga atvinnulausir í lengri eða skemmri tíma séu sammála mér um að það er ekki þægileg staða.

Þótt ég sé almennt þeirrar skoðunar að atvinnuleysi stafi frekar af skorti á framboði af störfum get ég að vissu leyti tekið undir þá röksemdafærslu að bilið á milli atvinnuleysisbóta og lágmarkslauna sé of lítið. Það skýrir þó engan veginn atvinnuleysið þó það hefði getað skýrt örfá brot úr prósentustigum.

Í fyrrahaust bárust af því tíðindi að um 400 störf væru skráð laus hjá Vinnumálastofnun. Vinnuveitendur báru sig illa yfir því að erfiðlega gengi að manna þessi störf sem kom mörgum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að tæplega 11.300 manns að meðaltali voru skráðir atvinnulausir í ágúst. Álitsgjafar voru þess fullvissir að þessa þversögn, við skulum kalla hana atvinnuleysisþversögnina, mætti rekja til þess að atvinnuleysisbætur væru of háar og því kysi fólk frekar að vera atvinnulaust en að taka störfin (höfum í huga að ekki er endilega víst að öll þessi 400 störf hafi verið lágmarkslaunastörf en látum það liggja á milli hluta). Töfralausnin til þess að manna störfin (og minnka atvinnuleysið) hlaut því að vera að lækka bæturnar. Kryfjum þá lausn aðeins nánar.

Atvinnuleysisbætur taka mið af lágmarksframfærslukostnaði og þeim er ætlað að veita atvinnulausum kost á að sjá sér farborða á meðan viðkomandi eru án starfs, gefa þeim kost á að afla sér nauðsynja þótt engar séu tekjurnar. Gefum okkur nú að bæturnar hefðu verið lækkaðar um til dæmis fjórðung til þess að hvetja atvinnulausa til þess að sækja um þau störf sem eru laus. Vissulega myndu 400 manns fá vinnu. 400 af 11.300, sem er hlutfall upp á 3,5%, myndu fá vinnu. Eftir standa 10.900 atvinnulausir sem skyndilega sitja uppi með fjórðungi lægri atvinnuleysisbætur og eiga fyrir vikið enn erfiðara með að láta enda ná saman. Á hið opinbera þá að hækka atvinnuleysisbæturnar aftur?

Hvað gerist síðan næst þegar vinnuafl „skortir“? Á þá að lækka atvinnuleysisbæturnar enn frekar og svo koll af kolli þangað til eftir standa nokkur þúsund atvinnulausir án bóta og möguleika á að setja mat á borðin? Varla. Bilið á milli atvinnuleysisbóta og lágmarkslauna er of lítið og það kann að letja einhverja frá því að taka lausum störfum sem gefa af sér lágmarkslaun en það stafar frekar af því að launin eru of lág en að bæturnar séu of háar. Lækkun bóta gæti því lækkað atvinnuleysið um þessi 3,5% sem myndi fela í sér að atvinnuleysi yrði 6,5% í stað 6,7% en ekki meira en svo.

Þeir eru eflaust til sem myndu reyna að hrekja þessa röksemdafærslu með því að benda á að kaupmáttur þeirra 400 sem fengu vinnu aukist sem síðan myndi koma af stað keðjuverkun. Eftirspurn í hagkerfinu myndi aukast sem næmi þessum aukna kaupmætti og þar af leiðandi þyrfti að ráða fleira fólk. Ég hef ekkert á móti eftirspurnarkeðjuverkun og jákvæðum hagrænum áhrifum hennar en ég er ansi hræddur um að þau rök falli um sjálf sig.

Ástæðan er einföld. Gefum okkur að þessir 400 fái allir lágmarkslaunastarf (annars ætti bilið litla á milli bóta og lágmarkslauna varla að vera vandamál). Ráðstöfunartekjur þeirra hækka um 16 þúsund krónur ef marka má frétt DV og ef bætur eru um 200 þúsund felur það í sér að tekjurnar hækka um 8% og samanlagður kaupmáttur eykst um 6,4 milljónir króna. Á móti kemur að 10.900 manns sitja eftir með 25% lægri ráðstöfunartekjur, eða 50 þúsund krónum minna á mánuði. Það þarf engan stærðfræðisnilling til þess að sjá í mjög fljótu bragði að samanlagður kaupmáttur hinna atvinnulausu mun minnka um talsvert mikið meira en þessar 6,4 milljónir króna. Nánar tiltekið minnkar hann um 272,5 milljónir króna þannig að samanlögð kaupmáttaráhrif þess að lækka atvinnuleysisbætur yrðu neikvæð um 266,1 milljón króna.

Þannig má færa rök fyrir því að það væri beinlínis skaðlegt fyrir hagkerfið að lækka atvinnuleysisbætur þar sem minni kaupmáttur mun skila sér í minni efnahagslegri virkni og fækkun starfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband