Var gengið of langt í skattalækkunum?

Til er fyrirbæri í hagfræði sem allmargir hagfræðingar trúa á og heitir Laffer-kúrva eða Laffer-bogi en samkvæmt honum er hægt að auka skatttekjur hins opinbera með því að lækka skatta. Þetta gildir að vísu aðeins upp að vissu marki, eins og sjá má af myndinni sem fylgir tenglinum hér að framan er kúrvan íhvolf og því með hámarkspunkt. Þegar skatthlutfallið er orðið lægra en það sem gefur hámarkspunktinn  taka skatttekjurnar að lækka á ný.

Undarnfarnar ríkisstjórnir lækkuðu skatta margoft og oft þvert á aðvaranir erlendra aðila á borð við IMF og OECD um að ekki væri ráðlegt að lækka skatta í miðju góðæri. Það væri eins og að skvetta olíu á eld. Ég man t.d. eftir einu tilviki þegar þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, lét hafa eftir sér að þessir erlendu aðilar þekktu ekki nægilega vel aðstæður á Íslandi. 

Nú þarf að leita leiða til þess að auka tekjur hins opinbera og þá væri ekki verra að geta gert slíkt með skattalækkunum. Ég geri ráð fyrir því að dæmið hafi verið reiknað og niðurstaðan hafi verið sú að ekki sé mögulegt að lækka skatta án þess að draga úr tekjum hins opinbera, Ísland sé vinstra megin við hámarkspunkt á kúrvunni.

Þá er spurningin: Getur verið að of langt hafi verið gengið í skattalækkunum undanfarinn áratug?


mbl.is Þýðir ekki að klína sök á Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sverrir! Loksins byrjaður að blogga - ég hef beðið eftir þessu en fékk enga tilkynningu - skamm!

Varðandi skattahækkanir/lækkanir verða menn auðvitað að passa sig að skoða ekki bara skattana heldur ástandið á markaðnum sem heild. Ef það er tekið inn í myndina að atvinnuleysi er að slá öll met og á sama tíma eru vextir í stjarnfræðilegum hæðum einmitt þegar þeir ætt að vera að lækka, þá er ekki líklegt að skattabreytingar muni hlýða Laffer-kúrvunni neitt sérstaklega, þolmörk skatta munu hækka verulega því fólk hefur ekkert val, það verður að taka þá vinnu sem býðst þannig að hækkaðir skattar á einstaklinga myndu líklega skila sér ansi lengi. Hækkaðir skattar á fyrirtæki og fjármagnseigendur væru hins vegar nánast pottþétt leið til að lækka skatttekjurnar því mörg fyrirtæki myndu neyðast til að segja upp fólki eða a.m.k. minnka hjá því vinnu og hætta við mögulegar ráðningar. Fjármagnseigendur myndu halda að sér höndunum og ekki fara af stað í mögulegar fjárfestingar. Fjármagnseigendur og fyrirtæki sem hafa tök á væru líkleg til að pakka saman og fara úr landi því þó fyrirtækja- og fjármagnstekjuskattar séu lágir miðað við önnur lönd spila fleiri þættir inn í, verðbólga og sérstaklega vextir eru hvorutveggja svo gjörsamlega út úr korti á Íslandi að hærri skattar erlendis gætu hreinlega þýtt betri aðstæður fyrir fyrirtækin.

Ég myndi segja að í stað þess að hjóla í skattabreytingar væri nær að hið opinbera einbeitti sér nú loksins að almennilegri tiltekt á sínu eigin heimili, draga úr botnlausri sóun sem virðist alltaf grassera þar, sama hver situr í stólunum. Mörg opinber fyrirtæki og stofnanir þyrfti að taka til gagngerrar endurskoðunar, ekki bara fara í reglulegan niðurskurð þar sem 10-20 manns er sagt upp og eru svo næstum ráðnir aftur inn um bakdyrnar.

Ég ætla nú ekki að þykjast vera sprenglærður um málið en nota bara svolítið sem kallast almenn skynsemi (sem því miður virðist ekki vera neitt sérstaklega almenn).

Gulli (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 08:55

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Blessaður og sæll,

Já, maður verður einhvern veginn að fá útrás fyrir skrifþörfina. Ég skal muna að senda þér tilkynningu næst ;).

Hvað Laffer kallinn varðar, þá gilda svona hagfræði"lögmál" almennt bara við kjöraðstæður, sniðnar að módelinu. Annars hef ég alltaf sett spurningamerki við Laffer-kúrvuna því hún felur í sér ókeypis hádegismat, nokkuð sem ekki á að vera til ... það er grundvallarlögmál hagfræðinnar. Laffer er hins vegar skemmtilegur kall.

Ég reikna með því að skattbreytingar verði síðasta úrræðið en vissulega væri gott að geta aukið tekjurnar með því að lækka skatta. Helst væri það hægt með því að lækka fyrirtækjaskatt til þess að hvetja þau til ráðninga en spurning hvort slíkt myndi ekki springa í höndunum á mönnum. Eflaust má skera víða niður í ríkisrekstrinum og síðan er spurning hvort hægt sé að leggja í einhverjar opinberar framkvæmdir sem væru atvinnuskapandi auk þess að gera íslenska samfélagið skilvirkara. Þannig myndu skatttekjur hins opinbera aukast auk þess sem stór kostnaðarliður myndi sparast ... ekki er ókeypis að hafa allt að 20-30 þúsund manns á atvinnuleysisbótum. 

Guðmundur Sverrir Þór, 10.2.2009 kl. 11:14

3 identicon

Einhvern veginn kemur upp í hugann setning sem ég heyrði ónefndan mann segja einhvern tímann: Ég ætla aldrei að blogga!

En svo bregðast krosstré sem önnur, fín skrif hjá þér karlinn og gott að þú haldir við skriftarþörfinni. Eitthvað verðurðu jú að hafa fyrir stafni í doktorsnáminu...

Björn Jóhann (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 14:40

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Takk fyrir það, þú ættir nú að vita manna best hvað skrifþörfin er sterk. 

Það er nú ekki svo langt síðan ég sagðist aldrei ætla á Fésbók. Og einu sinni var ég harðákveðinn í því að leggja aldrei fyrir mig hagfræði. Maður á víst aldrei að segja aldrei.

Guðmundur Sverrir Þór, 10.2.2009 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband