17.2.2009 | 21:12
Opnar markaðsaðgerðir fullreyndar
Með efnahagsáætlun sinni gengur Obama að nokkru leyti í fótspor Franklin D. Roosevelt sem reyndi að blása lífi í bandarískan efnahag með New Deal-áætluninni. Hagfræðingar hafa reyndar ekki verið á einu máli um hvort aðgerðir Roosevelt hafi rétt bandarísku þjóðarskútuna við eða hægt á batanum en mín skoðun er sú að New Deal hafi verið nauðsynleg.
Vissulega getur hagkerfið alla jafna rétt sig við úr lægð eða niðursveiflu en nú er ekki um neina venjulega niðursveiflu að ræða, ekki frekar en í kjölfar hrunsins 1929. Nú erum við í svokallaðri Keynes-ískri niðursveiflu, neikvæðum vítahring sem að mínu mati (og Keynes) er ekki hægt að rjúfa nema með aðgerðum á borð við opinberar fjárfestingar.
Að mínu mati eru tilraunir til þess að örva markaðinn með opnum markaðsaðgerðum, vaxtabreytingum og dælingu fjármagns inn á lánamarkaði, og ég tel víst að á næstu árum þurfum við hagfræðingar að endurskoða þá braut sem þessi grein okkar er komin inn á.
Það segir meira en mörg orð þegar þekktir markaðssinnar á borð við Nouriel Roubini eru farnir að óska eftir því að bandarísk stjórnvöld slái skjaldborg um bankakerfi landsins.
Obama staðfestir aðgerðaráætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Satt best að segja þekki ég engan hagfræðing sem heldur því fram að NEW DEAL hafi valdið straumhvörfum í bandarískum efnahag, hvað þá að þær aðgerðir hafi þurrkað út kreppuna.
All margir benda á að besta efnahagslausnin sé að láta illa stödd fyrirtæki fara á hausinn, til þess, umfram allt, að hreinsa út úr kerfinu. Hins vegar er þetta versta pólitíska lausnin - og skiptir þá ekki máli hvaða pólitíska guð menn tilbiðja, eins og sannast hefur vestur í henni ameríku. Þess vegna vilja ráðamenn dæla svo miklu fé í fyrirtæki þó svo að fyrir liggi að með því eru menn að viðhalda illa reknum fyrirtækjum og koma í veg fyrir endurnýjun.
Bandaríska leiðin, sem í upphafi fól í sér að ríkið keypti hin slæmu lán bankanna, mun sýna sig að vera þokkaleg leið til bjargar fjármálafyrirtækjum en afleit til þess að hin hreyfanlegu öfl markaðarins láti gott af sér leiða. Það er t.d. nauðsynlegt að færa verulega niður verð á fasteignum, sem þrátt fyrir allt er besta leiðin til þess að rétta t.d. fátæku fólki hjálparhönd við kaup á fasteign. Uppkaup slæmra lána mun hægja á þeirri þróun.
Þá er evrópska leiðin skárri, þar sem ríkið falast eftir hlut í fjármálafyrirtækjum. Þar á móti kemur að Evrópa býr við verra efnahagskerfi en Bandaríkin, vinnuaflið er lítt hreyfanlegt, innviðirnir sumir feysknir o.s.frv. Ætli Bandaríkin rétti ekki fyrr úr kútnum, þrátt fyrir svakalegar ríkisskuldir og í upphafi síðri efnahagsaðgerðir.
Ólafur Als, 17.2.2009 kl. 22:25
Sennilega var enginn þeirra hagfræðinga sem starfandi er í dag starfandi á tímum kreppunnar miklu, ég hugsa að Galbraith hafi verið sá síðasti og hann var svo sannarlega þeirrar skoðunar að í Keynes-ískri niðursveiflu bæri hinu opinbera að grípa inn í.
Sem hagfræðingur get ég sagt að það er ekkert mál að búa til líkan sem staðfestir það að hið opinbera eigi að láta kyrrt liggja og á slíkum líkönum byggja álit flestra þeirra hagfræðinga telja inngrip hafa verið til vansa. En heimurinn er ekki líkan og við getum ekki valið breyturnar eftir því hvað á best við. Þegar illa stödd fyrirtæki fara á hausinn missir fjöldi fólks vinnuna og enginn vinnumarkaður er svo sveigjanlegur að það hafi ekki áhrif, ekki í raunveruleikanum. Þá heldur spírall áfram niður á við og hin Keynes-íska niðursveifla dýpkar.Við erum að tala um lifandi fólk, ekki tindáta í líkani.
Ég sagði reyndar aldrei að New Deal hefði valdið straumhvörfum en vissulega var hún nauðsynleg að mínu mati.
Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 00:30
Ég sagði heldur ekki að New Deal hefði þurrkað út kreppuna. Það gerði heimsstyrjöldin síðari.
Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 00:31
Hvernig var aftur kenningin um hálærða hálfvitann? Það sem þarf er að setja mjög hörð viðurlög við efnahagsbrotum, þá hugsa sig hugsanlega hvítflibbarnir um áður en þeir nota smuguna sem hefur ekki ennþá verið bönnuð. - Ég held að það virki samt ekki, þeir hugsa eins og dópsalar; já já, ég veit, en ÉG næst ekki, ég á Vini í Góðum Stöðum.
Kannski þarf bara að setja lög um að allt sé bannað og þeir sem vilja gera eitthvað sækji um það?!! Í framhaldi af því verði sú einstaka hreyfing leyfð. Næsti sækir um aftur. (Hljómar smá eins og umsóknin um Námslán).
Foreldrar upplifa þetta, það er ekki hægt að búa til bannlista það verður að höfða til barnsins að það geri ekkert sem skaðar aðra.
Eins og þú segir Guðmundur þá virka líkön eins og forsendurnar sem eru gefnar og hafa sjaldnast eitthvað sameiginlegt með samtíðinni.
Kveðja, Kata
Kata (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 06:12
Það þarf engin líkön til þess að lesa í söguna, hún liggur fyrir og við getum lært af henni. New Deal veitti mönnum á afmörkuðum svæðum smá von í miðri kreppunni en yfir það heila breytti það engu um niðurlög kreppunnar. New Deal til varnar mætti reyndar benda á að löggjafarþingið bandaríska breytti áætlun Roosevelts nokkuð, enda þóttu ýmis ráð þar heldur "sósíalísk" fyirr þeirra tíma hugsun.
Vitanlega geta menn svo farið alræðisleiðina, líkt og þjóðernissósíalistar þriðja ríkisins eða kommúnistar í Sovétinu. Ég er reyndar á því að með bættum bókhaldsreglum megi koma í veg fyrir ýmis slæm græðgis- og ódæðisverk í fjármála- og viðskiptaheimi markaðshagkerfisins - en það er efni í aðra umræðu. Hættan við plástursaðgerðir Obama-stjórnarinnar eru vitanlega þær að með því er verið að festa fjármuni í miður arðbærar aðgerðir og þeim mun minna verður til ráðstöfunar fyrir nýsköpun. Um þetta þarf ekki að deila, jafn augljóst og það er.
Sumar "efnahagslausnir" eru pólitískt óyfirstíganlegar, það verður að viðurkennast. Hve vel höfum við ekki kynnst því hér heima á íslandi? Sem fyrr eru engar auðveldar lausnir en það er þrátt fyrir allt skylda hagfræðinga að benda á bestu leiðirnar út frá þeirra kunnáttu - svo er hægt að láta stjórnmálamennina um að hrinda þeim í framkvæmd.
Góðar stundir í "fyrirmyndarríkinu"
Ólafur Als, 18.2.2009 kl. 07:55
Sagan liggur fyrir já, og sagan sýnir okkur að það eru til kreppur sem markaðurinn getur ekki snúið við upp á eigin spýtur þó svo að öll líkön bendi til þess. Ástæðan er sú að það myndast neikvæður vítahringur (e. downward spiral) sem ekki er hægt að rjúfa nema með handafli. Sú kreppa sem heimurinn er að sigla inn í núna er af því tagi.
Það er rétt hjá þér að meginstraumar í hagfræði dagsins í dag segja réttara að láta óhagkvæm fyrirtæki fara á hausinn en tökum Ísland sem dæmi. Mjög stór hluti íslenskra fyrirtækja stefnir í dag í gjaldþrot og mörg þeirra eru tæknilega gjaldþrota. Á að láta öll þessi fyrirtæki gossa? Ef markaðurinn væri fullkomlega skilvirkur og fjármagn fengist umsvifalaust til nýrra fyrirtækja þá væri það kannski fýsilegt en markaðurinn er ekki skilvirkur, hann er frekar í áttina að vera tregur. Sérstaklega nú um stundir.
Þú segir að það sé skylda okkar hagfræðinga að benda á bestu leiðirnar út frá okkar kunnáttu. Ég tel þetta vera bestu leiðina og eins og ég segi í bloggfærslunni, þegar hagfræðingar á borð við Nouriel Roubini eru farnir að mæla meðinngripum hins opinbera, þá er fokið í flest skjól fyrir laissez-faire.
Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 08:49
Það er nú þetta með orðatiltækið "tæknilega gjaldþrota". Með því eiga sumir við að skuldir séu meiri en eignir en eins og við vitum báðir eru menn og fyrirtæki ekki gjaldþrota fyrr en ekki er hægt að standa við fjárhagsskuldbindingar. Mig langaði að impra á þessu því meðferð á gjaldþrota fyrirtæki getur verið með ýmsum hætti. Það er vissulega hægt að láta það "gossa" en margar aðrar leiðir kunna að vera mögulegar, allt eftir því hvað lánadrottnar og aðrir hlutaðeigandi aðilar eru tilbúnir til þess að leggja fram.
Sem dæmi má nefna að verkalýðsfélögin í bílaiðnaðinum vestra hafa ekki verið reiðubúin til þess að slá á launakostnað (70$/klst sé allt tiltekið), þó ekki væri annað en til þess að bjarga störfum. Með því að bjarga núverandi stjórnendum og eigendum bílarisanna eru fjármunir eyrnamerktir aðgerð, sem ætlað er að viðhalda slæmu ástandi. Afleiðingin er sú að hægist á nýsköpun og endurnýjun, sem eins og við vitum er lífsnauðsyn hverju efnahagskerfi.
Í mínum huga eru það EKKI góð vísindi að plástra illa rekin fyrirtæki með opinberu fé. Ég held að það eigi við í núverandi ástandi, alveg eins og þegar betur gengur, og þarf ekki að kalla slíkt frjálshyggju - miklu fremur að kalla það skynsemi. Eins og þú bendir réttilega á kann markaðshagkerfi að lenda í s.k. neikvæðum vítahring sem verður vart rofinn nema með aðkomu hins opinbera. Fyrir frjálshyggjugaur eins og mig er ég fullkomlega sáttur við slíkt - enda getum við einnig kallað það skynsemi að notast við ríkið til þess að gefa markaðshagkerfinu start. Hins vegar gætu sumir bent á að aðkoma ríkisins hafi beint og óbeint stuðlað að dýpt kreppunnar - en það er efni í aðra umræðu ...
Vitanlega á að láta íslensk fyrirtæki fara á hausinn, hvers eigendur og stjórnendur stefndu þeim í slíkt ástand. Hins vegar "vill svo heppilega til" að bankarnir eru komnir í eigu hins opinbera og því er handaflsaðgerðin óvenju nærtæak og handhæg nú. Ríkið getur því stýrt gjaldþrotsferlinu með fleiri hagsmuni að leiðarljósi en sem lánadrottinn. Hættan er þó sú að verndarsjónarmið verði um of látin ráða og því fest í sessi plástursefnahag til langframa. Hvar draga á mörkin milli þess að gera við eða rífa niður er viðfangsefni næstu vikna og mánaða. Í ljósi stjórnmálaástandsins hér heima er allt eins víst að miðstýrð efnahagsleg sjónarmið verði of ráðandi en vonandi ekki til langframa. Þjóðin hefur ekki efni á slíku, fremur en að leyfa vondum reglum og siðblindu viðskiptasiðferði steypa heilu bankakerfi á hvolf og í kjölfarið láta skattborgarana borga brúsann.
Að gefa sér að frjálshyggja eða laissez-faire megi jarða er jafn vitlaust og að segja að félagshyggja geti dáið. Hér þurfa menn að læra af reynslunni og finna nýjar leiðir til þess að virkja það afl sem í markaðshagkerfinu býr en drepa það ekki í dróma miðstýrðrar hugsunar. Það mun á endanum verða sá lærdómur sem við þurfum að draga af núverandi efnahagskreppu. En þangað til munu margar raddir hljóma og fylla það pólitíska tómarúm sem við búum við nú.
Ólafur Als, 18.2.2009 kl. 17:06
Það eru eflaust margar skilgreiningar á tæknilega gjaldþrota en í mínum huga þýðir það að fyrirtæki eigi ekki fyrir skammtímaskuldum sínum. Ég get alveg tekið undir það að alla jafna eigi ekki að plástra illa rekin fyrirtæki með opinberu fé en vandamálið er það að markaðurinn er ekki skilvirkur og því myndast alltaf töf á því að ný fyrirtæki myndist úr rústunum. Í árferði eins og nú er getur það tekið mörg ár þar sem traust er ekki til á markaði og fjármagnseigendur halda að sér höndum. Á meðan verður til atvinnuleysi og félagslegur kostnaður. Um leið dýpkar hinn neikvæði spírall.
Í mínum huga á hið opinbera að taka hlut í þeim fyrirtækjum sem það kemur til hjálpar. Annar möguleiki á inngripum er sá að ríkið stuðli að stofnun nýs fyrirtækis til þess að halda atvinnustiginu uppi.
Mig var nú farið að gruna að þú værir frjálshyggjumaður en það er þinn réttur eins og það er minn réttur að vera félagshyggjumaður og að vera villutrúaður hagfræðingur (þ.e. að trúa ekki í blindni á hinn alvitra markaði eins og margir okkar gera). Ég sagði aldrei að frjálshyggjan væri dauð, það er langt í frá. Það sem ég átti við var að við getum ekki keyrt hreint markaðshagkerfi, ekkert frekar en hreint marxískt hagkerfi.
Skoðanaskipti eru skemmtilegt, ekki satt
Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 17:44
Ergo - gjaldþrota.
Ég held að margir hafi oftúlkað trú frjálshyggjumanna og jafnvel hagfræðinga á markaðsöflum og þeim ósýnilegu öflum, sem þar eru að verki. Hin ósýnilega hönd verður ekki sjálfkrafa sýnileg og/eða ómerk þó svo að ríkið komi að flóknu gangverki markaðshagkerfisins. Hér skyldu menn varast að segja annað hvort eða.
Reyndar lít ég svo á að allir frelsisunnandi menn séu á einn eða annan máta frjálshyggjumenn. Hins vegar eru sumir þeirra reiðubúnir til þess að gefa forræði og miðstýrðri hugmyndfræði meira vægi og enn aðrir vilja með því kalla sig félagshyggjumenn.
Frjálshyggja og félagshyggja eru að mínu viti stjúpsystur, sem sífellt berjast um áhrif. Stjórnarskrár vesturlanda eru í grunninn byggðar á hugmyndafræði frjálshyggjunnar en hinni "vondu" stjúpsystur, félagshyggju, hefur í seinni tíð verið gefið vægi vegna þess, m.a. að í því felst sáttmáli á milli viðskptasjónarmiða og félagslegra, sem er skynsöm aðgerð og Hayek, Friedman of fleiri hafa tekið undir. Slík blöndun er alls staðar við lýði og þegar menn boða blandað hagkerfi eru menn í raun að skreyta sig með stolnum fjöðrum.
Markaðshagkerfið þarf á aðkomu ríkisins að halda og það er okkar hlutverk að sú aðkoma dragi ekki um of tennurnar úr gangverki kapitalismans - svo það haldi áfram að færa björg í bú og byggja undir þá félagshyggju sem þú vilt kenna þig við og á sér reyndar upphaf í kristindóminum (trúarbrögðum). En ef menn vilja kasta frjálshyggjunni út um gluggann, geta menn allt eins kastað lýðræði, atvinnufrelsi og öðru út um gluggann, sem stjórnarskrár vesturlanda tryggja þegnum landa sinna.
Að sama skapi er yfirlýstur frjálshyggjumaður einnig félagshyggjumaður, því hann vill öllum þegnunum vel - en gleymir ekki hinni persónulegu ábyrgð. Hins vegar leggur hann ekki hönd sína á hjartastað og segist hafa réttar skoðanir því hann vilji samborgurunum sínum svo vel. Ef fólk með pólitískt hjarta "vinstra megin" er reiðubúið til þess að eyða annarra manna peningum til þess að vinna sinni góðmennsku brautargengi er mikið til vinnandi að berjast gegn slíkum sjálfbirgingshætti.
Skemmtilegt ... jú!
Ólafur Als, 18.2.2009 kl. 19:00
Ég myndi segja að það væri fokið í flest skjól fyrir hagfræðinga sem mæla nú fyrir því að ríkið eyði meiri peningum og þenji hagkerfið meira út. Nær væri að spyrja sig hvers vegna hagkerfi heimsins er orðið eins og það er, það er vegna þess að eytt var um efni fram. Hvernig er þá hægt að rétta af hagkerfið með því að gera meira af því sama og olli þessu?! Mér þætti gaman að sjá hvar Roubini mælti með meiri ríkisútgjöldum. Hann hefur spáð því sem er að gerast í langan tíma og bent á að það sé vegna þess að hagkerfi eru þanin út (peningaprentun) án tengsla við verðmætasköpun, því þykir mér ótrúlegt ef hann hefur tekið 180° snúning í hugmyndafræði sinni. Ég er þeirra skoðunar að það sem er að gerast núna endurspegli hugmyndafræðilegt gjaldþrot þeirrar "mainstream" hagfræði sem haldið hefur verið á lofti undanfarna 3-4 áratugi, þ.e. að útskýra hagfræðina með stærðfræði. Hvernig hefur mönnum tekist að sannfæra pólitíkusa um að það sé hægt að útskýra og spá fyrir um hegðun fólks með stærðfræði? Það er hverjum sem vill það sjá ómögulegt nema við værum tölvur. Það er búið að afbaka of brengla grunnhagfræðina með þeim hætti að það er búið að stórskaða almenning um allan heim. Því miður eru hagfræðikennarar of hrokafullir til þess að viðurkenna þetta og vinda ofan af þeirri vitleysu sem þeir eru að kenna. Varðandi Keynes, þá sýnir það líka ótrúleg uppgjöf að hlaupa undir þann handraða. Kenningar Keynes hafa fyrir löngu sýnt sig að virka ekki, 7. áratugurinn í Bretlandi sýndi það svo um munaði. Þessi Obama pakki mun aldrei virka, enda sýna viðbrögð markaðarins það.
Egill (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 19:49
Eflaust hafa margir oftúlkað trú frjálshyggjumanna sem hóps en þú verður nú samt að viðurkenna að frjálshyggjumenn skiptast í hópa eins og aðrir. Ég þekki marga frjálshyggjumenn sem ganga svo langt að telja að ekki eigi að leggja vegi út á land nema markaðurinn krefjist þess. Meðalfrjálshyggjumaðurinn er hins vegar án vafa aðeins hófsamari.
Sjálfur álít ég mig vera frjálslyndan jafnaðarmann en eins og ég segi trúi ég ekki í blindni á hinn fullkomna markað og hef það fyrir reglu að draga allt í efa sem kennarar mínir halda fram í fyrirlestrum, sem er góð regla þó ekki sé nema vegna þess að þannig öðlast ég betri skilning á hlutunum. Ég er sammála þér að alls ekki má kasta frjálshyggjunni út um gluggann, það sem ég er að benda á er að inngrip eru bæði réttlætanleg og nauðsynleg í kreppu af því tagi sem nú herjar á okkur. Það var New Deal einnig að mínu mati.
Að eyða annarra manna peningum segirðu, hvar viltu draga mörkin?
Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 20:10
Egill: Ég er sammála þér með stærðfræðivæðingu hagfræðinnar en hvað Keynes varðar verðum við að vera ósammála. Það sem einkenndi 7. áratuginn í Bretlandi og þann 8. reyndar einnig er sú staðreynd að iðnaðarmannvirki landsins voru að verða úrelt og önnur lönd fóru fram úr, t.d. Þýskaland. Kemur kenningum Keynes ekkert við.
Roubini lagði ekki til aukin ríkisútgjöld heldur inngrip á bankamarkaði að sænskri fyrirmynd.
Við skulum sjá til með hvaða árangur aðgerðir Obama bera en ég tek það fram að það er ljóst að þær munu ekki snúa þróuninni við á einni nóttu. Þetta gæti orðið nokkurra ára ferli. Viðbrögð markaðarins gætu skýrst af mörgum þáttum, mitt mat er að óvissan um framtíð GM hafi íþyngt mönnum mikið enda var þróun dagsins í dag aðeins jákvæðari. Annars er ég að mestu hættur að fylgjast með daglegum hreyfingum á markaði, a.m.k. miðað við hvað ég gerði þegar ég var á Mogganum. Er meira með nefið ofan í skólabókum og svo að blogga að sjálfsögðu.
Guðmundur Sverrir Þór, 18.2.2009 kl. 21:34
Mörkin dreg ég við m.a. að hæla sig af slíkri hugsun. Það er gott að frjálslyndir jafnaðarmenn hafi tekið hægri sveiflu á seinni árum en að sama skapi er ekki framhjá því horft að kratar byggja flest sín afrek á hugmyndum og fjármunum annarra. Ef til vill má segja að þeir séu ágætis stjórnendur ...
New Deal skilaði litlu sem engu, og um það deilir ekki fræðasamfélagið, og þykir mér merkilegt að þú skulir samt mæra þau verk. Sú skoðun þín ber því merki stjórnmálaviðhorfs umfram annað. Gott og vel. Þetta kemur fyrir flest okkar.
Egill imprar á forvitnilegum vinklum, sem hafa lítillega birst í umræðunni að undanförnu. Þeir hafa ekki ratað inn á borð stóru fjölmiðlanna, sem hafa alla jafna ekki tíma til þess að reifa fræðilega umfjöllun af þessu tagi. Hún er hins vegar bráðnauðsynleg til þess að átta sig á aðdraganda kreppunnar. Hér takast menn á frá vinstri og hægri en ljóst er að umræðan hér á íslandi er afar einhliða og tekur ekki mið af raunverulegum átakaflötum í hinni fræðilegu umræðu heimsins.
Hér básúna menn í sífellu að frjálshyggjan sé dauð og koma með því upp um fáfræði sína eða vilja til lýðskrums á meðal þeirra sem þó vita betur. Vonandi verður það ekki hlutskipti doktorsnema að falla í þennan pólitíska forarpytt. Það er jú, þrátt fyrir allt, viðurkennd stefna frjálslyndra jafnaðarmanna að verja markaðshagkerfið innan þeirra marka sem forræðishyggja ykkar leyfir.
Mér líst vel á að mótmæla prófessorum og öðrum sem vilja "innprenta" og vona ég að þér hafi orðið ágengt í þeim efnum. Ég reyndi það m.a. við Háskóla íslands í mínu námi en varð minnst ágengt hjá vinstri sinnuðum kennurum. Ef ég ber saman reynslu mína frá námi mínu í Bandaríkjunum, þá var manni verðlaunað þar fyrir gagnrýni og þátttöku (uppbyggilega?!) í tímum en við HÍ þykja það sums staðar ekki góðir siðir. Sumir kennarar voru sérstaklega færir í að sveipa málin í hlutleysisbúning, jafnvel í kennslufræðinni, þar sem minnt er á hin hugmyndafræðilegu tengsl við kennsluaðferðir kennara, þ.e. að kennari getur ekki kúplað sig frá eigin hugmyndafærði, siðferðislegri eða stjórnmálalegri, við kennslu.
Jæja, ég læt þessu lokið í bili. Farnist þér vel við doktorsnámið.
Ólafur Als, 18.2.2009 kl. 22:57
Takk fyrir það. Eins og ég segi, frjálshyggjan er alls ekki dauð og í mínum huga geta "hyggjur" ekki dáið. Þær þróast.
Guðmundur Sverrir Þór, 19.2.2009 kl. 00:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.