21.2.2009 | 12:53
Hundadagakreppan kom á óvart
Má ekki segja að ein skilgreining á hruni eða kreppu sé einmitt að það sé hröð þróun sem sérfræðingarnir sjá ekki fyrir?
Grínlaust þá verður að segjast að Volcker hefur rétt fyrir sér, sérfræðingar sáu alls ekki fyrir hve ört og djúp og fallið yrði. Þegar lækkunin á bandarískum hlutabréfamarkaði hófst 20. júlí 2007, ég hef í viðskiptablaði Morgunblaðsins talað um Hundadagakreppuna, var aðallega talað um að markaðurinn væri að endurmeta áhættu og að þróunin myndi snúa við tiltölulega skjótt. Einhverjir töluðu um vikur, aðrir mánuði og sumir sögðu í mesta lagi ár. Nú er liðið meira en eitt og hálft ár og ljóst er að botninum er langt í frá náð.
Það sem skilur þetta hrun frá öðrum á undanförnum áratugum er að nákvæmlega ekkert traust ríkir á mörkuðum. Traust er ekki yfirleitt ekki tölulega mælanlegt og því er það ekki tekið með í þau líkön hagfræðinga sem telja markaðinn munu laga þetta vandamál. Þess vegna tel ég að grípa verði inn í, t.d. með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í Bandaríkjunum og nauðsynlegt er að grípa til þensluhvetjandi aðgerða á Íslandi að mínu mati.
Ég veit að margir eru mér ósammála en það er engu að síður gaman að skiptast á skoðunum við þá hina sömu.
Jafnvel sérfræðingar eru gáttaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það virðist sem ýmsir leikmenn hafi verið framsýnni og séð þróunina mun betur og nákvæmar fyrir en þessir svokölluðu sérfræðingar, hagfræðimenntun virðist byrgja mönnum óvilhalla sýn ef eitthvað er...nema flestir þeirra hafi bara verið huglausir og ekki þorað að benda á það sem blasti við hverjum þeim sem nennti að setja aðeins inn í málin, hrunið var algerlega óhjákvæmilegt, spurningin var aðeins hversu stutt væri í það að spilaborgin hryndi með bauki og bramli, það gerðist töluvert seinna en ég spáði um.
Georg P Sveinbjörnsson, 21.2.2009 kl. 14:15
Sæll Georg!
Þótt ég sé hagfræðingur ætla ég ekki að gerast málsvari allrar hagfræðingastéttarinnar en get þó ekki skrifað upp á það að hagfræðimenntun byrgi mönnum sýn. Að mínu viti hafði stór hluti hagfræðinga bent á að sú bóla sem myndast hafði á undanförnum árum myndi á endanum springa, enda er það eðli bóla. Það voru helst amatörar á borð við Hannes Hólmstein sem voru þess vissir að hér væri ekki á ferðinni bóla enda samrýmist það ekki trú þeirra á hinn alvitra markað. Hins vegar sáu fæstir fyrir að um væri að ræða upphafið á kreppu af því tagi sem ríkti á 4. áratugnum. Hagkerfið byggir á trausti og eins og ég segi þá er erfitt að gefa trausti töluleg gildi og það er jafn erfitt að spá fyrir um þróun trausts.
Eflaust hafa margir leikmenn séð það fyrir að bólan myndi springa en ég minnist þó ekki að hafa heyrt nokkurn þeirra tala um að djúp efnahagskreppa væri framundan. Þeim sem það gerðu óska ég til hamingju með að hafa náð að búa sig undir hrunið í tæka tíð.
Guðmundur Sverrir Þór, 21.2.2009 kl. 19:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.