23.2.2009 | 11:25
Dæmigert einkenni skorts á trausti
Ég hef í bloggfærslum mínum að undanförnu, og í svörum við athugasemdir, töluvert oft minnst á nauðsyn þess að traust ríki á markaði. Traust er grunnforsenda þess að markaðslögmálin virki og án þess er útilokað að markaðurinn geti á eigin spýtur náð að rífa sig upp úr þeim neikvæða spíral sem myndast. Þess vegna hef ég talað um nauðsyn þess að hið opinbera grípi inn, og á ekki bara við um einstök lönd.
Eins og sjá má af athugasemdum við vissar færslur hefur þessi skoðun mín fallið í misgrýttan jarðveg hjá þeim sem reka nefið inn á þessa bloggfærslu en enginn þeirra hefur þó komið með tillögur um aðrar lausnir, nema að láta markaðinn sjá um vandamálið. En hvernig á hann að fara að því? Mér er spurn.
Sú þróun sem Trichet lýsir er dæmigert einkenni þess að allt traust er á bak og burtu. Fjármálastofnanir eru tregari til að veita lán og fyrirtæki fresta fjárfestingum. Auk þess hefur eftirspurn eftir fjármagni minnkað þrátt fyrir að stýrivextir séu í lágmarki. Á þessu þarf að taka sem fyrst.
Dregur úr fjármagnsflæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:37 | Facebook
Athugasemdir
Traust myndi endurheimtast í einni svipan ef stjórnvöld hætta plástrun og þeir bankar sem eru ónýtir fara í þrot. Eftir stæðu bankar sem væru nægjanlega traustir og þeir gætu þá byrjað að lána sín á milli. Vantraustið er afleiðing óvissu og stjórnvöld alls staðar auka á óvissuna með tilgangslausu fjáraustri í lífvana fyrirtæki.
Egill (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 14:06
Og hvernig skilgreinirðu ónýtan banka?
Guðmundur Sverrir Þór, 23.2.2009 kl. 17:57
Egill, ég held að þú sért að rugla saman markaði án ríkisafskipta og fullkomnum markaði. Þar er töluverður munur. Fullkominn markaður er ekki til í alvörunni og verður það aldrei. Ég tek það fram að með fullkomnum markaði á ég við markað þar sem fullkomin samkeppni ríkir. Markaður sem fær að þrífast án allra afskipta er langt frá því að vera fullkominn. Þar eru alveg jafnmiklir markaðsbrestir og á öðrum mörkuðum og þar munu einnig myndast auðhringir og mónópól.
Guðmundur Sverrir Þór, 23.2.2009 kl. 18:58
Að þessu sögðu vil ég taka fram að þú verður að taka inn með í dæmið að það er alltaf töf þar sem ófullkominn markaður er aldrei fullkomlega skilvirkur. Á meðan þessi töf stendur yfir verða fyrirtæki gjaldþrota, einstaklingar atvinnulausir og heimili gjaldþrota. Þetta smitar síðan út frá sér, á önnur fyrirtæki og aðra banka sem etv voru ekki "ónýtir". Þetta er hinn neikvæði spírall sem myndast þegar traustið hverfur. Ef við tökum t.d. lægðina eftir að tæknibólan sprakk sem dæmi þá hvarf traustið alls ekki þá. Ég tel útilokað að traustið endurheimtist í einni svipan, það tekur mjög langan tíma ef ekki er gripið inn í. Eðli markaðarins samkvæmt þá er hann einfaldlega ekki fullkomlega skilvirkur, í raun er hann frekar í áttina að því að vera tregur.
Ég tek fram að ég er ekki á móti frjálsum markaði, hann á að vera eins frjáls og mögulegt er. En fullkominn markaður, og fullkomlega skilvirkur markaður, er alveg jafn mikil útópía og hið fullkomna jafnaðarsamfélag.
Guðmundur Sverrir Þór, 23.2.2009 kl. 21:07
Mér sýnist þú farinn að missa sjónar af kjarna málsins. Ég get ekki lesið úr mínum orðum að ég sé að mæla með fullkomnum markaði og tek enga afstöðu til þess hvort slíkur markaður geti eða geti ekki þrifist. Málið er bara einfalt: á meðan ríkisvaldið eys peningum í gjaldþrota fyrirtæki þá framlengir það óvissuna og þar með vantraustið. Settu þig í spor bankastjóra hjá banka sem hefur verið rekinn af skynsemi og ábyrgð og er því ekki á hausnum. Þú horfir á ríkið ausa fé vinstri hægri um leið og það hvetur þig til þess að lána meira. Þú hefur hins vegar ekki neina tryggingu fyrir því að ríkisvaldið haldi áfram á sömu braut. Hvað gerist ef skyndileg "stefnubreyting" á sér stað og ríkð gefst upp á að viðhalda þessum fyrirtækjum? Banki sem fyrir var stöndugur færi í þrot. Það er ekki hægt að verðlauna stjórnendur og eigendur fyrirtækja sem hafa verið rekin illa og af ábyrgðarleysi. Þau eiga einfaldlega að fara á hausinn og þar með í hendur lánadrottna þeirra sem þá bera ábyrgð á því að auka verðmæti þeirra á mun betri rekstrargrundvelli en áður. Með núverandi stefnu er ríkisvaldið með glæpsamlegum hætti að láta skattgreiðendur borga fyrir bruðl og ábyrgðarleysi fyrirtækjastjórnenda.
Egill (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 10:20
Sæll Egill.
Þú segir að traust myndi endurheimtast í einni svipan en þannig virkar eingöngu hinn fullkomlega skilvirki markaður. Sá er ekki til í raunveruleikanum. Á hinum raunverulega markaði er alltaf töf og á meðan hún stendur yfir geta jafnvel vel rekin fyrirtæki orðið gjaldþrota, eða þau þurfa að skera verulega niður. Þá missir enn fleira fólk vinnuna og heimili verða gjaldþrota sem síðan hefur áhrif á viðskipti við önnur fyrirtæki, sem eru ekki endilega illa rekin. Þetta er hinn neikvæði spírall sem ég er alltaf að minnast á.
Af hverju ætti banki sem er stöndugur að fara í þrot þótt ríkið hætti að dæla peningum inn á markaðinn? Hann þarf varla á lánsfé frá ríkinu að halda. Ég minnist þess ekki að hafa sagt að það eigi að verðlauna eigendur fyrirtækja sem eru illa rekin, skilyrði fyrir allri aðstoð á að vera að ríkið taki fyrirtækið yfir - stjórnendur hljóta að hafa verið að framkvæma fyrirmæli eigenda og spurning hvort refsa eigi þeim. Þær aðgerðir sem ég hef verið að kalla eftir eru ekki endilega að bjarga rekstri vonlausra fyrirtækja heldur á að bjarga störfum. Aðalatriðið er að atvinnustig haldist því það er fjarstæða að ætla að allir fái vinnu umsvifalaust (eins og margir hagfræðingar virðast trúa). Mín skoðun er að á krepputímum eigi hið opinbera að fara út í framkvæmdir sem auka skilvirkni samfélagsins, á Íslandi má t.d. nefna vegagerð og gangnagerð.
Þú talar um kjarna málsins. Kjarni málsins er í mínum huga sá að til þess að þessi kreppa verði ekki eins djúp og sú á 4. áratugnum verður að grípa inn í. Markaðurinn getur ekki rétt sig af á eigin spýtur. Traustið skortir.
P.S: Þú ert ekki enn búinn að skilgreina ónýtan banka. Það verður að tryggja að peningaflæði í hagkerfinu geti gengið snurðulaust og því þarf að bjarga sumum bönkum.
Guðmundur Sverrir Þór, 25.2.2009 kl. 15:18
Ég vil benda þér á að fjármálakrísan á 4. áratugnum varð að kreppu vegna afskipta ríkisvaldsins. Þannig að ef þú vilt aukin ríkisafskipti núna ertu hreinlega að biðja um kreppu. Þér væri nær að treysta markaðinum hann er alltaf yfirsterkari handstýrðum inngripum misgáfaðra stjórnmálamanna.
Ég veit ekki afhverju þú ert að rukka mig um skilgreiningu á ónýtum banka. Ég tók svona til orða þegar ég var að ræða um fyrirtæki sem er komið í þrot. Ónytur banki er sá sem hefur á efnahagreikningi sínum eignir sem eru allt of hátt skrifaðar og útlánasöfn sem einnig eru að stórum hluta töpuð en ekki afskrifuð. Þetta ástand er búið að ríkja í Japan í um 20 ár þar sem stjórnvöld hafa ekki þorað að taka sig til og hreinsa bankakerfið. Ég á mjög góða bók um sögu bankastarfsemi eftir hagfræðinginn Murray N. Rothbard á pdf. Ef þú læsir hana tel ég mjög góðar líkur á að þú skiptir um skoðun varðandi banka og það að láta skattgreiðendur "beila" þá út þegar eitthvað bjátar á. Bankar (líka seðlabankar) eru krabbamein í öllum hagkerfum sem arðræna vinnandi fólk og gera það að öreigum, með dyggri aðstoð stjórnmálamanna (meðvitað og ómeðvitað).
Egill (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 11:53
Ástæðan fyrir því að ég er að rukka þig um skilgreiningu á ónýtum banka er sú að sennilega eru ekki margir bankar eftir í heiminum sem ekki myndu falla undir slíka skilgreiningu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að "beila" eigi bankana út án skilyrða, ríkið á að taka bankana yfir og selja þá síðan um leið og færi gefst - til þess að tryggja að bankakerfið virki eins og því ber að gera.
Stjórnmálamenn eru misgáfaðir, þar erum við sammála, og að sjálfsögðu er mikilvægt að vanda vel til verka. En að mínu mati er glapræði að sitja með hendur í skauti og treysta á að markaðurinn rétti sig af. Þótt hann geri það í líkönum hagfræðinga er ekki þar með sagt að hann geri það í alvörunni. Of margar breytur ráða þar ferðinni, breytur sem ekki eru í líkönunum. Síðan er spurningunni ósvarað, hvernig á markaðurinn að rétta sig af og önnur spurning er hversu langan tíma það tekur.
Guðmundur Sverrir Þór, 26.2.2009 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.