23.2.2009 | 20:30
Er vaxtalækkun ráðleg nú?
Ég get tekið undir að það væri ágætt ef lífeyrissjóðirnir færðu erlendar eignir sínar til Íslands en er þó ekki viss um að vilji til slíks sé hjá sjóðunum. Hvað varðar lækkun stýrivaxta tel ég það ekki jafn góða hugmynd.
Í fyrsta lagi er ekkert sem segir að þótt Seðlabankinn lækki stýrivexti muni bankarnir fylgja í kjölfarið enda eru stýrivaxtabreytingar ekki fyrirmæli til banka heldur tilmæli. Á meðan verðbólga er há munu bankarnir ekki lækka vexti nema fá um það fyrirmæli frá ríkinu enda væri raunávöxtun lánsfjár þá neikvæð. Ríkið getur greitt niður tap ríkisbankanna af neikvæðri raunávöxtun en ég velti fyrir mér hvað verður um tap sparisjóða af henni? Á ríkið að taka það tap á sig?
Vaxtalækkuninni er án vafa ætlað að auka eftirspurn í hagkerfinu en ég er ekki sannfærður um að hún muni hafa tilætluð áhrif. Skuldir almennings eru að stærstum hluta verðtryggðar og því mun stýrivaxtalækkun ekki hafa nokkur áhrif þar á. Hvað gengistryggðar skuldir varðar mun vaxtalækkun ekki hafa nokkur áhrif, nema til veikingar krónunnar verði gjaldeyrishöftum aflétt, og því er hún til lítils. Vissulega mun vaxtalækkun hafa áhrif til lækkunar vaxtakostnaðar óverðtryggðra skulda en hver heildaráhrifin af því eru þarf að leggja mat á.
Í raun tel ég vaxtalækkun nú vera ávísun á að verðtrygging lánsfjár fer hvergi, fjármálastofnanir og fjármagnseigendur munu gera kröfu um jafnvel enn víðtækari verðtryggingu, og það er að mínu mati mun brýnna viðfangsefni að afnema verðtrygginguna en að lækka vexti.
Annars tel ég þá hugmynd mína að frysta bankakerfið enn þess virði að skoða af alvöru.
Viðbót: Sé hugmyndin sú að auka eftirspurn eftir fjármagni tel ég heimilum og fyrirtækjum í landinu lítinn greiða gerðan með því að auka möguleika þeirra á skuldsetningu.
Vextir lækki strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:38 | Facebook
Athugasemdir
Humm þú skuldar semsagt ekkert og ert þá fjármagnseigandi sem ert að gæta fés þíns
það er engin að tala um að auka vilja fólks til að fá lán heldur að fólk hafi tækifæri á að greiða lánin sín og jú vextirnir eru nefnilega verðbólguhvetjandi.
Ef ég rek fyrirtæki og á lager uppá 100 miljónir þá reikna ég að ég þurfi 20%ávöxtun á þessar 100 miljónir meðan stýrivextir eru háir. sá sem skuldar lagerinn þarf að borga 26% yfirdráttarvexti og hvað gerist vöruverð hækkar eða fyrirtæki fara á hausinn það er engin að tala um aukið lánsfé bara að bankarnir og fjármagnseigendur hirði ekki allan peninginn því ef ég ætti fyrirtæki með 100 miljóna lager og möguleika á kannski 7-8% verðtryggðri ávöxtun myndi ég bara hald útsölu og selja lagerinn á 100 millur á einhverjum tíma og setja draslið á verðtryggðan bankareikning og lifa flott af rentunni og 30 til 40 manns myndu missa vinnuna mínir starfsmenn og minna byrgja.
Hugsið út fyrir eigið nef.
Halldór (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 23:28
Jamm og farðu að lesa skólabækurnar þínar með gleraugunum ekki gleyma að setja þau upp.
spáðu einmitt í hvernig önnur hagkerfi virka og berðu þau saman við ísland með sína verðtryggingu sem ætti náttúrulega að vera búið að afnema fyrir löngu síðan.
Halldór (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 23:30
Æi, ég vildi að vextirnir á mínu láni myndu lækka !!!
TARA, 23.2.2009 kl. 23:44
Halldór: Ég er afskaplega fjarri því að vera fjármagnseigandi en er eins og stór hluti þjóðarinnar með verðtryggð lán og vil frekar sjá uppþaninn höfuðstól af þeim minnka en að sjá vexti lækka. Lækkun vaxta hefur nákvæmlega engin áhrif á mín lán þar sem þau eru verðtryggð, ekki nema skammtímalán. Verði vextir lækkaðir munu fjármagnseigendur krefjast þess að verðtryggingin haldi áfram, annars munu fjármagnseigendur einfaldlega setja féð í annað en bankana.
Vextir virka ekki verðbólguhvetjandi en það gerir verðtryggingin. Hana þarf að afnema strax og færa niður höfuðstól lána sem nemur uppsöfnuðum verðbótum og vöxtum á verðbótum. Fyrst þarf þó að frysta bankakerfið eins og ég legg til í þeirri færslu sem ég vísa í.
Auðvitað væri gott ef vextirnir lækkuðu en ég er bara ekki viss um að það sé ráðlegt. Hvað á t.d. að gera við sparisjóðina sem gætu aldrei tekið á sig neikvæða raunávöxtun?
Guðmundur Sverrir Þór, 24.2.2009 kl. 09:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.