Hefur ekkert með tjáningarfrelsi að gera

Pirate Bay-málið hefur vakið töluverða athygli í Svíþjóð enda eru sennilega fáar þjóðir jafnduglegar Svíum við að ná sér í höfundarréttarvarið efni á netinu. Ég hef áður bloggað um skoðun mína á slíku athæfi, það er vissulega ólöglegt en þó skiljanlegt (ég hef sjálfur notað Pirate Bay endrum og eins) en ég á þó mjög erfitt með að hafa samúð með þessum drengjum sem standa að vefnum.

Einhvern tímann í vetur kom það í ljós að á Pirate Bay mátti finna öll rannsóknargögn lögreglu vegna morða á tveimur börnum í bænum Arboga, þ.m.t. krufningarskýrslur og ljósmyndir af vettvangi glæpsins. Skorað var á forsvarsmenn Pirate Bay að taka þessi gögn af vefnum en þá kom einmitt þessi Peter Sunde í fréttum og sagði það ekki koma til greina. Það væri brot á tjáningarfrelsi þess er hafði skráð gögnin í kerfi Pirate Bay.

Forsvarsmenn vefjarins telja sig standa vörð um tjáningarfrelsið, sem í mínum huga er rugl. Ólöglegt niðurhal og dreifing á illa fengnu efni hefur ekkert með tjáningarfrelsið að gera, þetta er leið markaðarins til þess að sýna framleiðendum fram á að vara þeirra er of dýr; ekkert annað. Þeir sem miðla þessu efni verða hins vegar að gera ráð fyrir möguleikanum á því að þeim sé refsað, það er í trássi við lögin hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ég man hvað ég varð reiður þegar ég sá viðtalið við Sunde og eflaust hefur sú reiði eitthvað með skoðun mína í þessu máli að gera en það verður bara að hafa það.


mbl.is Geta ekki borgað og munu ekki borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú kem ég af fjöllum varðandi þetta mál og google er óvenjulega fáfróður líka; var þarna um að ræða rannsókn sem var ennþá í gangi?

Ef ekki, af hverju stafaði þá þessi reiði? 

kv.

Einar Þór (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 13:15

2 Smámynd: Kristján Bjarni Guðmundsson

Málið er ekki svona einfalt. Ekkert efni er geymt á netþjónum Piratebay og þegar notendur niðurhala efni fer það aldrei í gegnum netþjóna Piratebay. Þetta er sambærilegt því að búa til tengil á vefnum á eitthvað hugsanlegt ólöglegt efni.

Kristján Bjarni Guðmundsson, 17.4.2009 kl. 13:16

3 identicon

Sammála Kristjáni, þessi dómur fellur eingöngu vegna tæknilegrar vankunnáttu dómstólsins - meira að segja ákærandinn var hæddur í dómstólnum fyrir að vita ekki hvað hann var að kæra fyrir og þekkja ekki einföldustu tæknileg atriði í flutningi skráa með bittorrent tækninni.

Það sem Pirate Bay hópurinn er dæmdur fyrir væri hægt að dæma Google fyrir á sömu forsendum, ein af helstu röksemdum fyrir dómnum er að þeir bjóða upp á háþróaða leitarvél! Skráardeiling er ekki ólögleg á nokkurn hátt og því vægast sagt vafasamt að dæma þá fyrir að bjóða upp á þjónustu til að miðla skráardeilingarupplýsingum. Það er skýrt tekið fram þegar fólk setur inn upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast efnið að það sem fer þar inn sé fullkmomlega á ábyrgð þess sem setur inn efnið - Pirate Bay kemur aldrei að sjálfu efninu, hvorki geymir það né dreifir því, geymir og miðlar einungis upplýsingum hver býður efnið. Þetta er svipað og að dæma Eniro.se fyrir að dreifa upplýsingum um símanúmer eiturlyfjasala.

Gulli (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 13:39

4 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ólöglegt niðurhal og dreifing á illa fengnu efni hefur ekkert með tjáningarfrelsið að gera,

Það er ekki rétt að halda því fram að thepiratebay.org hali niður og dreifi ólöglegu efni og er fín skýring hjá Kristjáni um það mál.  Ekkert efni er geymt á netþjónum Piratebay og þegar notendur niðurhala efni fer það aldrei í gegnum netþjóna Piratebay. Sem þýðir að samkvæmt lögum eru þeir ekki að gera neitt ólöglegt, ef þeir eru að hafa af þessu tekjur þá er það annað mál og er matsatriði sem ég ætla ekki að segja til um hvort er löglegt eða ekki þar sem ég er ekki viss.

Málið er bara það að höfundarréttarlög eru orðin svo rosalega meingölluð og er það aðalega út af því að þessir samtök eru svo rosalega öflug að þeim hefur tekist að koma í gegn miklu magni af gögnum til að "verja" sinn rétt.

Persónulega skil ég ekki afhverju við erum ekki farin að borga höfundarréttar greiðslur fyrir t.d. rafmagnið okkar, skjáinn okkar, húsið okkar, lyklaborðið, músina, móðurborðið, örgjörva, vinnsluminni, harða diska, að vera til og margt fleira það er jú allt notað til að hala niður og birta höfundarréttarvarið efni ekki satt, þetta eru rökin sem eru notuð fyrir því að rukka fyrir t.d. geisladiska sem eru seldir hér á landi, sem þýðir að fyrirtæki sem kaupa geisladiska til að taka afrit af sýnum gögnum eru að borga höfundarréttargjöld fyrir það sem er nátturulega bara fásinna.

Það er líka hægt að halda því fram að þetta er ekki ólöglegt því að þú ert ekki með neitt efnislegt í höndunum þar sem þetta er í raun ekkert annað en rofar sem eru af eða á í tölvunni þinni sem hún þýðir yfir á skjáinn þinn, þú ert ekki að hafa tekjur af neinum fyrir það verk að sækja þér höfundarréttarvarið efni þar sem það reynist erfitt að sanna að þú hefðir verslað þessa vöru ef þú hefðir ekki getað nálgast hana í gegnum netið.

Versta við þetta allt saman er að þessi hagsmunasamtök eru að missa sig svo mikið í þessu svokallaða stríði að það bitnar á þeim sem kaupa hlutinn löglega, fyrir mínar sakir þá er ekkert meira óþolandi en að vera neyddur til að horfa á auglýsingar á DVDisknum sem ég var að versla mér og hvað sérstaklega þær auglýsingar um þjófnað á höfundarréttarvörðu efni, neyða þig til að hafa diskinn í geisladrifinu til að spila tölvuleik og setja inn öryggisvarnar forrit sem skiptir út reklum í tölvunni hjá þér og hafa áhrif á virkni annara forrita, með þessu er hreinlega verið að biðja okkur um að nálgast þetta í gegnum netið þar sem búið er að fjarlægja þessa hluti fyrir þig og það ókeypis.

Þessi samtök vilja halda því fram að netið sé að hafa af þeim svo mikla sölu að þau séu að fara á hausinn, þetta er besta auglýsing sem þessir aðilar fá, flest þetta fólk sem sækir hvað mest og borga aldrei er fólk sem hefði aldrei í fyrsta stað verslað hlutinn en fyrir mínar sakir þá sæki ég fullt af efni á netinu til að skoða hvort mér líst á það og ef það er gott efni þá kaupi ég það þó það sé oftast eftir að það er búið að lækka aðeins í verði, ef ég hefði ekki getað nálgast þetta efni á netinu þá væri ég ekki að kaupa meira en ég geri og á það við um flesta og er það í alveg nokkrum tilvikum þar sem ég nálgaðist efni á netinu sem ég hafði ekki hugmynd um og verslaði mér seinna vegna þess að þetta var gott efni.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 17.4.2009 kl. 13:43

5 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Hvað varðar þetta efni um rannsóknina á morðunum þá var Pirate Bay í lófa lagið að loka fyrir efnið, þeir hafa gert það áður. Málið var fyrir dómstólum og þetta voru m.a. ljósmyndir af líkum barnanna og ýmis önnur sönnunargögn.

Ef þetta er sambærilegt því að búa til tengil á ólöglegt efni þá ertu vísvitandi að miðla því efni með því að búa tengilinn til og það er ólöglegt. Ég stend við það að mér tel dreifingu á illa fengnu efni ekki tjáningu (við hljótum að vera sammála um að þeir sem deila efninu í eigin tölvum, seeda því, eru að dreifa illa fengnu efni).

Guðmundur Sverrir Þór, 17.4.2009 kl. 14:20

6 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ég stend við það að mér tel dreifingu á illa fengnu efni ekki tjáningu (við hljótum að vera sammála um að þeir sem deila efninu í eigin tölvum, seeda því, eru að dreifa illa fengnu efni).

Það er akkúrat málið og var ég ekki að halda því fram að svo væri ekki, sá aðili er að miðla efninu ekki thepiratebay.org og eftir minni bestu vitund þá er það ólöglegt að dreifa efninu en ekki að sækja það (hversu illa fengið það er er nátturulega matsmál líka þar sem það er ekki ólöglegt að gera öryggisafrit af diskum). Þess vegna er ekki svo langt frá því að halda því fram að það sé lítill munur á thepiratebay.org og google því báðir aðilar geyma ekkert af efninu , þeir eru bara gagnagrunnur sem innihalda upplýsingar um tengipunkta. T.d geymir google meiri upplýsingar um hvernig nálgast skal efni en thepiratebay.org, prófaðu bara að slá inn nafn á bíomynd ásamt torrent (semsagt t.d. : trainspotting torrent) þú færð örugglega fleiri niiðurstöður sem leiða á torrent linka til að sækja efnið á google heldur en torrent síðu.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 17.4.2009 kl. 15:02

7 identicon

Ég í raun get ekki annað en tekið undir það sem aðrir eru að segja hérna.

Mönnum kann að finnast þetta vitlaust og siðlaust og ljótt og leiðinlegt. En sannleikurinn er sá að ég þori ekki að ímynda mér löggjöf sem getur tekið á þessu 'vandamáli' því hún myndi eflaust hafa hræðilegar afleiðingar. Kínverskar afleiðingar er ég hræddur um.

Þetta mál snýst í raun um leti lögreglu. Þeir nenna ekki að elta þá sem brjóta höfundarréttarlög og ákveða því að taka bara möglulaust við áróðri frá Hollywood. The Pirate Bay verður fyrir barðinu á slíku, burt séð frá því hvar samúð manna liggur. Lagalegar forsendur þykja mér hæpnar enda sýnist mér sem að dómurinn sé alfarið byggður á tæknilegu skilningsleysi dómara og leikmanna. Fólk vill ofboðslega hafa alla þessa tölvutækni og allt sem hún hefur upp á að bjóða en skilur ekki hversu langt takmarkanir, eins og einkaleyfi eða höfundarréttur, getur gengið.

Þetta er í raun pólitísk spurning... upprunnin í Bandaríkjunum. Ég segi það svo fólk eigi auðveldara með að ákveða sig :D

Thepiratebay.org er í eðli sínu ekki öðruvísi en Google. Það tekur mig svona 1,3 sekúndur að finna efni varið höfundarrétti með Google. (Það er rangt að tala um ólöglegt efni í þessu samhengi).

Mbk,
Drengur

Drengur (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 16:45

8 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ég heyrði því fleygt í sænsku útvarpi í dag, ég var í strætó og því get ég ekki sagt með vissu hvaða stöð það var á, að skv. sænskum lögum sé maður sem rekur flóamarkað þar sem hann veit að verslað er með stolna vöru sekur um miðlun á þeirri stolnu vöru. Þetta þó hann geri ekki annað en að leigja út sölutjöld o.fl. í þeim dúr. Hið sama hlýtur að eiga við um mann sem setur link á efni sem hann veit að er stolið eða ólöglegt (ekki segja að menn linki á efni sem þeir vita ekki hvað er). Forsvarsmönnum Pirate Bay var vel ljóst að í gegnum vef þeirra var dreift stolnu efni enda eru þeir dæmdir fyrir aðstoð við brot á höfundarréttarlögum, ákærunni um brot á höfundarréttarlögum var vísað frá.

Ég tek það fram að ég þekki þessa tækni ekki út í þaula  og eins og fram kom í sjálfri bloggfærslunni þá litast skoðun mín í þessu máli án efa af óbeit minni á mönnunum vegna þessa máls með barnamorðin. Þessir menn hafa sagt sig vera að verja tjáningarfrelsið og það er að mínu mati bull. Þeim var í lófa lagið að loka fyrir efnið sem tengdist málinu í Arboga. Að sama skapi var þeim í lófa lagið að loka fyrir efni sem sannanlega var illa fengið.

Guðmundur Sverrir Þór, 17.4.2009 kl. 22:00

9 Smámynd: Björn Heiðdal

Þið hljótið þá allir að vera sekir!  Auglýsið The xxxxxxx grimmt og fáið auglýsingatekjur af Nova hér til hægri í formi ókeypis mbl.blog.is.

Björn Heiðdal, 17.4.2009 kl. 22:14

10 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ef við verðum ákærðir

Guðmundur Sverrir Þór, 17.4.2009 kl. 22:25

11 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ég heyrði því fleygt í sænsku útvarpi í dag, ég var í strætó og því get ég ekki sagt með vissu hvaða stöð það var á, að skv. sænskum lögum sé maður sem rekur flóamarkað þar sem hann veit að verslað er með stolna vöru sekur um miðlun á þeirri stolnu vöru. Þetta þó hann geri ekki annað en að leigja út sölutjöld o.fl. í þeim dúr. Hið sama hlýtur að eiga við um mann sem setur link á efni sem hann veit að er stolið eða ólöglegt (ekki segja að menn linki á efni sem þeir vita ekki hvað er). Forsvarsmönnum Pirate Bay var vel ljóst að í gegnum vef þeirra var dreift stolnu efni enda eru þeir dæmdir fyrir aðstoð við brot á höfundarréttarlögum, ákærunni um brot á höfundarréttarlögum var vísað frá.

Með sömu rökum ætti að vera hægt að kæra þann sem selur þér tölvuna þína þar sem það eru mjög góðar líkur á að hún verði notuð í höfundarréttarvarið efni á einhverju tíma punkti í sínum líftíma hvort sem það er viljandi eða óviljandi, einnig ætti að vera hægt að kæra ISPa(Nettengingar þjónustu veitendur) þar sem það er vitað mál að þeirra tenging er notuð af einhverjum á einhverjum tíma punkti til að miðla í aðra hvora áttina höfundarréttarvörðu efni.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.4.2009 kl. 00:28

12 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Eigum við ekki að halda okkur við það sem er raunhæft og sannanlegt í þessu máli og sleppa hundalógíkinni.

Það er auðsannanlegt að í gegnum Pirate Bay var hægt að ná í illa fengið efni, það er líka hægt að sanna að stjórnendur fyrirtækisins vissu það og að þeir högnuðust auk þess afar vel á því. Þeim bauðst margoft að loka fyrir þetta efni en þeir kusu að hundsa slíkar óskir (nema a.m.k. einu sinni og það hefur væntanlega verið vegna þess að þeir töldu sig eiga á hættu að missa auglýsendur). Þeir geta því ekki borið því við að þeir hafi agerað í góðri trú (eins og reyndar bæði tölvusalinn og ISPinn gætu auðveldlega gert ef við förum aðeins í dæmið þitt að ofan). Bara nafnið á vefnum er til marks um að þeir hafi gert sér grein fyrir því til hvers hann yrði notaður.

Ég geri mér grein fyrir því að tækniþátturinn í þessu máli er flókinn og það má vel vera að mennirnir verði sýknaðir á hærra dómsstigi. Eftir stendur að hvað sem öllum tæknifræðilegum skilgreiningum og hártogunum (ég leyfi mér að kalla það hártoganir og veit að ég mun ergja ykkur alla) þá var þeim fullkunnugt um að í þeirra skjóli og þeirra umboði var verið að dreifa höfundarréttarvörðu efni og líka stolnu efni, svo sem gögnunum úr þessu dómsmáli sem ég minntist á.

Þeir sem hafa lesið bloggfærslur mínar um Ipred-lögin vita að ég er alls ekki neikvæður í garð skráardeilingar (ég hef meira að segja notað Pirate Bay nokkrum sinnum). Það sem ergir mig er aðallega það að að forsvarsmenn Pirate Bay hafi skýlt sér á bak við tjáningarfrelsið, sérstaklega hvað varðar dómsmálið í Arboga.

Guðmundur Sverrir Þór, 18.4.2009 kl. 07:56

13 identicon

Mér finnst ótrúlegt hvað þetta mál gegn piratebay hefur gengið langt. Eins og komið hefur fram hér þá er ekkert af þessu efni vistað á þeirra netþjónum og eru þeir í raun ekkert annað en leitarvél eins og t.d. Google og MSN search. Ég tel samt sem áður að atriði eins og t.d. þetta með morðin sé langt frá því sem kalla má tjáningarfrelsi og þeir hefðu auðveldlega geta komið í veg fyrir áframhaldandi dreifingu á því.

Þessi tækni P2P eða torrent dreifing er snilld. Með henni er hægt að nálgast skrána sem maður er að leita að frá mörgum aðilum í einu, tekur einn bita hér og annan þar. Þessi tækni hefur skilað sér yfir í fleiri svið og má því segja að þessi "sjóræningjastarfsemi" hafi í raun komið netheiminum eða tölvuheiminum til góða. Það sem eigendur höfundaréttar eða útgefendur ættu að gera er að koma sér sjálfir upp svona vef og vera með möguleika á áskrift eða að maður geti keypt eina og eina skrá fyrir lítið fé, ég held að það væri mikið sterkari leikur hjá þeim. Flestir vilja eiga það sem þeir eru með og það löglega eða ég vil allavega trúa því að fólk sé ekki svo illa innrætt.

Burkni (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 08:18

14 Smámynd: Kristján Bjarni Guðmundsson

Það er auðsannanlegt að í gegnum Pirate Bay var hægt að ná í illa fengið efni, það er líka hægt að sanna að stjórnendur fyrirtækisins vissu það og að þeir högnuðust auk þess afar vel á því. Þeim bauðst margoft að loka fyrir þetta efni en þeir kusu að hundsa slíkar óskir (nema a.m.k. einu sinni og það hefur væntanlega verið vegna þess að þeir töldu sig eiga á hættu að missa auglýsendur). Þeir geta því ekki borið því við að þeir hafi agerað í góðri trú (eins og reyndar bæði tölvusalinn og ISPinn gætu auðveldlega gert ef við förum aðeins í dæmið þitt að ofan). Bara nafnið á vefnum er til marks um að þeir hafi gert sér grein fyrir því til hvers hann yrði notaður.

Það er líka auðsannanlegt að hægt er að ná í höfundaréttvarið efni í gegnum Google. Stjórnendur Google virðast hagnast mjög vel á því.

Ég geri mér grein fyrir því að tækniþátturinn í þessu máli er flókinn og það má vel vera að mennirnir verði sýknaðir á hærra dómsstigi. Eftir stendur að hvað sem öllum tæknifræðilegum skilgreiningum og hártogunum (ég leyfi mér að kalla það hártoganir og veit að ég mun ergja ykkur alla) þá var þeim fullkunnugt um að í þeirra skjóli og þeirra umboði var verið að dreifa höfundarréttarvörðu efni og líka stolnu efni, svo sem gögnunum úr þessu dómsmáli sem ég minntist á.

Tækniþátturinn er ekkert flókinn. EKkert höfundaréttvarið efni er geymt á tölvum Pirate Bay, svo einfalt er það. Google er líka fullkunnugt um að það er höfundaréttvarið efni í leitarniðurstöðum þeirra.

Málið snýst um hvort Google eða Pirate Bay ber ábyrgð á því efni sem hægt er að nálgast í gegnum það og er í eigu annarra aðila. Flestum finnst að Google beri ekki ábyrgð í þeim efnum. Samt sem áður ritskoðar Google það efni sem kemur í leitarniðurstöðum (í kína), þannig að þeir gætu tekið út allt hugsanlegt höfundaréttvarið efni ef þeir vildu. Það myndi að vísu þýða að Google yrði ónothæf sem leitarvel en málið er að þeir hafa sýnt að þeir geta ritskoðað ef þeir vilja.

Kristján Bjarni Guðmundsson, 18.4.2009 kl. 10:55

15 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Þeir sem hafa lesið bloggfærslur mínar um Ipred-lögin vita að ég er alls ekki neikvæður í garð skráardeilingar (ég hef meira að segja notað Pirate Bay nokkrum sinnum). Það sem ergir mig er aðallega það að að forsvarsmenn Pirate Bay hafi skýlt sér á bak við tjáningarfrelsið, sérstaklega hvað varðar dómsmálið í Arboga.

Ja, það er nú málið með þetta blessaða tjáningarfrelsi að það eru allir með mismunandi skoðun á því, persónulega er ég sammála þér tjáningarfresli er gott og blessað á meðan það skaðar engann aðrann því þá erum við farnir að troða á mannréttindum hins aðilans að mínu mati.

Það sem eigendur höfundaréttar eða útgefendur ættu að gera er að koma sér sjálfir upp svona vef og vera með möguleika á áskrift eða að maður geti keypt eina og eina skrá fyrir lítið fé, ég held að það væri mikið sterkari leikur hjá þeim.

Það er akkúrat málið, þeirra mistök eru að reyna að berjast á móti tækninni í staðin fyrir að nota hana og bitnar það bara á þeim sem eru að kaupa vöruna löglega.

Eigum við ekki að halda okkur við það sem er raunhæft og sannanlegt í þessu máli og sleppa hundalógíkinni.

Viðurkenni það að þessi dæmi voru ekki 100% en ef við höldum okkur við raunhæft dæmi, þá væri hægt að kæra ISPinn sem hýsir serverana hjá piratebay fyrir þetta, þarna er komið mjög raunhæft dæmi fyrir þetta.

Málið snýst um hvort Google eða Pirate Bay ber ábyrgð á því efni sem hægt er að nálgast í gegnum það og er í eigu annarra aðila.

Spurningin er nátturulega hversu sterk er meðsektin í þessu, munurinn sem fólkið er að sjá á google og thepiratebay er að það er hlutfallið á því sem talið er ólöglegt og því sem talið er löglegt, thepiratebay með stærra hlutfall of því ólöglega miðað við það löglega.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.4.2009 kl. 12:03

16 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ég þakka fyrir athyglisverðar athugasemdir og góðar umræður.

Guðmundur Sverrir Þór, 18.4.2009 kl. 15:11

17 identicon

Upp á grínið þá bendi ég á þetta:
http://www.google.com/cse?cx=003849996876419856805:erhhdbygrma&ie=UTF-8&q=&sa=Search

Drengur (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 14:20

18 identicon

Afhverju finnst mér þetta ekki skrítið:
http://torrentfreak.com/pirate-bay-lawyer-is-biased-calls-for-a-retrial-090423/?a=a

Drengur (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband