24.6.2009 | 20:49
Hættulegur hugsunarháttur
Engum dylst að ástand efnahagsmála á Íslandi er afar erfitt og hefur orðið kreppa oft verið notað. Í lok ágúst í fyrra skrifaði ég pistil í Viðskiptablað Morgunblaðsins þar sem ég benti á að hugtakið kreppa væri ofnotað á þeim tíma og það stend ég við. Þegar sá pistill var ritaður ríkti ekki efnahagskreppa á Íslandi og þótt stutt hafi reynst í hrun bankakerfisins lágu engar upplýsingar fyrir sem bentu til þess hversu ástandið var í raun alvarlegt (pistilinn má sjá neðst í þessari bloggfærslu).
Að þessu sinni er engin ástæða til þess að reyna að neita því að á Íslandi ríkir kreppa. Mjög djúp efnahagslægð sem að öllum líkindum verður langvinn. Ég vil hins vegar benda á hið hættulega við það sem ég kýs að kalla kreppuhugsunarhátt. Eitt dæmi um slíkan hugsunarhátt kom fram í gær þegar Vísir birti frétt þess efnis að Sambíóin hyggðust bjóða þeim sem misst hafa vinnuna sérkjör í bíó. Eflaust er þetta vel meint hjá eigendum fyrirtækisins (auk þess sem þeir vilja ekki missa viðskipti þeirra sem eru orðnir atvinnulausir) en í mínum huga geta tilboð af þessu tagi gert illt verra.
Eins og fram kemur í pistli mínum tel ég kreppu ekki eingöngu hagfræðilegt fyrirbæri heldur einnig sálfræðilegt og hér er ég að fjalla um sálfræðilegu hliðina. Atvinnuleysi er eitthvert mesta böl sem til er og þeim sem misst hafa vinnuna og sjá fram á langvarandi atvinnuleysi líður sjaldan vel andlega. Viðkomandi eru langt niðri eins og það heitir í dag og atvinnulausir geta auðveldlega túlkað tilboð af þessu tagi sem ölmusu. Hætt er við því að slíkt ýti fólki enn dýpra í tilfinningu vanmáttar sem síðan gerir því enn erfiðara að rjúfa þann vítahring sem því hefur verið hrint inn í.
Í mínum huga er nauðsynlegt að spyrna gegn atvinnuleysinu og rjúfa hinn neikvæða spíral. Þetta má t.d. gera með auknum opinberum framkvæmdum í stað niðurskurðar auk þess sem ljóst hlýtur að vera að fyrirtæki sem hefur svigrúm til þess að skerða tekjur sínar ætti að hafa jafnmikið svigrúm til þess að auka útgjöldin í staðinn. Það væri því kannski nær að ráða nokkrar sálir í vinnu í stað þess að bjóða þeim ölmusu.
Að lokum fylgir pistill minn úr Viðskiptablaði Morgunblaðsins 21. ágúst 2008 (ég hef fengið leyfi ritstjóra Morgunblaðsins til þess að birta á blogginu þær greinar sem ég skrifaði undir nafni þegar ég var blaðamaður á Mbl.):
Hættum þessu krepputali
Eftir Guðmund Sverri Þór
sverrirth@mbl.is
MARGIR eru uggandi yfir ástandinu í efnahagsmálum landsins og því er alls ekki að neita að blikur eru á lofti, jafnvel óveðursský. Æ oftar heyrum við ýmsa álitsgjafa, bæði á bloggi í og í fjölmiðlum, tala um að efnahagskreppa sé skollin á. Hún er þó ekki farin að gera vart við sig og okkur ber að varast að tala of mikið um kreppu. Nýlega skrifaði ég pistil hér í Viðskiptablað Morgunblaðsins þar sem ég fjallaði um verðbólgu og skilgreindi hana sem sálfræðifyrirbæri ekki síður en peningalegt fyrirbæri. Efnahagskreppa er annað dæmi um sálfræðilegt fyrirbæri.
Erlendir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að nota hugtakið recession þegar þeir hafa fjallað um efnahagsmál að undanförnu. Notkun hugtaksins hefur verið frekar frjálsleg sem t.d. kristallast best í því að erlendir fjölmiðlar voru farnir að tala um recession strax í ágúst í fyrra. Þá var vissulega ljóst að áhrif hinna ótryggu fasteignalána vestanhafs á heimshagkerfið myndu verða töluverð en engu að síður var allt of snemmt að fara að tala um recession. Íslenskir fjölmiðlar hafa hiklaust þýtt hugtakið recession sem kreppa sem er í raun enn frjálslegri meðferð á hugtakinu.
Þunglyndi
Rétt þýðing á recession er niðursveifla og skilgreiningin á niðursveiflu er tveir samliggjandi ársfjórðungar þar sem verg landsframleiðsla dregst saman. Í ljósi þessa fullyrði ég að notkun erlendra fjölmiðla á recession hefur verið frjálsleg. Eftir því sem ég best veit er aðeins eitt vestrænt hagkerfi í niðursveiflu samkvæmt skilgreiningu og það er Danmörk. Ekki var ljóst að danska hagkerfið væri í niðursveiflu fyrr en um mitt þetta ár og sýnir það greinilega hversu ankannaleg notkun orðsins recession var fyrir ári.Nú er svo sem ekki til nein formleg hagfræðileg skilgreining á kreppu líkt og á niðursveiflu en flestir eru þó sennilega sammála um það að kreppa sé verra ástand en niðursveifla. Í ensku er talað um depression, sem einnig þýðir þunglyndi, og það lýsir merkingu hugtaksins kannski einna best.
Nauðsynleg aðlögun
Kreppa er mjög gildishlaðið orð. Orð sem flestir tengja við Kreppuna miklu á 4. áratug síðustu aldar. Þá voru aðstæður í efnahagsmálum heimsins mjög erfiðar, Ísland var þar engin undantekning eins og flestir vita, og færa má rök fyrir því að kreppan mikla hafi verið undanfari síðari heimsstyrjaldarinnar.Eins og fram kemur hér í upphafi er kreppa að mörgu leyti sálfræðifyrirbæri. Hún er sálfræðifyrirbæri vegna þess að þegar óveðursskýin hrannast upp í efnahagslífinu verður fólk svartsýnt og breytir neysluvenjum sínum. Slíkt heitir oft nauðsynleg aðlögun hjá hagfræðingum og öðrum þeim álitsgjöfum og því er ekki að neita að vissulega má draga töluvert úr þeirri þenslu sem einkennt hefur íslenska hagkerfið. En aðlögunin getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu margra fyrirtækja, ekki endilega eingöngu þeirra sem eru illa rekin, heldur fyrir afkomu margra heimila; eins og við erum farin að sjá.
Mikið tal um kreppu getur haft þau áhrif að svartsýnin eykst. Kreppa er hugtak sem liggur eins og mara yfir hagkerfinu þegar það fær byr undir vængina. Fólk getur auðveldlega fengið kreppuna á heilann, eins og það heitir á vondu máli, og miðar neyslu sína við að kreppa sé í vændum eða þegar komin. Það sem getur reynst enn hættulegra er að fjármögnunaraðilar geta fengið kreppuna á heilann. Þeir verða of varfærnir og því fæst ekki fjármagn til góðra verkefna. Erlendir fjármagnseigendur forðast síðan að fjárfesta í hagkerfinu. Hagkerfið stirðnar upp og kreppan gæti vel orðið að veruleika.
Ekki einu sinni niðursveifla
Eins og áður segir eru blikur á lofti í hagkerfinu. Hin nauðsynlega aðlögun. En því fer fjarri að hér ríki nokkur efnahagskreppa. Hagvöxtur mældist 1,1% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Tölur annars ársfjórðungs liggja ekki fyrir en miðað við að hagvöxtur var á fyrstu mánuðum ársins er ljóst að við getum ekki einu sinni sagt að hér sé niðursveifla. Íslenska hagkerfið er í efnahagslægð. Kreppan er, sem betur fer, víðsfjarri og því eigum við að fara gætilega í allt krepputal. Eins og lýst hefur verið hér að framan getur krepputalið valdið kreppu. Kreppa er nefnilega að stórum hluta sálfræðilegt fyrirbæri.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:54 | Facebook
Athugasemdir
"Í mínum huga er nauðsynlegt að spyrna gegn atvinnuleysinu og rjúfa hinn neikvæða spíral. Þetta má t.d. gera með auknum opinberum framkvæmdum í stað niðurskurðar auk þess sem ljóst hlýtur að vera að fyrirtæki sem hefur svigrúm til þess að skerða tekjur sínar ætti að hafa jafnmikið svigrúm til þess að auka útgjöldin í staðinn."
Amen! Menn verða að átta sig á að hér verður kreppa ef þessi vítahringur er ekki stöðvar í fæðingu.
Drengur Óla Þorsteinsson (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 22:05
Þú hljómar bara eins og Davíð Oddsson: "Það er góðæri í landinu" :)
Gulli (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 05:51
Ekki leiðum að líkjast. En sum sé, það var ekki kreppa á Íslandi í ágúst 2008.
Guðmundur Sverrir Þór, 25.6.2009 kl. 07:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.