Ekki hægt að styrkja krónuna

Synd væri að segja íslensku krónuna öflugan gjaldmiðil á þessum síðustu mánuðum enda ekki við öðru að búast en veikri krónu við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja. Ég hef heyrt (eða öllu heldur séð) hægrimenn segja veikleika krónunnar vera til marks um óhæfni ríkisstjórnarinnar en einhverjir myndu sennilega telja slík ummæli til lýðskrums (ég er einn þeirra).

Þegar viðkomandi eru spurðir hvernig þeir vilji styrkja krónuna verður sennilega fátt um svör. Ein leiðin gæti verið að Seðlabankinn gripi verulega inn í á gjaldeyrismarkaði og keypti krónur í stórum stíl og önnur leið gæti verið að hækka stýrivexti verulega til þess að auka innflæði fjármagns í hagkerfið. Hvorug leiðin væri þó sennilega þóknanleg hægrimönnum (sem skyndilega eru búnir að gleyma hver var á vakt þegar grunnurinn að hruninu var lagður) og er það ágætt þar sem hvorug leiðin er trúverðug sem er þó ekki ástæða þess að þessar leiðir eru ekki þóknanlegar hægrimönnum. Í mínum huga er sá möguleiki ekki fyrir hendi að halda gengi krónunnar hærra en það er og sennilega þyrfti það að vera töluvert lægra en nú er.

Hagfræðilega réttasta leiðin er að láta krónuna falla uns botninum er náð en vegna séríslenskra aðstæðna er það ekki hægt. Með séríslenskum aðstæðum á ég við verðtryggingu lánsfjár; væri krónan látin falla frjálst myndi það umsvifalaust sjást á lánum landans. Þetta var ein þeirra aðgerða sem Robert Aliber lagði til að yrði gripið til fyrir rúmu ári síðan en hann vissi ekki af verðtryggingunni þannig að ekki var hægt að fara þá leið.

Krónan er veik og það er ekki vegna óhæfni stjórnvalda heldur vegna þess að íslenskt efnahagslíf er í rúst eftir slaka efnahagsstjórn undanfarinna áratuga. Það væri óðs manns æði að reyna að halda henni uppi og ekki er hægt að fara hina hefðbundnu leið og láta hana falla. Hið síðastnefnda er arfleifð framsóknarmanna.

 


mbl.is Evran yfir 180 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum matarútflutningsþjóð. Hvernig stendur á því að það er ekki eftirspurn eftir krónu til þess eins að fiskkaupmenn erlendis geri innkaup?

Drengur (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 15:04

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Að einhverju leyti stafar það af því að útflytjendur fá greitt í erlendum gjaldmiðli og koma ekki með það fé til landsins nema í takmörkuðu magni. Síðan er spurning hversu stórt hlutfall af veltu með krónur útflutningstekjur eru.

Guðmundur Sverrir Þór, 8.7.2009 kl. 18:24

3 identicon

M.ö.o. útflutningsfyrirtækin eiga sök á lágu gengi krónunnar?

Drengur (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 12:40

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Staða íslensks efnahagslífs á sök á lágu gengi krónunnar en reyndar myndi ég telja krónuna mun sterkari en efni standa til. Hún þarf að falla töluvert en það er ekki hægt að leyfa það vegna verðtryggingarinnar.

Guðmundur Sverrir Þór, 9.7.2009 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband